Ljóð eftir Edwin Arlington Robinson

25. október 2015

Ríkharður

Í hvert sinn sem hann kom hér nið‘rá torg
við hversdagsfólkið litum upp til hans:
Dánumaður mestur hér í borg
og mikil var hans reisn og elegans.

Við Ríkharð sáum aldrei angur tjá,
hann ávarpaði fólk og hélt sinn veg.
Þótt æðaslátt við enni mætti sjá,
alltaf var hans návist þægileg.

Og hann var ríkur – segja má með sann
að sjaldan kóngar eigi þvílíkt fé –
og hvað við vildum vera eins og hann
sem veröldin lét slíka auðnu í té.

Við máttum samt við þrældóm, þreytt og köld
þrauka, stundum nærri matarlaus,
en Ríkharður eitt kyrrlátt sumarkvöld
kúlu skaut í gegnum eigin haus.

Halda áfram að lesa færsluna »

Ljóð eftir Oliver Wendell Holmes

23. október 2015

Ég rakst á fíflskaparkvæði eftir Oliver Wendell Holmes (1809–1894) sem mér þótti ekki leiðinlegt. Ég hef reynt að orða meginhugsun þess á íslensku og fer árangurinn hér á eftir.

Eitt sinn kvað ég lítið ljóð
og lúmskt mér vakti glott
sú vissa að flestum fyndist það
feikilega gott.

Það skrýtið var og skemmtilegt
og skondið svo ég hló.
Þótt háttvís sé og hagi mér
úr hlátri næstum dó.

Ég hóaði í húskarl minn,
hann er ekki smár,
væskli mínum vörn og skjól,
vaskur bæði og knár.

„Færðu þessi fínu skrif
nú fljótt til prentarans
og fyrir túkall þrykkir þau
þumbi sá með glans.“

Hann leit á blaðið, línubút
úr ljóði mínu sá
og hjartanlega hlátur sauð
í húskarlinum þá.

Aðra hending’ er hann las,
andlit skipti um ham
því munnvik upp við eyrnasnepil
öðru megin nam.

Í þriðju línu hlátur hár
hækkar enn og vex,
í þeirri fjórðu af fötum hans
fljúga tölur sex.

Hann áfram las og afarmennið
engjast sá ég þar,
ósjálfbjarga alveg hreint
í átján daga var.

Upp frá þessu árætt hef
ég ekki að slá það met,
en forðast umfram flest að vera
eins fyndinn og ég get.

Halda áfram að lesa færsluna »

Ljóð eftir Robert Frost

17. október 2015

Robert Lee Frost (1874 –1963) telst með helstu ljóðskáldum Bandaríkjanna. Mörg kvæði hans bregða upp myndum af lífi sveitamanna á Nýja Englandi í upphafi síðustu aldar. Það sem hér fer á eftir var ort um 1920.

Borgarlækur

Hann fellur illa að beinni götu í borg
en bærinn hímir samt við nýgert torg,
norpir búinn númersplötu. En hvar
er núna lækjarbugðan sem að var
með kotið eins og inni í faðmi sér,
er ekkert sýnilegt af henni hér?
Ég spyr af því ég þekkti téðan læk
hans þunga straum og iðuköstin spræk
sem léku dátt. Ég lét þar fljóta blóm
og las í ferðir vatnsins, nam þess hljóm.
Þar sem var engi gras ei lengur grær
því gráleit steypan vöxt þess hamið fær
og eplatrén í eldinn hjuggu menn
en örvænt mun að vatnið hverfi senn,
því ódauðlegu ekkert grandað fær.
En eitthvað varð að gera þar sem tær
bæjarlækur leið við grænan svörð.
Hann luktur var í ræsi djúpt í jörð.
Þar dúsir hann og dýflissan er þröng,
daunill, myrk og lokuð undirgöng.
Hans eina sök var kannski að vera um kjurt
og komast ekki á flótta langt í burt.
Ef gömul kort ei gerðu honum skil
hann gleymdur væri, engin minning til.
Mér finnst samt eins og iðjuleysi vomi
yfir prísund dimmri og þaðan komi
hugsanir sem banna væran blund
svo borgin hvílist aldrei nokkra stund

Halda áfram að lesa færsluna »

Ljóð eftir John Keats

24. ágúst 2015

Enska skáldið John Keats (1795 – 1821) er oft nefndur í sömu andrá og Byron (1788 – 1824) og Shelley (1792 – 1822) og þeir þrír taldir höfuðskáld enskrar rómantíkur.

Keats var skammlífastur þeirra allra. Hann dó úr berklum 25 ára gamall.

Með þekktustu ljóðum hans er kvæðið um stúlkuna fögru og miskunnarlausu (La belle dame sans mercy). Nafn sitt dregur ljóðið af frönsku kvæði frá 15. öld eftir Alain Chartier.

Þegar Keats orti þetta árið 1819 vissi hann af berklaveikinni og sem dró hann til dauða tveim árum seinna. Kannski er kvæðið öðrum þræði um sjúkdóminn. Kannski um stúlkuna Fanny Brawne. Kannski er þetta fyrst og fremst rómantísk útlegging á þjóðsagnaminni.

La belle dame sans mercy
Við hvaða raunir riddari
sem reikar daufur máttu þreyja?
Fölnuð er á flæði stör
og fuglar þegja.

Við hvaða raunir riddari
sem ristur kvölum fetar veginn?
Íkorninn á æti nóg
og akur sleginn.

Heit og litverp liljubrá
hve lauga daggir blómgun slíka,
á sjúkum vanga er sóttin rós
og sölnar líka.

Álfabarn á engi leit,
yngismeyjar fundi náði,
hún yfir leið með eitthvað villt
í augnaráði.

Batt ég henni blómasveig
og bjó til skart með ilmi þýðum.
Hún á mig leit með ástarsvip
og ómi blíðum.

Ég hóf‘ana upp á hestinn minn,
sem hljóp á skeið með okkur bæði,
hún heillaði mig heilan dag,
söng huldukvæði.

Mér hunang gaf og himnadögg,
höfga rót með sætu bragði,
og orð sem þýddu „ann ég þér“
hún einnig sagði.

Hún inn mig leiddi í álfarann
með augun villt og trega stórum,
ég lukti þeim og kyssti hvarm
með kossum fjórum.

Þar svæfði hún mig við mjúkan barm,
meinleg örlög draumar töldu
mér vís og síðan vakað hef
í veðri köldu.

Kónga og her sá föla í för
þeir fölir æptu á dauðans valdi:
„La belle dame sans merci á þig
sem þræl í haldi.“

Í rökkri varir svangar sá,
þær sýndu ógn með gapi kvöldu,
ég vaknaði og var þá hér
í veðri köldu.

Út af því ég aleinn hér
áfram reika‘og daufur þreyi,
þó fölnuð sé á flæði stör
og fuglar þegi.

Halda áfram að lesa færsluna »

Ljóð eftir Edwin Arlington Robinson

21. ágúst 2015

Edwin Arlington Robinson orti frægt kvæði um Miniver Cheevy vestur í Ameríku fyrir rúmlega hundrað árum. Ef Miniver hefði verið íslenskur þá hefði hann kannski heitið Mangi Hró og kvæðið verið einhvern veginn svona:

Af skömm og mæðu Mangi Hró
magur grét og blés í kaunin,
að vera á dögum þótti þó
þyngsta raunin.

Mangi unni eldri tíð,
ef hann leit á brynjur glansa,
vakra fáka, vopn og stríð
vildi hann dansa.

Yfir því sem ei var til
andvarpaði og lét sig dreyma.
Kunni á fornum fræðum skil
og fann sig heima.

Sakna kvaðst hann Kamelot
kappa Tróju og refilþjóða,
ljóða- seiddi hann langt í brott
lýran góða.

Sækti ef gæti hann sollinn í,
en syndir litlar drýgja náði,
þó mektarfólkið Medici
mjög hann dáði.

Hversdagsleikinn mæddi mest,
miðaldirnar þráði af hjarta
þá jarla klæddi og jöfra best
járnið bjarta.

Oft í þungum þönkum sat,
þótti dapurt allt sitt gengi,
Mangi Hró því gruflað gat
og gruflað lengi.

Um þann tíma er hann hlaut
örlög sín, allt ljóta brasið,
hóstandi hann heilann braut
og hellti í glasið.

Halda áfram að lesa færsluna »

Ljóð eftir Kavafis

31. maí 2015

Eftirfarandi ljóð mun Konstantinos P. Kavafis hafa ort árið 1919.  Maðurinn sem segir frá í ljóðinu, Janþis sonur Antóníosar, heitir grísku nafni þó hann sé gyðingur. Hann er tilbúningur Kavafis.

Af Hebreum (50. e. Kr.)

Janþis sonur Antóníosar, listmálari og skáld,
hlaupari og kringlukastari, fagur eins og Endymion.
Úr fjölskyldu sem lét sér annt um samkunduhúsið.

„Dýrmætastir eru mér dagarnir
þegar skynhrifin varða mig engu
og ég hafna strangri fegurð hellenismans
með sitt algera vald
í fullkomlega gerðum útlimum, forengilegum og hvítum.
Og ég verð sá sem ég vil
að eilífu vera: Hebreskur, heilagra Hebrea sonur.“

Mjög andheitur þegar hann sagði: „Að eilífu
vera Hebreskur, heilagra Hebrea –“.

Entist þó ekki sem slíkur.
Gefinn á vald listum og lífsnautnum Alexandríu
sem höfðu hann að sínu eigin barni.

Halda áfram að lesa færsluna »

Eigum við að flýta okkur að menntast?

29. maí 2015

Árið 1986 opnaði McDonald‘s hamborgarstað á Piazza di Spagna í Róm. Skyndibitinn var kominn til Ítalíu. Þarlendur blaðamaður, Carlo Petrini, spurði: Ef þetta er matur til að éta í skyndi, hvernig er þá matur til að borða í rólegheitum? Af vangaveltum hans spratt hreyfing sem stendur vörð um staðbundnar hefðir í matargerð. Hún hefur breiðst út víða, fer vaxandi og heldur alþjóðlegar ráðstefnur á hverju ári. Hreyfingin hefur ekki nafn á íslensku svo ég viti til, en á ensku kallast hún The Slow Food Movement. Í stofnskrá hennar eru menn hvattir til að standa vörð um sannar lífsnautnir – að njóta efnislegra gæða í rólegheitum.

Æðibunugangur nútímans er ekki bundinn við að háma hratt í sig mat sem er of ómerkilegur til að taki því að tyggja hann. Í grein, sem birtist upphaflega árið 2002 og ber yfirskriftina It‘s Time to Start the Slow School Movement, líkir bandaríski menntunarfræðingurinn Maurice Holt skólum í heimalandi sínu við skyndibitastaði. Með skrifum sínum vildi Holt gera það sama fyrir skólamenninguna og Petrini hafði gert fyrir matarmenninguna. Rétt eins og eftir ákall Petrinis, 16 árum fyrr, fór af stað hreyfing, enda sjá flestir sem hafa augun í höfðinu að umbreyting menntastofnana í mannauðsverksmiðjur – miðstýring, stöðluð hæfniviðmið, ofhlaðnar námskrár, samræmd próf, áhersla á mælanlegar útkomur og allt sem því fylgir – þetta stuðlar ekki að betri menntun. Öðru nær. Þetta kemur í veg fyrir að kennarar nýti það staðbundna og einstaka og börn og unglingar njóti þess að læra í rólegheitum.

Greinin byrjar á að segja frá móður söngleikjaskáldsins Cole Porter. Hún laug til um aldur hans svo hann fékk að vera tveim árum lengur í foreldrahúsum og æfa sig á píanóið. Höfundur Can-Can og Anything Goes fór því að heiman í unglingaskóla fjórtán ára en ekki tólf. „Við ættum að þakka henni fyrirhyggjuna“ segir Holt en bætir við, að væri hún uppi nú fengi hún trúlega verri dóma en hún ætti skilið. Hann fjallar svo nokkrum orðum um árangursleysi tæknihyggju í skólamálum og kosti þess að gefa sér tíma. Með þessu er hann ekki að halda fram neinni tiltekinni skólagerð. Petrini hampar heldur ekki einni hefð í eldamennsku – það er jú menningarleysið sem er tilbreytingarlaust. Menningin er hins vegar fjölbreytileg. Holt heldur þó fram menntastefnu sem felur meðal annars í sér að það sé betra að skilja mikilvæg efni djúpum skilningi en þvælast um víðan völl, „betra að skoða í smáatriðum hvers vegna Sir Thomas More kaus píslarvætti eða af hverju Alexander Hamilton færði rök fyrir sterkri alríkisstjórn, en að muna nöfn allra kónga á Englandi eða fylkishöfuðborga í Bandaríkjunum“.

Skólar eru ekki til að nema það sem er fljótlegt að ná tökum á. Fólk fer ekki þangað til að læra að strjúka spjaldtölvur eða reima skó. Fólk fer í skóla til að læra lestur, mál, vísindi, tækni, listir, íþróttir. Alvöru menntun skilar meiru en yfirborðsþekkingu. Hún miðar að skilningi, smekkvísi, góðu handbragði og fleiru sem hver og einn þarf að ala með sér á sinn hátt, og á sínum tíma – og oftast á löngum tíma. Alvöru skóli er umfram allt griðastaður þess seinlega og menn læra sjaldan vel nema það sé slaki á tímanum og hægt að staldra við.

Hreyfingin sem Holt kom af stað heldur þessum sannindum til haga. Þau eru ekki ný. Annar Bandaríkjamaður, Theodore Sizer (1932 – 2009), sagði ýmislegt svipað í frægri bók sem út kom 1984 og heitir Horace’s Compromise. Holt vitnar raunar í Sizer og eldri fyrirrennara – góða og gegna íhaldsmenn í menntamálum, eins og Joseph Schwab (1909–1988) og Michael Oakeshott (1901-1990) sem minntu á það, hvor með sínum hætti, að menntun getur ekki verið stöðluð, útkoman ekki fyrirframákveðin, markmiðin ekki söm fyrir alla og asi er enginn flýtir.

Þegar ég las grein Holts í annað sinn nú um daginn kom mér í hug athugun sem ég gerði fyrir fimm árum á stærðfræðikennslu við nokkra framhaldsskóla. Ég kannaði hvernig þeir hefðu innleitt námskrána sem menntamálaráðherra setti árið 1999. Með upptöku hennar var mestallri stærðfræðinni sem kennd hafði verið á náttúrufræðibrautum í sjö þriggja eininga áföngum þjappað á fimm áfanga. Úr varð auðvitað hundavaðsháttur. Einn skólinn sem ég heimsótti bar þó gæfu til að þjappa efninu ekki saman, heldur gefa því jafnlangan tíma og áður, hvað sem leið fyrirmælum ráðherra. Það var MR. Mér skilst að nemendum þaðan gangi öðrum betur í stærðfræði í háskóla. Ef til vill er það að nokkru vegna þess að þeir fá að kafa djúpt í efnið fremur en að göslast yfir það.

Ég er annars ekki að skrifa þetta til að rifja upp könnun sem ég gerði fyrir fimm árum, heldur til að vara við að pæla sífellt hraðar og grynnra. Nú stytta framhaldsskólar nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Ég óttast að sumir reyni að gera þetta með því að æða yfir á enn meiri ferð, þar til ekkert er eftir nema þeytingur af glærum með stikkorðum í stað námsefnis. Útkoman úr því verður sennilega að þorri nemenda lærir ekki bara fjórðungi minna, heldur miklu minna.

(Birtist í Morgunblaðinu 28. maí 2015)

Þarf að breyta kennslu í iðngreinum?

29. maí 2015

Undanfarna áratugi hefur sífellt stærri hluti hvers árgangs aflað sér formlegrar menntunar umfram skyldunám. Iðnnemum hefur þó ekki fjölgað. Þeir hafa verið milli þrjú og fjögur þúsund talsins síðan núverandi skipan komst á framhaldsskóla um og fyrir 1980.

E.t.v. eru þessar tölur einar og sér ekki áhyggjuefni. Þegar rýnt er nánar í aðsókn að iðnnámi kemur þó ýmislegt í ljóst sem vekur áleitnar spurningar. Það er m.a. umhugsunarefni hve fáar greinar laða til sín nemendur. Árið 2012 voru sex greinar með langflesta nemendur. Þær voru bifvélavirkjun, hársnyrtiiðn, húsasmíði, matreiðsla, rafvirkjun og vélvirkjun. En margar greinar höfðu enga eða fáa nemendur. T.d. voru 19 í námi til sveinsprófs í múraraiðn, 9 í netagerð, 6 í blikksmíði og 5 í veggfóðrun og dúkalögn. Í öllum þessum greinum hafði nemendum fækkað frá aldamótum.

Annað umhugsunarefni er að þótt flest iðnnám sé skilgreint sem 3ja til 4ra ára nám eftir grunnskóla hafa að jafnaði innan við 2% af árgangi lokið sveinsprófi fyrir 22 ára aldur. Meðalaldur við sveinspróf hefur um langt árabil verið yfir 25 ár. Iðnnám er því í reynd orðið nám fyrir fullorðna fremur en unglinga og flestir safnast í fáar greinar.

Í ljósi þessa hljótum við að spyrja hvernig er:
a) Hægt að mennta iðnaðarmenn til fjölbreyttari starfa?
b) Fá fleiri til að ljúka iðnnámi snemma á ævinni?

Að mennta iðnaðarmenn til fjölbreyttari starfa

Í reglugerð um löggiltar iðngreinar (940/1999) eru taldar upp allmargar greinar sem eru næstum eða alveg horfnar vegna nýrra atvinnuhátta og réttast væri að leggja niður. Aðrar eru óþarflega sérhæfðar og ættu að sameinast, eins og þegar hárskurður og hárgreiðsla urðu að einni grein svo sömu fagmenn máttu bæði klippa hár karla og kvenna.

Nú eru til fimm rafiðngreinar. Í þrem þeirra (símsmíði, rafveituvirkjun og rafvélavirkjun) eru engir nemendur en tvær eru fjölmennar (rafvirkjun og rafeindavirkjun). Eigi að halda í löggildingu starfa í rafiðnaði þarf að sameina fögin í tvö og hætta með einkaleyfi til starfa í mannlausum greinum. Svipaða sögu má segja um fleiri greinaflokka. T.d. væri að líkindum til bóta að sameina rennismíði og vélvirkjun.

Sameining og fækkun greina leysir ekki að fullu þann vanda sem hér um ræðir. Til að viðhalda fámennum greinum sem ekki er hægt að sameina öðrum þarf að endurskilgreina hlutverk skóla. Núgildandi námskrár gera ráð fyrir að stór hluti af sérhæfðu iðnnámi fari fram í skólunum. Í múrsmíði er t.d. um eins og hálfs árs nám í áföngum sem engir aðrir taka en verðandi múrarar. Í veggfóðrun og dúkalögn er þessi sérgreinapakki um tveir þriðju af námsári. Skólar hafa tæpast ráð á að kenna þessi fög nema stórir hópar hefji nám í þeim samtímis. Það gerist ekki. Fámennar greinar komast trúlega betur af með því taka aftur upp þá skipan, sem tíðkaðist langt fram eftir síðustu öld, að skólar kenni einkum það sem er sameiginlegt mörgum iðngreinum en meistarar í fyrirtækjum annist mestan hluta af sérhæfingunni.

Að fá fleiri til að ljúka iðnnámi snemma á ævinni

Ég get mér þess til að tvennt valdi mestu um litla sókn ungmenna í iðnnám. Annað er að fáir eru tilbúnir að velja eina sérhæfða grein strax við lok grunnskóla. Ungt fólk vill halda mörgum leiðum opnum. Hitt er að kennsla iðngreina mótaðist þegar flestir hófu nám með reynslu úr atvinnulífi. Síðan hafa flókin og erfið fög, eins og tölvuteikning og stýritækni bæst við námskrár margra iðngreina. Af þessu leiðir að námið er orðið of erfitt fyrir flesta unglinga og krefst meiri reynslu en þeir hafa.

Séu tilgátur mínar réttar má hugsa sér tvær leiðir til að laða fleiri ungmenni að iðnnámi. Önnur er að létta námið og draga úr sérhæfingu. Hin er að færa iðnnám, a.m.k. að hluta, á skólastig ofan við framhaldsskóla og bjóða undirbúning fyrir iðnnám á framhaldsskólastigi. Um fyrri leiðina verður seint nein sátt, enda kemur hún illa heim við þróun atvinnulífs þar sem er sífellt meiri þörf fyrir fólk með skilning á flókinni tækni. Seinni leiðin er hins vegar vel fær. Það er hægt að skilgreina stúdentsbrautir sem búa nemendur undir iðnnám. Á slíkum brautum geta fög eins og teikning og smíði verið stór hluti námsins.

Mér þykir flest benda til að á næstu árum fjölgi þeim enn sem stefna á stúdentspróf eftir lok grunnskóla. Það er í dúr við þessa þróun að framhaldsskólar sem hafa verið stofnaðir eftir aldamót hafa engar iðnbrautir. Menntakerfið hlýtur að svara aukinni eftirspurn eftir breiðri almennri menntun með því að bjóða upp á fleiri leiðir til stúdentsprófs. Þetta ætti iðnaðurinn að nýta sér, fremur en að bægslast móti tímans straumi. Verði iðnnám skilgreint þannig að það sé ári styttra fyrir þá sem lokið hafa stúdentsbraut af tiltekinni gerð er líklegt að stórir hópar ungmenna velji slíkt stúdentsnám, ljúki því 19 ára og iðnnámi innan þriggja ára þar á eftir. Þeir klára þá sveinspróf um 22 ára aldur og mun fyrr en nú tíðkast.

(Allt talnaefni sem byggt er á í þessari grein er tekið af vef Hagstofu Íslands.)

(Birtist á bls. 33 í Morgunblaðinu 20. febrúar 2015)

In A Station of the Metro

2. desember 2014

Fyrir nokkrum dögum síðan birti ég á facebook tilraun til að þýða eftirfarandi ljóð eftir Ezra Pound. Það ber yfirskriftina In A Station of the Metro og var fyrst prentað árið 1913. Ég lét fylgja spurningu um hvort rétt væri að nota stuðla í þýðingu á þessu ljóði.

The apparition of these faces in the crowd;
Petals on a wet, black bough.

Tilraun mín var á þessa leið:

Andlit sýnast í þeim grúa;
blóm á svartri, blautri grein.

Um þýðinguna og spurningu mína um stuðlasetningu spunnust samræður eins og jafnan á facebook og ég fékk ágætar ábendingar frá Stefáni Steinssyni, Evu Hauksdóttur, Önnu Kristjánsdóttur, Hörpu Hreinsdóttur, Ingimar Ólafssyni Waage og Pétri Þorsteinssyni. Í ljósi þeirra bætti ég þýðinguna nokkuð og hún varð svona:

Inn um fjöldann andlit kvikna;
krónublöð á blautri, svartri grein.

Ef til vill hentar facebook hreint ekki illa til hópvinnu við ljóðaþýðingar.

Ávarp á fundi Heimssýnar, 1. des. 2014

2. desember 2014

Gleðilega hátíð. Um leið og ég þakka fyrir að vera boðið að koma hér og tala við ykkur ætla ég að vara ykkur við. Það sem ég hyggst segja skil ég sjálfur ekki nema til hálfs. Ég ætla að tala um lýðræði. Minn takmarkaði skilningur á því er sóttur í gamlar bækur fremur en reynslu af stjórnmálum – enda hef ég aldrei komist lengra í alvörupólitík en að vera varamaður í bæjarstjórn.

Lýðræðið sem við lifum við á sér sögu. Það tók að dafna hér á Norðurlöndum fyrir 200 árum síðan. Það var 1814 sem hópur Norðmanna kom saman á Eiðsvelli og sammæltist um að í landi sínu skyldu þjóðfrelsi og frjálsmannlegir samfélagshættir fara saman. Næsti stóráfangi í vegferð norrænna landa til lýðræðis var þegar Danir kollvörpuðu einveldinu árið 1849 og settu Júnístjórnarskrána með hliðsjón af því sem Norðmenn höfðu gert 35 árum fyrr. Annar af aðalhöfundum hennar var Orla Lehmann. Hann spáði því að lýðræði og frjálsmannlegir stjórnarhættir („demokrati og fri forfatning“) myndu gera Norðurlöndin mikil og gefa þeim þýðingu fyrir allan heiminn. Spá hans hefur þegar ræst að nokkru og það er meðal annarra á okkar valdi hvort hún heldur áfram að rætast.

Þessi skref í átt til lýðræðis voru áfangar á leið sem síðan er orðin býsna löng. Lýðræði er enn að mótast og það er hvergi fullskapað. Það var heldur ekki fundið upp á nítjándu öld. Hugsjónum um lýðræði bregður fyrir í ritum síðan í fornöld, eins og til dæmis þeim tveim stórvirkjum grískrar sagnfræði sem nýlega eru komin út á íslensku. Hér á ég við sögu Heródótosar af Persastríðunum, sem Stefán Steinsson þýddi og kom út fyrir ári síðan hjá Máli og menningu, og sögu Þúkýdídesar af Pelópseyjarstríðinu sem Sigurjón Björnsson þýddi og er nýkomin út hjá Sögufélaginu. Rökræður, hugsjónir og drauma um lýðræði er líka að finna í ritum heimspekinga frá frá ýmsum tímum. Sumt af þeim skrifum gaf byltingamönnum á Englandi, í Bandaríkjunum og Frakklandi innblástur þegar þeir hröktu kónga frá völdum á sautjándu og átjándu öld og lögðu drög að stjórnskipan sem var að einhverju leyti í anda lýðræðis.

Það sem draumar um lýðræði eiga sameignlegt er að þeir snúast um að yfirstjórn ríkisins sé ekki viðfangsefni fáeinna útvalinna heldur margra – best sé að almenningur eigi þess kost að hafa áhrif. Þetta samkenni lýðræðishugsjóna er jafnt að finna í fornum sögum Heródótosar og Þúkýdídesar og heimspekiritum seinni tíma manna – og þar á ég bæði við róttæka hugsuði eins og Rousseau og Marx og borgaralega þenkjandi spekinga eins og Locke og Mill. Hjá þeim öllum snýst lýðræði um að lýðurinn ráði. Það segir sig kannski sjálft og liggur í orðanna hljóðan hvort sem við tölum íslensku og segjum „lýð-ræði“ eða slettum grísku, eins og gert er í mörgum málum, og tölum um „demó-kratíu“. Orðið „demos“ merkir almenning og sögnin „krateo“ þýðir að stjórna einhverju eða hafa tök á því.

Það sem ég hef sagt er tæpast nein stórtíðindi. En kannski kem ég einhverjum á óvart þegar ég bæti því við að þessi hugsjón um vald almennings á eigin málum er tvíhliða eins og við sjálf. Hún stendur á tveim fótum. Annar þeirra er ansi veikur um þessar mundir svo skepnan haltrar. Og nú er líklega rétt að ég skýri hverjir þessir tveir fætur eru og hvor er sá halti.

Halda áfram að lesa færsluna »