Færslur undir „vísur“

Krítverskar rímur

Sunnudagur, 1. ágúst 2010

Krít og Ísland eru um sumt andstæður. Önnur eyjan er norðvestast hin suðaustast í Evrópu. Önnur er „álfu vorrar yngsta land“ en hin á sér lengri sögu en flestar mannabyggðir. Íbúar þessara landa eiga það þó sammerkt að kveða rímur.

Rímnakveðskapur Krítverja kallast mantinaðes (μαντινάδες) og er vinsæll meðal alþýðu rétt eins og ferskeytlur á Íslandi.

Í krítverskum rímum er hvert erindi tvö 15 atkvæða vísuorð. Menn kasta fram lausavísum en kveða líka eða kyrja langar sögur undir þessum hætti.

Hefti með vinsælum vísum fást víða í söluturnum á Krít og algengt verð á slíkum prentgripum er þrjár evrur. Mættu íslenskar vegasjoppur taka þetta til fyrirmyndar.

Hér er dæmi um krítverska lausavísu:

Λαός που την παράδοση ξεχνά και δεν θυμάται
στο λήθαργο του μαρασμού παντοτινά κοιμάται

Þetta er borið fram nokkurn veginn svona:

Laos pú tin paraðosi kseghna ke ðen þímate
sto liþargo tú marasmú pantotína kímate

Kommurnar í grísku ritmáli eru áherslumerki en áhersla er ævinlega á einu af þrem síðustu atkvæðum í orði. Í umrituninni eru sérhljóðar sem bera áherslu feitletraðir.

Þýðing orðanna er hér innan sviga: Λαός (þjóð) που (sem) την παράδοση (hefðinni) ξεχνά (gleymir) και (og) δεν (ekki) θυμάται (man) στο (í) λήθαργο (doða) του μαρασμού (hnignunarinnar) παντοτινά (alla tíð) κοιμάται (sefur).

Bréfið hennar js

Fimmtudagur, 26. nóvember 2009

Að borga hverja krónu með glöðu geði vil
í gjaldeyri með vöxtum – þó ljósið sé að deyja –
og þegar þú færð bréfið þá held ég hér um bil
að hallað mér ég geti og á náttkjól meira segja.

Ég svík þig ekki vinur og sendi þetta bréf  
til að sýna þér að ég er hvorki leiðinleg né snúin,
til að segja, til að segja, til að segja að ég hef
sætt mig við að tapa, ég er svo voðalega lúin.

Í guðsbænum þú mátt ekki gera nokkuð ljótt
og gættu þess að rýja okkur ekki inn að skinni
svo læðist ekki að mér þegar líða fer á nótt
leiðinlegar hugsanir með ugg og kvíða’í sinni.

Ég veit að þú ert góður og gætir vel að þér
og gengur ekki lengra á illa þrifnum skónum
Þá er engin hætta, þú mátt trúa mér
þæg og góð ég bugta mig fyrir gömlum ljónum.

Þó sumir voni að greiðslurnar reddist rétt um sinn
er rétt og skylt að játa að ég skrifa þetta ei hress
en þó að ég sé lúin þá veistu vilja minn
og veist ég ætla að borga
                                     þín elsku hjartans js.

Gáta

Laugardagur, 25. apríl 2009

Margir vildu kjósa kyrr.
Kepp’að þessu ver og fljóð.
Um þau tíðum stendur styr.
Stundum auglýst betr’ en góð.

Fleiri gátur eru hér.

Kreppulok

Fimmtudagur, 16. apríl 2009

Lóan er komin og kreppan er búin
kosningar framundan, vorið og sól.
Þjóðin með búsáhöld beygluð og lúin
bindur nú trúss sitt við álf út úr hól.

Gáta

Laugardagur, 19. júlí 2008

Margar innum stafi standa.
Strýtur kalla flestir menn.
Í söltum mari milli landa.
Miðar fólk á tug í senn.

Fleiri gátur eru hér.

Bókabúðin við Klapparstíg og Jón S. Bergmann

Laugardagur, 2. febrúar 2008

Á mánudaginn var þurfti ég að skreppa til Reykjavíkur á fund sem var haldinn að Laugarvegi 13. Á leiðinni til baka á bílstæðið staðnæmist ég við fornbókabúðina á horni Klapparstígs og Hverfisgötu eins og ég geri oftast þegar ég á leið um miðbæinn. Ég geng inn og fótatakið verður eftir fyrir utan. Á báðar hendur eru bækur frá gólfi í loft.

Þetta er merkileg búð þar sem menningin og sagan bíða þolinmóð eftir fólki sem býr svo vel að eiga stundir aflögu. Þarna eru líka alltaf einhverjir karlar að spjalla saman. Sumir eru í gömlum hettuúlpum sem eru dálítið upplitaðar – í stíl við ábúðarfyllstu bækurnar – þessar sem eru komnar á virðulegan aldur og muna tímana tvenna.

Mest af vana fer ég að ljóðabókunum. Þær eru alltaf á sínum stað og horfa skáhallt gegn um gluggann sem vísar út á Klapparstíginn. Að hætti ljóða standa þær hver í sinni hillu en ekki í neinni sérstakri röð. Merki á hillunum gefa þó ofurlitla vísbendingu um hvaða flokki þær tilheyra. Á einu stendur, að mig minnir, „leirskáld“ og á öðru „þjóðskáld.“

Þegar ég kem þarna er ég stundum með nokkra bókartitla í huga – rit sem mig langar að eignast og er hálfpartinn að leita að. Oftast finn ég ekkert þeirra. En á mánudaginn var ég heppinn því Jón. S. Bergmann (1874–1927) var þarna í þunnu bandi, eða nánar tiltekið, bókin Ferskeytlur og farmannsljóð frá árinu 1949 sem geymir safn ljóða hans. Mest eru þetta ferskeytlur. Ein er svona:

Eru skáldum arnfleygum
æðri leiðir kunnar.
En ég vel mér veginn um
veldi ferskeytlunnar.

Jón S. Bergmann var frá Miðfirði í Húnavatnssýslum. Hann var með snjöllustu hagyrðingum landsins á sinni tíð. (Allmargar vísur eftir hann má finna á vefnum http://skjalasafn.skagafjordur.is/).

Jón fór að heiman 17 ára og tók að stunda sjóróðra á Suðurnesjum. Eftir það var hann einn vetur við nám í Flensborgarskólanum, svo til sjós á enskum togurum. Hann giftist 27 ára gamall Helgu Málfríði Magnúsdóttur og eignuðust þau hjón eina dóttur, Guðrúnu. Hún er skráð útgefandi bókarinnar sem ég fann þarna í hillunni. Ég borgaði fyrir hana og gekk aftur út.

Hjónabandið entist ekki lengi. Kannski hefur Helga orðið leið á drykkjuskap skáldsins. Ekki veit ég það. Ekki veit ég heldur hvort þessar vísur eru um hana eða einhverja aðra konu:

Man ég gleggst, þú gladdir mig
góðum yndisfundum;
því skal fórnað fyrir þig
flestum vökustundum.

Þó að okkar ástarskeið
enti að beggja vilja,
þá er einum örðug leið
eftir að vegir skilja.

Eftir skilnaðinn var skáldið um tíma lögreglumaður í Hafnarfirði, síðan farmaður á enskum kaupskipum sem sigldu milli Bretlands og Norður Ameríku. Síðustu 12 árin sem hann lifði var Jón S. Bergmann á flakki um Ísland og sinnti ýmsum störfum. Hann var fátækur og átti ekki fast heimili.

Margt af því sem Jón orti er glatað, því ferðakista hans tapaðist skömmu áður en hann flutti heim til Íslands eftir siglingarnar yfir Atlantshafið. En sumt sem varðveist hefur er heillandi kveðskapur eins og þessi vísa. Trúlega er hún ort úti á sjó:

Gesti fögnuð hrannir halda
hér á lögninni.
Kynjamögn er veðrum valda
vaka í þögninni.

Ísland

Föstudagur, 23. febrúar 2007

Mig dreymdi í nótt að Bjarni Thorarensen amtmaður og dómari við landsyfirréttinn birtist mér. Hann var glaður í bragði og kvað:

Þótt læpuskaps ódyggðir ætli með flugi
að álpast til landsins ég skaða ei tel
því hótel á Fróni þau hýsa enga dóna
svo hórur og klámstjörnur frjósa í hel.

Gáta

Laugardagur, 13. janúar 2007

Grár og loðinn grær hann hjá
grösum inn til heiða.
Svona nefna seggi má
og sæinn undurbreiða.

(Fleiri gátur.)