Færslur undir „stjórnmál“

IceSave

Fimmtudagur, 14. janúar 2010

Þeir sem vörðu samninginn sem Svavar og Indriði komu með heim í sumar sögðu flestir að ríkið yrði að borga IceSave því annars yrði lokað á lán frá AGS og jafnvel öll viðskipti Íslendinga við aðrar þjóðir. Boðskapurinn var að þetta væri ömurlegur samningur en íslenska ríkið væri kúgað til að skrifa undir hann. Mér fannst þessi málflutningur svo sem skiljanlegur, enda ekkert mjög óvenjulegt að litlar þjóðir séu beittar ofríki. Nú ber minna á fullyrðingum í þessa veru þó nýjustu fréttir af AGS kunni að breyta því.

Í haust bar meira og meira á tali um að ríkisstjórnin yrði að fallast á kröfur Breta og Hollendinga, því annars gæti „endurreisn efnahagslífsins“ ekki byrjað. Ég skildi þetta svo að undirritun væri forsenda þess að fá nauðsynleg lán (eða framlengingu á lánum) og þótti þau rök svo sem skiljanleg þótt ég saknaði þess að gerð væri grein fyrir því hverjir mundu lána hingað peninga eftir undirritun en ekki fyrr. (Getur kannski verið að það verði jafnerfitt að fá erlend lán eftir sem áður þótt Bretar og Hollendingar fái sitt fram?)

Nú segja margir sem verja samninginn og vilja staðfesta hann að okkur verði ekki treyst nema hann sé undirritaður. Ég hef ekki séð neinar útlistanir á því hverjir muni þá fá aukið traust á okkur. (Sjálfur treysti ég betur þeim sem eru tregir til að skuldbinda sig og neita að gefa loforð, sem er óvíst að þeir geti staðið við, heldur en hinum sem lofa alltaf öllu fögru.)

Ég býst við að flestir hafi heyrt þessar þrenns konar fullyrðingar um hættu á einangrun landsins, erfiðleika við að „endurreisa efnahaginn“ og vantraust ef IceSave samkomulaginu er hafnað. Ég get auðvitað ekki útilokað að þær eigi við gild rök að styðjast. En þær glefsur af rökum sem ég hef séð eru bara hálfkveðnar vísur og því ekkert mjög trúverðugar. Þetta er miður, því spurningin um hvort eigi að segja já eða nei í þjóðaratkvæðagreiðslu snýst að mínu viti fyrst og fremst um hvort einhver svona rök fá staðist, eða með öðrum orðum um hvort við verðum að láta undan vegna þess að ríkisstjórnir Bretlands og Hollands hafi ráð okkar í hendi sér.

Ég hef ekki séð nein góð rök fyrir því að málið snúist um siðferðilega skyldu. Sumir láta að vísu í veðri vaka að hún sé fyrir hendi. Hafi þeir skýrt mál sitt þá hefur það farið fram hjá mér eins og svo margt annað í fjölmiðlum. (Ef Siggi tapar peningum vegna þess að Sigga verður gjaldþrota á hann að öllu jöfnu enga siðferðilega heimtingu á að Jón og Gunna bæti honum tjónið.)

Þjóðaratkvæðagreiðslan getur heldur ekki snúist um lagalega skyldu. Ef málið snerist um lög þá væri því vísað til dómastóla. Hver lagaleg skylda íslenska ríkisins er í þessu máli veit ég svo sem ekki enda virðast lögfræðingar, sem best ættu að vita það, ekki sammála þótt þeir séu, að mér virðist, heldur fleiri sem telja að engin lög skyldi íslenska ríkið til að borga þessi ósköp.

Sé þetta svona eins og mér sýnist er spurningin sem kjósendur standa frammi fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu: Verðum við að láta undan þrýstingi vegna þess að ella töpum við enn meiru en því sem ríkisjóður þarf að greiða ef samkomulagið er undirritað? Þetta er sem sagt ekki spurning um skyldur íslenska ríkisins heldur um hvort tekist hafi að snúa það niður með bolabrögðum.

Furðuleg ummæli höfð eftir Gunnari Helga Kristinssyni

Föstudagur, 1. janúar 2010

Ég var eiginlega enn að hlæja að áramótaskaupinu frá í gærkvöld þegar ég heyrði kvöldfréttirnar í Ríkisútvarpinu klukkan 18. Þar var rætt um áramótaávarp forsetans og sagt:

Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor, segir ómögulegt að ráða af ræðu forseta Íslands, hvort hann hyggist staðfesta lögin um Icesave eða ekki. […] Gunnar telur líklegra að forsetinn skrifi undir þó ekki sé hægt að vera viss. Skrifi hann ekki undir standi hann uppi vinalaus í hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Stór hluti þeirra sem vilja að forsetinn neiti að staðfesta lögin eru litlir vinir hans en þeir sem treysta á að hann skrifi undir eru frekar pólitískir félagar.

Ég vissi fyrst ekki hvort ég ætti að halda áfram að hlæja – en þegar ég áttaði mig á alvöru málsins skildi ég að þetta var allt annað en fyndið. Í orðum Gunnars Helga fólst ansi alvarleg ásökun. Hann gaf í skyn að forsetinn væri í raun og veru jafn gerspilltur og grínast var með í áramótaskaupinu.

Er ekki illa komið ef talið er sjálfsagt og eðlilegt að ákvörðun forseta ráðist af því hvað honum þykir helst til vinsælda fallið? Hlýtur þjóðhöfðingi ekki að taka mið af landslögum, réttlæti og almannahag, og ef til vill líka virðingu embættisins og hefðum í stjórnsýslu, fremur en því hvar vinir hans eru staddir í einhverju pólitísku landslagi?

Hallgrímur orti um svona þankagang í sínum 27. Passíusálmi þar sem stendur:

Vei þeim dómara, er veit og sér,
víst hvað um málið réttast er,
vinnur það þó fyrir vinskap manns
að víkja af götu sannleikans.

Ég veit ekki frekar en aðrir hvað Ólafur Ragnar gerir en hvað sem það verður vona ég að annars konar ástæður stýri gerðum hans en þær sem Gunnar Helgi tilgreindi.

Ég óska lesendum gleðilegs árs og vona að þeir þurfi ekki að eyða ævinni í að borga skuldir óreiðumanna.

Dýrir grunnskólar

Þriðjudagur, 15. desember 2009

Á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu í dag er athyglisverð fréttaskýring um skólamál eftir Steinþór Guðbjartsson.

Steinþór minnir þar á að íslenskir grunnskólar eru einhverjir þeir dýrustu í heimi. Hvert námsár kostar um 1.150 þúsund. Ef marka má Pisa-kannanir er námsárangur þó ekki nema rétt í meðallagi í samanburði við önnur lönd.

Þrátt fyrir þennan mikla kostnað eru laun grunnskólakennara fremur lág hér á landi. Samkvæmt frétt sem birtist á vef Hagstofu Íslands 8. september 2009 eru grunnlaun kennara sem hlutfall af landsframleiðslu næstlægst hér af öllum löndum í OECD. Mikill kostnaður við grunnskólahald hér er ekki vegna þess að kennarar og aðrir starfsmenn fái há laun heldur vegna þess hvað þeir eru margir.

Skólarnir eru, samkvæmt því sem Steinþór segir, með um 11,5 starfsmenn á hverja 100 nemendur. Árið 2000 voru hins vegar aðeins 8,7 starfsmenn á hverja 100 nemendur í grunnskólum landsins.

Fjölgun starfsmanna og aukinn kostnaður við skólahald undanfarinn áratug vekja grunsemdir um að skólastefnan sem fylgt er sé komin í ógöngur. Getur hugsast að hún einkennist af skriffinnskulegum þankagangi sem gerir nánast sjálfkrafa ráð fyrir að ef eitthvað virkar ekki þá þá þurfi að gera meira af því sama? Um þetta fjallaði ég, á þessu bloggi, fyrir tveim árum síðan og sagði þá meðal annars að augljósasti vandi skólakerfisins væri að það reyndi að gera of mikið en ekki of lítið.

Nú er ef til vill lag að vinda ofan af vitleysunni vegna þess að það eru einfaldlega ekki til peningar handa þeim sem vilja leysa öll vandamál með því að gera meira í staðinn fyrir að gera eitthvað annað.

Sjálfur held ég enn að hluti vandans hér á landi sé að skólarnir reyna að kenna nemendum fleira en raunhæft getur talist. En þetta er trúlega ekki öll skýringin. Sennilega er hluti hennar að í stefnunni sem grunnskólar fylgja skortir á að eðlilegt jafnvægi sé milli tvenns konar sjónarmiða: Hér hef ég annars vegar í huga áherslu á gildi námsgreinanna og að kennari stjórni vinnu nemenda á forsendum fagsins sem hann kennir; Hins vegar er ég að hugsa um áherslu á að nemandinn þroskist á þann hátt sem hann hefur upplag til og kennarinn leiðbeini honum í krafti skilnings á þörfum hans og hæfileikum. Fyrrgreindu áherslurnar má kenna við faggreinar og þær síðarnefndu má kalla þroskamiðaðar ef menn vilja setja einhverja merkimiða á þetta.

Þessar áherslur hafa báðar nokkuð til síns ágætis, en ég held að hvorug þeirra megi vera einráð í grunnskólum. Ég held líka að því eldri sem nemendur eru því meira vægi eigi faggreinasjónarmiðin að hafa. Ég hef grun um að við unglingadeildir grunnskóla hér á landi fari þau heldur halloka og það tengist ef til vill of lítilli áherslu á að þeir sem kenna á unglingastigi hafi góða menntun í námsgreinum eins og íslensku, náttúrufræði, sögu, tungumálum eða stærðfræði.

Ég er kannski kominn út á hálan ís að vera að setja fram tilgátu um efni sem er utan við mitt sérsvið. Ég árétta því að þetta er aðeins tilgáta og það þarf meiri þekkingu en ég hef til að sannreyna hana. En ef þessi tilgáta er rétt – ef einhvers konar þroskamiðuð einsýni ræður för í grunnskólum og það kemur niður á námsárangri – þá dugar ekki að keyra sömu stefnu áfram af meiri ákafa og með meiri tilkostnaði. Þá þarf að rétta kúrsinn – breyta um stefnu.

Bréfið hennar js

Fimmtudagur, 26. nóvember 2009

Að borga hverja krónu með glöðu geði vil
í gjaldeyri með vöxtum – þó ljósið sé að deyja –
og þegar þú færð bréfið þá held ég hér um bil
að hallað mér ég geti og á náttkjól meira segja.

Ég svík þig ekki vinur og sendi þetta bréf  
til að sýna þér að ég er hvorki leiðinleg né snúin,
til að segja, til að segja, til að segja að ég hef
sætt mig við að tapa, ég er svo voðalega lúin.

Í guðsbænum þú mátt ekki gera nokkuð ljótt
og gættu þess að rýja okkur ekki inn að skinni
svo læðist ekki að mér þegar líða fer á nótt
leiðinlegar hugsanir með ugg og kvíða’í sinni.

Ég veit að þú ert góður og gætir vel að þér
og gengur ekki lengra á illa þrifnum skónum
Þá er engin hætta, þú mátt trúa mér
þæg og góð ég bugta mig fyrir gömlum ljónum.

Þó sumir voni að greiðslurnar reddist rétt um sinn
er rétt og skylt að játa að ég skrifa þetta ei hress
en þó að ég sé lúin þá veistu vilja minn
og veist ég ætla að borga
                                     þín elsku hjartans js.

Þjóðfundurinn

Fimmtudagur, 19. nóvember 2009

Í gær las ég listann yfir gildi sem birtur var með niðurstöðum „þjóðfundar“. Þar er heiðarleiki efstur á blaði og jafnrétti, virðing, réttlæti og ábyrgð líka ofarlega.

Það sem mér finnst mest áberandi á þessum lista er ekki það sem stendur á honum, heldur það sem vantar. Þar er hvorki hófsemi né hógværð.

Getur verið að þjóðfundur hafi talið upp gildin sem hafa í raun verið höfð mestum í hávegum hér landi fremur en þau sem við þyrftum að leggja meiri áherslu á hér eftir en hingað til?

Með þessari spurningu er ég alls ekki að gera lítið úr þeim gildum sem þjóðfundurinn kom sér saman um. Þau eru öll mikils virði. En ég held samt að það sem fór aflaga hér síðustu ár megi að verulegu leyti skrifa á reikning óhófs og hroka. Þessar andstæður hófseminnar og hógværðarinnar eru kannski okkar versta þjóðarskömm.  

Ef listi þjóðfundar endurspeglar ríkjandi gildismat þá bendir hann ef til vill til þess að landsmenn eigi enn eftir að læra sína lexíu.

Það er ekkert strik en þú verður samt grillaður ef þú ferð yfir það

Mánudagur, 9. nóvember 2009

Á síðustu áratugum hafa fjölmiðlar, a.m.k. sumir, týnt velsæmismörkunum. Þetta birtist með ýmsum mishallærislegum hætti, oftast sem betur fer fremur meinlausum. Sem dæmi má taka að útvarpsstöðvar sem telja sig virðulegar, a.m.k. í aðra röndina, spila rappara sem dæla úr sér klúryrðum; Blöð og sjónvarp daðra við klám eða hálfgert klám bæði í auglýsingum og skemmtiefni; Ókurteislegt orðbragð virðist fá inni nokkurn veginn hvar sem er; Fjölmiðlar eins og visir.is birta lítt eða ekki dulbúnar auglýsingar um vændi eða eitthvað í þá áttina. Eitt dæmi sem birtist í dag er: „NEW! LUXURY TANTRIC MASSAGE IN DOWN TOWN ANY TIME! 8698602“ Ég skil „any time“ svo að þarna sé opið 24 tíma á sólarhring og efast um að þeir sem bjóða sjúkranudd eða heilsurækt séu með opið svo lengi.

En tíðarandinn er margklofinn persónuleiki nú eins og endranær og á sama tíma og velsæmismörkin mást og dofna vex dómaharkan í garð þeirra sem verður eitthvað á. Það er eins og bæði sé búið að stroka strikið út og ákveða að grilla alla sem villast yfir það. Þessi sami visir.is birti í gær frétt undir fyrirsögninni „Tálbeitan tældi“. Í fréttinni segir meðal annars:

Gríðarleg eftirspurn er eftir vændi hér á landi. Um hundrað manns svöruðu einkamálaauglýsingu sem fréttastofa setti á einkamál.is á tæpum sólarhring og vildu kaupa vændi af nítján ára gamalli stúlku. Tveir menn mæltu sér mót við tálbeitu fréttastofu. Það á að loka þeim síðum sem hýsa auglýsingar um vændi, segir stjórnarkona í Stígamótum. […] Fréttastofa útbjó prófíl á einkamálum.is fyrir tæpum sólarhring. Notast var við nafnið draumadis19 með vísan í aldur stúlkunnar. Hún sagðist bjóða upp á erótískt heilnudd gegn gjaldi. […] Fréttastofa mælti sér mót við fimm menn í dag. Tveir karlmenn mættu á staðinn, einn á fimmtugsaldri og einn á áttræðisaldri. Fyrir það hafði verið prúttað um verð fyrir kynmök […].

Ekki kemur fram í fréttinni hvort talskona Stígamóta vill loka visir.is. Ekki er heldur ýjað að því að neitt sé athugavert við að hvetja til lögbrota, eða a.m.k. tilrauna til lögbrota, með því að nota tálbeitu. Fram undir þetta hefur verið talið að þeir sem hvetja til lögbrota séu litlu betri en þeir sem fremja þau, en okkar margklofni tíðarandi hefur kannski hafnað því. Kannski verður einhvern tíma farið að nota tálbeitur til að tæla fólk til að brjóta lög sem banna fíkniefnaneyslu. Hvað veit ég.

Er ég kannski svo utanveltu við tímann að vera einn um að þykja hallærislegt að sami miðill skuli bæði birta ofangreinda frétt og auglýsingu um „NEW! LUXURY TANTRIC MASSAGE IN DOWN TOWN ANY TIME“?

Einkamál forsætisráðherra

Laugardagur, 19. september 2009

Hugsum okkur að staðan sé eitt-eitt og tvær mínútur eftir af knattspyrnuleik þegar framherji annars liðsins á dauðafæri. Boltinn er fyrir framan hann rétt utan við teig og auð línan að markinu. En hann ákveður að setjast í grasið og fá sér í nefið.

Mundu stuðningsmenn liðsins segja: „Hann kaus að láta boltann eiga sig. Það er hans persónulega ákvörðun og hana verða allir að virða.“ Varla, enda væru slíkir stuðningsmenn heillum horfnir.

Á síðu 2 í Lesbók Morgunblaðsins i dag er pistill eftir Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Hún segir þar um forsætisráðherra:

Jóhanna, og ráðgjafar hennar, eru nú í þeirri stöðu að geta valið við hvaða erlenda fjölmiðla hún vill tala við [svo]. Þar með valið hvar og með hvaða hætti málstað Íslands er komið á framfæri nú þegar ímynd þjóðarinnar á erlendri grundu er í molum. […]

En það er ekki stíll Jóhönnu. Hún hefur kosið á tjá sig lítið sem ekkert við erlenda og innlenda fjölmiðla. Hvort sem það er útpæld ákvörðun hennar eður ei, verða allir að virða hennar persónulegu ákvörðun.

Hvenær fór friðhelgi einkalífsins að ná svo langt að allir verði að virða ákvörðun forsætisráðherra um að klúðra tækifærum sem skipta máli fyrir þjóðarhag?

Það var svo sem löngu ljóst að það þyrfti að skipta um ritstjóra á Mogga en mér sýnist að það þurfi líka að skipta um sitthvað fleira bæði þar og annars staðar.

Vandi heimilanna og framlenging á kreppunni

Fimmtudagur, 3. september 2009

Mér þykir góð greinin eftir Jón Steinsson hagfræðing á síðu 19 í Morgunblaðinu í dag. Hann skrifar um skuldsett heimili og hugmyndir um að ríkið komi þeim til bjargar og bendir á að hjálp við þá sem skulda mikið hljóti að vera á kostnað þeirra sem skulda minna.

Nú kann að vera réttlætanlegt að skattleggja einhverja sem eru aflögufærir til að hjálpa fólki sem hefur lágar tekjur og er í vanda vegna þess að lán vegna hóflegra húsnæðiskaupa hafa hækkað.

En stór hluti þeirra sem eru í vanda vegna mikilla skulda er fólk með þokkalegar tekjur sem tók há lán meðan óðærið stóð sem hæst. Þessi lán voru kannski notuð til að kaupa stór íbúðarhús og dýra bíla.

Ef fólk sem hefur álíka tekjur eða jafnvel lægri, en lét sér duga að búa í litlu húsi og aka á ódýrum bíl, er skattlagt til að hjálpa þeim sem kusu að lifa hátt meðan lán voru auðfengin, þá er hætt við að kreppan verði ansi löng.

Hvað gera þeir sem sýndu ráðdeild og höfðu vit á að skella skollaeyrum við gylliboðum bankanna um endalaus lán ef þeir verða látnir eyða sínum sparnaði í að borga lán hinna? Ég held að þeir hugsi sem svo að það borgi sig illa að vera gætinn í fjármálum og reyni eftirleiðis að sukka að minnsta kosti jafnmikið og nágranninn. Ef flestir eða allir gera það þá blasir ekkert betra við en kreppa sem engan enda tekur.

Samfélagið þarf á því að halda að fólk læri að hyggindi og ráðdeild borgi sig og treysti því að sá lærdómur standist.

„Aðildarviðræður“

Laugardagur, 11. júlí 2009

Enn tala Samfylkingarmenn um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hvers vegna kalla þeir hlutina ekki sínum réttu nöfnum og tala um aðildarumsókn?

Það sem þeir reyna nú að koma gegn um Alþingi, og vilja alls ekki bera undir þjóðaratkvæði, er heimild til að sækja um aðild að Sambandinu. Slík umsókn þýðir að stjórnvöld ætli sér að koma landinu þar inn.

Hvers vegna reyna þingmenn Samfylkingarinnar að fá fólk til að halda að málið snúist um að ræða svona almennt og yfirleitt um á hvað kjörum Ísland geti gengið í Evrópusambandið? Hvers vegna vilja þeir ekki að almenningur fái að kjósa um málið fyrr en búið er að sækja um og ganga frá tímasetningum og örðum atriðum sem varða inngöngu?

Gæti þetta verið vegna þess að þeir vita að um leið og umsókn hefur verið samþykkt af Sambandinu og aðildarríkjum þess er erfitt að snúa við? Ef inngöngu er þá hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu verða samskipti við Sambandið tæpast aftur eins og þau voru áður. Við komumst ekki til baka á byrjunarreit.

Í umræðum um umsóknina verður ýmislegt í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og samskiptum Íslands við Sambandið skoðað upp á nýtt. Eins veik og staða landsins nú er mun þetta því miður gefa Sambandinu ýmis tækifæri til að ná á okkur tangarhaldi sem torvelt verður úr að komast.

Ef Samfylkingin fær sitt fram núna – sem hún gerir ef þingmenn Vinstri-grænna halda áfram að láta eins og þeir séu bundnir af öllu nema samvisku sinni – þá er hætt við að almenningur í landinu fái ekki að kjósa um aðild fyrr en búið er að breyta stöðunni þannig að valið stendur á milli hreinna afarkosta: Inngöngu í Sambandið eða stöðu sem er talsvert lakari en við njótum nú.

Ástæðan fyrir því að Samfylkingin vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn er einfaldlega sú að meirihluti landsmanna mun ekki samþykkja inngöngu í Sambandið ef hann á raunverulegt og frjálst val. En með því að sækja um núna er mögulegt að koma hlutunum þannig fyrir að þegar loks verður kosið þá verði í reynd engra kosta völ.

Svo virðist sem Samfylkingin hafi tamið sér sama virðingarleysi fyrir lýðræði og valdastofnanir Evrópusambandsins. Þetta kemur mér svo sem ekki á óvart – en ekki átti ég von á að það yrði svona auðvelt að fá þingflokk Vinstri-grænna til að svíkja kjósendur sína, loforð, hugsjónir og stefnu.

Icesave, Davíð og fjölmiðlarnir

Þriðjudagur, 7. júlí 2009

Eftir að hafa hlustað á helst til marga fréttatíma velti ég því fyrir mér hvernig deilan um 200 mílna fiskveiðilögsöguna hefði farið á sínum tíma ef Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson hefðu samið fyrir Íslands hönd. Ætli hefði ekki verið bakkað úr 50 mílum og aftur niður í 12.

Fréttamenn hafa annars, að því er virðist, frekar lítinn áhuga á að skoða hvernig menn voru valdir til að semja um icesave við Breta og Hollendinga. Þess meiri virðist áhuginn á að finna veilur í málflutningi Davíðs Oddssonar í viðtalinu sem Agnes Bragadóttir átti við hann í Sunnudagsmogganum. Samkvæmt tilkynningu sem Agnes birti í Morgunblaðinu í dag varð henni á lítils háttar skyssa þar sem hún rangfeðraði skýrslu sem Davíð vitnaði til. Hún sagði að plaggið væri frá OECD þótt það væri unnið af öðrum. Í fréttum Ríkisútvarpsins varð þessi rangfeðrun að aðalatriði og reynt að nota minniháttar mistök blaðamanns til að gera allan málflutning Davíðs ótrúverðugan.

Getur hugsast að blaðamannastéttin sé enn að reyna að hefna sín á Davíð fyrir að hafa reynt, á sínum tíma, að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum – eða er kannski frekar um það að ræða að hópsál kjaftastéttanna sé með einhverja sektarkennd eftir óðærið 2007 og telji brýnt að tukta sig og um leið alla þjóðina til með nógu háum sektum?

Mér skilst að líklegt sé talið að icesave samningurinn kosti milli 2% og 3% af þjóðarframleiðslu á ári hverju meðan verið er að borga lánin niður. Þetta er álíka hlutfall og varið er til almannatrygginga og velferðarmála eða um það bil tvöfalt meira en rekstur allra framhaldsskóla í landinu kostar.

Rökin fyrir því að íslenska ríkinu beri skylda til að tryggja innistæður á icesave reikningum í Bretlandi og Hollandi eru fremur veik. Fleiri en Davíð Oddsson hafa bent á það. Í þeim hópi eru þungavigtarmenn eins og  til dæmis Jón Daníelsson hagfræðingur við London School of Economics, Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

Vel má vera að óhjákvæmilegt sé að semja um pólitíska lausn við Breta og Hollendinga. En er virkilega óhjákvæmilegt að flýta sér að ganga að skilmálum þeirra? Þurfa ráðamenn þjóðarinnar nauðsynlega að tala gegn okkar hagsmunum og samþykkja í ræðu og riti kröfur sem færustu lögfræðingar með þekkingu á þessu efni telja hæpið að standist? Eru þeir sem vilja samþykkja icesave samninginn nógu harðir á því að gæta hagsmuna Íslendinga? Finnst þeim kannski óþægilegt ef þeir sem sitja hinu megin við borðið hnykla brýnnar?