Færslur undir „stjórnmál“

Ávarp á fundi Heimssýnar, 1. des. 2014

Þriðjudagur, 2. desember 2014

Gleðilega hátíð. Um leið og ég þakka fyrir að vera boðið að koma hér og tala við ykkur ætla ég að vara ykkur við. Það sem ég hyggst segja skil ég sjálfur ekki nema til hálfs. Ég ætla að tala um lýðræði. Minn takmarkaði skilningur á því er sóttur í gamlar bækur fremur en reynslu af stjórnmálum – enda hef ég aldrei komist lengra í alvörupólitík en að vera varamaður í bæjarstjórn.

Lýðræðið sem við lifum við á sér sögu. Það tók að dafna hér á Norðurlöndum fyrir 200 árum síðan. Það var 1814 sem hópur Norðmanna kom saman á Eiðsvelli og sammæltist um að í landi sínu skyldu þjóðfrelsi og frjálsmannlegir samfélagshættir fara saman. Næsti stóráfangi í vegferð norrænna landa til lýðræðis var þegar Danir kollvörpuðu einveldinu árið 1849 og settu Júnístjórnarskrána með hliðsjón af því sem Norðmenn höfðu gert 35 árum fyrr. Annar af aðalhöfundum hennar var Orla Lehmann. Hann spáði því að lýðræði og frjálsmannlegir stjórnarhættir („demokrati og fri forfatning“) myndu gera Norðurlöndin mikil og gefa þeim þýðingu fyrir allan heiminn. Spá hans hefur þegar ræst að nokkru og það er meðal annarra á okkar valdi hvort hún heldur áfram að rætast.

Þessi skref í átt til lýðræðis voru áfangar á leið sem síðan er orðin býsna löng. Lýðræði er enn að mótast og það er hvergi fullskapað. Það var heldur ekki fundið upp á nítjándu öld. Hugsjónum um lýðræði bregður fyrir í ritum síðan í fornöld, eins og til dæmis þeim tveim stórvirkjum grískrar sagnfræði sem nýlega eru komin út á íslensku. Hér á ég við sögu Heródótosar af Persastríðunum, sem Stefán Steinsson þýddi og kom út fyrir ári síðan hjá Máli og menningu, og sögu Þúkýdídesar af Pelópseyjarstríðinu sem Sigurjón Björnsson þýddi og er nýkomin út hjá Sögufélaginu. Rökræður, hugsjónir og drauma um lýðræði er líka að finna í ritum heimspekinga frá frá ýmsum tímum. Sumt af þeim skrifum gaf byltingamönnum á Englandi, í Bandaríkjunum og Frakklandi innblástur þegar þeir hröktu kónga frá völdum á sautjándu og átjándu öld og lögðu drög að stjórnskipan sem var að einhverju leyti í anda lýðræðis.

Það sem draumar um lýðræði eiga sameignlegt er að þeir snúast um að yfirstjórn ríkisins sé ekki viðfangsefni fáeinna útvalinna heldur margra – best sé að almenningur eigi þess kost að hafa áhrif. Þetta samkenni lýðræðishugsjóna er jafnt að finna í fornum sögum Heródótosar og Þúkýdídesar og heimspekiritum seinni tíma manna – og þar á ég bæði við róttæka hugsuði eins og Rousseau og Marx og borgaralega þenkjandi spekinga eins og Locke og Mill. Hjá þeim öllum snýst lýðræði um að lýðurinn ráði. Það segir sig kannski sjálft og liggur í orðanna hljóðan hvort sem við tölum íslensku og segjum „lýð-ræði“ eða slettum grísku, eins og gert er í mörgum málum, og tölum um „demó-kratíu“. Orðið „demos“ merkir almenning og sögnin „krateo“ þýðir að stjórna einhverju eða hafa tök á því.

Það sem ég hef sagt er tæpast nein stórtíðindi. En kannski kem ég einhverjum á óvart þegar ég bæti því við að þessi hugsjón um vald almennings á eigin málum er tvíhliða eins og við sjálf. Hún stendur á tveim fótum. Annar þeirra er ansi veikur um þessar mundir svo skepnan haltrar. Og nú er líklega rétt að ég skýri hverjir þessir tveir fætur eru og hvor er sá halti.

(more…)

Menntun og menntunarstig

Sunnudagur, 2. júní 2013

Viðleitni til að hækka menntunarstig Íslendinga væri góðra gjalda verð ef hærra menntunarstig jafngilti meiri og betri menntun. 

Hægt er að skipta flestum sem fjalla um skólamál á opinberum vettvangi í tvo flokka: Þá sem tala um menntun og þá sem tala um menntunarstig. Með menntun er að jafnaði átt við kunnáttu, þekkingu, skilning og fleira sem mannbætandi getur talist og aflað er gegnum uppeldi, lærdóm, rökræðu, þjálfun eða reynslu. Með tali um menntunarstig er hins vegar reynt að slá máli á menntun fólks með því að telja hve stór hluti þess hefur útskrifast úr skóla með gráðu af þessu eða hinu taginu. Þeir sem mest tala um menntunarstig virðast einkum hafa áhuga á samanburði menntakerfa í ólíkum löndum og vilja að sitt land raðist ofar en önnur. Þetta væri kannski gott og blessað ef hærra menntunarstig jafngilti ævinlega meiri og betri menntun.

Flestir kannast við spjöld sem eru notuð til að mæla sjón. Í efstu línum eru stórir stafir og svo minnka þeir smám saman og í þeim neðstu er letrið svo smátt að fáir geta lesið úr þeirri fjarlægð sem notuð er við sjónpróf. Svona spjöld eru sjálfsagt prýðileg mælitæki til að fá vísbendingu um hvað maður sér vel. En sá sem af einhverjum ástæðum vill koma vel út úr sjónprófi getur lagt á minnið hvað stendur á spjaldinu og romsað upp úr sér hvað stafirnir í neðstu línunni heita. Þó maður geti með þessu móti bætt útkomu sína úr sjónprófi dugar það ekki til að bæta sjónina.

Flestir kannast líka við hugtök eins og hagvöxt og vergar þjóðartekjur sem eru notuð til að fjalla um hag þjóða og landa. Til að mæla þetta eru ýmsar aðferðir notaðar. Eftir því sem ég best veit er engin þeirra óbrigðul. Mér skilst að sumir mælikvarðar á hag þjóða mæli einkum viðskipti á markaði en taki ekki tillit til sjálfsþurftabúsakapar. Ef slík tæki eru notuð til að slá máli á þjóðarhag þá virðist hann batna ef menn hætta að rækta kartöflur í eigin garðholu og kaupa í staðinn allan mat sem þeir éta. Við þetta mun hagur þjóðar kannski mælast betri þótt færri fái nóg að borða. Ónákvæm mælitæki geta stundum villt um fyrir mönnum.

Menntunarstig er langt frá því að vera nákvæmur mælikvarði á menntun. Í umræðu um menntunarstig hér á landi er ónákvæmnin raunar mjög áberandi, og er þá lítið sagt.

Þegar rætt er um menntunarstig Íslendinga er gjarna vísað til talanefnis frá OECD. Samkvæmt tölum sem samtökin birtu í ritinu Education at a Glance 2012 teljast aðeins 67% Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára hafa lokið framhaldsskólanámi. Sambærileg tala fyrir Noreg er 81%, Svíþjóð 87%, Danmörku 76% og meðaltal allra OECD landa er 74%.

Tölurnar fyrir Noreg og Svíþjóð eru ekki sambærilegar við okkar því norskir og sænskir framhaldsskólar útskrifa alla nemendur, líka þá sem skrópa og falla. Fyrir vikið eru t.d. gefin út  stúdentsskírteini í þessum löndum sem veita ekki heimild til að fara í háskóla. Þeir útskrifa sem sagt alla eins og grunnskólarnir gera hér á landi. Hærra „menntunarstig“ Norðmanna og Svía af þessum sökum jafngildir ekki meiri menntun. Raunar er sennilegt að það ýti undir iðjusemi og dugnað við nám að vita að án lágmarksárangurs fá menn ekki skírteini og okkar skipan leiði því til skárri menntunar ef eitthvað er.

Þegar talað er um að bara 67% Íslendinga milli 25 og 64 ára séu með menntun á framhaldsskólastigi eru þeir einir taldir sem hafa klárað a.m.k. það sem í gögnum OECD er kallað ISCED 3A, 3B eða 3C-long. Þetta eru þeir sem hafa stúdentspróf eða formlega menntun sem er skilgreind sem allt að ári styttri. Í flestum löndum teljast þeir sem hafa tveggja ára framhaldsskólanám að baki hafa fullgilda framhaldsskólamenntun en hér teljast þeir ekki með því stúdentsnámið hér er skilgreint sem fjögur ár. Ef við teljum með þá sem hafa lokið styttra  námi (þ.e. ISCED 3C-short) þá er talan hjá okkur 73% eða 1% neðan við OECD meðaltalið.

Við getum sem sagt hækkað „menntunarstig“ upp undir OECD meðaltalið með því einu að kenna stúdentsefnum fjórðungi minna en við gerum. Við getum komist yfir það með því að kalla tíunda bekk grunnskóla fyrsta bekk framhaldsskóla og stytta stúdentsnámið um tvö ár. Þannig er hægt að stórhækka „menntunarstig“ þjóðarinnar með því einu að fólk gangi skemur í skóla en það nú gerir.

Hærra hlutfall unglinga gengur í framhaldsskóla hér en víðast annars staðar eða 88% af fólki á aldrinum 15 til 19 ára en aðeins 83% að meðaltali í OECD löndum. Við getum því líklega komist nálægt toppnum í menntunarstigi með því að útskrifa ekki bara þá sem standast námskröfur heldur alla sem ganga í skóla eins og Norðmenn og Svíar gera. En með þessum og þvílíkum aðferðum getum við auðvitað ekki aukið menntun okkar neitt frekar en við getum bætt sjónina með því að læra spjaldið utanað eða kjör okkar með því að hætta að rækta eigin kartöflur.

Af þessu verður lítið ályktað um hvernig best sé að bæta menntakerfið hér á landi. Sú ályktun sem er skynsamlegast að draga er að gagnrýnislaus notkun á ónákvæmum mælitækjum sé varhugaverð.

(Birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2013)

Argaþras um brottfall úr framhaldsskólum

Laugardagur, 25. maí 2013

Háværasta umræðan um framhaldsskóla í fjölmiðlum er argaþras um mikið brottfall og litla skilvirkni. Mest er þetta óttalegt bull.

Í ritinu Education at a Glance 2012 sem gefið er út á vegum OECD eru tölfræðilegar upplýsingar um menntakerfi OECD landa til ársins 2010. Gögn um kostnað ná þó aðeins til ársins 2009. Þarna má lesa að árið 2010 töldust aðeins 67% Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára hafa lokið námi á framhaldsskólastigi. Sambærileg tala fyrir Danmörku var 76% og meðaltal OECD landa var 74%. Tölur af þessu tagi munu helsta kveikja umræðu um ágalla íslenska skólakerfisins, enda virðist hér allmiklu muna. Þessi samanburður við önnur lönd er þó tæpast marktækur og veldur þar einkum þrennt:

a) Hér gerðist það seinna en í nágrannalöndum að þorri árgangs innritaðist í framhaldsskóla og  fyrir vikið eru margir fullorðnir án prófa úr framhaldsskólum án þess það segi mikið um kerfið eins og það er nú.

b) Hér telst 2ja ára nám ekki með þegar talið er hve margir hafa lokið framhaldsskóla. T.d.  teljast þeir mörgu sem hafa verslunarpróf af viðskiptabraut ekki með þótt fólk með sambærilegt nám teljist hafa lokið framhaldsskóla í flestum öðrum löndum.

c) Hér teljast nemendur sem hafa stundað nám en fengið falleinkunn ekki hafa lokið framhaldsskólanámi. Allvíða er brautskráning úr framhaldsskólum eins og úr grunnskólum hér, þannig að allir eru brautskráðir þótt aðeins sumir standist kröfur sem gerðar eru til að komast í áframhaldandi nám. Í Svíþjóð útskrifast t.d. margir stúdentar með „fall“ í þeim skilningi að einkunnir þeirra duga ekki til inngöngu í háskóla. Hér útskrifast þeir einir sem standast próf í öllum greinum.

Þegar litið er á upplýsingar sem eru samanburðarhæfar kemur í ljós að íslenska framhaldsskólakerfið er fremur dæmigert og ef eitthvað er heldur skárra en gerist og gengur. Samkvæmt tölum í Education at a Glance 2012 voru t.d. 88% íslenskra ungmenna á aldrinum 15 til 19 ára í skóla árið 2010. Sambærileg tala fyrir Danmörku var 85% og meðaltal OECD landa  83%. Munurinn á okkur og meðaltali OECD landa er enn meiri ef litið er til þeirra sem eru á aldrinum 20 til 29 ára. Hér á landi voru 38% þeirra á skólabekk 2010 en meðaltal OECD landa var 27%. Hér á landi eru 33% fólks á aldrinum 25 til 64 ára með háskólagráðu sem er sama hlutfall og í Danmörku. Meðaltalið fyrir OECD er 31%.

Umræða sem er ekki lengur í takti við tímann
Umræðan um brottfall úr íslenskum skólum var þörf og tímabær þegar hún hófst af kappi fyrir um tuttugu árum. Þá var þjóðin enn að venjast því að það væri sjálfsagt og eðlilegt að þorri unglinga væri við nám. Stór hluti þeirra átti foreldra sem höfðu ekki farið í framhaldsskóla og þótti ekki tiltökumál að sleppa því. Til marks um þetta er að samkvæmt tölum á vef Hagstofunnar fór fjöldi sem brautskráðist úr framhaldsskóla fyrir 25 ára aldur úr um 70% í um 90% af meðalstærð árgangs á fyrsta áratug þessarar aldar.

Fleiri merkileg sannindi um íslenska menntakerfið má finna á vef Hagstofunnar. Þar má t.d. lesa að fjöldi sem brautskráðist yngri en 25 ára úr framhaldsskóla fór úr 3210 skólaárið 2000-2001 upp í 4244 skólaárið 2009-2010. Á sama tíma fór heildarfjöldi brautskráninga úr framhaldsskóla (þar sem allir sem útskrifast eru taldir með, líka þeir sem eru eldri en 25 ára) úr 4067 upp í 5790 eða úr rúmum 90% upp í um 130% af dæmigerðum fjölda í árgangi. (Árgangarnir sem urðu tvítugir á fyrsta áratug aldarinnar töldu milli 4 og 5 þúsund einstaklinga hver og meðaltalið var 4430.)

Framhaldsskólakerfi sem útskrifar um 130% af dæmigerðum fjölda í árgangi á hverju ári hlýtur að saxa nokkuð hratt á „brottfall“ liðinna ára. Það er fjarstæða að halda að slíkt kerfi sinni illa eða ekki eftirspurn eftir menntun.

Hagkvæmt og skilvirkt skólakerfi
Árið 2009 var kostnaður við íslenska framhaldsskóla 7.934 Bandaríkjadalir (USD) á hvern nemanda í fullu námi ef marka má tölur í Education at a Glance 2012. Sambærileg tala fyrir Danmörku var 10.996 USD og meðaltal OECD landa 9.755 USD. Síðan hefur framlag ríkisins til framhaldsskóla á Íslandi verið skorið talsvert niður. Þeir eru því afar ódýrir miðað við framhaldsskóla í öðrum löndum.

Að vísu fer hærra hlutfall þjóðartekna í framhaldsskóla hér en víðast annars staðar eða 1,5% samanborið við 1,3% bæði í Danmörku í OECD löndum að meðaltali. Skýringin á þessu er næsta augljós. Hún er að hér á landi eru framhaldsskólanemar hlutfallslega mun fleiri en víðast hvar. Þetta er bæði vegna þess að mikill fjöldi fullorðinna er í framhaldsskólum og vegna þess að Íslendingar eru þokkalega duglegir að fjölga sér svo stærri hluti þjóðarinnar er á framhaldsskólaaldri en í löndum þar sem fólk eignast að jafnaði færri börn.

Rökræður um endurbætur og þróun framhaldsskóla verða hvorki skynsamlegar né gagnlegar nema menn geri sér ljósa grein fyrir styrk og kostum íslenskra skóla. Það hlýtur að vera betra að hlúa að því sem gefist hefur vel og byggja á sterkum undirstöðum sem til eru heldur en að mikla fyrir sér vandamál sem voru áhyggjuefni fyrir tuttugu árum og staglast á tölum sem virðast okkur í óhag í villandi og röngum samanburði við önnur lönd.

(Birtist í Morgunblaðinu 24. maí 2013)

Hvernig er hægt að komast í Evrópusambandið þótt flestir vilji vera fyrir utan það?

Föstudagur, 12. apríl 2013

Í augum þeirra sem standa að umsókn Íslands um inngöngu Evrópusambandið kann andstaða við aðild að sýnast vandamál. Almennt er gert ráð fyrir að á einhverju stigi verði þjóðaratkvæðagreiðsla og það kann að virðast erfitt að koma málinu í gegn ef flestir eru á móti. Þetta vandamál er þó alls ekki eins stórt og virðast kann. Ef réttum aðferðum er beitt er hægt að komast inn þótt fylgi við það sé nær öllum stundum vel innan við helming.

En hverjar eru þessar réttu aðferðir?

Það þarf auðvitað að byrja á að sækja um. Ef fólk vill ekki sækja um er allt í lagi að kalla umsóknina eitthvað annað: jólatrésskemmtun, bjölluat, könnunarviðræður eða bara hvað sem er. Aðalatriðið er að skila fullgildri umsókn, ekki hvað hún er kölluð. Þetta er raunar búið að gera og ekkert meira um það að segja. Næst þarf að búa svo um hnúta að hægt sé að afgreiða umsóknina í flýti en hún geti samt beðið nokkurn vegin hvað lengi sem er. Til að tryggja það fyrra þarf að breyta stjórnarskránni eitthvað smávegis. Þótt það hafi ekki gengið alveg eins greiðlega og til stóð tekst það sjálfsagt á næstu árum.

Þetta síðara, að umsóknin geti staðið opin í ótiltekinn tíma, virðist næstum í höfn. Samt þarf áfram að passa að enginn geti knúið á um að málið verði klárað og þannig eyðilagt allt saman. Það er ágætt að láta við og við í veðri vaka að það sé verið að opna einhverja kafla eða kíkja í einhverja pakka eða semja um eitthvað – en umfram allt ekki gera neitt sem getur orðið til þess að það verði rokið í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild á kolvitlausum tíma. Málið er að láta fullgilda umsókn standa opna. Svo er bara að bíða.

Meðan er beðið sakar ekki að segja við og við eitthvað fallegt um sambandið. Svo er fínt að gefa þeim sem helst hafa áhrif á skoðanir fólks og ráða einhverju slatta af peningum. Það eru fáir svo heillum horfnir að fjármunir hafi ekki einhver góð áhrif á þá. Það má líka reyna að kjafta Ísland svolítið niður. Þegar krónan er lágt skráð er til dæmis hægt tala um ónýtan gjaldmiðil og þegar gengi krónunnar hækkar má alveg segja eitthvað um hátt matvælaverð hér á landi. En það borgar sig ekki að vera að ræða svona mál í þaula eða segja neitt ákveðið um hvað er í öllum köflunum og pökkunum. Aðalatriðið er að bíða.

Á næstu áratugum koma vísast kollsteypur, alls konar hryðjuverk, ógnir og skelfingar, kannski stríð úti í heimi, nýjar kreppur – eitthvað sem hristir vel upp í fólki svo almenningsálit sveiflast til í nokkrar vikur, jafnvel mánuði. Ef umsóknin stendur munu á endanum atburðir verða sem valda því að fylgi við aðild sveiflast aðeins yfir 50% í dálitla stund og þá skiptir öllu að hægt sé að vinna hratt. Þegar þar að kemur má sem best láta svo heita að búið sé að opna alla kaflana og kíkja í alla pakkana en það skiptir ekki öllu máli. Bara að kýla á fjandans þjóðaratkvæðagreiðsluna og málinu er reddað.

Sé þessari aðferð fylgt samviskusamlega er vel hægt að ganga í sambandið þótt ríflegur meirihluti sé á móti því 99 mánuði af hverjum 100 alla þessa öld. Pólitík er nú einu sinni list þess mögulega eins og Bismarck sagði. Ef það er ómögulegt að komast inn í Evrópusambandið í góðri sátt sem stendur lengri tíma verða þeir sem ætla þangað hvað sem það kostar að fara þessa einu leið sem er fær – enda svo sem ekkert meiri lýðræðishalli á henni en sambandinu sjálfu.

(Birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2013)

Hvers vegna á að vera erfitt að breyta stjórnarskránni?

Laugardagur, 9. mars 2013

Ég hef reynt að fylgjast með rökræðu um hvort setja þurfi landinu nýja stjórnarskrá. Ég hef líka reynt að hugsa ofurlítið um þetta en svo sem ekki komist að neinum endanlegum niðurstöðum. Mig grunar þó að það geti þokað rökræðunni ögn áleiðis að spyrja hvers vegna þurfi yfirleitt stjórnarskrá. Hvers vegna dugar ekki að hafa bara venjuleg lög sem þingmenn geta breytt þegar meirihluti þeirra er sammála um að það sé til bóta? Slík lög hljóta að geta kveðið á um stjórnskipan ríkisins, mannréttindi og önnur efni sem fjallað er um í stjórnarskrám.

Einhver mikilvægasti munurinn á stjórnarskrá og öðrum lögum er sá að það er erfiðara að breyta stjórnarskrá og önnur lög víkja ef þau stangast á við hana. Spurningin um hvers vegna þurfi stjórnarskrá er því fyrst og fremst spurning um hvers vegna þurfi lög sem hafa meira gildi og er erfiðara að breyta en öðrum lögum. Þeir sem telja ástæðulaust að hafa slík lög eiga, til að vera sjálfum sér samkvæmir, einfaldlega að segja að það þurfi enga stjórnarskrá.

Við hin sem teljum rétt að ákvæði um stjórnskipan ríkisins og mannréttindi séu fastari í sessi en svo að meirihlutinn geti breytt þeim um leið og hann vill, við bendum gjarna á tvenns konar ástæður. Önnur er að það tryggir stöðugleika að hafa lög um stjórnskipan og mannréttindi fastari í sessi en almenna löggjöf, svo misvitur meirihluti geri síður mikil afglöp í bráðræði. Hin ástæðan er að stjórnarskrá sem er hæfilega erfitt að breyta getur, ef vel tekst til, tryggt rétt minnihluta gegn yfirgangi meirihlutans.

Þegar hugmyndir um borgaralega stjórnarhætti mótuðust í Evrópu og Norður-Ameríku frá seinni hluta sautjándu aldar og fram eftir þeirri átjándu var stundum rætt um samfélagssáttmála. Spurningin sem reynt var að svara með því hugtaki var: Hvers vegna ættu menn (einkum þeir sem telja sig í minnihluta) að fallast á að lúta valdi hópsins eða samfélagsins?

Við getum hugsað okkur að hópur manna ætli að stofna ríki og í landinu búi einhverjir sem líst ekki meira en svo á tiltækið. Gerum ráð fyrir að einn efasemdamaðurinn spyrji: Hvers vegna ætti ég að samþykkja að þið ráðið yfir mér? Þeir sem mótuðu hugmyndina um samfélagssáttmála reyndu að svara spurningu efasemdamannsins með því að lýsa borgaralegri samfélagsskipan sem sáttmála. Með nokkurri einföldun má segja að þeir hafi ansað á þessa leið: Við skulum semja við þig um reglur sem segja hvað ríkið má gera og tryggja að þú verðir ekki kúgaður og ofríki beittur.

Hugmyndin um að hafa stjórnarskrá mótaðist sem útfærsla á þessu svari. Stjórnarskráin átti að vera samfélagssáttmáli sem allir gætu sætt sig við og setti valdstjórn takmörk, líka valdi meirihlutans. Mér virðist þessi hugmynd um samfélagssáttmála hafa mótað þróun stjórnlaga allvíða og þar á meðal á Íslandi. Reynt hefur verið að tryggja sem almennast samkomulag um breytingar og það hefur verið útilokað að breyta stjórnarskránni í miklum flýti. Hér á landi þurfa til dæmis tvö þing með kosningum á milli að samþykkja hverja breytingu.

Þeir sem nú mæla fyrir setningu nýrrar stjórnarskrár víkja frá þessari hefð. Þetta birtist annars vegar í því að þeir freista þess að nota afl atkvæða fremur en almenna sátt til að skipta um stjórnarskrá og hins vegar í tillögu um að gera fljótlegra en verið hefur að breyta stjórnarskránni. Þessi tillaga er í 113. grein í frumvarpi meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til nýrra stjórnarskipunarlaga. Þar segir: „Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.“ Í næstu efnisgrein eru svo ákvæði um að kaflanum um mannréttindi og náttúru sé þó ekki hægt að breyta alveg svona auðveldlega heldur verði um þau svipuð regla og í núgildandi stjórnarskrá.

Þessi ákvæði þýða að flestum greinum stjórnaskrár muni hægt að breyta á rúmum mánuði ef meirihluti þingmanna og kjósenda vill það. Hér er komið að ystu mörkum. Ef við föllumst á málsmeðferð þeirra sem nú mæla fyrir setningu nýrrar stjórnarskrár og samþykkjum líka að stjórnarskrá skuli vera jafnfljótlegt og auðvelt að breyta og þeir leggja til, þá er ekki nema eitt hænufet í þá niðurstöðu að það eigi ekki að hafa neina stjórnarskrá.

Eigi yfirleitt að setja ný ákvæði um stjórnarskrárbreytingar held ég að nær sé að fara í hina áttina og festa í sessi þá hefð að ná víðtækri sátt með því að krefjast aukins meirihluta til að breytingar öðlist gildi. Ef stjórnarskrá á að verja minnihlutann gegn ofríki meirihlutans og ríkið gegn óðagoti og flumbrugangi þá gengur ekki að einfaldur meirihluti landsmanna geti breytt henni í fljótheitum.

(Birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2013)

Á að hætta með alvöru framhaldsskóla?

Mánudagur, 10. október 2011

Ég gekk í menntaskóla á áttunda áratug síðustu aldar. Á fyrsta ári vorum við 25 saman í bekk og álíka mörg á öðru ári. Á þriðja og fjórða ári var ég í 6 manna eðlisfræðideild. Við vorum 6 saman í eðlisfræði og hluta af stærðfræðinni en með hópi úr náttúrufræðideild í ýmsum öðrum greinum. Valfög voru flest kennd í litlum hópum og stór hluti kennslustunda sem ég sat var mjög fámennur miðað við það sem nú gerist. Ég var heppinn. Lánið elti mig svo upp í háskóla þar sem ég var oftast í minna en 25 manna hópum. Það var ráðrúm til að spyrja og spjalla.

Þegar ég fór kenna fyrir aldarfjórðungi var svona ríkmannlegt skólahald orðið heldur fágætt. Við fjölbrautaskóla með blöndu af bóknámi og verknámi, eins og þann sem ég starfa við, var þó vanalegt að hafa 8,5 til 9 kennara í fullri vinnu á hverja 100 nemendur. Nú er þessi tala nær 7,5. Þá tíðkaðist líka að kenna verklegar raungreinar í 10 til 15 manna hópum og valfög voru sett á vetur þótt fjöldi nemenda væri ekki nema helmingur af því sem nú er talið lágmark. Þá var kostnaður við að kenna hverjum nemanda í eitt ár álíka mikill í framhaldsskólum og í grunnskólum. Nú er framlag á hvern ársnemanda í framhaldsskólum að jafnaði innan við tveir þriðju af því sem kostar að hafa barn einn vetur í grunnskóla.

Eftir linnulausa „hagræðingu“ og kröfur um „skilvirkni“ og „framleiðni“ er algengt orðið að hafa 30 manna hópa í byrjunaráföngum í framhaldsskólum og verulega hefur dregið úr verklegri kennslu t.d. í raungreinum. Þrátt fyrir yfirstandandi kreppu er samfélagið samt miklu auðugra nú en þá. En hvers vegna í ósköpunum er ríkið orðið svo nískt á kennslu fyrir unglinga?

Það er hægt að benda á heimskulega græðgi og áherslu á steypu og byggingar fremur en auðugt mannlíf og víst er fótur fyrir slíkum ábendingum. Það má líka segja að því fleiri verkefni sem ríkissjóður borgar því minna fari í hvert þeirra. Þetta er þó ekki öll sagan. Hluti af vitleysisganginum er held ég vegna þess að of margir af þeim sem ráða ferðinni í menntamálum hafa tapað áttum, halda jafnvel að skóli sé eins og sumar greinar framleiðsluiðnaðar að því leyti að best sé að gera sem mest á sem skemmstum tíma og með sem minnstri fyrirhöfn – skyndibiti sé fullgott veganesti út í lífið.

Fyrir flesta tekur það langan tíma og krefst raunverulegrar handleiðslu að ná valdi á góðum stíl, vísindalegri hugsun á einhverju sviði, erlendu máli, listfengi eða fallegu handbragði. En skóli sem snýst um að afkasta sem flestum „einingum“ með sem minnstri kennslu kemst illa eða ekki hjá að svíkja nemendur sína um þetta. Hætt er við að þá verði þrautalendingin að færa þeim í staðinn lauslega kynningu og yfirborðsvaðal um hitt og þetta. Þegar svo er komið er í raun hætt að starfrækja alvöru skóla og búið að ræna ungt fólk ansi miklu af þeim lífsgæðum sem mestu varða.

Það er eins og allt of margir hafi misst sjónar á því að skólinn á að vera griðastaður þess seinlega í heimi hraðans – staður þar sem má vera lengi að hlutunum og þar sem gefst ráðrúm til að tala saman. Í skóla er líka í lagi að hafa meiri áhuga á stjörnufræði, leiklist eða sögu heldur en einhverju sem er talið hagnýtt í dag (og enginn veit nema reynist svo fánýtt hjóm á morgun).

Þegar kreppan skall á haustið 2008 vonaði ég að hraðinn og tryllingurinn sem var að hola og mola skólastarf og menningu í landinu heyrði sögunni til. Sú von hefur ekki ræst. Öðru nær. Það er þvert á móti gengið enn lengra í „hagræðingu“ jafnframt því sem áformin um stórhýsi og óhófseyðslu á kostnað ríkisins eru, ef eitthvað er, enn fáránlegri en í óðærinu sem kallað var góðæri. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga sem nú liggur fyrir Alþingi á enn að minnka kennsluna sem nemendur fá í framhaldsskólum – eins og eyðileggingin sé ekki orðin meiri en nóg nú þegar.

(Birtist á bls. 17 í Morgunblaðinu 10. október 2011)

Tvær greinar

Mánudagur, 4. apríl 2011

Hér eru krækjur í tvær nýlegar greinar eftir mig. Önnur heitir Umræðan um brottfallið úr framhaldsskólum og birtist í Morgunblaðinu 29. mars. Hin heitir Beint lýðræði, leið úr ógöngum og birtist í vorhefti Þjóðmála sem er nýlega komið út.

Heimsmet í flumbrugangi eða úthugsuð sýndarmennska?

Fimmtudagur, 10. febrúar 2011

Lög um stjórnlagaþing (90/2010) tóku gildi 2. júlí 2010. Talsverðar breytingar voru gerðar á þeim með lagasetningu (120/2010) sem samþykkt var þann 9. september og tók gildi 24. september.

Samkvæmt lögunum skyldi kosið til þingsins fyrir lok nóvember. Kosningin skyldi auglýst eigi síðan en 8 vikum fyrir kjördag og framboðum skilað í síðasta lagi 40 dögum fyrir kjördag. Kosningin fór fram 27. nóvember. Hún var auglýst af landskjörstjórn 17. september og framboðsfrestur rann út mánuði síðar. Lögin kváðu á um að þingið skyldi koma saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 og ljúka störfum 15. apríl 2011.

Ljóst var að á svo skömmum tíma gætu þeir sem hygðu á framboð tæpast áttað sig á verkefnum þingsins. Einnig var ljóst að mörgum yrði erfitt að fá sig lausa frá vinnu til þingstarfa með svo skömmum fyrirvara. Ennfremur var hæpið að þing gæti lokið uppbyggilegri samræðu um nýja stjórnarskrá á aðeins tveim mánuðum. Sá tími væri of stuttur jafnvel þótt eðlilegt ráðrúm hefði gefist til að undirbúa framboð og rökræða málin fyrir kosningar.

Þessi mikli hraði er undrunarefni. Það er líka undrunarefni að í aðdraganda kosninga var lítið sem ekkert gert til að ýta undir málefnalega umfjöllun um verkefni þingsins. Ætla má að skynsamlegt hefði verið að fá fræðimenn sem víðast að til að fjalla um málið og gera grein fyrir breytingum á stjórnarskrám í nágrannalöndum okkar. Þegar kosningarnar voru haldnar fór víðs fjarri að kjósendur hefðu átt þess raunhæfan kost að átta sig á stefnu frambjóðenda eða fræðast um hvaða kostir á breyttri stjórnarskrá kæmu helst til greina, hverjir þeirra ættu sér samsvörun í öðrum löndum og hvernig þeir hefðu reynst þar. Þingið átti einfaldlega að starfa með hraði eftir að það hafði verið kosið með skömmum fyrirvara samkvæmt lögum sem voru sett í miklum flýti og breytt á síðustu stundu. Þetta leit út eins og tilraun til að setja heimsmet í flumbrugangi.

Ef til vill er þó ekki allt sem sýnist. Í júní 2010 skipaði Alþingi 7 manna stjórnlaganefnd sem skyldi meðal annars leggja hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá fyrir stjórnlagaþingið. Átti þessi 7 manna hópur sem var valinn af Alþingi í sumar kannski að búa til nýja stjórnarskrá? Var stjórnlagaþingið bara til að gefa breytingum sem keyra átti í gegn án opinskárrar umræðu lýðræðislegt yfirbragð? Ég veit þetta auðvitað ekki. En mér finnst ekki koma heim og saman að það hafi raunverulega staðið til að kjörnir fulltrúar almennings ynnu að stjórnarbót en væri hvorki veittur tími til að undirbúa framboð og rökræða kosti í stöðunni né til að vinna verkið. Kannski var þetta allt saman úthugsuð sýndarmennska en ekki eintómt bráðræði og óðagot.

Ef menn bera ekki gæfu til að hætta við þessa vitleysu þá held ég illskást sé að kjósa aftur, auglýsa kosninguna með góðum fyrirvara og gefa þinginu ríflegan tíma til að vinna verkið.

(Grein þessi birtist á bls. 16 í Morgunblaðinu, mánudaginn 7. febrúar.)

Ritdómur

Sunnudagur, 3. október 2010

Í nýjasta hefti Þjóðmála (6. árg. 3. hefði bls. 85–93) er ritdómur eftir mig um bókina Eilífðarvélin – Uppgjör við nýfrjálshyggjuna sem Háskólaútgáfan sendi frá sér fyrr á þessu ári. Textinn liggur hér frammi

Grein sem birtist í Morgunblaðinu 11. sept. 2010

Fimmtudagur, 16. september 2010

Grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu síðasta laugardag liggur hér frammi. Hún bar yfirskriftina: Hvernig getur umræða um aðild að Evrópusambandinu orðið hreinskilin og opinská?