Færslur undir „skólamál“

Eigum við að flýta okkur að menntast?

Föstudagur, 29. maí 2015

Árið 1986 opnaði McDonald‘s hamborgarstað á Piazza di Spagna í Róm. Skyndibitinn var kominn til Ítalíu. Þarlendur blaðamaður, Carlo Petrini, spurði: Ef þetta er matur til að éta í skyndi, hvernig er þá matur til að borða í rólegheitum? Af vangaveltum hans spratt hreyfing sem stendur vörð um staðbundnar hefðir í matargerð. Hún hefur breiðst út víða, fer vaxandi og heldur alþjóðlegar ráðstefnur á hverju ári. Hreyfingin hefur ekki nafn á íslensku svo ég viti til, en á ensku kallast hún The Slow Food Movement. Í stofnskrá hennar eru menn hvattir til að standa vörð um sannar lífsnautnir – að njóta efnislegra gæða í rólegheitum.

Æðibunugangur nútímans er ekki bundinn við að háma hratt í sig mat sem er of ómerkilegur til að taki því að tyggja hann. Í grein, sem birtist upphaflega árið 2002 og ber yfirskriftina It‘s Time to Start the Slow School Movement, líkir bandaríski menntunarfræðingurinn Maurice Holt skólum í heimalandi sínu við skyndibitastaði. Með skrifum sínum vildi Holt gera það sama fyrir skólamenninguna og Petrini hafði gert fyrir matarmenninguna. Rétt eins og eftir ákall Petrinis, 16 árum fyrr, fór af stað hreyfing, enda sjá flestir sem hafa augun í höfðinu að umbreyting menntastofnana í mannauðsverksmiðjur – miðstýring, stöðluð hæfniviðmið, ofhlaðnar námskrár, samræmd próf, áhersla á mælanlegar útkomur og allt sem því fylgir – þetta stuðlar ekki að betri menntun. Öðru nær. Þetta kemur í veg fyrir að kennarar nýti það staðbundna og einstaka og börn og unglingar njóti þess að læra í rólegheitum.

Greinin byrjar á að segja frá móður söngleikjaskáldsins Cole Porter. Hún laug til um aldur hans svo hann fékk að vera tveim árum lengur í foreldrahúsum og æfa sig á píanóið. Höfundur Can-Can og Anything Goes fór því að heiman í unglingaskóla fjórtán ára en ekki tólf. „Við ættum að þakka henni fyrirhyggjuna“ segir Holt en bætir við, að væri hún uppi nú fengi hún trúlega verri dóma en hún ætti skilið. Hann fjallar svo nokkrum orðum um árangursleysi tæknihyggju í skólamálum og kosti þess að gefa sér tíma. Með þessu er hann ekki að halda fram neinni tiltekinni skólagerð. Petrini hampar heldur ekki einni hefð í eldamennsku – það er jú menningarleysið sem er tilbreytingarlaust. Menningin er hins vegar fjölbreytileg. Holt heldur þó fram menntastefnu sem felur meðal annars í sér að það sé betra að skilja mikilvæg efni djúpum skilningi en þvælast um víðan völl, „betra að skoða í smáatriðum hvers vegna Sir Thomas More kaus píslarvætti eða af hverju Alexander Hamilton færði rök fyrir sterkri alríkisstjórn, en að muna nöfn allra kónga á Englandi eða fylkishöfuðborga í Bandaríkjunum“.

Skólar eru ekki til að nema það sem er fljótlegt að ná tökum á. Fólk fer ekki þangað til að læra að strjúka spjaldtölvur eða reima skó. Fólk fer í skóla til að læra lestur, mál, vísindi, tækni, listir, íþróttir. Alvöru menntun skilar meiru en yfirborðsþekkingu. Hún miðar að skilningi, smekkvísi, góðu handbragði og fleiru sem hver og einn þarf að ala með sér á sinn hátt, og á sínum tíma – og oftast á löngum tíma. Alvöru skóli er umfram allt griðastaður þess seinlega og menn læra sjaldan vel nema það sé slaki á tímanum og hægt að staldra við.

Hreyfingin sem Holt kom af stað heldur þessum sannindum til haga. Þau eru ekki ný. Annar Bandaríkjamaður, Theodore Sizer (1932 – 2009), sagði ýmislegt svipað í frægri bók sem út kom 1984 og heitir Horace’s Compromise. Holt vitnar raunar í Sizer og eldri fyrirrennara – góða og gegna íhaldsmenn í menntamálum, eins og Joseph Schwab (1909–1988) og Michael Oakeshott (1901-1990) sem minntu á það, hvor með sínum hætti, að menntun getur ekki verið stöðluð, útkoman ekki fyrirframákveðin, markmiðin ekki söm fyrir alla og asi er enginn flýtir.

Þegar ég las grein Holts í annað sinn nú um daginn kom mér í hug athugun sem ég gerði fyrir fimm árum á stærðfræðikennslu við nokkra framhaldsskóla. Ég kannaði hvernig þeir hefðu innleitt námskrána sem menntamálaráðherra setti árið 1999. Með upptöku hennar var mestallri stærðfræðinni sem kennd hafði verið á náttúrufræðibrautum í sjö þriggja eininga áföngum þjappað á fimm áfanga. Úr varð auðvitað hundavaðsháttur. Einn skólinn sem ég heimsótti bar þó gæfu til að þjappa efninu ekki saman, heldur gefa því jafnlangan tíma og áður, hvað sem leið fyrirmælum ráðherra. Það var MR. Mér skilst að nemendum þaðan gangi öðrum betur í stærðfræði í háskóla. Ef til vill er það að nokkru vegna þess að þeir fá að kafa djúpt í efnið fremur en að göslast yfir það.

Ég er annars ekki að skrifa þetta til að rifja upp könnun sem ég gerði fyrir fimm árum, heldur til að vara við að pæla sífellt hraðar og grynnra. Nú stytta framhaldsskólar nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Ég óttast að sumir reyni að gera þetta með því að æða yfir á enn meiri ferð, þar til ekkert er eftir nema þeytingur af glærum með stikkorðum í stað námsefnis. Útkoman úr því verður sennilega að þorri nemenda lærir ekki bara fjórðungi minna, heldur miklu minna.

(Birtist í Morgunblaðinu 28. maí 2015)

Þarf að breyta kennslu í iðngreinum?

Föstudagur, 29. maí 2015

Undanfarna áratugi hefur sífellt stærri hluti hvers árgangs aflað sér formlegrar menntunar umfram skyldunám. Iðnnemum hefur þó ekki fjölgað. Þeir hafa verið milli þrjú og fjögur þúsund talsins síðan núverandi skipan komst á framhaldsskóla um og fyrir 1980.

E.t.v. eru þessar tölur einar og sér ekki áhyggjuefni. Þegar rýnt er nánar í aðsókn að iðnnámi kemur þó ýmislegt í ljóst sem vekur áleitnar spurningar. Það er m.a. umhugsunarefni hve fáar greinar laða til sín nemendur. Árið 2012 voru sex greinar með langflesta nemendur. Þær voru bifvélavirkjun, hársnyrtiiðn, húsasmíði, matreiðsla, rafvirkjun og vélvirkjun. En margar greinar höfðu enga eða fáa nemendur. T.d. voru 19 í námi til sveinsprófs í múraraiðn, 9 í netagerð, 6 í blikksmíði og 5 í veggfóðrun og dúkalögn. Í öllum þessum greinum hafði nemendum fækkað frá aldamótum.

Annað umhugsunarefni er að þótt flest iðnnám sé skilgreint sem 3ja til 4ra ára nám eftir grunnskóla hafa að jafnaði innan við 2% af árgangi lokið sveinsprófi fyrir 22 ára aldur. Meðalaldur við sveinspróf hefur um langt árabil verið yfir 25 ár. Iðnnám er því í reynd orðið nám fyrir fullorðna fremur en unglinga og flestir safnast í fáar greinar.

Í ljósi þessa hljótum við að spyrja hvernig er:
a) Hægt að mennta iðnaðarmenn til fjölbreyttari starfa?
b) Fá fleiri til að ljúka iðnnámi snemma á ævinni?

Að mennta iðnaðarmenn til fjölbreyttari starfa

Í reglugerð um löggiltar iðngreinar (940/1999) eru taldar upp allmargar greinar sem eru næstum eða alveg horfnar vegna nýrra atvinnuhátta og réttast væri að leggja niður. Aðrar eru óþarflega sérhæfðar og ættu að sameinast, eins og þegar hárskurður og hárgreiðsla urðu að einni grein svo sömu fagmenn máttu bæði klippa hár karla og kvenna.

Nú eru til fimm rafiðngreinar. Í þrem þeirra (símsmíði, rafveituvirkjun og rafvélavirkjun) eru engir nemendur en tvær eru fjölmennar (rafvirkjun og rafeindavirkjun). Eigi að halda í löggildingu starfa í rafiðnaði þarf að sameina fögin í tvö og hætta með einkaleyfi til starfa í mannlausum greinum. Svipaða sögu má segja um fleiri greinaflokka. T.d. væri að líkindum til bóta að sameina rennismíði og vélvirkjun.

Sameining og fækkun greina leysir ekki að fullu þann vanda sem hér um ræðir. Til að viðhalda fámennum greinum sem ekki er hægt að sameina öðrum þarf að endurskilgreina hlutverk skóla. Núgildandi námskrár gera ráð fyrir að stór hluti af sérhæfðu iðnnámi fari fram í skólunum. Í múrsmíði er t.d. um eins og hálfs árs nám í áföngum sem engir aðrir taka en verðandi múrarar. Í veggfóðrun og dúkalögn er þessi sérgreinapakki um tveir þriðju af námsári. Skólar hafa tæpast ráð á að kenna þessi fög nema stórir hópar hefji nám í þeim samtímis. Það gerist ekki. Fámennar greinar komast trúlega betur af með því taka aftur upp þá skipan, sem tíðkaðist langt fram eftir síðustu öld, að skólar kenni einkum það sem er sameiginlegt mörgum iðngreinum en meistarar í fyrirtækjum annist mestan hluta af sérhæfingunni.

Að fá fleiri til að ljúka iðnnámi snemma á ævinni

Ég get mér þess til að tvennt valdi mestu um litla sókn ungmenna í iðnnám. Annað er að fáir eru tilbúnir að velja eina sérhæfða grein strax við lok grunnskóla. Ungt fólk vill halda mörgum leiðum opnum. Hitt er að kennsla iðngreina mótaðist þegar flestir hófu nám með reynslu úr atvinnulífi. Síðan hafa flókin og erfið fög, eins og tölvuteikning og stýritækni bæst við námskrár margra iðngreina. Af þessu leiðir að námið er orðið of erfitt fyrir flesta unglinga og krefst meiri reynslu en þeir hafa.

Séu tilgátur mínar réttar má hugsa sér tvær leiðir til að laða fleiri ungmenni að iðnnámi. Önnur er að létta námið og draga úr sérhæfingu. Hin er að færa iðnnám, a.m.k. að hluta, á skólastig ofan við framhaldsskóla og bjóða undirbúning fyrir iðnnám á framhaldsskólastigi. Um fyrri leiðina verður seint nein sátt, enda kemur hún illa heim við þróun atvinnulífs þar sem er sífellt meiri þörf fyrir fólk með skilning á flókinni tækni. Seinni leiðin er hins vegar vel fær. Það er hægt að skilgreina stúdentsbrautir sem búa nemendur undir iðnnám. Á slíkum brautum geta fög eins og teikning og smíði verið stór hluti námsins.

Mér þykir flest benda til að á næstu árum fjölgi þeim enn sem stefna á stúdentspróf eftir lok grunnskóla. Það er í dúr við þessa þróun að framhaldsskólar sem hafa verið stofnaðir eftir aldamót hafa engar iðnbrautir. Menntakerfið hlýtur að svara aukinni eftirspurn eftir breiðri almennri menntun með því að bjóða upp á fleiri leiðir til stúdentsprófs. Þetta ætti iðnaðurinn að nýta sér, fremur en að bægslast móti tímans straumi. Verði iðnnám skilgreint þannig að það sé ári styttra fyrir þá sem lokið hafa stúdentsbraut af tiltekinni gerð er líklegt að stórir hópar ungmenna velji slíkt stúdentsnám, ljúki því 19 ára og iðnnámi innan þriggja ára þar á eftir. Þeir klára þá sveinspróf um 22 ára aldur og mun fyrr en nú tíðkast.

(Allt talnaefni sem byggt er á í þessari grein er tekið af vef Hagstofu Íslands.)

(Birtist á bls. 33 í Morgunblaðinu 20. febrúar 2015)

Viðtal í Skessuhorni

Föstudagur, 6. desember 2013

Miðvikudaginn 4. desember birtist eftirfarandi viðtal við mig á blaðsíðu 14 í Skessuhorni. Það var tekið upp af blaðamanni föstudaginn 29. nóvember og ég romsaði þessu upp úr mér án þess að tékka á tölum og hef nú grun um að sumt sé kannski ekki alveg nákvæmlega rétt munað hjá mér. Árangar eru t.d. svolítið meira en 4000 manna, slaga jafnvel hátt í 5000.

Atli Harðarson
skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands:
„Veruleg fækkun nemenda fyrirsjáanleg í framhaldsskólunum“

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi hefur gengið í gegnum nokkrar breytingar. Nemendum fækkaði við skólann þegar tveir aðrir framhaldsskólar voru settir á fót á Vesturlandi; Fjölbrautaskóli Snæfellinga Grundarfirði 2004 og Menntaskóli Borgarfjarðar í Borgarnesi 2006. Í dag eru um 85% af nemendum Fjölbrautaskóla Vesturlands frá Akranesi og úr Hvalfjarðarsveit. Skólinn hefur þurft að glíma við stöðugar niðurskurðarkröfur eftir að kreppan skall á fyrir fimm árum. Því hefur verið mætt með aðhaldi og sparnaði. Ekki er lengur boðið upp á dýrustu valáfangana sem áður voru við skólann. Það voru fög sem kveiktu oft áhuga nemenda á því að leggja fyrir sig frekara nám í iðn- og tæknigreinum.

Atli Harðarson skólameistari segir að framhaldsskólakerfið í landinu eigi spennandi en jafnframt nokkuð óvissa tíma framundan. „Það er erfitt að sjá hvað gerist. Menntamálaráðherra boðar styttingu náms á framhaldsskólastigi. Það þýðir að framhaldsskólarnir minnka. Það þarf að hafa minna umleikis til að kenna þremur árgöngum en fjórum. Annað sem ég held að muni gerast á næstu árum er að það mun fækka talsvert í hópi fullorðinna nemenda í framhaldsskólunum, ekki aðeins hér á Akranesi heldur á landsvísu. Núna eru u. þ. b. sex og hálfur árgangur innritaður í framhaldsskólana. Ef það eru um fjögur þúsund í árgangi þá er það um 26 þúsund nemendur. Skýringin á þessu er að í skólunum nú er mikið af fullorðnu fólki sem af ýmsum ástæðum kláraði ekki framhaldsskóla þegar það var unglingar. Þau eru að vinna það upp núna. Skólakerfið er nú að ganga mjög hratt á það sem kalla má brottfall liðinna ára. Núna útskrifast árlega um 130% af fjölda í daæmigerðum árgangi eða hátt í 6000 manns. Í Fjölbrautaskóla Vesturlands hafa um 20 prósent verið nemendur sem eru fullorðið fólk. Þegar þessi kúfur verður tekinn niður og flestir þeirra fullorðnu sem vilja framhaldsskólamenntun hafa orðið sér út um hana, þá horfum við fram á að framhaldsskólarnir verði nær eingöngu með unglinga.“

(more…)

Sérstök íslensk þrepaskipting

Fimmtudagur, 21. nóvember 2013

Fyrir stuttu birtist pistill eftir mig á vef Kennarasambandsins um þrepaskiptingu áfanga í framhaldsskólum. Þar benti ég á vankanta á ákvæðum Aðalnámskrár frá 2011 um þetta efni. Þeir vankantar eru þó aðeins lítill hluti af undarlegheitunum. Stærri hluti þeirra er hvernig þrepaskiptingin er ólík því sem tíðkast annars staðar. 

Víðast er notuð þrepaskipting UNESCO sem kallast ISCED (International Standard Classification of Education). OECD notar þessa þrepaskiptingu t.d. í alþjóðlegum samanburði á menntun og menntakerfum. Hún fellur líka að samræmingunni á menntakerfum Evrópusambandslanda sem er kennd við Bologna. Nýjasta gerð ISCED sem ég hef séð er frá 2011 og þeim hluta hennar sem varðar framhaldsskóla og neðri skólastig er lýst á efri hluta myndarinnar.

Hér á landi er næstum hálfum skalanum þvælt inn í framhaldsskóla eins og neðri hlutinn af myndinni sýnir. Þetta er gert eftir furðulega flóknum reglum sem ég held að verði skólunum fjötur um fót. Hvað sem annars má segja um þessa séríslensku þrepaskiptingu er hún afar frumleg og hugsanlega er hér um að ræða raunverulegt heimsmet en ekki bara heimsmet miðað við höfðatölu.

Þrepaskipting náms útgáfa UNESCO að ofan og sú �slenska að neðan

Erindi flutt við doktorsvörn 28. júní 2013

Mánudagur, 1. júlí 2013

Þann 28. júní varði ég doktorsritgerð við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Við það tækifæri flutti ég eftirfarandi ávarp. Þar sem „…“ er innan hornklofa bætti ég við nokkrum orðum sem ekki voru skrifuð fyrirfram og ég man ekki nákvæmlega hver voru.

1. My work and how it began
President of the School of education professor Jón Torfi Jónasson, external examiner professor Jan van den Akker, external examiner professor Guðmundur Heiðar Frímannsson, dear guests!

[…]

I am a principal of a comprehensive secondary school since summer 2011. Before that I was the vice-principal of the same school for ten years and before that a teacher for fifteen years.

One of my responsibilities as vice-principal from 2001 until 2011 was to edit the school curriculum guide, and update it to implement demands made by the ministry of education.

During these years, I sometimes found the requirements made by the ministry not only hard to work towards in any honest way but also hard to understand. I had, for instance, problems with the general and over-arching aims listed in the general section of the National Curriculum Guide for secondary schools from 1999. I also had problems with subject-specific aims, not really understanding what role they were supposed to play.

In May 2011, the Ministry of Education issued a new National Curriculum Guide for secondary schools. According to this publication, secondary schools are required to organise each course or module for the attainment of specific types of aims, namely the knowledge, skills, and competences that students are supposed to acquire.

When I heard about these requirements in the spring of 2009, more than two years before their actual publication in 2011, my first thought was that they were not realistic.

The work on my PhD dissertation began when I started trying to explain why important parts of school education could not be organized to achieve aims of these three types. My dissertation is thus reactions of a perplexed school-head to the demands made by the national curriculum guide for secondary schools published in spring 2011. (more…)

Menntun og menntunarstig

Sunnudagur, 2. júní 2013

Viðleitni til að hækka menntunarstig Íslendinga væri góðra gjalda verð ef hærra menntunarstig jafngilti meiri og betri menntun. 

Hægt er að skipta flestum sem fjalla um skólamál á opinberum vettvangi í tvo flokka: Þá sem tala um menntun og þá sem tala um menntunarstig. Með menntun er að jafnaði átt við kunnáttu, þekkingu, skilning og fleira sem mannbætandi getur talist og aflað er gegnum uppeldi, lærdóm, rökræðu, þjálfun eða reynslu. Með tali um menntunarstig er hins vegar reynt að slá máli á menntun fólks með því að telja hve stór hluti þess hefur útskrifast úr skóla með gráðu af þessu eða hinu taginu. Þeir sem mest tala um menntunarstig virðast einkum hafa áhuga á samanburði menntakerfa í ólíkum löndum og vilja að sitt land raðist ofar en önnur. Þetta væri kannski gott og blessað ef hærra menntunarstig jafngilti ævinlega meiri og betri menntun.

Flestir kannast við spjöld sem eru notuð til að mæla sjón. Í efstu línum eru stórir stafir og svo minnka þeir smám saman og í þeim neðstu er letrið svo smátt að fáir geta lesið úr þeirri fjarlægð sem notuð er við sjónpróf. Svona spjöld eru sjálfsagt prýðileg mælitæki til að fá vísbendingu um hvað maður sér vel. En sá sem af einhverjum ástæðum vill koma vel út úr sjónprófi getur lagt á minnið hvað stendur á spjaldinu og romsað upp úr sér hvað stafirnir í neðstu línunni heita. Þó maður geti með þessu móti bætt útkomu sína úr sjónprófi dugar það ekki til að bæta sjónina.

Flestir kannast líka við hugtök eins og hagvöxt og vergar þjóðartekjur sem eru notuð til að fjalla um hag þjóða og landa. Til að mæla þetta eru ýmsar aðferðir notaðar. Eftir því sem ég best veit er engin þeirra óbrigðul. Mér skilst að sumir mælikvarðar á hag þjóða mæli einkum viðskipti á markaði en taki ekki tillit til sjálfsþurftabúsakapar. Ef slík tæki eru notuð til að slá máli á þjóðarhag þá virðist hann batna ef menn hætta að rækta kartöflur í eigin garðholu og kaupa í staðinn allan mat sem þeir éta. Við þetta mun hagur þjóðar kannski mælast betri þótt færri fái nóg að borða. Ónákvæm mælitæki geta stundum villt um fyrir mönnum.

Menntunarstig er langt frá því að vera nákvæmur mælikvarði á menntun. Í umræðu um menntunarstig hér á landi er ónákvæmnin raunar mjög áberandi, og er þá lítið sagt.

Þegar rætt er um menntunarstig Íslendinga er gjarna vísað til talanefnis frá OECD. Samkvæmt tölum sem samtökin birtu í ritinu Education at a Glance 2012 teljast aðeins 67% Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára hafa lokið framhaldsskólanámi. Sambærileg tala fyrir Noreg er 81%, Svíþjóð 87%, Danmörku 76% og meðaltal allra OECD landa er 74%.

Tölurnar fyrir Noreg og Svíþjóð eru ekki sambærilegar við okkar því norskir og sænskir framhaldsskólar útskrifa alla nemendur, líka þá sem skrópa og falla. Fyrir vikið eru t.d. gefin út  stúdentsskírteini í þessum löndum sem veita ekki heimild til að fara í háskóla. Þeir útskrifa sem sagt alla eins og grunnskólarnir gera hér á landi. Hærra „menntunarstig“ Norðmanna og Svía af þessum sökum jafngildir ekki meiri menntun. Raunar er sennilegt að það ýti undir iðjusemi og dugnað við nám að vita að án lágmarksárangurs fá menn ekki skírteini og okkar skipan leiði því til skárri menntunar ef eitthvað er.

Þegar talað er um að bara 67% Íslendinga milli 25 og 64 ára séu með menntun á framhaldsskólastigi eru þeir einir taldir sem hafa klárað a.m.k. það sem í gögnum OECD er kallað ISCED 3A, 3B eða 3C-long. Þetta eru þeir sem hafa stúdentspróf eða formlega menntun sem er skilgreind sem allt að ári styttri. Í flestum löndum teljast þeir sem hafa tveggja ára framhaldsskólanám að baki hafa fullgilda framhaldsskólamenntun en hér teljast þeir ekki með því stúdentsnámið hér er skilgreint sem fjögur ár. Ef við teljum með þá sem hafa lokið styttra  námi (þ.e. ISCED 3C-short) þá er talan hjá okkur 73% eða 1% neðan við OECD meðaltalið.

Við getum sem sagt hækkað „menntunarstig“ upp undir OECD meðaltalið með því einu að kenna stúdentsefnum fjórðungi minna en við gerum. Við getum komist yfir það með því að kalla tíunda bekk grunnskóla fyrsta bekk framhaldsskóla og stytta stúdentsnámið um tvö ár. Þannig er hægt að stórhækka „menntunarstig“ þjóðarinnar með því einu að fólk gangi skemur í skóla en það nú gerir.

Hærra hlutfall unglinga gengur í framhaldsskóla hér en víðast annars staðar eða 88% af fólki á aldrinum 15 til 19 ára en aðeins 83% að meðaltali í OECD löndum. Við getum því líklega komist nálægt toppnum í menntunarstigi með því að útskrifa ekki bara þá sem standast námskröfur heldur alla sem ganga í skóla eins og Norðmenn og Svíar gera. En með þessum og þvílíkum aðferðum getum við auðvitað ekki aukið menntun okkar neitt frekar en við getum bætt sjónina með því að læra spjaldið utanað eða kjör okkar með því að hætta að rækta eigin kartöflur.

Af þessu verður lítið ályktað um hvernig best sé að bæta menntakerfið hér á landi. Sú ályktun sem er skynsamlegast að draga er að gagnrýnislaus notkun á ónákvæmum mælitækjum sé varhugaverð.

(Birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2013)

Argaþras um brottfall úr framhaldsskólum

Laugardagur, 25. maí 2013

Háværasta umræðan um framhaldsskóla í fjölmiðlum er argaþras um mikið brottfall og litla skilvirkni. Mest er þetta óttalegt bull.

Í ritinu Education at a Glance 2012 sem gefið er út á vegum OECD eru tölfræðilegar upplýsingar um menntakerfi OECD landa til ársins 2010. Gögn um kostnað ná þó aðeins til ársins 2009. Þarna má lesa að árið 2010 töldust aðeins 67% Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára hafa lokið námi á framhaldsskólastigi. Sambærileg tala fyrir Danmörku var 76% og meðaltal OECD landa var 74%. Tölur af þessu tagi munu helsta kveikja umræðu um ágalla íslenska skólakerfisins, enda virðist hér allmiklu muna. Þessi samanburður við önnur lönd er þó tæpast marktækur og veldur þar einkum þrennt:

a) Hér gerðist það seinna en í nágrannalöndum að þorri árgangs innritaðist í framhaldsskóla og  fyrir vikið eru margir fullorðnir án prófa úr framhaldsskólum án þess það segi mikið um kerfið eins og það er nú.

b) Hér telst 2ja ára nám ekki með þegar talið er hve margir hafa lokið framhaldsskóla. T.d.  teljast þeir mörgu sem hafa verslunarpróf af viðskiptabraut ekki með þótt fólk með sambærilegt nám teljist hafa lokið framhaldsskóla í flestum öðrum löndum.

c) Hér teljast nemendur sem hafa stundað nám en fengið falleinkunn ekki hafa lokið framhaldsskólanámi. Allvíða er brautskráning úr framhaldsskólum eins og úr grunnskólum hér, þannig að allir eru brautskráðir þótt aðeins sumir standist kröfur sem gerðar eru til að komast í áframhaldandi nám. Í Svíþjóð útskrifast t.d. margir stúdentar með „fall“ í þeim skilningi að einkunnir þeirra duga ekki til inngöngu í háskóla. Hér útskrifast þeir einir sem standast próf í öllum greinum.

Þegar litið er á upplýsingar sem eru samanburðarhæfar kemur í ljós að íslenska framhaldsskólakerfið er fremur dæmigert og ef eitthvað er heldur skárra en gerist og gengur. Samkvæmt tölum í Education at a Glance 2012 voru t.d. 88% íslenskra ungmenna á aldrinum 15 til 19 ára í skóla árið 2010. Sambærileg tala fyrir Danmörku var 85% og meðaltal OECD landa  83%. Munurinn á okkur og meðaltali OECD landa er enn meiri ef litið er til þeirra sem eru á aldrinum 20 til 29 ára. Hér á landi voru 38% þeirra á skólabekk 2010 en meðaltal OECD landa var 27%. Hér á landi eru 33% fólks á aldrinum 25 til 64 ára með háskólagráðu sem er sama hlutfall og í Danmörku. Meðaltalið fyrir OECD er 31%.

Umræða sem er ekki lengur í takti við tímann
Umræðan um brottfall úr íslenskum skólum var þörf og tímabær þegar hún hófst af kappi fyrir um tuttugu árum. Þá var þjóðin enn að venjast því að það væri sjálfsagt og eðlilegt að þorri unglinga væri við nám. Stór hluti þeirra átti foreldra sem höfðu ekki farið í framhaldsskóla og þótti ekki tiltökumál að sleppa því. Til marks um þetta er að samkvæmt tölum á vef Hagstofunnar fór fjöldi sem brautskráðist úr framhaldsskóla fyrir 25 ára aldur úr um 70% í um 90% af meðalstærð árgangs á fyrsta áratug þessarar aldar.

Fleiri merkileg sannindi um íslenska menntakerfið má finna á vef Hagstofunnar. Þar má t.d. lesa að fjöldi sem brautskráðist yngri en 25 ára úr framhaldsskóla fór úr 3210 skólaárið 2000-2001 upp í 4244 skólaárið 2009-2010. Á sama tíma fór heildarfjöldi brautskráninga úr framhaldsskóla (þar sem allir sem útskrifast eru taldir með, líka þeir sem eru eldri en 25 ára) úr 4067 upp í 5790 eða úr rúmum 90% upp í um 130% af dæmigerðum fjölda í árgangi. (Árgangarnir sem urðu tvítugir á fyrsta áratug aldarinnar töldu milli 4 og 5 þúsund einstaklinga hver og meðaltalið var 4430.)

Framhaldsskólakerfi sem útskrifar um 130% af dæmigerðum fjölda í árgangi á hverju ári hlýtur að saxa nokkuð hratt á „brottfall“ liðinna ára. Það er fjarstæða að halda að slíkt kerfi sinni illa eða ekki eftirspurn eftir menntun.

Hagkvæmt og skilvirkt skólakerfi
Árið 2009 var kostnaður við íslenska framhaldsskóla 7.934 Bandaríkjadalir (USD) á hvern nemanda í fullu námi ef marka má tölur í Education at a Glance 2012. Sambærileg tala fyrir Danmörku var 10.996 USD og meðaltal OECD landa 9.755 USD. Síðan hefur framlag ríkisins til framhaldsskóla á Íslandi verið skorið talsvert niður. Þeir eru því afar ódýrir miðað við framhaldsskóla í öðrum löndum.

Að vísu fer hærra hlutfall þjóðartekna í framhaldsskóla hér en víðast annars staðar eða 1,5% samanborið við 1,3% bæði í Danmörku í OECD löndum að meðaltali. Skýringin á þessu er næsta augljós. Hún er að hér á landi eru framhaldsskólanemar hlutfallslega mun fleiri en víðast hvar. Þetta er bæði vegna þess að mikill fjöldi fullorðinna er í framhaldsskólum og vegna þess að Íslendingar eru þokkalega duglegir að fjölga sér svo stærri hluti þjóðarinnar er á framhaldsskólaaldri en í löndum þar sem fólk eignast að jafnaði færri börn.

Rökræður um endurbætur og þróun framhaldsskóla verða hvorki skynsamlegar né gagnlegar nema menn geri sér ljósa grein fyrir styrk og kostum íslenskra skóla. Það hlýtur að vera betra að hlúa að því sem gefist hefur vel og byggja á sterkum undirstöðum sem til eru heldur en að mikla fyrir sér vandamál sem voru áhyggjuefni fyrir tuttugu árum og staglast á tölum sem virðast okkur í óhag í villandi og röngum samanburði við önnur lönd.

(Birtist í Morgunblaðinu 24. maí 2013)

Eiga framhaldsskólar að velja nemendur eftir einkunnum?

Föstudagur, 29. júní 2012

Eftirfarandi pistill birtist í Morgunblaðinu í fyrradag:

Nú í vor afhenti Kennslusvið Háskóla Íslands (HÍ) stjórnendum framhaldsskóla upplýsingar um meðaleinkunnir nemenda í grunnnámi við háskólann á árabilinu 2008 til 2011. Vorið áður fengu skólastjórnendur gögn um hve stórt hlutfall þeirra sem hófu nám í HÍ eftir aldamót höfðu lokið grunnnámi.

Ég hef skoðað þessar tölur svolítið og mér sýnast þær forvitnilegar. Eitt af því sem vekur athygli er gott gengi nemenda úr landsbyggðarskólum. Af gagnapakkanum frá í vor má t.d. reikna út að vegin meðaleinkunn allra nemenda í HÍ sem koma úr framhaldsskólum utan Reykjavíkursvæðisins er 6,97. Sambærileg tala fyrir Reykjavíkursvæðið (þ.e. Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð) er 6,89. Hér munar að vísu litlu. En sé litið til þess að einkunnir á samræmdum prófum í grunnskólum eru talsvert mikið hærri á Reykjavíkursvæðinu en landsbyggðinni má vænta þess að stúdentum úr borginni vegni betur en þeim sem koma utan af landi. Þar sem nemendur koma betur undirbúnir inn í framhaldsskóla má að öðru jöfnu gera ráð fyrir að þeir komi með meiri lærdóm út úr þeim.

Svipað er uppi á teningnum þegar gögn um námsgengi, sem dreift var í fyrra, eru skoðuð. Af stúdentum úr framhaldsskólum utan af landi sem hófu nám við HÍ eftir 2000 höfðu 36% lokið námi í fyrra. Sambærileg tala fyrir Reykjavíkursvæðið var 34%.

Hvað getur hugsanlega valdið þessu? Hafa nemendur úr dreifbýli eitthvert forskot í menntunarlegu tilliti sem ekki mælist á samræmdum grunnskólaprófum? Er mögulegt að framhaldsskólar á landsbyggðinni bjóði betri kennslu? Er skýringin kannski sú að heldur hærra hlutfall af höfuðborgarsvæðinu fer í háskólann? Skólaárið 2008 til 2009 útskrifuðu skólar á höfuðborgarsvæðinu um 71% stúdenta á landinu og úr þeim komu þá um 74% nemenda í grunnnámi við HÍ. (Ég hef ekki nýrri tölur.)

Ég held að það geti vel verið að þessar þrenns konar ástæður sem hér var spurt um skýri muninn að einhverju leyti. Mér þykir þó sennilegt að fjórða ástæðan skipti ekki síður máli, en hún er að framhaldsskólar úti á landi taka nær allir við sundurleitum hópi nemenda. Þar blandast t.d. saman þeir sem fengu háar og lágar einkunnir við lok grunnskóla. Á höfuðborgarsvæðinu virðast nemendur hins vegar raðast í skóla eftir einkunnum þannig að stór hluti þeirra sem fá hæstu einkunnirnar upp úr tíunda bekk safnast í fáa skóla.

Sjálfur hef ég starfað við fjölbrautaskóla, sem tekur við heilu bekkjunum upp úr grunnskóla, síðan 1986 og reynslan hefur sannfært mig um að fjölbreytileiki mannlífsins í skólanum hefur góð áhrif á allan hópinn. Öflugustu námsmennirnir hrífa aðra með sér og hinir sem minna geta setja pressu á kennarana að leita sífellt leiða til að kenna svo efnið verði sem skiljanlegast.

Ég held að það sé vel þess virði að skoða hvort of einsleitir nemendahópar í framhaldsskólum höfuðborgarsvæðisins eigi einhvern þátt í að dreifbýliskrakkar, sem voru eftirbátar þeirra á samræmdum prófum í grunnskóla, stinga þá af í háskóla. Ef svo er þá er e.t.v. ástæða til að velja milli umsækjenda um skólavist með öðrum hætti en nú er gert.

Tvær nýlegar greinar

Laugardagur, 2. júní 2012

Ég var að bæta tveim greinum við lista yfir útgefin rit á heimasíðu minni (http://this.is/atli). Þær eru:

Nám til stúdentsprófs fyrir alla unglinga

Sunnudagur, 18. desember 2011

Síðan ég byrjaði að fylgjast með málefnum framhaldsskóla hefur aftur og aftur komið upp umræða um þörf fyrir fleiri stuttar námsbrautir og að þær geti dregið úr brottfalli frá námi. Ákvæði um framhaldsskólapróf eftir eins og hálfs til tveggja ára nám í 16. grein laga um framhaldsskóla (nr. 92/2008) eru e.t.v. einhvers konar bergmál af þessari umræðu. Hugmyndir um að fjölgun stuttra brauta sé gott ráð við brottfalli byggjast þó á fremur hæpnum forsendum. Vandi þeirra sem hætta í skóla án þess að ljúka skilgreindu námi er, að ég held, fremur of fáir kostir á löngu námi en skortur á stuttum námsbrautum.

Ég hef starfað við framhaldsskóla í rúman aldarfjórðung og kynni mín af unglingum benda til að flestir vilji klára þriggja til fjögurra ára nám og útskrifast svo með jafnöldrum sínum. Styttri brautir hafa ekki verið fjölsóttar af fólki innan við tvítugt þótt víða hafi verið boðið upp á þær.

Flestar þriggja til fjögurra ára námsbrautir sem nú standa til boða eru annað hvort starfsmenntabrautir, sem búa fólk undir tiltekið og afmarkað starf, eða fremur strembnar bóknámsbrautir til stúdentsprófs, sem eru einkum undirbúningur fyrir akademískt nám í háskóla. Það er vart við því að búast að allur þorri þeirra unglinga sem ekki sækja í hefðbundið menntaskólanám sé tilbúinn að velja eina tiltekna starfsgrein. Marga þeirra langar í breiðari menntun og flestir þeirra vita vel að störfin sem bjóðast í framtíðinni munu fæst falla að sérgreinum, sem voru skilgreindar fyrir margt löngu af mönnum sem verða dauðir þá, ef þeir eru það ekki nú þegar.

Það vantar líklega meira framboð af almennu námi sem býr fólk ekki undir tiltekið starf heldur opna og óvissa framtíð. Slíkt nám á meira skylt við hefðbundið stúdentsnám en eiginlegt starfsnám, en þarf samt ekki allt að vera jafnbundið bóklegum fræðum og stúdentsnám er nú um stundir. Listir, handverk, félagsmál, íþróttir og þroskandi vinna geta vel verið drjúgur hluti þess. En það þarf að njóta virðingar og hafa tilgang og til þess er best að það sé af fullri lengd og heiti það sama og annað nám á framhaldsskólastigi.

Ég hugsa að heppilegast sé að móta námsleiðir af þessu tagi án þess að umturna að ráði þeim starfsmennta- og bóknámsbrautum sem fyrir eru og miða við að upp til hópa ljúki unglingar þriggja til fjögurra ára námi í framhaldsskóla og útskrifist eftir það með próf sem kallast stúdentspróf.

Um og upp úr miðjum áttunda áratug síðustu aldar voru stofnaðir fjölbrautaskólar víða um land, sums staðar með samruna gagnfræða- og iðnskóla. Á þessum tíma var um það rætt að í þeim yrði enginn aðgreining á bóknámi og verknámi. Reyndin varð samt sú að gera greinarmun á stúdentsprófi og öðrum lokaprófum eins og hefðbundið var. Þessi mannamunur var, og er enn, undirstrikaður með því að stúdentar bera hvíta húfu þegar þeir útskrifast en aðrir eru ýmist húfulausir eða með höfuðfat í öðrum lit.

Á árunum frá því um 1980 fram til 1999 var þessi gamalgróna aðgreining milduð nokkuð með fjölgun stúdentsbrauta sem höfðuðu til æ breiðari hóps. Undir aldarlok voru t.d. víða komnar íþrótta-, tónlistar- og tæknibrautir til stúdentsprófs. Árið 1999 tók gildi Aðalnámskrá sem stöðvaði þessa þróun og kvað á um að bóknámsbrautir skyldu aðeins þrjár (þeim var svo fjölgað í fjórar nokkrum árum seinna) og allar með þunga áherslu á undirbúning fyrir akademískt nám. Námskráin frá 1999 opnaði að vísu leið til að klára viðbótarnám til stúdentsprófs eftir tveggja til fjögurra ára starfstengt nám eða listnám, en sú leið var aðeins fyrir þá sem luku sérhæfðu starfs- eða listnámi. Með nýrri Aðalnámskrá, sem var gefin út í vor á þessu ári, fá skólar aftur svigrúm, eins og þeir höfðu fyrir 1999, til að bjóða fleiri kosti á námi til stúdentsprófs. Ég held að heppilegt sé að nýta þetta svigrúm til að afnema aðskilnaðarstefnuna alveg og skilgreina allt framhaldsskólanám sem nám til stúdentsprófs.

Nú kann einhver að segja að með þessu hljóti að vera horfið frá því að stúdentspróf dugi til inngöngu í háskóla. Því er til að svara að nú þegar fer fjarri að öll stúdentspróf dugi til inngöngu í hvaða háskóladeild sem er – enda tæpast vit í öðru en þær setji hver sín inntökuskilyrði sem geta t.d. verið svo og svo margar námseiningar í tilteknum greinum (eins og er þegar gert í verkfræði við Háskóla Íslands) eða árangur á inntökuprófi (eins og í læknadeild Háskóla Íslands og leiklistar- og dansdeild Listaháskóla Íslands).

Verði þessi breyting gerð á næstu árum munu skólar útskrifa suma með stúdentspróf af félagsfræða-, mála- eða náttúrufræðibraut og aðra með stúdentspróf í iðngreinum eins og húsasmíði eða hársnyrtiiðn og enn aðra með stúdentspróf þar sem áhersla er lögð á listir, íþróttir eða hvað annað sem menntar fólk og bætir. Það verður þá væntanlega tekið að líta á það sem sjálfsagðan hlut að ungt fólk klári þriggja til fjögurra ára framhaldsskólanám og útskrifist með stúdentspróf.

(Birtist í Morgunblaðinu 13. desember 2011)