Færslur undir „Óflokkað“

In A Station of the Metro

Þriðjudagur, 2. desember 2014

Fyrir nokkrum dögum síðan birti ég á facebook tilraun til að þýða eftirfarandi ljóð eftir Ezra Pound. Það ber yfirskriftina In A Station of the Metro og var fyrst prentað árið 1913. Ég lét fylgja spurningu um hvort rétt væri að nota stuðla í þýðingu á þessu ljóði.

The apparition of these faces in the crowd;
Petals on a wet, black bough.

Tilraun mín var á þessa leið:

Andlit sýnast í þeim grúa;
blóm á svartri, blautri grein.

Um þýðinguna og spurningu mína um stuðlasetningu spunnust samræður eins og jafnan á facebook og ég fékk ágætar ábendingar frá Stefáni Steinssyni, Evu Hauksdóttur, Önnu Kristjánsdóttur, Hörpu Hreinsdóttur, Ingimar Ólafssyni Waage og Pétri Þorsteinssyni. Í ljósi þeirra bætti ég þýðinguna nokkuð og hún varð svona:

Inn um fjöldann andlit kvikna;
krónublöð á blautri, svartri grein.

Ef til vill hentar facebook hreint ekki illa til hópvinnu við ljóðaþýðingar.

Tveir stuttir pistlar

Laugardagur, 15. febrúar 2014

Bætti tveim stuttum pistlum á this.is/atli. Annar er fyrirlestur um lýðræði og skóla sem ég flutti við Menntavísindasvið Háskóla Íslands 5. febrúar. Hinn er greinarkorn um rímnakveðskap á Krít sem birtist í Són, tímariti um óðfræði 11. árg. 2013.

Óður númer 5 úr Αξιον Εστί eftir Elytis

Laugardagur, 24. september 2011

Óður númer 5 úr Verðugt er (Αξιον Εστί) eftir Odysseas Elytis (Οδυσσέας Ελύτης)

Með lukt úr ljósi stjarna, ég leitaði til himna,
út á svölum engjum, á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Brúðarlaufi mæddu, silfruðu af svefni,
ýrðu mér um andlit, einn ég geng og blæs,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Þú sem stýrir geislum, rekkjugaldrakarlinn,
svikahrappur vitandi um seinni tíma, seg mér
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Í stúlkum mínum sitja sorgir heilla alda,
með riffla mínir piltar en vita ekki samt
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Hundraðhentar nætur í himinhveli víðu
erta mig í iðrum, undan sviðinn kvelur,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Með lukt úr ljósi stjarna, ég geng um himingeima,
út á svölu engin, á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

(more…)

Nýjar greinar á vef

Sunnudagur, 5. júní 2011

Ég var að bæta nokkrum nýlegum greinum á vef minn http://this.is/atli.

Þrjár nýlegar tímaritsgreinar

Föstudagur, 21. janúar 2011

Nú nýlega hafa birst eftir mig þrjár greinar í tímaritum. Þær eru

  • Hvaða áhrif hafði Aðalnámskráin frá 1999 á bóknámsbrautir framhaldsskóla? Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun, birt 31. desember 2010.
  • Skilningur framhaldsskólakennara á almennum námsmarkmiðum. Tímarit um menntarannsóknir, 7. árg. bls. 93-107.
  • Inn við beinið: Um sjálf og sjálfsþekkingu. Hugur 22. árg. bls. 198-210.

Ennfremur á ég tvær ljóðaþýðingar í nýjasta hefti tímarits sem heitir Són, Tímarit um óðfræði. 8. árg. bls. 44-46.

Skírnir - vor 2009: Grein eftir Stefán Snævarr

Mánudagur, 25. maí 2009

Ein af fjórum kreppugreinum í nýjasta Skírni er eftir Stefán Snævarr. Hún heitir Frjálshyggjan, sjöunda plága Íslands: Hannesi svarað, Þorvaldur áminntur og er, a.m.k. öðrum þræði, svar við grein sem Hannes Gissurarson skrifaði í hausthefti Skírnis á síðasta ári.

Grein Stefáns er nokkuð ólík öðru sem skrifað er í þetta gamla og virðulega tímarit. Hann lætur vaða á súðum og hefur uppi stór orð og mér þóttu skrif hans minna dálítið á Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson (sjá færslu frá 4. júní 2007).

Að sumu leyti er skemmtilegt hvað Sefáni er mikið niðri fyrir og hvað hann reiðir stundum hátt til höggs. Sumt í stíl hans kann ég þó ekki við eins og þegar hann gerir andstæðingum sínum upp einhverjar hálftrúarlegar grillur og talar hálft í hvoru niður til þeirra þar sem hann lýsir skoðunum þeirra með orðasamböndum eins og „hinni ginnhelgu frjálshyggju“, „hinni helgu Ameríku“, „hinu vonda velferðarríki“. (Þessi þrjú dæmi eru öll af fyrstu tveim síðum greinarinnar.)

Kenning Stefáns er einkum sú að frjálshyggja sé plága. Lokaorð greinarinnar eru: „Kominn er tími á alvarlegt uppgjör við frjálshyggjuna. Hún er sjöunda plága Íslands, þjóðin er komin á kaldan klaka vegna ofurtrúar á markaðinn.“

*

Nú er orðið frjálshyggja notað um nokkuð sundurleitt safn hugmynda og kenninga. Það er álíka hæpið að setja alla frjálshyggju undir einn hatt eins og að setja allan sósíalisma undir einn hatt. En Stefán hirðir ekkert um að segja hvers konar frjálshyggja það er sem hefur leikið Íslendinga svo grátt. Hann segir heldur ekkert um hverjar hinar sex plágurnar voru. Ef hann er að jafna frjálshyggju við svartadauða og móðuharðindi finnst mér að hann mætti alveg láta fylgja einhver gögn um hve stór hluti þjóðarinnar lét lífið af hennar völdum.

Þau slitur af rökum sem hægt er að finna í grein Stefáns eru einkum af tvennu tagi. Annars vegar tínir hann upp hugmyndir frá fólki sem hann kallar einu nafni frjálshyggjumenn, steypir þeim saman og lætur sem allt það hugmyndafarg hafi valtað yfir mannlífið á einu bretti. Hins vegar hendir hann á lofti samanburð Hannesar á Evrópu og Bandaríkjunum og reynir að sýna fram á að ekki sé eins gott að búa í Vesturheimi og Hannes vildi vera láta.

Fyrri rökin eru skelfilegt sullumbull hjá honum svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þau eru álíka gáfuleg eins og ef reynt væri að færa rök gegn jafnaðarstefnu, eða sósíalisma, með því að tína upp eina fullyrðingu frá Karli Marx og aðra frá Kastró og þá þriðju frá Olof Palme og klastra svo utan á þetta einhverju rugli eftir Maó formann, Kim Il Sung, Einar Olgeirsson, Lacan, Žižek og Helga Hóseason – benda svo á óskapnaðinn og býsnast yfir því hvað mennirnir séu mikil fífl að halda þessu öllu saman fram. Gallinn við svona málflutning væri auðvitað að enginn einn maður er sammála öllum þessum söfnuði. Þótt mennirnir sem ég nefndi séu allir sósíalistar hafa þeir afar ólíkar skoðanir. Að benda á að þeir hafi haldið fram ýmsum grillum og vitleysum er ekki tæk rök gegn sósíalisma almennt og yfirleitt og það væri heldur ekki málefnalegt innlegg í umræðu um það sem vinstri stjórnirnar í Noregi og á Íslandi eru að bauka um þessar mundir – svo einhver dæmi séu tekin.

Grein Stefáns hefði verið betri ef hann hefði tilgreint einhver dæmi um frjálshyggjuleg úrræði sem hafa leitt til ófarnaðar hér á landi – hefði hann til dæmis reynt að rökstyðja að hér væri allt ein rjúkandi rúst út af  fjölgun einkarekinna háskóla, frjálsu framsali aflaheimilda (sem var reyndar ákveðið af vinstristjórn sem hér sat undir lok níunda áratugarins en er samt mörgum frjálshyggjumönnum vel þóknanlegt), tiltölulega flötum tekjuskatti eða fríverslun við Færeyjar.

Kannski heldur Stefán að bankakreppan sé afleiðing af einhvers konar frjálshyggju en það verður ekki ráðið af skrifum hans, því hann sullar öllu saman og segir fyrir vikið ekkert nógu skýrt og ákveðið til að hægt sé að finna rök með því eða á móti.

Um tengsl frjálshyggjuhagfræði og yfirstandandi bankakreppu er margt óljóst, að minnsta kosti enn sem komið er. Sumir menn sem eru vel að sér um bankamál, eins og Ragnar Önundarson, hafa bent á ástæður til að ætla að meiri ríkisafskipti (og minni frjálshyggja) hefðu verið til bóta. Aðrir hafa bent á að sumar af rótum vandans hefðu vart komið til ef eindregnari frjálshyggja hefði ráðið ríkum. Hér er einkum bent á ríkisumsvif á borð við niðurgreidd húsnæðislán úr opinberum sjóðum, einkum í Bandaríkjunum, og hvernig ríkið tryggir innistæður á bankareikningum og dregur þannig úr hvata bankamanna til að sýna aðgát.

*

Seinni rökum Stefáns er beint gegn Hannesi Gissurarsyni, sem sagði í sinni Skírnisgrein að hagvöxtur væri meiri í Bandaríkjunum en í Svíþjóð og lét að því liggja að betra væri að búa þar vestur frá. Ekki dettur mér í hug að ég geti alhæft um í hvoru þessara landa er betra að eiga heima. Í þeim báðum er lífskjör talsvert betri en þau sem þorri mannkyns býr við. Hins vegar þykist ég geta fullyrt að það sé hrein þvæla að stilla Bandaríkjunum upp sem dæmi um land þar sem frjálshyggja er ríkjandi og Svíþjóð sem dæmi um stjórnarhætti sem eru andstæðir frjálshyggju. Þetta tekur Stefán samt gagnrýnislaust upp frá Hannesi en  reynir að snúa samanburðinum við og sýna að þegar öllu er á botninn hvolft hafi Svíar það betra en Kanar. Mér hefði þótt gáfulegra að benda á hvað svona samanburður er í raun hæpinn heimild um kosti eða galla frjálshyggju.

Ef frjálshyggja er sú stefna að tryggja öllum sömu lagaleg réttindi, banna mönnum fátt, hafa lága og flata skatta, lítil ríkisafskipti af efnahagslífi, réttarríki þar sem mannréttindi eru virt og eignarréttur er friðhelgur og reyna að finna markaðslausnir á fleiri samfélagsvandamálum þá eru samfélagshættir bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð að nokkru snúnir úr frjálshyggju og að nokkru af allt öðru vísi þáttum.

Sé betra að lifa í öðru landinu en hinu þá getur það eins verið vegna þessara annarra þátta eins og vegna mismikillar frjálshyggju.

Það er mikil einföldun að halda því fram að jafnaðarstefna sé ríkjandi í Evrópu en frjálshyggja í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn ganga býsna langt í „jákvæðri mismunun“ (t.d. í menntakerfinu), niðurgreiðslum og styrkjum til sumra atvinnugreina, byggðastefnu, stighækkandi sköttum, reglum um eignarhald á fyrirtækjum, opinberu eftirliti með atvinnulífi, ríkisafskiptum af einkalífi fólks o.fl. sem rímar illa við a.m.k. sumar gerðir frjálshyggju.

Sænskt hagkerfi einkennist af einkaeign á framleiðslutækjum og samkeppni á markaði ekki síður en það bandaríska og sænskar stjórnsýsluhefðir mótuðust að verulegu leyti meðan frjálshyggjumenn höfðu undirtökin í stjórnmálum þar í landi. Sannleikurinn er sá að frjálshyggja er sterk, en samt langt frá því að vera neitt allsráðandi, bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð.

Meðan kommúnistar stjórnuðu Austur-Evrópu var skárra (á flesta mælikvarða) að búa í Búlgaríu en í Rúmeníu, skárra að vera í Júgóslavíu en Albaníu svo einhver dæmi séu nefnd. Fræðimaður sem reyndi að skýra þennan mun með því að skipa löndunum í röð eftir því hvað kommúnistar réðu miklu fengi tæpast háa einkunn. Hann væri sekur um ofureinföldun og bjánalega reglustikuhugsun. Ólíkar menningarhefðir, sögulegar hendingar, ólíkar myndir þjóðrækni og þjóðernisstefnu, misjafnlega þróuð menntakerfi og margt fleira höfðu líka sitt að segja.

Að raða lýðræðisríkjum upp á einn kvarða eftir því hvort þar er meiri eða minni frjálshyggja og halda að það skýri mismuninn á kjörum fólks er líka reglustikuhugsun af bjánalegustu gerð og vonandi láta þeir sem vilja að fólk fái notið frelsis svoleiðis hundakúnstir ekki slá sig út af laginu.

Ritdómur um bókina Heimspeki fyrir þig eftir Ármann Halldórsson og Róbert Jack

Fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Í nýjasta tölublaði Hugar - Tímarits um heimspeki er ritdómur sem ég skrifaði um bókina Heimspeki fyrir þig eftir Ármann Halldórsson og Róbert Jack. Hann liggur hér frammi.

Ritdómur um bók eftir Hörð Bergmann

Miðvikudagur, 12. mars 2008

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmál er stutt grein, eða ritdómur, eftir mig um bók Harðar Bergmann, Að vera eða sýnast, sem kom út hjá bókaútgáfunni Skruddu á síðasta ári. Texti greinarinnar liggur hér frammi.

Viðtökumiðað nám og einstaklingshyggja í skólamálum

Mánudagur, 11. febrúar 2008

Samkvæmt nýlegu frumvarpi til laga um framhaldsskóla fá skólarnir mun meira vald til að skilgreina námsbrautir en þeir hafa haft undanfarin ár. Þetta felur í sér ýmis tækifæri, en líka hættur. Hér ætla ég að fjalla um eina hættu sem ég held að framhaldsskólar og háskólar þurfi að bregðast við sameiginlega. Það er hægt að orða þessa hættu á marga vegu, en ég kýs að lýsa henni sem hættu á að almenn menntun fari halloka.

Fram að þessu hefur verið rammi um stúdentsprófið sem hefur verið ákveðinn af menntamálaráðuneytinu. Þessi rammi skilgreinir bóknám til stúdentsprófs sem 140 einingar (eða 4 námsár þar sem nemandi sækir að jafnaði 35 kennslustundir í viku). Innihald þessa náms er afar breytilegt en þó er sameiginlegur kjarni allra bóknámsbrauta í íslensku (15 ein.), stærðfræði (6 ein.), ensku (9 ein.), dönsku (6 ein.), íþróttum (8 ein.), lífsleikni (3 ein.), sögu (6 ein.), félagsfræði (3 ein.) og náttúrufræði (9 ein.). Einnig þurfa allir að læra þriðja mál (12 ein.)

Ekki er fjarri lagi að helmingur náms til stúdentsprófs af núverandi bóknámsbrautum sé almenn menntun sem er sameiginleg. Ramminn sem ákvarðar að allir klári 140 einingar í framhaldsskóla, áður en þeir byrja í háskóla, tryggir líka að þorri stúdenta afli sér töluverðrar almennrar menntunar, umfram þennan sameiginlega kjarna, í öðrum greinum en þeir ætla að læra í háskóla.

Ég held að það skipti ekki miklu máli hvort sameiginlegi kjarninn er 50, 60 eða 70 einingar. Mér finnst heldur ekki miklu varða hvort stúdentsnámið er 120 eða 140 einingar. Mér er líka ljóst að hægt er að deila um það endalaust hvort sé betra að allir læri að lágmarki 6 einingar í sögu og 9 í náttúrufræði eða öfugt; hvort danskan eigi að vera 6 einingar eða kannski 9; hvort allir þurfi að læra lífsleikni í framhaldsskóla eða hvort rétt sé að fela grunnskólunum einum að kenna þá grein. En ég held að það ætti að vera samkomulag um að allir verðandi stúdentar læri dönsku, sögu og náttúrufræði og fái yfirsýn yfir aðrar greinar en þeir ætla að læra í háskóla.

Nýja frumvarpið setur engan ramma um stúdentsnámið (tilgreinir aðeins að nám í íslensku, stærðfræði og ensku skuli samtals vera a.m.k. 45 einingar). Vera má að ráðherra muni gera það með reglugerð. Í umræðum um frumvarpið er alloft talað um að stúdentsnámið eigi að vera „viðtökumiðað“ sem ég skil svo að það eigi að búa hvern nemanda undir það nám sem hann hyggst stunda að stúdentsprófi loknu.

Ef ekki verður neinn rammi um stúdentsprófið munu skólarnir óhjákvæmilega finna fyrir þrýstingi frá nemendum sem vilja útskrifast með þann eina undirbúning sem krafist er af skólanum sem þeir ætla að sækja næst. Skóli sem býður nemendum stúdentspróf með lítill almennri menntun getur væntanlega dregið til sín nemendur með slíkum „undirboðum“ og þá freistast aðrir skólar til að bjóða enn „betur.“ Framhaldsskólar sem eru í samkeppni um nemendur komast illa eða ekki hjá því að gera þeim til geðs eftir því sem kostur er.

Háskólarnir eru líka í samkeppni um nemendur og komast vart hjá því að taka við öllum sem hægt er að taka við eða að minnsta kosti þeim sem einhverjar líkur eru á að standi sig.

Þessi pressa á bæði skólastig vinnur gegn því hlutverki framhaldsskólanna að tryggja breiða almenna menntun. Það verður erfitt að standa gegn henni nema einhvers konar samkomulag sé um stúdentsprófið – einhver rammi sem tilgreinir hve það er mikið nám og ef til vill líka eitthvert lágmarksinnihald.

Það er vafalítið hægt að ná góðum prófum í fjölmörgum greinum á háskólastigi án þess að kunna neitt í dönsku, náttúrufræði eða sögu. Ef stúdentsnám verður algerlega „viðtökumiðað“ munu þessi fög og fleiri eiga undir högg að sækja.

Það er hægt að lýsa þessum sama vanda á fleiri vegu. Ein leið er að skoða hann út frá því hvað umræða um námskrármál er orðin einstaklingsmiðuð. Ef nám á að mæta þörfum hvers og eins og nemandi þarf ekki að læra dönsku, sögu og náttúrufræði til að ná sínum markmiðum (sem eru kannski að verða tannlæknir eða tölvufræðingur) hvers vegna má hann þá ekki sleppa þessum greinum?

Ef nám á framhaldsskólastigi á að vera algerlega „viðtökumiðað“ og hvað hver og einn lærir ákvarðað út frá þörfum og löngunum einstaklingsins er eina mögulega svarið að nemandi megi fara í háskólanám um leið og hann kann nóg til að ráða við það. Sérhæfingin dugar þá og almenn menntun verður aðeins frjálst val.

Hvað ætli við búum lengi við norræna réttarhefð og stjórnarhætti ef háskólaborgarar hætta að skilja dönsku? Hvaða áhrif hefur það ef verulegur hluti fólks sem starfar við stjórnsýslu í framtíðinni hefur ekki lært neina náttúrufræði? Ætli umræða um umhverfismál og heilbrigði verði þá ekki hálfu vitlausari og öfgakenndari en í dag? Varla er á bætandi. Niður á hvaða stig fara stjórnmálin ef almenn menntun í sögu rýrnar að ráði? Ég veit það ekki og vona að við munum aldrei komast að því.

Breið, almenn menntun sem flestra skiptir verulegu máli fyrir okkur öll. Við töpum sennilega talsvert miklu ef hún minnkar að ráði. Þetta tap hópsins er trúlega jafn mikið þótt hver og einn sjái sér hag í að sérhæfa sig bara og sleppa við að eyða tíma í að afla almennrar menntunar.

Að mínu viti er þörf á að framhaldsskólar og háskólar sammælist að minnsta kosti um umfang stúdentsprófs af bóknámsbrautum, til dæmis að það verði 140, 130 eða 120 einingar hið minnsta.

Draumaleit

Mánudagur, 30. apríl 2007

Í gærkvöldi fórum við Harpa á söngleikinn Draumaleit sem er fluttur af 9. bekk Grundaskóla. Þetta var ótrúleg sýning og trúlega eru ekki mörg dæmi um grunnskólaleikrit í þessum gæðaflokki. Ég hlakka til að sjá hvað þessir krakkar gera þegar þeir koma í Fjölbrautaskólann. Fyrst þeir geta sett upp söngleik sem hvaða framhaldsskóli sem er væri stoltur af verða þeir þá ekki eins og atvinnuleikarar áður en þeir ljúka framhalsskóla?