Færslur undir „Óflokkað“

Ljóð eftir Ðimosþenis Papamarkos

Föstudagur, 18. ágúst 2017

Úr Villudómi

Þung voru sporin, þreyttur var Dauðinn, þjakandi byrðar,
skrælnaðir gómar, klárinn var líka kvalinn af þorsta,
hesturinn blakki. Áðu um stund hjá Einbúalindum.
Af reiðverum jálksins reipi þá tekur, hönk, það er undið,
svart eins og hjartað í ferðalang þeim sem frá skal nú greina,
tvinnað og þrinnað úr ekkjunnar hári, harmanda lokkum,
svo endist í sól og líka í regni og rýrni ekki af tárum,
að þrengt geti fjötur, fast geti slegið, og ef að heyrist
kjökur það bíti, eitruðum naddi, nöðrunnar gini.
Ungmenni bindur við hávaxna stofna, stúlkurnar reyrir
við kræklótta furu, kornabörn njörvar á þyrnótta runna.
Snýr sér að Faxa, yrðir á blakk sinn með aktygin skreyttu:
– Ég geng nið‘rað Lindum, fylli á belginn, færi þér sopa
úrvinda báðir erum og þurfum góminn að væta.
En langt er í vatnið, ógreiðfært klungur, klettótt er landið,
einstigið mjóa ætla ég niður, upp til að sækja
vatn og þú bíður, vaktar þá dauðu, lætur þá þegja,
annars er hætt við að ýlfrið og kveinin styggi burt lækinn
hann renni til baka, hræðist og hverfi ofan í grjótið.
– Farðu og drekktu og fylltu á belginn og færðu mér sopa,
þrælanna skal ég gæta á meðan, óttastu ekki.
Með sverðið við belti, bogann um öxl og belginn úr leðri
smokrar sér inn í þéttvaxinn gróður, grýtt er þar undir,
gengur þá slóðann, götuna tæpu, niður að Lindum.
Opnaðist gjáin, hyldjúp sem hafið, svört eins og kráka.
Bregður þeim gamla, á brúninni hikar, nemur þar staðar.
Dauðann þá sundlar, áfram þó heldur, illur er þorstinn
og gjálfrandi vatnið freistar svo ekk‘ er um annað að ræða.
Konungum brugðið löppin sú hefur sem leitar og fálmar
í bjargfastar nafir, brúnir og syllur að feta sig niður.
Ei voru skrefin mörg á hans göngu, tæplega tíu,
áður en heyrðust ofan í djúpi samræður manna
áþekkar bæði uglunnar væli og fashana kurri.
Heyrandi þetta, hóar í Faxa, kallar og mælir:
– Ég sagð‘ að þú ættir að annast þá dauðu og halda í skefjum
svo fæli þeir ekki fljótið og hreki ofan í jörðu,
samt lætur þú náina nöldra og væla með kjaftæði og skvaldur.
Hesturinn blakki hneggjandi kvað hér annað á seyði:
– Sof‘ eins og ungbörn allir þeir dauðu, bæra ekki á sér.
Ef harmljóð þú nemur, kvein eða kjökur, líttu þá eftir
hvort mælanda finnur, í gilinu djúpa, með sorgir í sefa.

Villudómar (παραλογές) eru flokkur alþýðlegs kveðskapar hjá Grikkjum. Slíkar þulur eru oftast alllangar frásagnir byggðar á efni úr þjóðsögum eða gosögnum. Þær eru yfirleitt fjarstæðukenndar með einhverjum hætti og frásögnin utan við venjulegan veruleika (sjá t.d. http://ebooks.edu.gr/modules/ebook/show.php/DSGL-A111/683/4523,20488/)

Ljóð þetta heitir á frummálinu Από την Παραλογή. Það birtist fyrst í bókinni Γκιακ (Giak) sem kom út árið 2014. Sú bók hlaut bókmenntaverðlaun Akademíunnar í Aþenu árið 2015.

Höfundurinn Δημοσθένης Παπαμάρκος (Ðimosþenis Papamarkos) er fæddur árið 1983 í Μαλεσίνα (Malesina) í Grikklandi.

Ég þýddi ljóðið út grísku með hliðsjón af enskri þýðingu í Austerity Measures: The New Greek Poetry (Karen van Dyck, ritstj., New York Review Books, 2016).

Bragarháttur frumtextans er dæmigerður grískur þjóðkvæðaháttur með fimmtán atkvæða línum. Hrynjandin í þýðingunni er önnur en í frumtextanum og ég vík frá reglunni um fimmtán atkvæði þar sem ég leyfi mér að skjóta áherslulausum smáorðum framan við bragliði eins og tíðkast í íslenskri vísnagerð.

Í frumtextanum heitir ferðalangurinn Hgaros (Χάρος) en hann er persónugervingur dauðans í grískri þjóðtrú. Til forna hét hann Χάρων og ferjaði hina dauðu yfir heljarfljótið. Á íslensku er hann kallaður Karon.

Kreppuskáldskapur Grikkja

Sunnudagur, 13. ágúst 2017

Kreppan í Grikklandi hefur staðið ansi lengi og hún sverfur að. Æ meir. Hátt í helmingur barna í landinu lifir undir fátæktarmörkum. Atvinnuleysi er meira en það var í Bandaríkjunum í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Það hefur að vísu minnkað úr um 23% í um 22% undanfarið ár. Ekki veit ég hvort það er fremur vegna þess að ástandið sé eitthvað að skána, eða vegna þess hve margir hafa flutt úr landi.

Þessi kreppa hefur alið af sér þjáningar og vonleysi og það er nánast virðingarleysi við fólk að tala um hana með hugtökum úr hagfræði og pælingum um peningakerfi heimsins. Samt reyni ég kannski að segja eitthvað um þau efni næstu daga eftir því sem mín takmarkaða þekking leyfir. En ég ætla að byrja á því eina góða sem ég veit til að hafi hlotist af þrengingum Grikkja. Þær hafa alið af sér merkilegan skáldskap. (Það gerði kreppan mikla líka víða um lönd, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem Faulkner, Caldwell og Steinbeck skrifuðu magnaðar sögur.)

Ég las fyrir stuttu enska þýðingu á smásögum eftir Christos Ikonomou (Χρήστος Οικονόμου). Bókin (sem heitir Κάτι θα γίνει, θα δεις) kom út á grísku árið 2010. Enska þýðingin heitir Something Will Happen, You‘ll See. Þegar sögurnar í henni voru samdar var kreppan byrjuð, en ástandið ekki orðið neitt eins og nú. Þarna segir frá fátæku fólki sem veit ekki hvort það fær laun um næstu mánaðamót, dreymir um súkkulaði, tekur lögin í sínar hendur, þambar brennivín eða situr næturlangt fyrir dyrum úti og talar við köttinn sinn.

Ikonomou skrifar sterkar og áleitnar myndir af lífi fólks og bágindum. En hann hefur engin hrein og klár svör – gefur samt í skyn að það sé einhver skýring á ástandinu, þó það virðist óskiljanleg. Í einni sögunni segir hann t.d. að „þótt það sé ef til vill ógnvekjandi að lifa við óreiðu þá valdi það tvöfalt meiri ugg að vita, að þetta sé ekki óreiða, heldur regla og lögmál sem þú munir aldrei læra – getir ekki lært – sama hvað þú reynir.“

Það sem ég hef lesið af kreppuskáldskap Grikkja er annars mest ljóð. Mörg af þeim eru afsprengi nýlegra hreyfinga bókmenntum heimsins. Sum falla inn í hefð sem frumkvöðlar í þarlendum nútímaskáldskap mótuðu á fjórða áratugnum. Sum eru undir hefðbundnum bragarháttum.

Eitt af því sem mér sýnist einkenna þennan skáldskap er óvissa um hvað er að gerast: Eru bágindin afleiðing af einhverju sem við höfum gert eða erum við leiksoppar sem engu ráðum um eigin örlög? Er „hrunið“ efnahagslegt, eða var það sem hrundi kannski frekar skýjaborg og draumórar um að basl og strit heyrðu sögunni til – landið væri hluti af sameinaðri Evrópu þar sem velferð alþýðu væri trygg og örugg?

Ljóðin sem ég hef lesið eru, eins og sögur Ikonomou, áleitin – en lítið um lausnir. Ég held að stór hluti af kreppuskáldskapnum fyrir um 80 árum hafi verið skrifaður af talsvert kokhraustari vissu um hvað væri vitlaust við hagkerfi heimsins og hvernig ætti að kippa hlutunum í lag. En þessi grísku skáld eru líklega of menntuð til að nota slagorð og klisjur. Hvort menntun þeirra elur bara af sér upplýst úrræðaleysi eða nýja von veit ég ekki – frekar en aðrir. En þeir sem vilja magnaðan skáldskap hafa af nógu að taka.

Talsvert af ljóðagerð Grikkja síðustu ár fæst nú í enskum þýðingum t.d. í Futures: Poetry of the Greek Crisis og Austerity Measures: The New Greek Poetry. Í síðartöldu bókinni eru ljóðin líka á frummálinu. Mikið af nýlegum grískum skáldskap er líka aðgengilegt á vefsíðum eins og t.d. www.poeticanet.gr.

Hér eru krækjur í upplýsingar um bækurnar þrjár sem ég nefndi:
www.amazon.com/gp/product/B011G4DPG4
,
www.amazon.com/gp/product/1908058242/
,
www.amazon.com/gp/product/1681371146.

In A Station of the Metro

Þriðjudagur, 2. desember 2014

Fyrir nokkrum dögum síðan birti ég á facebook tilraun til að þýða eftirfarandi ljóð eftir Ezra Pound. Það ber yfirskriftina In A Station of the Metro og var fyrst prentað árið 1913. Ég lét fylgja spurningu um hvort rétt væri að nota stuðla í þýðingu á þessu ljóði.

The apparition of these faces in the crowd;
Petals on a wet, black bough.

Tilraun mín var á þessa leið:

Andlit sýnast í þeim grúa;
blóm á svartri, blautri grein.

Um þýðinguna og spurningu mína um stuðlasetningu spunnust samræður eins og jafnan á facebook og ég fékk ágætar ábendingar frá Stefáni Steinssyni, Evu Hauksdóttur, Önnu Kristjánsdóttur, Hörpu Hreinsdóttur, Ingimar Ólafssyni Waage og Pétri Þorsteinssyni. Í ljósi þeirra bætti ég þýðinguna nokkuð og hún varð svona:

Inn um fjöldann andlit kvikna;
krónublöð á blautri, svartri grein.

Ef til vill hentar facebook hreint ekki illa til hópvinnu við ljóðaþýðingar.

Tveir stuttir pistlar

Laugardagur, 15. febrúar 2014

Bætti tveim stuttum pistlum á this.is/atli. Annar er fyrirlestur um lýðræði og skóla sem ég flutti við Menntavísindasvið Háskóla Íslands 5. febrúar. Hinn er greinarkorn um rímnakveðskap á Krít sem birtist í Són, tímariti um óðfræði 11. árg. 2013.

Óður númer 5 úr Αξιον Εστί eftir Elytis

Laugardagur, 24. september 2011

Óður númer 5 úr Verðugt er (Αξιον Εστί) eftir Odysseas Elytis (Οδυσσέας Ελύτης)

Með lukt úr ljósi stjarna, ég leitaði til himna,
út á svölum engjum, á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Brúðarlaufi mæddu, silfruðu af svefni,
ýrðu mér um andlit, einn ég geng og blæs,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Þú sem stýrir geislum, rekkjugaldrakarlinn,
svikahrappur vitandi um seinni tíma, seg mér
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Í stúlkum mínum sitja sorgir heilla alda,
með riffla mínir piltar en vita ekki samt
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Hundraðhentar nætur í himinhveli víðu
erta mig í iðrum, undan sviðinn kvelur,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Með lukt úr ljósi stjarna, ég geng um himingeima,
út á svölu engin, á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

(more…)

Nýjar greinar á vef

Sunnudagur, 5. júní 2011

Ég var að bæta nokkrum nýlegum greinum á vef minn http://this.is/atli.

Þrjár nýlegar tímaritsgreinar

Föstudagur, 21. janúar 2011

Nú nýlega hafa birst eftir mig þrjár greinar í tímaritum. Þær eru

  • Hvaða áhrif hafði Aðalnámskráin frá 1999 á bóknámsbrautir framhaldsskóla? Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun, birt 31. desember 2010.
  • Skilningur framhaldsskólakennara á almennum námsmarkmiðum. Tímarit um menntarannsóknir, 7. árg. bls. 93-107.
  • Inn við beinið: Um sjálf og sjálfsþekkingu. Hugur 22. árg. bls. 198-210.

Ennfremur á ég tvær ljóðaþýðingar í nýjasta hefti tímarits sem heitir Són, Tímarit um óðfræði. 8. árg. bls. 44-46.

Skírnir - vor 2009: Grein eftir Stefán Snævarr

Mánudagur, 25. maí 2009

Ein af fjórum kreppugreinum í nýjasta Skírni er eftir Stefán Snævarr. Hún heitir Frjálshyggjan, sjöunda plága Íslands: Hannesi svarað, Þorvaldur áminntur og er, a.m.k. öðrum þræði, svar við grein sem Hannes Gissurarson skrifaði í hausthefti Skírnis á síðasta ári.

Grein Stefáns er nokkuð ólík öðru sem skrifað er í þetta gamla og virðulega tímarit. Hann lætur vaða á súðum og hefur uppi stór orð og mér þóttu skrif hans minna dálítið á Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson (sjá færslu frá 4. júní 2007).

Að sumu leyti er skemmtilegt hvað Sefáni er mikið niðri fyrir og hvað hann reiðir stundum hátt til höggs. Sumt í stíl hans kann ég þó ekki við eins og þegar hann gerir andstæðingum sínum upp einhverjar hálftrúarlegar grillur og talar hálft í hvoru niður til þeirra þar sem hann lýsir skoðunum þeirra með orðasamböndum eins og „hinni ginnhelgu frjálshyggju“, „hinni helgu Ameríku“, „hinu vonda velferðarríki“. (Þessi þrjú dæmi eru öll af fyrstu tveim síðum greinarinnar.)

Kenning Stefáns er einkum sú að frjálshyggja sé plága. Lokaorð greinarinnar eru: „Kominn er tími á alvarlegt uppgjör við frjálshyggjuna. Hún er sjöunda plága Íslands, þjóðin er komin á kaldan klaka vegna ofurtrúar á markaðinn.“

*

Nú er orðið frjálshyggja notað um nokkuð sundurleitt safn hugmynda og kenninga. Það er álíka hæpið að setja alla frjálshyggju undir einn hatt eins og að setja allan sósíalisma undir einn hatt. En Stefán hirðir ekkert um að segja hvers konar frjálshyggja það er sem hefur leikið Íslendinga svo grátt. Hann segir heldur ekkert um hverjar hinar sex plágurnar voru. Ef hann er að jafna frjálshyggju við svartadauða og móðuharðindi finnst mér að hann mætti alveg láta fylgja einhver gögn um hve stór hluti þjóðarinnar lét lífið af hennar völdum.

Þau slitur af rökum sem hægt er að finna í grein Stefáns eru einkum af tvennu tagi. Annars vegar tínir hann upp hugmyndir frá fólki sem hann kallar einu nafni frjálshyggjumenn, steypir þeim saman og lætur sem allt það hugmyndafarg hafi valtað yfir mannlífið á einu bretti. Hins vegar hendir hann á lofti samanburð Hannesar á Evrópu og Bandaríkjunum og reynir að sýna fram á að ekki sé eins gott að búa í Vesturheimi og Hannes vildi vera láta.

Fyrri rökin eru skelfilegt sullumbull hjá honum svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þau eru álíka gáfuleg eins og ef reynt væri að færa rök gegn jafnaðarstefnu, eða sósíalisma, með því að tína upp eina fullyrðingu frá Karli Marx og aðra frá Kastró og þá þriðju frá Olof Palme og klastra svo utan á þetta einhverju rugli eftir Maó formann, Kim Il Sung, Einar Olgeirsson, Lacan, Žižek og Helga Hóseason – benda svo á óskapnaðinn og býsnast yfir því hvað mennirnir séu mikil fífl að halda þessu öllu saman fram. Gallinn við svona málflutning væri auðvitað að enginn einn maður er sammála öllum þessum söfnuði. Þótt mennirnir sem ég nefndi séu allir sósíalistar hafa þeir afar ólíkar skoðanir. Að benda á að þeir hafi haldið fram ýmsum grillum og vitleysum er ekki tæk rök gegn sósíalisma almennt og yfirleitt og það væri heldur ekki málefnalegt innlegg í umræðu um það sem vinstri stjórnirnar í Noregi og á Íslandi eru að bauka um þessar mundir – svo einhver dæmi séu tekin.

Grein Stefáns hefði verið betri ef hann hefði tilgreint einhver dæmi um frjálshyggjuleg úrræði sem hafa leitt til ófarnaðar hér á landi – hefði hann til dæmis reynt að rökstyðja að hér væri allt ein rjúkandi rúst út af  fjölgun einkarekinna háskóla, frjálsu framsali aflaheimilda (sem var reyndar ákveðið af vinstristjórn sem hér sat undir lok níunda áratugarins en er samt mörgum frjálshyggjumönnum vel þóknanlegt), tiltölulega flötum tekjuskatti eða fríverslun við Færeyjar.

Kannski heldur Stefán að bankakreppan sé afleiðing af einhvers konar frjálshyggju en það verður ekki ráðið af skrifum hans, því hann sullar öllu saman og segir fyrir vikið ekkert nógu skýrt og ákveðið til að hægt sé að finna rök með því eða á móti.

Um tengsl frjálshyggjuhagfræði og yfirstandandi bankakreppu er margt óljóst, að minnsta kosti enn sem komið er. Sumir menn sem eru vel að sér um bankamál, eins og Ragnar Önundarson, hafa bent á ástæður til að ætla að meiri ríkisafskipti (og minni frjálshyggja) hefðu verið til bóta. Aðrir hafa bent á að sumar af rótum vandans hefðu vart komið til ef eindregnari frjálshyggja hefði ráðið ríkum. Hér er einkum bent á ríkisumsvif á borð við niðurgreidd húsnæðislán úr opinberum sjóðum, einkum í Bandaríkjunum, og hvernig ríkið tryggir innistæður á bankareikningum og dregur þannig úr hvata bankamanna til að sýna aðgát.

*

Seinni rökum Stefáns er beint gegn Hannesi Gissurarsyni, sem sagði í sinni Skírnisgrein að hagvöxtur væri meiri í Bandaríkjunum en í Svíþjóð og lét að því liggja að betra væri að búa þar vestur frá. Ekki dettur mér í hug að ég geti alhæft um í hvoru þessara landa er betra að eiga heima. Í þeim báðum er lífskjör talsvert betri en þau sem þorri mannkyns býr við. Hins vegar þykist ég geta fullyrt að það sé hrein þvæla að stilla Bandaríkjunum upp sem dæmi um land þar sem frjálshyggja er ríkjandi og Svíþjóð sem dæmi um stjórnarhætti sem eru andstæðir frjálshyggju. Þetta tekur Stefán samt gagnrýnislaust upp frá Hannesi en  reynir að snúa samanburðinum við og sýna að þegar öllu er á botninn hvolft hafi Svíar það betra en Kanar. Mér hefði þótt gáfulegra að benda á hvað svona samanburður er í raun hæpinn heimild um kosti eða galla frjálshyggju.

Ef frjálshyggja er sú stefna að tryggja öllum sömu lagaleg réttindi, banna mönnum fátt, hafa lága og flata skatta, lítil ríkisafskipti af efnahagslífi, réttarríki þar sem mannréttindi eru virt og eignarréttur er friðhelgur og reyna að finna markaðslausnir á fleiri samfélagsvandamálum þá eru samfélagshættir bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð að nokkru snúnir úr frjálshyggju og að nokkru af allt öðru vísi þáttum.

Sé betra að lifa í öðru landinu en hinu þá getur það eins verið vegna þessara annarra þátta eins og vegna mismikillar frjálshyggju.

Það er mikil einföldun að halda því fram að jafnaðarstefna sé ríkjandi í Evrópu en frjálshyggja í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn ganga býsna langt í „jákvæðri mismunun“ (t.d. í menntakerfinu), niðurgreiðslum og styrkjum til sumra atvinnugreina, byggðastefnu, stighækkandi sköttum, reglum um eignarhald á fyrirtækjum, opinberu eftirliti með atvinnulífi, ríkisafskiptum af einkalífi fólks o.fl. sem rímar illa við a.m.k. sumar gerðir frjálshyggju.

Sænskt hagkerfi einkennist af einkaeign á framleiðslutækjum og samkeppni á markaði ekki síður en það bandaríska og sænskar stjórnsýsluhefðir mótuðust að verulegu leyti meðan frjálshyggjumenn höfðu undirtökin í stjórnmálum þar í landi. Sannleikurinn er sá að frjálshyggja er sterk, en samt langt frá því að vera neitt allsráðandi, bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð.

Meðan kommúnistar stjórnuðu Austur-Evrópu var skárra (á flesta mælikvarða) að búa í Búlgaríu en í Rúmeníu, skárra að vera í Júgóslavíu en Albaníu svo einhver dæmi séu nefnd. Fræðimaður sem reyndi að skýra þennan mun með því að skipa löndunum í röð eftir því hvað kommúnistar réðu miklu fengi tæpast háa einkunn. Hann væri sekur um ofureinföldun og bjánalega reglustikuhugsun. Ólíkar menningarhefðir, sögulegar hendingar, ólíkar myndir þjóðrækni og þjóðernisstefnu, misjafnlega þróuð menntakerfi og margt fleira höfðu líka sitt að segja.

Að raða lýðræðisríkjum upp á einn kvarða eftir því hvort þar er meiri eða minni frjálshyggja og halda að það skýri mismuninn á kjörum fólks er líka reglustikuhugsun af bjánalegustu gerð og vonandi láta þeir sem vilja að fólk fái notið frelsis svoleiðis hundakúnstir ekki slá sig út af laginu.

Ritdómur um bókina Heimspeki fyrir þig eftir Ármann Halldórsson og Róbert Jack

Fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Í nýjasta tölublaði Hugar - Tímarits um heimspeki er ritdómur sem ég skrifaði um bókina Heimspeki fyrir þig eftir Ármann Halldórsson og Róbert Jack. Hann liggur hér frammi.

Ritdómur um bók eftir Hörð Bergmann

Miðvikudagur, 12. mars 2008

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmál er stutt grein, eða ritdómur, eftir mig um bók Harðar Bergmann, Að vera eða sýnast, sem kom út hjá bókaútgáfunni Skruddu á síðasta ári. Texti greinarinnar liggur hér frammi.