Færslur undir „menning“

Skírnir - vor 2009: Grein eftir Pál Skúlason

Sunnudagur, 17. maí 2009

Í síðustu færslu sagði ég að í nýjasta Skírni væru þrjár greinar sem fjalla um kreppuna og ástand samfélagsins nú um stundir. Þetta var ekki rétt. Greinarnar eru fjórar og sú sem ég tilgreindi ekki er eftir Guðrúnu Nordal og heitir Endurtekin stef um óhóf, ofsa og ágirnd. Ég hélt að hún væri bara um Sturlungu þangað til ég las hana og sá að Guðrún notar dæmi frá 13. öld til að varpa ljósi á samtímann. Grein Guðrúnar er feikigóð en ég ætla ekki að fjalla um hana hér heldur skrif Páls Skúlasonar.

Grein Páls nefnist Lífsgildi þjóðar og hefur þá kosti að vekja áhugaverðar spurningar og tæpa á ýmsu sem er vert að hafa í huga þegar rætt er um málefni samfélagsins.

Í greininni útskýrir Páll greinarmun á þrenns konar gildum: efnahagslegum, stjórnmálalegum og andlegum. Þessi greinarmunur minnir um sumt á svipaðan greinarmun sem Platon gerði í Ríkinu og á sér líka hliðstæðu stjórnspeki Georgs Hegel. Ég held að það sé talsvert vit í að hafa einhverja svona skiptingu í huga þótt ég sé svo sem ekki viss um hvort betra sé að tala um þrjú eða fjögur svið mannlífsins. Sé talað um fjögur svið bætist einkalífið við það þrennt sem Páll telur.

Farsælt líf þarf á öllum þessum sviðum að halda og fólk lifir í reynd á þeim öllum. Það má nefna þau ýmsum nöfnum: Einkalíf, atvinnulíf, pólitík og ríki andans eða fjölskyldu, hagkerfi, ríki og siðmenningu. Hegel tengdi síðastnefnda sviðið einkum við listir, trú og heimspeki og ég býst við að Páll geri það líka. Þarna á leitin að sannleikanum ef til vill líka heima, og þar með öll vísindi sem stunduð er í þeim tilgangi að vita og skilja.

Páll reynir að nota þessa hugmynd um svið mannlífsins til að varpa ljósi á vandamál líðandi stundar og segir: „Tilgáta mín er […] að sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á efnahagsmálin í þjóðfélagi okkar síðustu árin og þá sérstaklega á tiltekinn þátt þeirra, nefnilega fjármálin, hafi orðið til þess að við höfum sem þjóð vanrækt stórlega bæði stjórnmálin og andlegt líf þjóðarinnar.“ (s. 44). Hann vill að menn leggi meiri áherslu á andleg lífsgildi og segir: „Hinn nýi hugsunarháttur, sem ég er að kalla eftir, byrjar á hinum andlegu lífsgildum, ekki síst hinum siðferðilegu, og skoðar stjórnmálin og efnahagsmálin í ljósi þeirra.“ (s. 49)

Nú hygg ég að í þessu sé nokkur sannleikur fólginn. Undanfarin ár voru fjölmiðlar fullir af umfjöllun um ríka karla og kaup þeirra á fyrirtækjum. Markaðurinn var í sviðsljósinu fremur en til dæmis listir, trú og heimspeki eða stjórnmálahugsjónir og stjórnmálastarf og sjálfsagt hefur efnahagslífið líka fengið mikið rúm í meðvitund margra meðan góðaærið (sem Elísabet Jökulsdóttir segir að hafi ekki verið góðæri heldur óðæri) stóð sem hæst. En allan þennan tíma lifði fólk samt sínu einkalífi, tók þátt í stjórnmálum og lagði rækt við andleg verðmæti. Ég hugsa að meira að segja árið 2007 hafi verið fleiri ljóðskáld en bankastjórnar í landinu. Raunveruleiki mannlífsins var alltaf á öllum sviðum og önnur verðmæti en þau efnahagslegu (eins og t.d. vinátta og ást) skiptu fólk alltaf jafnmiklu máli. Það sem ef til vill vantaði á var að nógu margir gerðu sér glögga grein fyrir þessu – áttuðu sig á því hvað þeim er kærast og hvað skipti þá mestu.

Sumt sem Páll segir virðist sjálfsagt mál. En sumt er að mínu viti hæpið. Hann gefur t.d. til kynna, án þess að segja það berum orðum, að hægt sé að komast hjá efnahagslegum áföllum með því að leggja rækt við önnur gildi en þau efnahagslegu og að kreppan sé á einhvern hátt afleiðing af of mikilli áherslu á svið efnahags- og atvinnulífs. Er ekki sönnu nær að efnahagsvandi sé afleiðing af ákvörðunum sem eru óskynsamlegar á efnahagslegum forsendum? Sparsemi er skynsamlegri en eyðslusemi fyrir þann sem vill bæta efnahag sinn og ástæðurnar fyrir því eiga heima á sviði þess efnahagslega.

Ef efnahagskreppan verður yfirleitt rakin til óskynsamlegs þankagangs þá held ég að fremur sé um það að ræða að of fáir hafi hugsað hagfræðilega og sýnt hyggindi í meðferð fjár heldur en að of margir hafi verið með hugann við að græða. (Og með þessu er ég hvorki að neita því né játa að of margir hafi verið með hugann við það að græða sem mest.)

Það er eins og Páll hugsi í aðra röndina sem svo að í góðærinu (eða óðærinu) hafi samfélagið eiginlega bara verið hagkerfi og nú sé verkefnið að byggja samfélag þar sem hið hagræna, það pólitíska og það andlega er í jafnvægi. Þetta er ef til vill skýringin á að hann byrjar greinina á að segja: „Íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir því verkefni að endurreisa samfélag sitt eftir hrun fjármálakerfisins í haust.“ (s. 39.) En er sannleikurinn ekki sá að samfélagið stóð af sér hrun fjármálakerfisins og stendur enn – enda er fjármálakerfið ekki nema partur af hagkerfi sem er aðeins hluti af samfélaginu.

Fleira í grein Páls þykir mér orka tvímælis eins og til dæmis sú trú hans að við Íslendingar þurfum „að öðlast sameiginlegan skilning á því hvernig við hugsum og metum gildi hlutanna.“ (s. 45). Skilningur okkar á mannlífinu er ósköp takmarkaður og við vitum ekki nema að litlu leyti hvaða gildi skipta okkur mestu máli og hvað er okkur sjálfum fyrir bestu. Hallgrímur Pétursson orðaði þetta svo í 44. Passíusálmi að „vér vitum ei hvers biðja ber.“

Sameiginlegur skilningur verður trúlega enn vitlausari en þær sundurleitu hugmyndir sem ólíkir menn nú hafa, því ef allir skilja lífið á sömu lund er enginn til að leiðrétta þær villur sem þó er hægt að laga með gagnrýni og andmælum. Ætli við þurfum ekki meira á því að halda að þeir sem hafa annan skilning, en þann sem algengastur er, tali fullum hálsi og skýri mál sitt. Þetta gerir Páll og ef skrif hans gera gagn þá er það, held ég, einkum vegna þess að hann er ekki sammála öllum lesendum sínum og fær þá ekki alla á sitt band.

Skírnir - vor 2009: Grein eftir Má Guðmundsson

Laugardagur, 16. maí 2009

Í gærkvöldi og fram eftir nóttu las ég nokkrar greinar í nýútkomnu hefti Skírnis. Þrjár greinar í heftinu fjalla um ástand efnahagsins og samfélagsins í yfirstandandi kreppu. Sú lengsta af þeim, og sú eina sem fjallar um málið frá hagfræðilegu sjónarhorni, er eftir Má Guðmundsson. Hann er aðstoðarframkvæmdastjóri peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel og fyrrum aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. Hinar tvær eru eftir heimspekingana Pál Skúlason og Stefán Snævarr.

Hér ætla ég að segja fáein orð um grein Más. Ég læt bíða að fjalla um innlegg Stefáns og Páls.

Már nefnir grein sína „Hin alþjóðlega fjármálakreppa: Rætur og viðbrögð.“

Hann útskýrir, að mér virðist, afar skilmerkilega hvernig bankakerfi heimsins lentu í ógöngum. Ég hef ekki slíkt vit á efninu að ég geti fullyrt að skýringar hans séu réttar en þær eru að minnsta kosti vel skiljanlegar og skilmerkilega fram settar.

Már rekur bankakreppuna til nokkurra þátta sem mögnuðu hver annan upp og bendir á að óheppilegt samspil þeirra hafi ekki verið fyrirsjáanlegt út frá skoðun á neinum einum þeirra. Hann skýrir til dæmis að álagspróf á einstakar fjármálastofnanir hafi verið gagnslítil „því þau voru miðuð við álag á einstakar stofnanir en allt samspilið þeirra á milli, […] vantaði.“ (s. 30)

Í lokaorðum segir Már: „Ójafnvægi í heimsbúskapnum og áherslur í hagstjórn stuðluðu að lágum raunvöxtum og miklu framboði lánsfjár sem ýtti undir útlánaþenslu og skuldsetningu. Fjármálanýjungar lögðust á sömu sveif auk þess sem sumar þeirra gerðu fjármálakerfið flóknara og ógagnsærra. Áhættustjórnun fjármálafyrirtækja var að mörgu leyti ábótavant og sama má að nokkru leyti segja um regluverk og eftirlit með fjármálakerfinu.“ (s. 34–5)

Hann gerir heldur lítið úr skýringum sem vísa til græðgi eða glæpsamlegrar hegðunar hjá eigendum fjármálafyrirtækja og segir: „Í fjármálakerfinu eru það fyrst og fremst hvatarnir í kerfinu sem stýra hegðuninni, og regluverkið og eftirlitið sem setur mörkin. […] Hvaða sjálfstætt hlutverk hegðunarmynstur þeirra sem stýrðu fjármálastofnunum lék þar til viðbótar, […] er óútkljáð og að nokkru leyti óútskýrt mál.“ (s. 32)

Már leyfir sér enga ódýra sleggjudóma. Hann lýsir því sem gerðist en reynir ekki að kenna neinum sérstökum um, hvorki tiltekinni stjórnmálastefnu né hópi manna. Ef skýringar hans eru réttar þá er heldur varla um neina eiginlega sökudólga að ræða.

Már fjallar ekki um íslensku kreppuna sérstaklega, heldur, eins og hann segir (á s. 35), „það alþjóðlega samhengi sem hún átti sér stað í.“ En þótt umfjöllunarefnið sé ekki beinlínis efnahagsvandi Íslendinga þykir mér trúlegt að þessi grein marki þáttaskil í rökræðu um kreppuna hér á landi. Mér virðist Már skrifa af slíkri yfirsýn og þekkingu að allir sem vilja taka þátt í skynsamlegri umræðu um efnið (fremur en nornaveiðum, grjótkasti, gargi og hávaða) hljóti að taka nokkurt mið af því sem hann segir.

Umsögn um bók eftir Björn Bjarnason

Laugardagur, 18. apríl 2009

Í nýjasta hefti Þjóðmála er umsögn eftir mig um bókina Hvað er Íslandi fyrir bestu? eftir Björn Bjarnason. Þessi umsögn liggur hér frammi.

Hætt er rasanda ráði

Mánudagur, 13. apríl 2009

Á facebook.com hafa 5289 skráð sig í hóp sem heitir „Frystum eignir þeirra sem eyðilögðu Ísland.“ Þeir sem stofnuðu þennan hóp virðast álíta í fullri einlægni að búið sé að eyðileggja landið. Hins vegar virðast þeir ekki hafa miklar áhyggjur af skemmdarverkum á íslensku máli því lýsing þeirra á hópnum er stafrétt á þessa leið:

Allir þeir fyrrverandi bankaeigendur og útrásarofstopar eiga að taka fulla ábyrgð á því hvernig komið er fyrir okkar þjóð. við skorum á ríkisstjórn að eignir þessara manna verði frystar og peningarnir sem þeir hafa dregið til sín verði skilað til almennings.

Fullyrðingar um að búið sé að eyðileggja landið skera sig ef til vill ekki mikið úr innan um yfirlýsingar um að það verði að semja nýja stjórnarskrá, krónan sé ónýt, landið gjaldþrota, þingmenn án umboðs frá þjóðinni, frjálshyggjan búin að leggja allt í rúst og nú verði að byggja hagkerfið ef ekki samfélagið allt upp á nýtt frá grunni.

Séu þessar fullyrðingar teknar bókstaflega eru þær allar ósannar. Hér stefnir að vísu í tímabundið atvinnuleysi en ekki samt eins mikið og margar Evrópuþjóðir hafa búið við árum saman; Framundan er samdráttur en ekki samt neitt ámóta slæmur og kreppan undir lok sjöunda áratugarins. Stjórnarskráin hefur reynst vel. Smáu hagkerfi fylgja vandamál sem birtast meðal annars í gengissveiflum og mundu koma fram í öðru ef við hefðum ekki eigin gjaldmiðil, en að krónan sé algerlega ónýt er af og frá. Þannig má áfram telja. Stóryrðin eru innistæðulaus. Þau eru fyrst og fremst til marks um óhemjugang og taumleysi.

Meðan yfrið nóg var af lánsfé og fjölmiðlar létu heita að Íslendingar sem höfðu mest umleikis í öðrum löndum væru hetjur og snillingar þá birtist óhemjugangurinn einkum í fáránlegu neyslukapphlaupi og yfirgengilegri skuldsetningu. Stór hluti almennings tók þátt í þessari vitleysu og var jafnvel stoltur af að hafa fjármál sín öll í sukki. Ætli gífurmælin sem nú eru uppi séu ef til vill birtingarmynd sömu heimskunnar og óhófið 2007?

Ég tek auðvitað heilshugar undir að þeir sem hafa stolið peningum eigi að skila þeim aftur og taka út réttláta refsingu. En til að bæta samfélagið og koma í veg fyrir fleiri kollsteypur er, að ég held, mikilvægara að sem flest fólk temji sér meiri hófsemi, ekki bara í neyslu og lántökum, heldur líka í orðum og hugsunum því hætt er rasanda ráði eins og Hallgrímur benti á í fertugasta og sjötta Passíusálmi.

Leitin að uppruna lífs eftir Guðmund Eggertsson

Mánudagur, 30. mars 2009

Um daginn þegar ég fór á bókasafnið á Akranesi til að skila bókum fyrir Hörpu rakst ég fyrir tilviljun á bók sem heitir Leitin að uppruna lífs eftir Guðmund Eggertsson prófessor emeritus í líffræði við Háskóla Íslands.

Þar sem mér þykja skrif um líffræði oft heldur skemmtileg og finnst bækur eftir Richard Dawkins, Antonio Damasio, Andrew H. Knoll (svo einhverjir séu nefndir) miklu meira spennandi en glæpasögur greip ég bókina með mér heim þótt þar væri fyrir um álnarhár stafli af ólesnum öndvegisbókmenntum. Ég sé ekki eftir því. Þetta er líklega ein af betri bókum sem út komu á íslensku á síðasta ári.

Guðmundur rekur sögu hugmynda um uppruna lífs frá vísindabyltingunni á 17. öld til okkar daga. Hann tæpir aðeins á eldri hugmyndum og fer nokkuð hratt yfir sögu þar til kemur fram á 20. öld. Stærstur hluti bókarinnar (sem er 198 síður) fjallar um það sem vísindamenn nútímans telja sig best vita um hvernig líf gæti hafa kviknað. Höfundi tekst að mínu viti afar vel að skýra þau flóknu vísindi á skiljanlegu og góðu máli og bókin er virkilega skemmtileg lesning.

Þessi bók er ólík flestu sem ritað er til að kynna vísindi fyrir almenningi að því leyti að höfundur segir ekki aðeins frá því sem er vitað heldur gerir hann líka ljósa grein fyrir því hve margt er ekki vitað um efnið. Hann ræðir ýmsar tilgátur en heldur ekki uppi áróðri fyrir neinni þeirra heldur bendir bæði á takmörk þeirra og styrk. Bókin er því ekki aðeins kynning á niðurstöðum vísindamanna heldur líka skínandi dæmi um vísindalega hugsun.

Vonandi skrifar Guðmundur meira um líffræði fyrir almenning enda eru bækur af þessu tagi ekkert lítil búbót fyrir menningarlíf þar sem skynsamleg hugsun þarf sífellt að verjast hindurvitnum, vaðli og vitleysu.

Jólabækur

Sunnudagur, 11. janúar 2009

Nú er skólinn kominn í fullan gang. Töflubreytingum er lokið og atið í kringum annaskiptin að mestu búið. Þetta gekk allt heldur vel og aðsókn er með besta móti. Hugsanlega verður að takmarka inntöku í skólann eitthvað næsta haust til því ef jafnmargir sækja um og síðast dugar framlagið sem stofnunin fær á fjárlögum fyrir árið 2009 varla til að kenna öllum þeim skara. Ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því enda verð ég farinn í námsorlof þegar næsta önn byrjar.

Þótt desember og byrjun janúar séu annatími hjá stjórnendum framhaldsskóla hafði ég tíma til að lesa nokkrar nýútkomnar bækur. Á jóladag las ég Glímuna við Guð eftir Árna Bergmann. Þetta er sérstök bók. Hún er skrifuð af einlægni og alvöru og er dásamlega laus við einfaldar lausnir og innantóma mælsku. Árni viðurkennir einfaldlega fávisku um hinstu rök tilverunnar og ræðir af víðsýni og yfirvegun hvaða samband menn geta haft við æðri veruleika sem þeir vita nær ekkert um, ekki einu sinni hvort hann er til í raun og sannleika.

Milli jóla og nýárs las ég bók sem heitir Apakóngur á Silkiveginum. Í henni eru sýnishorn alþýðlegrar kínverskrar frásagnalistar frá fjórtándu öld og fram á þá tuttugustu. Hjörleifur Sveinbjörnsson þýddi úr kínversku. Þetta er skemmtileg bók og mér finnst að Hjörleifur eigi mikið hrós skilið fyrir að hafa færst okkur þær gersemar sem þessar sögur eru. Ég vona að hann haldi áfram að þýða kínverskar bókmenntir á íslensku.

Ýmislegt fleira las ég af nýlegum bókum. Af íslenskum skáldskap sem ég komst yfir fannst mér einna mest varið í Skaparann eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Þessi bók hefur raunsæislegt yfirbragð en pælingarnar í henni eru á svipuðum nótum og Yosoy, furðusögu Guðrúnar Evu um hryllingsleikhúsið við Álafoss. Þær snúast um samband manns við líkama sinn eða kannski bara samband sálar og líkama. Þótt þetta séu býsna djúpar pælingar tefja þær söguna ekkert. Guðrún Eva er sá sagnameistari að geta komið heilmiklu fyrir milli línanna án þess að orði sé ofaukið í frásögninni.

Af þýddum skáldsögu hef ég þegar farið nokkrum orðum um Litlu stúlkuna og sígarettuna (sjá pistil frá 14. desember).

Önnur þýdd saga sem mér fannst merkileg er Vatn handa fílum eftir bandarískan höfund sem heitir Sara Gruen. Karl Emil Gunnarsson þýddi þessa bók sem segir frá fólki sem starfar í farandsirkus á kreppuárunum upp úr 1930 í Bandaríkjunum. Það er erfitt að lýsa töfrum þessarar frásagnar. Hún er öðrum þræði um kröpp kjör fátæks fólks á krepputímum, öðrum þræði um ástarþríhyrning og framhjáhald. Hún er líka  litrík saga um fíl og hesta og sérstætt fólk í óvenjulegu umhverfi.

Aðalpersónan í Vatni handa fílum er komin yfir nírætt, dvelur á elliheimili og rifjar upp veru sína í sirkusnum fyrir um 70 árum. Bókin gerist því á tveim stöðum sem eru eins ólíkir og vera má. Elliheimilið er stofnun þar sem allt er kerfisbundið samkvæmt réttum reglum og litlaust, lyktarlaust, bragðlaust og leiðinlegt eftir því en sirkusinn er heimur þar sem öllu ægir saman og allar reglur eru brotnar. Helsta samkenni þessara heima er að vistmennirnir á elliheimilinu eru álíka kúgaðir og verkafólkið í sirkusnum var.

Litla stúlkan og sígarettan

Sunnudagur, 14. desember 2008

Það er orðið ansi langt síðan ég hef skrifað á þetta blogg enda hef ég verið upptekinn af lagfæringum á íbúðarhúsnæði undanfarnar vikur. Samt hef ég gefið mér tíma til að lesa nokkrar nýútkomnar bækur. Sú sem ég kláraði síðast er Litla stúlkan og sígarettan eftir Benoît Duteurtre.

Þegar ég last fyrst um útkomu þessarar bókar í fjölmiðlum hélt ég að hún væri einhver hálfgerður fimmaurabrandari. Ég rakst svo á hana í rekka með nýjum bókum á bæjarbókasafninu og sá aftan á kápunni að Friðrik Rafnsson þýddi hana og Milan Kundera gaf henni góða dóma. Ég ákvað því að gefa taka hana með og sé ekki eftir því.

Ef skáldsagan er, eins og Kundera segir, hlátur Guðs yfir heimsku mannanna þá bendir þessi bók til að máttarvöldin hafi ansi svarta kímnigáfu. Hún lýsir heimi þar sem sjálfumglöð heimska hefur öll völd og þessi heimur er ískyggilega líkur þeirri veröld sem við byggjum.

Það er freistandi að líkja Litlu stúlkunni og sígarettunni við tvær framtíðarhrollvekjur frá fyrri hluta síðustu aldar sem eru Veröld ný og góð eftir Aldous Huxley og 1984 eftir George Orwell. Í báðum þessum bókum eru þættir úr tíðarandanum ýktir dálítið, skerpt á hugmyndum sem voru á kreiki og lýst framkvæmd á pólitískum hugmyndum sem stór hluti fólks jánkaði gagnrýnislaust.

Hugmyndirnar sem Huxley spann út frá voru nytjastefna, tæknihyggja og kröfur um þægindi en Orwell tók fyrir stjórnmálavæðingu samfélagsins, miðstýringu og alræði. Í sögu Benoît Duteurtre er farið með pólitíska rétthugsun og fjölmiðlamenningu samtímans tæplega hálfu hænufeti lengra en almennt tíðkast í veruleikanum og útkoman er samfélag þar sem heimsku og grimmd eru lítil takmörk sett.

Að sumu leyti minnir sagan líka á Réttarhöldin eftir Kafka. Venjulegur maður sem ekki hefur gert neitt sérstakt af sér er handtekinn og eftir það á hann enga möguleika.

Aðalpersóna bókarinnar er embættismaður sem vinnur á skrifstofu borgarstjórnar. Þetta er ósköp venjulegur náungi, dálítið skapstyggur og dálítið sjálfhverfur en hvorki sérlega slæmur né sérlega góður maður. Hann er skarpgreindur og smekkvís en fremur metnaðarlaus. Tilvera hans virðist þokkalega örugg og lífið í föstum skorðum þangað til hann er staðinn að því að reykja inni á salerni á vinnustað sínum. Atburðarásin sem þá fer í gang leiðir til þess að hann tapar vinnunni, kærustunni, mannorðinu, frelsinu og er á endanum gerður höfðinu styttri í einni sjónvarpsútsendingu. Það óhugnanlega við þetta allt er hvað sagan er raunsæ – það vantar fjandakornið næstum ekkert á að þetta gæti allt saman gerst.

Óraplágan

Fimmtudagur, 3. júlí 2008

Í nýjasta tölublaði Þjóðmála (2. hefti, 4. árg. s. 76–82) er grein eftir mig um Órapláguna eftir Slavoj Žižek. Greinin liggur hér frammi.

Persepolis, Marjane Satrapi og amma hennar

Mánudagur, 12. maí 2008

Þegar Richard Corliss, kvikmyndagagnrýnandi Time magazine, valdi tíu bestu myndir síðasta árs setti hann teiknimyndina Persepolis í 6. sæti. Það er ekki oft sem evrópskar teiknimyndir hljóta slíka upphefð vestanhafs og líklega er enn sjaldgæfara að sögur frá Íran nái þvílíkri athygli þar um slóðir. Kannski er enn merkilegra að þessi sjálfsæfisaga stúlku frá Íran skuli vera ein þriggja teiknimynda sem til greina komu þegar Óskarsverðlaunin voru veitt fyrr á þessu ári.

Höfundur sögunnar, Marjane Satrapi (sem heitir víst مرجان ساتراپی á persnesku), er fædd árið 1969. Hún ólst upp í Teheran. Nokkrir af körlunum í fjölskyldu hennar tilheyrðu innsta hring íranskra kommúnista og sósíalista fyrir byltingu íslamista árið 1979. Sumir þeirra voru í fangelsi fyrir byltinguna þegar Mohammad Reza Pahlavi keisari stjórnaði landinu. Sumir voru fangelsaðir eða teknir af lífi af klerkastjórninni eftir að hún komst til valda.

Kvikmyndin er byggð á teiknimyndabókum sem Marjane Satrapi gerði eftir að hún flutti til Frakklands. Bækurnar segja sögu hennar frá því hún var barn í Teheran. Ég hef ekki séð þessar bækur en ég horfði á myndina í gærkvöldi og þótt hún ansi merkileg – enda þarf mynd með þennan uppruna líkast til að vera býsna sérstök til að ná heimsathygli.

Í myndinni er bylting íslamskra fundametnalista og það sem á eftir kom séð með augum barnsins. Saga fjölskyldunnar er sögð fram á 10. áratug síðustu aldar. Aðalpersónan gekk í franskan skóla og 14 ára gömul var hún send til Vínarborgar að því er virðist bæði til að hún menntaðist á evrópska vísu og til að forða henni frá ofsóknum af hálfu stjórnvalda. Hún endaði á götunni í Vín eftir að hafa kynnst nokkrum misgæfulegum fulltrúum vestrænnar menningar, fór aftur til Teheran, giftist, skildi við karlinn, lærði myndlist til meistaraprófs við háskóla í Teheran og flúði svo til Frakklands.

Fjölskylda Marjane Satrapi virðist hafa verið þokkalega efnuð og samfélagið sem hún ólst upp í nokkuð líkt heimi menntaðra borgara á Vesturlöndum. Eftir byltinguna var að vísu bannað að drekka vín, vestræn tónlist fékkst aðeins á svartamarkaði, menn voru settir í steininn eða drepnir fyrir að andmæla klerkunum og konur þurftu að ganga með blæjur. Stríðið við Írak kemur fram í bakgrunni en saga Marjane Satrapi er ekki fyrst og fremst saga um byltingar og stríð. Hún er fyrst og fremst saga um stúlku sem elst upp á umbrotatímum og hefði nokkrum sinnum getað farið í hundana en gerði það ekki vegna þess að hún átti góða ömmu sem var henni bæði stoð og fyrirmynd.

Það sem gerir myndina sérstaka og grípandi er ekki síst amman – kona sem lætur ekki hræða sig, en heldur alltaf áfram að trúa á jafnrétti og frelsi. En það er líka merkilegt að sjá hvernig Marjane Satrapi rifjar upp byltinguna og upphaf klerkaveldisins í Íran og kannski hjálpar myndin okkur ofurlítið til að skilja þá atburði. Viðbrögð íranskra stjórnvalda benda til að þarna sé eitthvað sagt sem máli skiptir, a.m.k. mótmæltu þau við franska sendiráðið í Teheran þegar myndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes, þar sem hún vann Prix du Jury árið 2007. Með þrýstingi á Tælensk stjórnvöld tókst klerkunum í Teheran að koma í veg fyrir að myndin væri sýnd á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Bangkok.

Það er kannski ekkert sérstakt undrunarefni að erkiklerkar séu svolítið hræddir við sögu um sjálfstæða konu með bein í nefinu eins og ömmu Marjane Satrapi. Mér finnst ekkert ótrúlegt að hún verði fólki fyrirmynd löngu eftir að klerkaveldið í Íran er farið veg allrar veraldar.

Hann og hún og he og she – Ofurlítil málfræði

Þriðjudagur, 22. apríl 2008

Fyrst ég gat bloggað um grunnskóla án þess að hafa neitt vit á þeim hlýt ég eins að geta talað um málfræði án þess að kunna neitt í henni.

Í ensku er hvorki hægt að nota fornafnið he um kvenfólk né she um karlfólk. Þetta er öðru vísi í íslensku. Við notum hiklaust kvenkynsorð eins og kempa, hetja, gunga og rola um karlmenn og þar með líka kvenkynsfornöfn eins og hún og .

Það er líka góð og gild íslenska að nefna konur svanna, séra, formenn og forseta og þessum orðum geta fylgt fornöfn í karlkyni eins og hann eða .

Það er ekkert málfræðilega rangt við að segja: „Séra Margrét, sá merkisklerkur, lét sér hvergi bregða þótt sú fræga kempa Magnús á Mosfelli steytti hnefann og var ekki laust við að hetjunni brygði í brún þegar presturinn svaraði heitingum hennar aðeins með góðlátlegu brosi.“

Hér er vísað til konunnar með tveim karlkynsnafnorðum (merkisklerkur og presturinn) og einu karlkynsfornafni () en til karlsins með tveim kvenkynsnafnorðum (kempa og hetja) og tveim kvenkynsfornöfnum ( og hennar).

Getur verið að andstaða gegn því að konur séu kallaðar ráðherrar (forsetar, forstjórar, þingmenn) sé eitt dæmið enn um áhrif enskunnar? Slík áhrif eru að minnsta kosti nærtækasta skýringin á því að sumum finnst að það sé með einhverjum hætti rangt að nota karlkynsorð um konur eða kvenkynsorð um karla.