Færslur undir „menning“

Kreppuskáldskapur Grikkja

Sunnudagur, 13. ágúst 2017

Kreppan í Grikklandi hefur staðið ansi lengi og hún sverfur að. Æ meir. Hátt í helmingur barna í landinu lifir undir fátæktarmörkum. Atvinnuleysi er meira en það var í Bandaríkjunum í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Það hefur að vísu minnkað úr um 23% í um 22% undanfarið ár. Ekki veit ég hvort það er fremur vegna þess að ástandið sé eitthvað að skána, eða vegna þess hve margir hafa flutt úr landi.

Þessi kreppa hefur alið af sér þjáningar og vonleysi og það er nánast virðingarleysi við fólk að tala um hana með hugtökum úr hagfræði og pælingum um peningakerfi heimsins. Samt reyni ég kannski að segja eitthvað um þau efni næstu daga eftir því sem mín takmarkaða þekking leyfir. En ég ætla að byrja á því eina góða sem ég veit til að hafi hlotist af þrengingum Grikkja. Þær hafa alið af sér merkilegan skáldskap. (Það gerði kreppan mikla líka víða um lönd, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem Faulkner, Caldwell og Steinbeck skrifuðu magnaðar sögur.)

Ég las fyrir stuttu enska þýðingu á smásögum eftir Christos Ikonomou (Χρήστος Οικονόμου). Bókin (sem heitir Κάτι θα γίνει, θα δεις) kom út á grísku árið 2010. Enska þýðingin heitir Something Will Happen, You‘ll See. Þegar sögurnar í henni voru samdar var kreppan byrjuð, en ástandið ekki orðið neitt eins og nú. Þarna segir frá fátæku fólki sem veit ekki hvort það fær laun um næstu mánaðamót, dreymir um súkkulaði, tekur lögin í sínar hendur, þambar brennivín eða situr næturlangt fyrir dyrum úti og talar við köttinn sinn.

Ikonomou skrifar sterkar og áleitnar myndir af lífi fólks og bágindum. En hann hefur engin hrein og klár svör – gefur samt í skyn að það sé einhver skýring á ástandinu, þó það virðist óskiljanleg. Í einni sögunni segir hann t.d. að „þótt það sé ef til vill ógnvekjandi að lifa við óreiðu þá valdi það tvöfalt meiri ugg að vita, að þetta sé ekki óreiða, heldur regla og lögmál sem þú munir aldrei læra – getir ekki lært – sama hvað þú reynir.“

Það sem ég hef lesið af kreppuskáldskap Grikkja er annars mest ljóð. Mörg af þeim eru afsprengi nýlegra hreyfinga bókmenntum heimsins. Sum falla inn í hefð sem frumkvöðlar í þarlendum nútímaskáldskap mótuðu á fjórða áratugnum. Sum eru undir hefðbundnum bragarháttum.

Eitt af því sem mér sýnist einkenna þennan skáldskap er óvissa um hvað er að gerast: Eru bágindin afleiðing af einhverju sem við höfum gert eða erum við leiksoppar sem engu ráðum um eigin örlög? Er „hrunið“ efnahagslegt, eða var það sem hrundi kannski frekar skýjaborg og draumórar um að basl og strit heyrðu sögunni til – landið væri hluti af sameinaðri Evrópu þar sem velferð alþýðu væri trygg og örugg?

Ljóðin sem ég hef lesið eru, eins og sögur Ikonomou, áleitin – en lítið um lausnir. Ég held að stór hluti af kreppuskáldskapnum fyrir um 80 árum hafi verið skrifaður af talsvert kokhraustari vissu um hvað væri vitlaust við hagkerfi heimsins og hvernig ætti að kippa hlutunum í lag. En þessi grísku skáld eru líklega of menntuð til að nota slagorð og klisjur. Hvort menntun þeirra elur bara af sér upplýst úrræðaleysi eða nýja von veit ég ekki – frekar en aðrir. En þeir sem vilja magnaðan skáldskap hafa af nógu að taka.

Talsvert af ljóðagerð Grikkja síðustu ár fæst nú í enskum þýðingum t.d. í Futures: Poetry of the Greek Crisis og Austerity Measures: The New Greek Poetry. Í síðartöldu bókinni eru ljóðin líka á frummálinu. Mikið af nýlegum grískum skáldskap er líka aðgengilegt á vefsíðum eins og t.d. www.poeticanet.gr.

Hér eru krækjur í upplýsingar um bækurnar þrjár sem ég nefndi:
www.amazon.com/gp/product/B011G4DPG4
,
www.amazon.com/gp/product/1908058242/
,
www.amazon.com/gp/product/1681371146.

Kvæði Lewis Carroll um Jörmunvák

Föstudagur, 17. október 2014

Kvæði Lewis Carroll um Jörmunvák (Jabberwocky) virðist að miklu leyti merkingarleysa. Samt er það ekki innihaldslausara en svo að hægt er að þýða það á önnur mál.

Jörmunvákur

Brálegt var og breka týr
braust og slæmdist inn í kút:
Þau mímdu öll sem mergildýr
og mæmilratar grafin út.

„Á Jörmunvák þig vara skalt!
Voða býr hans tönn og kló,
og fuglinn illi Fragóbalt
og frekjudýrið Kumlagró!“

Sverðalögin lét í té,
langa vegu elti bráð,
en hvíldist undir tandur tré
og tók að hugsa þar sitt ráð.

Af stæltum hug þá styrmi fló,
stóð af glyrnum logarák,
er beljandi um burniskóg
blástur knúði Jörmunvák.

Gneistu sverði banabeð
búa gjörðu yrki stráks!
Bægslaðist til baka með
búki sviptan hausinn váks.

„Fékkstu Jörmunvákinn veitt?
Vaskur ertu drengur minn!
Lofnardaginn gnátt og gneytt
gnægtum kætir snergillinn!“

Brálegt var og breka týr
braust og slæmdist inn í kút:
Þau mímdu öll sem mergildýr
og mæmilratar grafin út.

(more…)

Brúin yfir Berjadalsá

Þriðjudagur, 30. september 2014

Rótarýhreyfingin var stofnuð í Bandaríkjunum 1905 og fagnaði því aldarafmæli árið 2005. Þegar leið að þessum tímamótum ákváðu félagar í Rótarýklúbbi Akraness að halda upp á þau. Skipuð var afmælisnefnd undir forystu Guðmundar Guðmundssonar. Hún lagði til að haldið yrði upp á afmælið með því smíða brú yfir Berjadalsá fyrir innan gljúfur. Brúnni var ætlað að auðvelda leiðina upp á Háahnjúk, sem er syðri tindur Akrafjalls, því hægt yrði að ganga upp Selbrekku og komast svo þurrum fótum yfir ána. Einnig lagði nefndin til að leiðin upp að brúnni yrði merkt. Tillögur hennar voru samþykktar og hafist handa strax um vorið.

Fyrst var látið duga að leggja til bráðbirgða planka milli árbakka. Sumum þóttu þeir heldur ómerkilegir og birtist um þá kviðlingur í Skessuhorni sem Jón Pétursson heitinn (1935–2010) setti saman. Var hann eitthvað á þessa leið:

Hægra nú mun verða’um vik
víst mun leiðin skána
Heimsins mesta hænsnaprik
hafa sett á ána.

Seinna um sumarið var smíðuð brú með handriði og lét Jón Pétursson þess getið í Skessuhorni að hún væri „hin besta smíð og klúbbnum til sóma.“ Brúin entist á annað ár en þegar sumar gekk í garð 2007 var hún orðin lúin af veðri og vindum og var því ráðist í að bæta hana. Úr varð önnur brúin sem Rótarýmenn settu þarna. Sú brotnaði þegar svellalög yfir ánni skriðu fram. Eftir að ísa leysti fauk hún svo út í veður og vind. Í lok mars 2008 ritaði Jón Pétursson um þá atburði í Skessuhorn: „Núna síðastliðinn vetur fauk brúin af ánni þarna fyrir ofan gljúfrin. Og eftir því sem ég hef komist næst liggur hún sem tannstönglar uppi á Suðurfjallinu.“

Þriðja brúin var byggð vorið 2011. Hún var tekin af ánni um haustið og borin vel upp fyrir bakkann þar sem hlaðið var á hana fargi úr stórgrýti. Því miður fórst fyrir að slá niður hæla og binda hana svo um veturinn fauk hún þrátt fyrir grjótið sem átti að halda henni. Hún lamdist við kletta og brotnaði í spón.

Rótarýmenn á Akranesi réðust í brúarsmíð í fjórða sinn sumarið 2013. Nú var vandað enn betur til verka en fyrr og smíðaðar tvær stuttar brýr og sterklegar. Borað var fyrir traustum festingum úr málmi í klett í miðri ánni. Þar tengjast brýrnar saman. Þær voru teknar upp um haustið og festar við hæla skammt frá árbakkanum. Þann 23. apríl síðastliðinn voru þær færðar á sinn stað svo menn geta gengið yfir ána fram á haust þegar brúin verður aftur tekin upp. Engin leið er að láta hana vera yfir ánni um vetur því svellalögin sem myndast yfir vatnsborðinu eiga það til skríða fram af miklum þunga.

Ágrip af þessari sögu fer hér á eftir í bundnu máli:

Fyr’nær einum áratug
eins og ríman frá mun greina
réðust menn af miklum dug
í merkilega framkvæmd eina.

Í Akrafjalli byggðu brú
– beggja vegna háir tindar –
heldur illa entist sú,
enda blésu sterkir vindar.

Æstum rómi ýlfra þar
elris hundar langar nætur.
Hvassar tuggðu tennurnar
timburgólf og brúarfætur.

Yfir hryðja dundi dimm
dró sig fram með ógnarkrafti.
Í lofti vöktu veður grimm
vargs með lund og illum kjafti.

Eftir þetta aftur var
ófært fljót á vegi manna.
Þurrar báru’ei bífurnar
sem brúnir fjallsins vildu kanna.

Svo allra handa efni’og tól
uppi í dal eitt kvöld um vorið,
nokkru fyrr en sest var sól,
seggir fengu aftur borið.

En hagleiksmanna handaverk
höfuðskepnur lítils meta.
Þó að brú sé stór og sterk
stormar hana bugað geta.

Á ýli’og þorra elfan stríð
undir svelli kletta bryður.
Ísinn þolir engin smíð
allt hann getur molað niður.

Á var brúuð enn eitt sinn
öll var smíðin vönduð betur,
– en harður er’ann heimurinn,
hlífir engu rok um vetur.

Þarna geta brostið brýr,
brotin sópast nið’r  í gilin,
þegar hnúa krepptum knýr
Kári fast á hamraþilin.

Fannst þar brotið brak um vor
sem brúin áður staðið hafði,
kurluð sprek í klettaskor
kræklótt lyng í greinar vafði.

En uppgjöf hugar- inn í -þel
ekki hleypa brúarsmiðir.
Þó flestum yrði ei um sel
aldrei haggast þeirra siðir.

Báru við upp bratta hlíð
byggðu yfir vatnsins gárum
Fjalars nóta fagra smíð,
í fjórða sinn á nokkrum árum.

Þurrum fótum fara má
fjalla- um í víðum -salnum,
því að brú er yfir á
enn á ný í Berjadalnum.

(Tilvitnanir í skrif Jóns Péturssonar eru teknar úr greininni Gljúfrabúinn og Rótarýbrúin sem birtist upphaflega 27. mars 2008 í Skessuhorni og liggur frammi á http://skessuhorn.is/skessuhorn/adsendar-greinar/nr/69820/.)

Finnski hesturinn

Þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Þjóðleikhúsið sýnir nú leikrit eftir Sirkku Peltola sem heitir Finnski hesturinn. Sviðið er heimili í sveit þar sem búskapurinn er skelfilegt basl. Hjónin, sem eru skilin, hafa ekki efni á að flytja sundur. Bóndinn á kærustu sem vinnur í banka og er næstum því fín kaupstaðardama. Þegar hún kemur í heimsókn mætir hún fyrrum eiginkonu hans og tengdamóður sem er gömul heldur orðljót kerling. Á bænum eru líka uppkominn sonur og dóttir á grunnskólaaldri.

Í fyrstu senunni segir bóndasonurinn, sem á sér þann draum að eignast stórt mótorhjól, föður sínum frá leið út úr baslinu: Mafían er til í að kaupa hross til slátrunar. Þeir ákveða að fórna Grána gamla og nokkrum bikkjum af næstu bæjum. Peningarnir skila sér og pilturinn kaupir Harley Davidson en vörubíllinn með hrossunum ekur út af, gripirnir komast aldrei til skila og mafían vill fá peningana aftur. Þetta er upphafið að atburðarás sem endar með því að kerlingin gamla drepst án þess að eiga fyrir útför sinni, húsið hrynur og býlinu er synjað um styrkina sem fjölskyldan lifir á vegna þess að tilskildum skýrslum hefur ekki verið skilað. Þegar tjaldið fellur er tilvera fólksins ein rjúkandi rúst.

Það er hægt að horfa á þetta sem skrípaleik. Kerlingin gamla, sem er leikinn af Ólafíu Hrönn, sér um það, alveg fram í andlátið, að láta áhorfendur hlæja þótt gamanið sé heldur grátt. En það er líka hægt að horfa á leikritið sem harmleik – og sem innlegg í umræðu um Evrópusamband og Alþjóðavæðingu. Þegar það var frumsýnt í Helsinki árið 2004 höfðu Finnar verið tæpan áratug í Evrópusambandinu og aðildin haft talsvert mikil áhrif á landbúnað þeirra.

Feðgarnir í Finnska hestinum sjá tækifæri í viðskiptum við ítölsku mafíuna og sem leikritinu vindur fram verður ljóst að hokur þeirra er hætt að snúast um að nýta landgæði og þekkingu sína á þeim. Allt gengur út á að laga sig að kenjum framandi afla, einkum regluverki Evrópusambandsins. Við þessar aðstæður verður allt sem fólkið raunverulega kann og skilur einskis virði. Fólkið á bænum breytist í viðundur, ekki vegna þess að það skorti vit, heldur vegna þess að raunverulegir vitsmunir eru næsta haldlausir í sveit sem er fjarstýrt utan úr buskanum.

Textinn er öðrum þræði gagnrýni á Evrópusambandið en öðrum þræði líka athyglisverð pæling um hvernig fólk getur orðið rótlaust í eigin heimahögum þegar lífsbaráttan fer að lúta framandlegum leikreglum og raunveruleg búhyggindi hætta að gefa nokkuð í aðra hönd.

Þetta er merkilegt leikrit. Þeir sem vilja hlæja í leikhúsi geta hlegið að því. Það er líka hægt að gráta yfir harmleik fjölskyldu sem tapar öllu sínu. Þeir sem vilja pælingar um stjórnmál, alþjóðavæðingu og Evrópusamband fá líka sinn skammt. Ég væri sjálfur alveg til í að horfa á það í annað sinn.

Ritdómur

Sunnudagur, 3. október 2010

Í nýjasta hefti Þjóðmála (6. árg. 3. hefði bls. 85–93) er ritdómur eftir mig um bókina Eilífðarvélin – Uppgjör við nýfrjálshyggjuna sem Háskólaútgáfan sendi frá sér fyrr á þessu ári. Textinn liggur hér frammi

Krít og Gorgónan sem var systir Alexanders mikla

Mánudagur, 2. ágúst 2010

Í ævintýri eftir Andreas Karkavítsas (Ανδρέας Καρκαβίτσας, 1865–1922) segir frá Gorgónunni, systur Alexanders mikla. Hún lifir í hafinu, er útlits sem hafmeyja, birtist sjómönnum og spyr þá:

Sjóari góður segðu mér frá, er Alexander konungur einhvers staðar lífs?

Söguhetjan í ævintýrinu er ungur sjóari. Hann áttar sig ekki strax og umlar einhver óljós orð um að tími Alexanders sé löngu liðinn en segir þó ekki berum orðum að hann sé dauður. 

Við svar hans tekur hin sporðfætta mær hamskiptum og verður að illilegum kíklópa. Sjórinn ókyrrist af bægslagangi hans og bræði. Þá áttar piltur sig og man eftir sögum af Gorgónunni sem spyr um bróður sinn. Hann bjargar sér og skipinu á síðustu stundu með því að svara:

Lifir og ríkir sem lávarður heims.

Við þetta svar fékk Gorgónan aftur sína fögru ásýnd og öldurnar stilltust. Á gullfallegu máli Andreasar er svar piltsins á þessa leið með rími í áhersluatkvæðum: Ζει και βασιλεύει και τον κόσμο κυριεύει (frb. Zi ke vasilevi ke ton kosmo kirievi).

Í skáldsögunni um Mikael kaftein (Καπετάν Μιχάλης – ensk þýðing kallast Freedom and Death) sem út kom árið 1950 vísar Nikos Kazantzakis (Νίκος Καζαντζάκης, 1883–1957) í þessa sögu af Gorgónunni. Hetjan Mikael, sem berst gegn yfirráðum Tyrkja  á Krít á seinni hluta 19. segir um land sitt að það sé ekki eyja heldur lifandi vera, Gorgónan systir Alexanders mikla, vættur sem engist í sjónum. Á öðrum stað í sögunni gerir Mikael athugasemd við hlátur nágranna síns og segist munu hlæja þegar Krít verður frjáls því þá slái hjart sitt frjálst.

Þessi tvenn ummæli söguhetjunnar eru hluti af prósa en þau eru samt sungin við lag eftir tónskáldið Manos Hgatziðakis (Μάνος Χατζιδάκις,  1925 – 1994) sem varð vinsælt í flutningi Nönu Múskúri (Nάνα Μούσκουρη, f. 1934).

Hér flytur Nana lag Hgatziðakis. Á undan söngnum rifjar hún upp söguna af Gorgónunni og hefur hana svolítið öðru vísi en í ævintýri Andreasar Karkavítsas. Upptakan var gerð af BBC árið 1973.

Krítverskar rímur

Sunnudagur, 1. ágúst 2010

Krít og Ísland eru um sumt andstæður. Önnur eyjan er norðvestast hin suðaustast í Evrópu. Önnur er „álfu vorrar yngsta land“ en hin á sér lengri sögu en flestar mannabyggðir. Íbúar þessara landa eiga það þó sammerkt að kveða rímur.

Rímnakveðskapur Krítverja kallast mantinaðes (μαντινάδες) og er vinsæll meðal alþýðu rétt eins og ferskeytlur á Íslandi.

Í krítverskum rímum er hvert erindi tvö 15 atkvæða vísuorð. Menn kasta fram lausavísum en kveða líka eða kyrja langar sögur undir þessum hætti.

Hefti með vinsælum vísum fást víða í söluturnum á Krít og algengt verð á slíkum prentgripum er þrjár evrur. Mættu íslenskar vegasjoppur taka þetta til fyrirmyndar.

Hér er dæmi um krítverska lausavísu:

Λαός που την παράδοση ξεχνά και δεν θυμάται
στο λήθαργο του μαρασμού παντοτινά κοιμάται

Þetta er borið fram nokkurn veginn svona:

Laos pú tin paraðosi kseghna ke ðen þímate
sto liþargo tú marasmú pantotína kímate

Kommurnar í grísku ritmáli eru áherslumerki en áhersla er ævinlega á einu af þrem síðustu atkvæðum í orði. Í umrituninni eru sérhljóðar sem bera áherslu feitletraðir.

Þýðing orðanna er hér innan sviga: Λαός (þjóð) που (sem) την παράδοση (hefðinni) ξεχνά (gleymir) και (og) δεν (ekki) θυμάται (man) στο (í) λήθαργο (doða) του μαρασμού (hnignunarinnar) παντοτινά (alla tíð) κοιμάται (sefur).

Bækur síðasta árs

Laugardagur, 16. janúar 2010

Ég eignaðist nokkrar nýjar íslenskar bækur um jólin og nokkrar náði ég í á bókasafni eftir jól. Sumar þeirra þykja mér ansi góðar eins og til dæmis söguleg skáldsaga Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu. Þarna lifnar við heimur norrænna manna á Suðureyjum, Mön og Írlandi. Vilborg virðist hafa aflað sér mikillar þekkingar á lífi Kelta og innrásarmanna frá Norðurlöndum á 9. öld.

Ég bjóst svo sem við að Auður væri flott skáldsaga þegar ég tók hana með mér heim af bókasafninu og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Hins vegar vissi ég ekki við hverju ég átti að búast af Hlín Agnarsdóttur. Ég hafði aldrei lesið neitt eftir hana en vissi að hún var annar tveggja höfunda leikritsins Láttu ekki deigan síga, Guðmundur sem er með því fyndnasta sem ég hef séð á sviði svo ég tók skáldsögu hennar Blómin frá Maó með mér af safninu í byrjun þessarar viku. Sú bók er virkilega góð skemmtun.

Blómin frá Maó er sumu leyti svipað uppgjör við róttækni frá 8. áratugnum eins og leikritið um Guðmund. Fyrir þá sem muna eftir EIK-ML og KSML er margt í bók Hlínar óborganlega fyndið – enda er í sjálfu sér hlægilegt að hugsa til þess hvernig fáeinir úlpuklæddir fylgismenn Mao Zedong og Enver Hoxha voru þess fullvissir að þeir væru í þann mund að ná landinu undir sig og gera hér byltingu. Þrátt fyrir háðið missir Hlín sig ekki í tómhyggju, kaldhæðni eða innantóm sniðugheit. Milli línanna er samúð með fólki sem er leitandi og kannski um leið dálítið ráðvillt. Fyrir þá sem ekki muna þessa tíma hugsa ég að bók Hlínar sé ekki síður fróðleg en fyndin.

Önnur bók sem kom mér skemmtilega á óvart er ljóðabókin Hundgá úr annarri sveit eftir Eyþór Árnason. Um góð ljóð er stundum lítið hægt að segja svo ég held ég hafi engar málalengingar um þessa ljóðabók en mæli bara með henni við alla sem á annað borð hafa vit á að lesa ljóð. Aðrar nýjar ljóðbækur sem ég leit í komu mér svo sem ekki beint á óvart. Ég vissi nokkurn vegin hvað væri að finna í safni Ingibjargar Haraldsdóttur. Hún er eitt af bestu ljóðskáldum samtímans hér á landi. Þýðingarnar aftast í Ljóðasafni hennar, sem kom út á síðasta ári, hafði ég ekki áður lesið nema fáeinar og ég held að þær séu mjög merkilegar og ætla að lesa þær aftur við tækifæri.

Ég hef lítið lesið af kveðskap Matthíasar Johannessen en þar sem mér var gefin nýja bókin hans, Vegur minn til þín, las ég hana og þótti talsvert varið í hana. Sum ljóðin raunar mjög heillandi.

Hér hef ég nefnt nokkrar skruddur sem mér þótti varið í. Um aðrar vildi ég skrifa lengra mál eins og þær tvær sem ég hafði mesta ánægju af að lesa. Önnur þeirra er bók Bjarna, Svo skal dansa, sem segir sögu ömmu okkar, langömmu og langalangömmu. Hin er gersemin Grikkland ár og síð sem kom fyrst út 1991 en var nú endurútgefin.

*

Sumt annað sem ég las var ekki eins gott. Einhverju af því henti ég frá mér hálflesnu. En ég þrælaðist í gegnum alla Ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson þótt mér þætti hún heldur léleg. Hún er lítið annað en endursögn á Sturlungu og hefur sama galla og Sturlunga, sem er að lesandi sér ekki skóginn fyrir trjánum – smáatriðum ægir saman svo aðalatriðin í valdabaráttu höfðingjanna verða ekki ljós. Það ætti þó að vera hægt að sjá atburði 13. aldar úr meiri fjarlægð nú en þegar Sturla Þórðarson skrifaði um þá. Ég hugsa að lesandi sem ekki þekkir Sturlungu eigi erfitt með að halda þræði í frásögn Óskars. Sá sem þekkir Sturlungu finnur fátt nýtt í henni.

Stílinn á bókinni er í þokkalegu lagi en ekkert meira en það og Óskari tekst ekki að draga upp mynd af Snorra þannig að lesandi kynnist honum sem persónu. Hann er jafn andlitslaus og óræður og í Sturlungu.

Þjóðfundurinn

Fimmtudagur, 19. nóvember 2009

Í gær las ég listann yfir gildi sem birtur var með niðurstöðum „þjóðfundar“. Þar er heiðarleiki efstur á blaði og jafnrétti, virðing, réttlæti og ábyrgð líka ofarlega.

Það sem mér finnst mest áberandi á þessum lista er ekki það sem stendur á honum, heldur það sem vantar. Þar er hvorki hófsemi né hógværð.

Getur verið að þjóðfundur hafi talið upp gildin sem hafa í raun verið höfð mestum í hávegum hér landi fremur en þau sem við þyrftum að leggja meiri áherslu á hér eftir en hingað til?

Með þessari spurningu er ég alls ekki að gera lítið úr þeim gildum sem þjóðfundurinn kom sér saman um. Þau eru öll mikils virði. En ég held samt að það sem fór aflaga hér síðustu ár megi að verulegu leyti skrifa á reikning óhófs og hroka. Þessar andstæður hófseminnar og hógværðarinnar eru kannski okkar versta þjóðarskömm.  

Ef listi þjóðfundar endurspeglar ríkjandi gildismat þá bendir hann ef til vill til þess að landsmenn eigi enn eftir að læra sína lexíu.

Skírnir - vor 2009: Grein eftir Stefán Snævarr

Mánudagur, 25. maí 2009

Ein af fjórum kreppugreinum í nýjasta Skírni er eftir Stefán Snævarr. Hún heitir Frjálshyggjan, sjöunda plága Íslands: Hannesi svarað, Þorvaldur áminntur og er, a.m.k. öðrum þræði, svar við grein sem Hannes Gissurarson skrifaði í hausthefti Skírnis á síðasta ári.

Grein Stefáns er nokkuð ólík öðru sem skrifað er í þetta gamla og virðulega tímarit. Hann lætur vaða á súðum og hefur uppi stór orð og mér þóttu skrif hans minna dálítið á Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson (sjá færslu frá 4. júní 2007).

Að sumu leyti er skemmtilegt hvað Sefáni er mikið niðri fyrir og hvað hann reiðir stundum hátt til höggs. Sumt í stíl hans kann ég þó ekki við eins og þegar hann gerir andstæðingum sínum upp einhverjar hálftrúarlegar grillur og talar hálft í hvoru niður til þeirra þar sem hann lýsir skoðunum þeirra með orðasamböndum eins og „hinni ginnhelgu frjálshyggju“, „hinni helgu Ameríku“, „hinu vonda velferðarríki“. (Þessi þrjú dæmi eru öll af fyrstu tveim síðum greinarinnar.)

Kenning Stefáns er einkum sú að frjálshyggja sé plága. Lokaorð greinarinnar eru: „Kominn er tími á alvarlegt uppgjör við frjálshyggjuna. Hún er sjöunda plága Íslands, þjóðin er komin á kaldan klaka vegna ofurtrúar á markaðinn.“

*

Nú er orðið frjálshyggja notað um nokkuð sundurleitt safn hugmynda og kenninga. Það er álíka hæpið að setja alla frjálshyggju undir einn hatt eins og að setja allan sósíalisma undir einn hatt. En Stefán hirðir ekkert um að segja hvers konar frjálshyggja það er sem hefur leikið Íslendinga svo grátt. Hann segir heldur ekkert um hverjar hinar sex plágurnar voru. Ef hann er að jafna frjálshyggju við svartadauða og móðuharðindi finnst mér að hann mætti alveg láta fylgja einhver gögn um hve stór hluti þjóðarinnar lét lífið af hennar völdum.

Þau slitur af rökum sem hægt er að finna í grein Stefáns eru einkum af tvennu tagi. Annars vegar tínir hann upp hugmyndir frá fólki sem hann kallar einu nafni frjálshyggjumenn, steypir þeim saman og lætur sem allt það hugmyndafarg hafi valtað yfir mannlífið á einu bretti. Hins vegar hendir hann á lofti samanburð Hannesar á Evrópu og Bandaríkjunum og reynir að sýna fram á að ekki sé eins gott að búa í Vesturheimi og Hannes vildi vera láta.

Fyrri rökin eru skelfilegt sullumbull hjá honum svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þau eru álíka gáfuleg eins og ef reynt væri að færa rök gegn jafnaðarstefnu, eða sósíalisma, með því að tína upp eina fullyrðingu frá Karli Marx og aðra frá Kastró og þá þriðju frá Olof Palme og klastra svo utan á þetta einhverju rugli eftir Maó formann, Kim Il Sung, Einar Olgeirsson, Lacan, Žižek og Helga Hóseason – benda svo á óskapnaðinn og býsnast yfir því hvað mennirnir séu mikil fífl að halda þessu öllu saman fram. Gallinn við svona málflutning væri auðvitað að enginn einn maður er sammála öllum þessum söfnuði. Þótt mennirnir sem ég nefndi séu allir sósíalistar hafa þeir afar ólíkar skoðanir. Að benda á að þeir hafi haldið fram ýmsum grillum og vitleysum er ekki tæk rök gegn sósíalisma almennt og yfirleitt og það væri heldur ekki málefnalegt innlegg í umræðu um það sem vinstri stjórnirnar í Noregi og á Íslandi eru að bauka um þessar mundir – svo einhver dæmi séu tekin.

Grein Stefáns hefði verið betri ef hann hefði tilgreint einhver dæmi um frjálshyggjuleg úrræði sem hafa leitt til ófarnaðar hér á landi – hefði hann til dæmis reynt að rökstyðja að hér væri allt ein rjúkandi rúst út af  fjölgun einkarekinna háskóla, frjálsu framsali aflaheimilda (sem var reyndar ákveðið af vinstristjórn sem hér sat undir lok níunda áratugarins en er samt mörgum frjálshyggjumönnum vel þóknanlegt), tiltölulega flötum tekjuskatti eða fríverslun við Færeyjar.

Kannski heldur Stefán að bankakreppan sé afleiðing af einhvers konar frjálshyggju en það verður ekki ráðið af skrifum hans, því hann sullar öllu saman og segir fyrir vikið ekkert nógu skýrt og ákveðið til að hægt sé að finna rök með því eða á móti.

Um tengsl frjálshyggjuhagfræði og yfirstandandi bankakreppu er margt óljóst, að minnsta kosti enn sem komið er. Sumir menn sem eru vel að sér um bankamál, eins og Ragnar Önundarson, hafa bent á ástæður til að ætla að meiri ríkisafskipti (og minni frjálshyggja) hefðu verið til bóta. Aðrir hafa bent á að sumar af rótum vandans hefðu vart komið til ef eindregnari frjálshyggja hefði ráðið ríkum. Hér er einkum bent á ríkisumsvif á borð við niðurgreidd húsnæðislán úr opinberum sjóðum, einkum í Bandaríkjunum, og hvernig ríkið tryggir innistæður á bankareikningum og dregur þannig úr hvata bankamanna til að sýna aðgát.

*

Seinni rökum Stefáns er beint gegn Hannesi Gissurarsyni, sem sagði í sinni Skírnisgrein að hagvöxtur væri meiri í Bandaríkjunum en í Svíþjóð og lét að því liggja að betra væri að búa þar vestur frá. Ekki dettur mér í hug að ég geti alhæft um í hvoru þessara landa er betra að eiga heima. Í þeim báðum er lífskjör talsvert betri en þau sem þorri mannkyns býr við. Hins vegar þykist ég geta fullyrt að það sé hrein þvæla að stilla Bandaríkjunum upp sem dæmi um land þar sem frjálshyggja er ríkjandi og Svíþjóð sem dæmi um stjórnarhætti sem eru andstæðir frjálshyggju. Þetta tekur Stefán samt gagnrýnislaust upp frá Hannesi en  reynir að snúa samanburðinum við og sýna að þegar öllu er á botninn hvolft hafi Svíar það betra en Kanar. Mér hefði þótt gáfulegra að benda á hvað svona samanburður er í raun hæpinn heimild um kosti eða galla frjálshyggju.

Ef frjálshyggja er sú stefna að tryggja öllum sömu lagaleg réttindi, banna mönnum fátt, hafa lága og flata skatta, lítil ríkisafskipti af efnahagslífi, réttarríki þar sem mannréttindi eru virt og eignarréttur er friðhelgur og reyna að finna markaðslausnir á fleiri samfélagsvandamálum þá eru samfélagshættir bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð að nokkru snúnir úr frjálshyggju og að nokkru af allt öðru vísi þáttum.

Sé betra að lifa í öðru landinu en hinu þá getur það eins verið vegna þessara annarra þátta eins og vegna mismikillar frjálshyggju.

Það er mikil einföldun að halda því fram að jafnaðarstefna sé ríkjandi í Evrópu en frjálshyggja í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn ganga býsna langt í „jákvæðri mismunun“ (t.d. í menntakerfinu), niðurgreiðslum og styrkjum til sumra atvinnugreina, byggðastefnu, stighækkandi sköttum, reglum um eignarhald á fyrirtækjum, opinberu eftirliti með atvinnulífi, ríkisafskiptum af einkalífi fólks o.fl. sem rímar illa við a.m.k. sumar gerðir frjálshyggju.

Sænskt hagkerfi einkennist af einkaeign á framleiðslutækjum og samkeppni á markaði ekki síður en það bandaríska og sænskar stjórnsýsluhefðir mótuðust að verulegu leyti meðan frjálshyggjumenn höfðu undirtökin í stjórnmálum þar í landi. Sannleikurinn er sá að frjálshyggja er sterk, en samt langt frá því að vera neitt allsráðandi, bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð.

Meðan kommúnistar stjórnuðu Austur-Evrópu var skárra (á flesta mælikvarða) að búa í Búlgaríu en í Rúmeníu, skárra að vera í Júgóslavíu en Albaníu svo einhver dæmi séu nefnd. Fræðimaður sem reyndi að skýra þennan mun með því að skipa löndunum í röð eftir því hvað kommúnistar réðu miklu fengi tæpast háa einkunn. Hann væri sekur um ofureinföldun og bjánalega reglustikuhugsun. Ólíkar menningarhefðir, sögulegar hendingar, ólíkar myndir þjóðrækni og þjóðernisstefnu, misjafnlega þróuð menntakerfi og margt fleira höfðu líka sitt að segja.

Að raða lýðræðisríkjum upp á einn kvarða eftir því hvort þar er meiri eða minni frjálshyggja og halda að það skýri mismuninn á kjörum fólks er líka reglustikuhugsun af bjánalegustu gerð og vonandi láta þeir sem vilja að fólk fái notið frelsis svoleiðis hundakúnstir ekki slá sig út af laginu.