Færslur undir „Ljóð“

Sköpunin

Sunnudagur, 27. október 2013

Ljóðabókin Verðugt er (Άξιον Εστί) sem kom út árið 1959 er þekktasta verk gríska ljóðskáldsins Oðýsseas Elytis. Ljóðið sem hér fer á eftir er upphaf fyrsta hluta sem kallast Sköpunin eða Tilurðin (Η Γένεσις).

Sköpunin

Í UPPHAFI var ljósið og fyrsta stundin
þegar varirnar ennþá í leirnum
brögðuðu á veraldar vegum
Blóðið var grænt og laukar í gullinni jörð
Í svefni sínum breiddi undursamleg hafaldan
út himinsins glitrandi blæjur
undir Jóhannesartrjám og háum beinvöxnum pálmum
Þar mætti ég
heiminum einn
og ég volaði og grét
Sála mín leitaði Merkisbera og Sendiboða
  Ég man að þá sá ég
Svörtu Konurnar þrjár
lyfta höndum mót austri
Gullnar á hrygginn og smám saman hvarf burtu
skýið sem skildu þær eftir
til hægri Og jurtir með framandlegt útlit
Það var sólin með möndul sinn inni í mér
og óskiptan fjölda af geislum sem kallaði Og
sá sem ég var að sönnu sá sem ég var fyrir fjölmörgum öldum
sá sem er ennþá í eldinum ferskur og grænn og ekki skorinn frá himni
Ég fann að hann kom og beygði sig
yfir vöggu mín sjálfs
minning sem orðin að nútíð
tók málróm frá bárum og trjám:
„Þitt boðorð er“ heyrði ég mælt „þessi heimur
það er skrifað í iður þín sjálfs
Lestu og legðu þig fram
þú skalt berjast“ var mælt
„Vopnist nú allir“ var mælt
Og hann var eins og ungur Guð sem enn er að læra
þegar hann breiddi út faðminn og skapaði þjáningu og fögnuð í senn.
Fyrst drógust naglarnir úr með afli
hátt uppi á veggnum svo féllu þær niður
Axirnar Sjö
rétt eins og stormur
í upphafi vega þar sem fugl allt frá byrjun
ilmar að nýju svo vel
sneri blóðið hreint til síns heima
og ófreskjur tóku á sig mannlega mynd
  Svo auðsætt hið óskiljanlega
 Þá komu líka allir vindarnir úr ætt minni
drengirnir með útblásnu kinnarnar
og breiðan grænan afturenda eins og á hafmeyjum
og aðrir fornir öldungar sem ég þekkti
með skeljahúð og vaxnir skeggi
Og þeir skiptu skýinu í tvo hluta og síðan í fjóra
og blésu í norður því litla sem eftir leifði
Stoltur gekk Turninn mikli á breiðum fæti í vatnið
Sjóndeildarhringurinn ljómandi lína
svo sýnileg og þykk og óyfirstíganleg

ÞESSI sálmur hinn fyrsti.

Þessi ljóðabálkur er einhvers konar sálmur um Grikkland og stundum óljóst hvort ljóðmælandinn er skáldið eða land þess.

Þegar í þessu fyrsta ljóði bókarinnar kemur fram að mælandinn er í senn maður sem byrjaði ævina sem smábarn og einhver sem hefur verið til í margar aldir.

Sennilega vísar Elytis í eigið upphaf þegar hann nefnir axirnar sjö en hverfið í Heraklion á Krít þar sem hann fæddist var nefnt eftir sjö öxum sem héngu á austurmúr borgarinnar. Tyrknesk yfirvöld komu þeim þar fyrir og þær áttu að tákna sjö herdeildir sem unnu borgina 1669. Árið 1912, skömmu eftir fæðingu Elytis, sameinaðist Krít gríska ríkinu og þessar axir voru teknar niður af veggnum.

Turninn mikli sem er nefndur undir lok ljóðsins er trúlega feneyska virkið við höfnina í Heraklion.

(more…)

Óður númer 4 úr Αξιον Εστί eftir Elytis

Sunnudagur, 1. september 2013

Óður númer 4 úr Verðugt er (Αξιον Εστί) eftir Odysseas Elytis (Οδυσσέας Ελύτης)

Svala ein * og yndi vorsins
aftur til að snúi sól * er æði mikið verk að vinna
þurfa af þeim sem eru dauðir * þúsundir að knýja hjól
þörf er líka lifendanna * að láti þeir í té sitt blóð.

Ó, þú guð minn Yfirsmiður * inn í fjöllin byggt mig hefur
Ó, þú guð minn Yfirsmiður * læstir mig í hafsins faðm!

Maí er heygður * líki liðnu
legstað úti á hafi bjuggu * galdrakarlar gerðu lokað
grafhýsi í djúpum brunni * þar sem allt til hinstu botna
ilma myrkur * ilma hyljir.

Ó, þú guð minn Yfirsmiður * þú ert inn um liljur vorsins
Ó, þú guð minn Yfirsmiður * upprisunnar angan kennir.

Hrærist eins og * sæðisfruma
titri inni í myrkum kviði * minninganna skorkvikindi
skelfilegt í iðrum jarðar * sem köngurvofa kroppar ljósið
birtan skín í flæðarmáli * bliki slær á hafsins flöt.

Ó, þú guð minn Yfirsmiður * girt mig hefur ströndum sævar
Ó, þú guð minn Yfirsmiður * að undirstöðum gafst mér fjöllin!

Upphafsorð ljóðsins vísa trúlega í 7. kafla fyrstu bókar í Siðfræði Níkomakkosar eftir Aristóteles þar sem segir (í þýðingu Svavars Hrafns Svavarssonar) „[Þ]að vorar ekki með einni svölu eða einum blíðskapardegi. Á sama hátt verður maður ekki sæll eða farsæll á einum degi eða skömmum tíma.“ Þessi ummæli Aristótelesar eru þekktari en svo að hægt sé að nefna svölur og vor í sama vísuorði án þess að þau komi lesendum í hug. Það er eins og Elytis neiti því sem Aristóteles heldur fram og þótt það sé ósagt í ljóðinu liggur ef til vill milli línanna að hægt sé að öðlast farsæld á einum degi.

Yfirsmiðurinn (Πρωτομάστορας) vísar í þjóðsögu um brúarsmið í borginni Arta í vestanverðu Grikklandi. Eftir því sem sagan segir átti Yfirsmiðurinn að stjórna brúarbyggingu en á hverri nóttu hrundu undirstöðurnar sem reistar voru daginn áður. Á þessu gekk uns fugl með mannsrödd upplýsti að brúin mundi ekki standa nema Yfirsmiðurinn fórnaði konu sinni. Hún var því grafin lifandi í undirstöðum brúarinnar.

Ég birti áður þýðingu á þessu ljóði í október 2011 en ákvað nú að breyta henni.

(more…)

Dauði Byrons eftir Georgios Drosinis

Laugardagur, 10. desember 2011

Byron lávarður (1788 – 1824) var bæði með helstu skáldum og frægustu persónugervingum rómantísku stefnunnar á sínum tíma. Hann endaði ævina á sóttarsæng í Grikklandi en þangað fór hann til að styðja Grikki í frelsisstríðinu gegn Tyrkjaveldi.

Byron aflaði sjálfstæðisbaráttu Grikkja fylgis meðal rómantískra menntamanna í heimalandi sínu, Englandi, og víðar í Evrópu og varð þjóðhetja hjá Grikkjum.

Allmörg grísk skáld hafa ort um Byron. Má þar frægastan telja Dionysios Solomos (Διονύσιος Σολωμός, 1798 – 1857) sem einnig er höfundur gríska þjóðsöngsins. Eitt af hans þekktustu verkum er langur bálkur um dauða Byrons. Annað velþekkt ljóð um sama efni er Dauði Byrons eftir Georgios Drosinis (Γεώργιος Δροσίνης, 1859–1951).

Dauði Byrons

Hvers leitaðir þú svanur hér á söndum
við seyrublandin fen og vatnalendur
hvar hafa vetursetu í sólarlöndum
svarleit gæsakyn og villtar endur?

Þú norðangestur heillað hafðir lýði,
en heillast lést af brúði sem við frelsi
er kennd þó innan virkisveggja skrýði
vatnadís þá stríðsklæðanna helsi.

Svanur hvíti að erni verða vildi,
og veita lið með ógnarklóm í hildi;
en banvæn ofdirfð var það slíkri veru …
Og vorið kom og fuglar aftur sneru,
þeir flugu sína leið til heimalanda,
líkfylgd hvítum svani norðurstranda …

Á Grikklandi eru farfuglarnir flestir vetrargestir og fara aftur heim til sín í norður þegar vora tekur. 

(more…)

Enn eitt ljóð eftir Elytis

Sunnudagur, 25. september 2011

Hér fer á eftir þýðing á fjórða ljóðinu úr Hetjusöng og harmaljóði um flokksforingjann sem fórst í Albaníu eftir Oðysseas Elytis, en sú bók kom út árið 1946.

Hann liggur nú ofan á skorpnuðum hermannafrakka
með gust sem hefur staðnæmst í kyrru hári
með grein af meiði gleymskunnar í vinstra eyra
líkur garði sem fuglarnir hafa skyndilega yfirgefið
líkur söng sem er keflaður í myrkrinu
líkur englaklukku sem stöðvaðist
þegar augnhárin sögðu „sæll og bless“
og undrunin varð að steini …

Hann liggur ofan á skorpnuðum hermannafrakka.
Í kringum hann gjamma myrkar aldir
með beinagrindum hunda að hræðilegri þögninni
og stundirnar sem aftur urðu að steindúfum
hlusta vandlega eftir;
Þótt brosið sviðnaði og jörðin yrði heyrnarlaus
þótt enginn heyrði það hinsta hróp
tæmdist veröld öll við hinsta hróp.

Undir fimm sedrusviðartrjám
án annarra kerta
liggur hann á skorpnuðum hermannafrakka;
Hjálmurinn tómur, gruggað blóðið
hálfur handleggur hjá
og milli augnabrúnanna —
lítill beiskur brunnur, fingrafar örlaganna
lítill beiskur dumbrauður brunnur
brunnur þar sem minningarnar kólna!

Æ lítið ekki á æ lítið ekki á hvar frá honum
hvar lífið flúði frá honum. Ekki segja
ekki segja hve reykurinn steig hátt upp af draumnum
þannig eitt augnablik, þannig eitt
þannig skilur eitt augnablik sig frá öðru
og ódauðleg sólin í skyndi frá mannanna heimi!

(more…)

Óður númer 5 úr Αξιον Εστί eftir Elytis

Laugardagur, 24. september 2011

Óður númer 5 úr Verðugt er (Αξιον Εστί) eftir Odysseas Elytis (Οδυσσέας Ελύτης)

Með lukt úr ljósi stjarna, ég leitaði til himna,
út á svölum engjum, á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Brúðarlaufi mæddu, silfruðu af svefni,
ýrðu mér um andlit, einn ég geng og blæs,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Þú sem stýrir geislum, rekkjugaldrakarlinn,
svikahrappur vitandi um seinni tíma, seg mér
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Í stúlkum mínum sitja sorgir heilla alda,
með riffla mínir piltar en vita ekki samt
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Hundraðhentar nætur í himinhveli víðu
erta mig í iðrum, undan sviðinn kvelur,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Með lukt úr ljósi stjarna, ég geng um himingeima,
út á svölu engin, á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

(more…)

Eitt af síðustu ljóðum Kavafis

Fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Eftirfarandi er lengsta ljóð Kavafis og eitt af þeim síðustu sem hann birti.

Myris – Alexandríu 340 e. Kr.

Þegar mér barst sú skelfilega frétt að Myris væri dáinn
fór ég heim til hans þótt ég forðist annars
að koma á heimili kristinna manna,
sérstaklega þegar þeir syrgja eða halda hátíðir.

Ég stóð á ganginum – kærði mig ekki um
að koma lengra inn því ég fann
að ættingjar þess látna horfðu á mig
með furðusvip og augljósri vanþóknun.

Þeir höfðu komið honum fyrir í stóru herbergi
og frá enda gangsins þar sem ég stóð var hægt
að sjá inn í hluta þess, allt lagt dýrum teppum
og pottar og kirnur úr silfri og gulli.

Ég stóð og grét í enda gangsins
og hugsaði um allar samkomur okkar og ferðir,
hvað þær yrðu lítils virði hér eftir, án Myrisar,
og ég hugsaði um að ég sæi hann aldrei framar
á dásamlegu og lostasömu næturgöltri okkar,
fagnandi, hlæjandi og mælandi fram vísur
með fullkominni tilfinningu fyrir hellenskri hrynjandi;
og ég hugsaði um hvað væri að eilífu glatað,
að fegurð hans væri að eilífu glötuð
þess unga manns sem ég tilbað af þvílíkum ofsa.

Rétt hjá mér voru gamlar kerlingar sem töluðu
í hálfum hljóðum um síðustu dagana sem hann lifði –
stöðugt með nafn Krists á vörum
og greiparnar spenntar um krossinn. –
Svo komu fjórir kristnir prestar
inn í herbergið og þuldu bænir
af tilfinningahita og ákölluðu Jesú
eða Maríu (ég veit ekki mikið um trú þeirra).

Við vissum auðvitað að Myris var kristinn.
Okkur var raunar kunnugt um það frá því fyrsta
þegar hann gekk í hóp okkar í hitteðfyrra.
En hann lifði að öllu leyti eins og við,
mesti nautnaseggurinn af okkur öllum;
sóaði peningum sínum óspart í skemmtanir.
Hann lét sig einu gilda hvað fólki fannst
og þegar hópurinn rakst fyrir tilviljun
á fjandsamleg gengi hellti hann sér
af ákafa í óeirðir næturinnar.
Hann talaði aldrei um trú sína.
Reyndar sögðumst við einu sinni
ætla að taka hann með okkur í Serapion.
Ég man það nú að það var eins og honum
líkaði ekki að við værum að gantast með þetta.
Og núna koma tvö önnur skipti líka upp í hugann:
Þegar við færðum Póseidoni dreypifórn
vék hann afsíðis og leit undan;
Þegar einn okkar sagði með ákefð: Megi
félagsskapur okkar njóta verndar og velþóknunar
hins alfagra Apollons – þá hvíslaði Myris
(hinir heyrðu það ekki) „að mér undanskildum.“

Kristnu prestarnir báðu hárri röddu
fyrir sál hins unga manns. –
Ég fylgdist með hve vandlega
og af hvílíkri kostgæfni þeir gættu þess
að fylgja helgisiðum trúar sinnar
þar sem þeir undirbjuggu kristilega útför.
Og ég var skyndilega altekinn kynlegri
tilfinningu. Með óljósum hætti fannst mér
eins og Myris hyrfi úr návist minni;
Mér fannst eins og sá kristni sameinaðist
sínum eigin og ég yrði framandi, algerlega framandi;
Mér þótti líka einhver vafi lykjast um mig:
Hafði ég ef til vill látið blekkjast af ástríðu minni
og alltaf verið honum framandi. –
Ég þaut út úr þessu skelfilega húsi, flýtti mér burt
áður en kristindómur þeirra hrifsaði til sín
og afskræmdi minninguna um Myris.

Serapion var hof sem Ptolemaeus þriðji lét byggja á þriðju öld fyrir Krist. Það var stærst allra grískra helgistaða í Alexandríu og helgað guðinum Serapis sem talinn var verndari borgarinnar.

(more…)

Ljóð úr Axion Estí

Þriðjudagur, 21. september 2010

Hér fer á eftir tilraun til að þýða annað ljóðið í miðhluta ljóðabálksins Verðugt er (Αξιον Εστί) eftir Odysseas Elytis  (Οδυσσέας Ελύτης,  1911 –1996).

Gáfu mér málið mitt, hellenska tungu

   Gáfu mér málið mitt, hellenska tungu –
fátæklegt kot, á ströndum sem tilheyra Hómer.
   Fyrir málinu el ég önn og því einu,
á ströndum sem tilheyra Hómer.
   Þar eru aborrar og kólguflekkir, hreggbarðar sagnir,
grænleitir straumar í bládjúpi hafsins,
   allt sá ég, er sírenur mæltu hin fyrstu orð,
ljóma í iðrum mín sjálfs,
   marglyttur, svampa og rauðleitar skeljar
með fyrsta hrollinum svarta.
   Fyrir málinu el ég önn og því einu,
með fyrsta hrollinum svarta.
   Þar eru granatepli og aldin af runnanum rjóða,
hörundsdökk goð og bræðrungar, frændur,
   tæmandi olíu ofan í risastór ker –
úr gilinu ilmandi gustur, 
   tágavíðir og róðutré, sefgresi, engiferrætur
við fyrstu tíst finkunnar
   sætlegur lofsöngur, Dýrð-sé-þér, í allrafyrsta sinn.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
   Dýrð-sé-þér, kveðið í alfyrsta sinn.
Þar er lárviður, pálmar, reykelsisker og heilög angan
   blessandi sverðin og byssur með tinnusteinslása.
Ilmur af grilluðu kjöti og brestandi skurn
   á dúkuðum vínekrum jarðar
og Kristur upprisinn
    þá kveðjuskot Hellena hljóma hið fyrsta sinni.
Leyndar ástir í fyrstu orðum Lofsöngsins.
   Fyrir málinu el ég önn og því einu,
í fyrstu orðum Lofsöngsins.

Undir lok ljóðsins koma fyrir vísanir sem líklegt er að flestir grískir lesendur átti sig á en útlendingar síður. Orðin „κνίσες, τσουγκρίσματα“ sem hér eru þýdd með „ilmur af grilluðu kjöti og brestandi skurn“ vísa trúlega til páskanna þegar lambakjöt er steikt á grilli og vinir slá saman soðnum eggjum og sjá hjá hvorum skurnin brotnar fyrr. Lofsöngurinn sem nefndur er í síðustu vísuorðunum er væntanlega þjóðsöngur Grikkja sem er Lofsöngur til frelsisins eftir Dionysios Solomos (Διονύσιος Σολωμός, 1798 – 1857).

Ég þýði „στις αμμουδιές του Όμηρου“ með „á ströndum sem tilheyra Hómer.“ En kvenkynsorðið „αμμουδιά“ þýðir stundum strönd, oftast þó sandströnd en það getur líka merkt sand. Það er því mögulegt að þýða þetta með „á söndum Hómers.“

Eins og víðar í ljóðabókinni Verðugt er virðist mælandinn ýmist vera skáldið eða land þess. Það er að minnsta kosti enginn venjulegur maður sem sér sjávardýr ljóma í eigin iðrum.

(more…)

Af Jóníu eftir Kavafis

Sunnudagur, 15. ágúst 2010

Ljóðið Af Jóníu er frá árinu 1911.

Af Jóníu

Þótt við höfum brotið líkneskjur þeirra
og hrakið þá úr hofum sínum
höfum við ekki gengið af guðunum dauðum.
Jónía, enn ert það þú sem þeir elska
og enn ert þú jörðin sem sál þeirra minnist.
Þegar dagar yfir þér í ágúst þá hríslast
um loft þitt kraftar þess lífs sem þeir lifa
og svifléttar, óljósar myndir,
ungmennum líkar, fara á stundum
hratt yfir fjöll þín og hæðir.

(more…)

Eitt af seinni ljóðum Kavafis

Sunnudagur, 8. ágúst 2010

Eftirfarandi ljóð birtist fyrst árið 1928. Það er um margt dæmigert fyrir seinni ljóð Kavafis, nánast eins óljóðrænt og verið getur.

Annað grískt skáld, Giorgos Seferis (Γιώργος Σεφέρης) sagði í frægri ritgerð að Konstantinos P. Kavafis (Κωνσταντίνος Π. Καβάφης) hafi farið með ljóðlistina að ystu mörkum þess óljóðræna og í þessu hafi enginn annar komist lengra.

Í ritgerð þessari ber Seferis saman tvo frumkvöðla módernisma í ljóðagerð, Bandaríkjamanninn Thomas Stearns Eliot (1888 – 1965) og einfarann frá Alexandríu, Kavafis (1863 –1933), og segir að Kavafis hafi öðrum skáldum fremur farið eftir því sem Eliot boðaði að tilfinningar yrðu aðeins tjáðar á listrænan hátt með því að lýsa hlutlægri samsvörun þeirra („objective correlative“).

Þetta ljóð virðist aðeins segja brot úr gamalli sögu. Ef til vill var þessi saga hlutlæg samsvörun þess hvernig framsýnir menn upplifðu samtíð sína rétt fyrir kreppuna miklu.

Hægt er að heyra ljóðið lesið á frummálinu með því að smella hér.

Í stórri grískri nýlendu árið 200 f. Kr.

Á því er enginn minnsti vafi að hlutirnir ganga
öðru vísi en menn óska hér í nýlendunni.
Samt eru framfarir hjá okkur.
Kannski er þó, eins og margir halda, orðið tímabært
að fá hingað pólitískan umbótamann.

Vandamálið sem flækist fyrir okkur
er bara að þeir gera svo mikið mál úr öllu
þessir umbótamenn. (Best væri
að þurfa aldrei að leita til þeirra.)
Þeir spyrja um hvaðeina
og grafast fyrir um langsótt aukaatriði,
upphugsa róttækar breytingar fyrirvaralaust
og heimta að þær séu framkvæmdar án tafar.

Þeir hneigjast líka til að færa fórnir:
Afsalið ykkur þessari eign,
það er áhættusamt að halda henni,
Það eru einmitt eignir af þessu tagi sem spilla nýlendunum.
Afsalið ykkur þessum tekjustofni
og líka þessu öðru sem tengist honum
og þessu þriðja líka, eins og af sjálfu leiðir.
Það munar vissulega um þetta, en hvað getur maður gert?
Þeir velta á þig ábyrgð sem veldur beinlínis tjóni.

Sem rannsókn þeirra vindur fram
finna þeir fleiri og fleiri smáatriði sem þeir heimta
að verði afnumin, atriði sem er samt erfitt að skera niður.

Er þeir ljúka verki sínu, ef allt gengur eftir,
og sérhvert lítilræði hefur verið dregið undir hnífinn
og þeir fara burt með þau laun sem þeim ber,
þá má merkilegt heita ef eitthvað verður eftir
þegar skurðhnífnum hefur verið beitt af þvílíkri leikni.
 
Annars er þetta kannski ekki tímabært.
Við skulum ekki flýta okkur. Óðagot er áhættusamt.
Menn sjá eftir því sem gert er í bráðræði.
Vissulega fer margt aflaga hér í nýlendunni.
En er mannlífið nokkurs staðar án misfellu?
Og þrátt fyrir allt eru framfarir hjá okkur.

(more…)

Ljóð eftir Kavafis

Laugardagur, 7. ágúst 2010

Frá klukkan níu

Tólf og hálf. Tíminn hefur liðið hratt
frá klukkan níu þegar ég kveikti á lampanum
og settist. Hér hef ég setið án þess að lesa
og án þess að segja neitt. Við hverja
ætti ég að tala, ég er aleinn í þessu húsi.

Frá klukkan níu þegar ég kveikti á lampanum
hefur myndin af líkama æsku minnar
komið að finna mig og vakið minningar
um lokuð herbergi sem ilmuðu
og unað fyrri tíma – unað svo djarfan!
Og hún setti mér líka aftur fyrir sjónir
stræti sem nú eru óþekkjanleg og staði
fulla með iðandi næturlíf sem nú hafa lokað, 
leiksvið og kaffihús sem eitt sinn voru.

Myndin af líkama æsku minnar
kom og hún færði mér einnig harma,
sorg sem fjölskyldan varð fyrir, aðskilnað,
hvernig mínir nánustu fundu til
og þeir dauðu sem svo lítils eru metnir.

Tólf og hálf. Hvað tíminn líður.
Tólf og hálf. Hvað árin líða.

(more…)