Færslur undir „Ljóð“

Ljóð eftir William Blake

Sunnudagur, 13. ágúst 2017

Tígrisdýrið

Tígur þú sem bálið berð
bjart, um næturskóga ferð;
Hver ódauðlegra upp þig dró,
svo uggvænlega mynd þér bjó?

Hvar á heimsins hinstu slóð
heitust lýsti augnaglóð?
Á hvaða vonarvængjum sveif
völundur sem logann hreif?

Hvaða öxl með ógnarmátt
inn í þig svo grimmt og flátt
með heljarafli hjartað sló
og harðar sinar um það dró?

Hvar ég inni er eldurinn,
afl og smiðja er heila þinn
á hörðum steðja hamra má
í hugann berja slíka vá.

Mun hann er lambi lífið gaf,
þá lýstu stjörnur himnum af
sem lítil tár á lágan stig,
líka hafa skapað þig?

Tígur þú sem bálið berð
bjart, um næturskóga ferð;
Hvaða hönd af dirfsku dró
og dýri slíka ásýnd bjó?

Veislan hjá Gvendi Edwin Arlington Robinson

Sunnudagur, 17. apríl 2016

Edwin Arlington Robinson (1869–1935) fæddist og ólst upp í Maine í Norðaustuhorni Bandaríkjanna. Hann var með vinsældum og virtustu ljóðskáldum þar í landi í byrjun síðustu aldar. Sum eftirminnilegustu kvæði hans fjalla um auðnuleysingja og óskabörn ógæfunnar sem sumir tengja við heimabæ Robinsons, Gardiner í Maine. Ljóðið sem hér fer á eftir er eitt af þeim þekktustu. Það birtist í bókinni Avon’s Harvest sem út kom 1921.

Veislan hjá Gvendi

Seint að kvöldi Gvendur gamli einn
gekk um slóðann þar sem var hans leið
heim úr kaupstað yfir lágan ás.
Eyðilegt var kotið sem að beið,
og var hans eina athvarf hér á jörð.
Hann áði, „nægur tími“ sagði hann „já“,
þó heyrði engin önnur sála til
enda hvergi nokkurn mann að sjá.

Svo hélt hann áfram: „Gvendur gamli minn
nú gerist tunglið fullt og haustar að
en við tveir höfum átt hér fundi fyrr
og fuglar hópast rétt sem áður kvað
skáldið og við skálum fyrir þeim.“
Mót skini mánans lyftust hendur tvær
með könnu af öli sem hann hafði sótt
og sagði: „Bestu þakkir vinur kær.“

Hann fór í bæinn bara til þess eins
að bera þaðan öl um langan veg.
Á miðri götu minnti hann helst á draug
og mörgum þætti ferð hans undarleg.
En Gvendur heyrði úr bænum eins og ym,
því eitt sinn fann hann jafnan vini þar,
af röddum fólks sem forðum yrti á hann
en farið burtu, dautt og horfið var.

Þá, eins og legði blíðust móðir barn
sem blundaði í hvílu og gætti að
það vaknaði ekki, ofurhægt með gát
inn á milli þúfna á góðan stað
lét hann könnu svo hún ylti ei,
því allt er fallvalt gengi heims og manns.
Og er hann hafði stigið fáein fet
fór í gang að nýju samtal hans.

„Herra minn, ég held nú svei mér þá
við höfum ekki um skeið átt slíkan fund.
Margt er breytt hjá báðum sýnist mér
og býsna vel við hæfi að litla stund
við setjumst hérna saman, þú og ég.“
Síðan bakkar hálfhring, þykir mál
að lyfta könnu og ansa sjálfum sér
og segja: „Kæri vinur þína skál.“

„Soldinn dreitil, Gvendur, gleymast ei
hin gömlu kynni, svona þetta er nóg,
römm er taug sem rekka dregur heim.“
Röddin skalf og gamla hjartað sló
og yfir gráa einsemd þessa nótt
eigin rómi lyfti hátt í söng.
Tunglið fulla heyrði eitt þann óm
sem undir tóku hæðardrögin löng.

„Hin gömlu kynni.“ Svo varð röddin rám
og raunalega lyfti hann sínum drykk.
Aftur stóð hann aleinn. Niðrí byggð
var allt með heldur framandlegum skikk
svo héðan af hann vísast yrði vart
velkominn í bæinn líkt og fyrr.
Eflaust skelltu allir þar í lás
þótt opnað hefðu vinir forðum dyr.

(more…)

Ljóðið Cortège eftir Edwin Arlington Robinson

Sunnudagur, 17. apríl 2016

Sagan segir að Robinson (1869–1935) hafi ort þetta 1890 í heldur úfnu skapi. Hann hafði þá um skeið verið skotinn í Emmu Löehen Shepherd en mátti una því að eldri bróðir hans fengi hennar. Þau hjónakornin fóru frá Maine til nýrra heimkynna í Missouri með lestinni Cortège, en það nafn getur líka merkt röð, skrúðgöngu eða líkfylgd.

Cortège

Klukkan fjögur fær í dag,
fimmtán hundruð mílna veg,
ólmast lagið aldrei svo
endi slögin hrikaleg.

Klukkan fjögur fær í dag,
falið jörðin tveggja ná,
best þau fari og fari strax
í fjarlægð bæði grafa má.

Hefð‘ún dvalið hálfu meir
í heimi væri lítt um sel,
klukkan fjögur fær í dag,
ferðin byrjað gott og vel.

Klukkan fjögur fær í dag,
fólgið ástin þeirra leg
sem að gröf nú fetar fljótt
fimmtán hundruð mílna veg.

Klukkan fjögur fær í dag,
fylgt þau geta tónum seint,
mitt ólma lag í orða stað
allt það tjáð sem verður meint.

Best það gerist bara strax,
byrjað ferðin endanleg
klukkan fjögur fær í dag,
fimmtán hundruð mílna veg.

(more…)

Ljóð eftir Kiki Dimoula

Föstudagur, 8. apríl 2016

Kiki Dimoula (Κική Δημουλά) fæddist í Aþenu árið 1931 og býr þar enn eftir því sem ég best veit. Eftirfarandi ljóð er úr bók hennar Grasflöt í gróðurhúsi (Χλόη θερμοκηπίου) sem út kom árið 2005. Það er fyrsta ljóðið í bókinni og ber yfirskriftina Kennslufræðileg efni (Διδακτική Ύλη).

Tími
ég afhendi þér ritgerðina mína
sem er aðallega um þig
enda varst það þú sem færðir hingað
það sem ég er núna.

Mér var fátæktin í blóð borin og tekjurnar
dugðu ekki til að senda mig utan
eftir æðra menntunarleysi. Var bara hér
í leiguhúsnæði í átthagafræði
með lágt til lofts.

Ég var hagsýn
og komst áfram án kennara
og var svona almennt og yfirleitt án
sem er aðferð til að öðlast breiðari menntun.

Frá því sem ég gekk í gegnum verður ekki sagt, engin leið að komast inn í erfiða kaflann
sem heitir „án þýðingar“.
Allt sem var fyrir mér
var án fyrir öðrum.
Þótt ég væri iðin við námið
og full af undrun fékk ég samt bara núll.
Ég bætti einkunnina með því að undrast á ný
án þess að koma orðum að neinu sem er aðferðin þín
tími
svo þú færðir breytingar
samtímis því sem eyddist með öllu
það milda form
sem hlutirnir höfðu
áður en þeir voru lærðir.

Og jafnvel nú
þegar ég eldist með þeirri aðferð að vera án
og skrepp saman og verð rugluð
undrast ég hvað ánin sjálf hafa breyst
þau voru ekki eins oft

hvað dauðinn hefur breyst
það var ekki eins oft

sem hún var svona andheit að minna mig á hann, ástin.

(more…)

Ljóð eftir Edwin Arlington Robinson

Sunnudagur, 25. október 2015

Ríkharður

Í hvert sinn sem hann kom hér nið‘rá torg
við hversdagsfólkið litum upp til hans:
Dánumaður mestur hér í borg
og mikil var hans reisn og elegans.

Við Ríkharð sáum aldrei angur tjá,
hann ávarpaði fólk og hélt sinn veg.
Þótt æðaslátt við enni mætti sjá,
alltaf var hans návist þægileg.

Og hann var ríkur – segja má með sann
að sjaldan kóngar eigi þvílíkt fé –
og hvað við vildum vera eins og hann
sem veröldin lét slíka auðnu í té.

Við máttum samt við þrældóm, þreytt og köld
þrauka, stundum nærri matarlaus,
en Ríkharður eitt kyrrlátt sumarkvöld
kúlu skaut í gegnum eigin haus.

(more…)

Ljóð eftir Oliver Wendell Holmes

Föstudagur, 23. október 2015

Ég rakst á fíflskaparkvæði eftir Oliver Wendell Holmes (1809–1894) sem mér þótti ekki leiðinlegt. Ég hef reynt að orða meginhugsun þess á íslensku og fer árangurinn hér á eftir.

Eitt sinn kvað ég lítið ljóð
og lúmskt mér vakti glott
sú vissa að flestum fyndist það
feikilega gott.

Það skrýtið var og skemmtilegt
og skondið svo ég hló.
Þótt háttvís sé og hagi mér
úr hlátri næstum dó.

Ég hóaði í húskarl minn,
hann er ekki smár,
væskli mínum vörn og skjól,
vaskur bæði og knár.

„Færðu þessi fínu skrif
nú fljótt til prentarans
og fyrir túkall þrykkir þau
þumbi sá með glans.“

Hann leit á blaðið, línubút
úr ljóði mínu sá
og hjartanlega hlátur sauð
í húskarlinum þá.

Aðra hending’ er hann las,
andlit skipti um ham
því munnvik upp við eyrnasnepil
öðru megin nam.

Í þriðju línu hlátur hár
hækkar enn og vex,
í þeirri fjórðu af fötum hans
fljúga tölur sex.

Hann áfram las og afarmennið
engjast sá ég þar,
ósjálfbjarga alveg hreint
í átján daga var.

Upp frá þessu árætt hef
ég ekki að slá það met,
en forðast umfram flest að vera
eins fyndinn og ég get.

(more…)

Ljóð eftir Robert Frost

Laugardagur, 17. október 2015

Robert Lee Frost (1874 –1963) telst með helstu ljóðskáldum Bandaríkjanna. Mörg kvæði hans bregða upp myndum af lífi sveitamanna á Nýja Englandi í upphafi síðustu aldar. Það sem hér fer á eftir var ort um 1920.

Borgarlækur

Hann fellur illa að beinni götu í borg
en bærinn hímir samt við nýgert torg,
norpir búinn númersplötu. En hvar
er núna lækjarbugðan sem að var
með kotið eins og inni í faðmi sér,
er ekkert sýnilegt af henni hér?
Ég spyr af því ég þekkti téðan læk
hans þunga straum og iðuköstin spræk
sem léku dátt. Ég lét þar fljóta blóm
og las í ferðir vatnsins, nam þess hljóm.
Þar sem var engi gras ei lengur grær
því gráleit steypan vöxt þess hamið fær
og eplatrén í eldinn hjuggu menn
en örvænt mun að vatnið hverfi senn,
því ódauðlegu ekkert grandað fær.
En eitthvað varð að gera þar sem tær
bæjarlækur leið við grænan svörð.
Hann luktur var í ræsi djúpt í jörð.
Þar dúsir hann og dýflissan er þröng,
daunill, myrk og lokuð undirgöng.
Hans eina sök var kannski að vera um kjurt
og komast ekki á flótta langt í burt.
Ef gömul kort ei gerðu honum skil
hann gleymdur væri, engin minning til.
Mér finnst samt eins og iðjuleysi vomi
yfir prísund dimmri og þaðan komi
hugsanir sem banna væran blund
svo borgin hvílist aldrei nokkra stund

(more…)

Ljóð eftir John Keats

Mánudagur, 24. ágúst 2015

Enska skáldið John Keats (1795 – 1821) er oft nefndur í sömu andrá og Byron (1788 – 1824) og Shelley (1792 – 1822) og þeir þrír taldir höfuðskáld enskrar rómantíkur.

Keats var skammlífastur þeirra allra. Hann dó úr berklum 25 ára gamall.

Með þekktustu ljóðum hans er kvæðið um stúlkuna fögru og miskunnarlausu (La belle dame sans mercy). Nafn sitt dregur ljóðið af frönsku kvæði frá 15. öld eftir Alain Chartier.

Þegar Keats orti þetta árið 1819 vissi hann af berklaveikinni og sem dró hann til dauða tveim árum seinna. Kannski er kvæðið öðrum þræði um sjúkdóminn. Kannski um stúlkuna Fanny Brawne. Kannski er þetta fyrst og fremst rómantísk útlegging á þjóðsagnaminni.

La belle dame sans mercy
Við hvaða raunir riddari
sem reikar daufur máttu þreyja?
Fölnuð er á flæði stör
og fuglar þegja.

Við hvaða raunir riddari
sem ristur kvölum fetar veginn?
Íkorninn á æti nóg
og akur sleginn.

Heit og litverp liljubrá
hve lauga daggir blómgun slíka,
á sjúkum vanga er sóttin rós
og sölnar líka.

Álfabarn á engi leit,
yngismeyjar fundi náði,
hún yfir leið með eitthvað villt
í augnaráði.

Batt ég henni blómasveig
og bjó til skart með ilmi þýðum.
Hún á mig leit með ástarsvip
og ómi blíðum.

Ég hóf‘ana upp á hestinn minn,
sem hljóp á skeið með okkur bæði,
hún heillaði mig heilan dag,
söng huldukvæði.

Mér hunang gaf og himnadögg,
höfga rót með sætu bragði,
og orð sem þýddu „ann ég þér“
hún einnig sagði.

Hún inn mig leiddi í álfarann
með augun villt og trega stórum,
ég lukti þeim og kyssti hvarm
með kossum fjórum.

Þar svæfði hún mig við mjúkan barm,
meinleg örlög draumar töldu
mér vís og síðan vakað hef
í veðri köldu.

Kónga og her sá föla í för
þeir fölir æptu á dauðans valdi:
„La belle dame sans merci á þig
sem þræl í haldi.“

Í rökkri varir svangar sá,
þær sýndu ógn með gapi kvöldu,
ég vaknaði og var þá hér
í veðri köldu.

Út af því ég aleinn hér
áfram reika‘og daufur þreyi,
þó fölnuð sé á flæði stör
og fuglar þegi.

(more…)

Ljóð eftir Edwin Arlington Robinson

Föstudagur, 21. ágúst 2015

Edwin Arlington Robinson orti frægt kvæði um Miniver Cheevy vestur í Ameríku fyrir rúmlega hundrað árum. Ef Miniver hefði verið íslenskur þá hefði hann kannski heitið Mangi Hró og kvæðið verið einhvern veginn svona:

Af skömm og mæðu Mangi Hró
magur grét og blés í kaunin,
að vera á dögum þótti þó
þyngsta raunin.

Mangi unni eldri tíð,
ef hann leit á brynjur glansa,
vakra fáka, vopn og stríð
vildi hann dansa.

Yfir því sem ei var til
andvarpaði og lét sig dreyma.
Kunni á fornum fræðum skil
og fann sig heima.

Sakna kvaðst hann Kamelot
kappa Tróju og refilþjóða,
ljóða- seiddi hann langt í brott
lýran góða.

Sækti ef gæti hann sollinn í,
en syndir litlar drýgja náði,
þó mektarfólkið Medici
mjög hann dáði.

Hversdagsleikinn mæddi mest,
miðaldirnar þráði af hjarta
þá jarla klæddi og jöfra best
járnið bjarta.

Oft í þungum þönkum sat,
þótti dapurt allt sitt gengi,
Mangi Hró því gruflað gat
og gruflað lengi.

Um þann tíma er hann hlaut
örlög sín, allt ljóta brasið,
hóstandi hann heilann braut
og hellti í glasið.

(more…)

Ljóð eftir Kavafis

Sunnudagur, 31. maí 2015

Eftirfarandi ljóð mun Konstantinos P. Kavafis hafa ort árið 1919.  Maðurinn sem segir frá í ljóðinu, Janþis sonur Antóníosar, heitir grísku nafni þó hann sé gyðingur. Hann er tilbúningur Kavafis.

Af Hebreum (50. e. Kr.)

Janþis sonur Antóníosar, listmálari og skáld,
hlaupari og kringlukastari, fagur eins og Endymion.
Úr fjölskyldu sem lét sér annt um samkunduhúsið.

„Dýrmætastir eru mér dagarnir
þegar skynhrifin varða mig engu
og ég hafna strangri fegurð hellenismans
með sitt algera vald
í fullkomlega gerðum útlimum, forengilegum og hvítum.
Og ég verð sá sem ég vil
að eilífu vera: Hebreskur, heilagra Hebrea sonur.“

Mjög andheitur þegar hann sagði: „Að eilífu
vera Hebreskur, heilagra Hebrea –“.

Entist þó ekki sem slíkur.
Gefinn á vald listum og lífsnautnum Alexandríu
sem höfðu hann að sínu eigin barni.

(more…)