Færslur undir „heimspeki“

Kínversk heimspeki og evrópsk

Föstudagur, 10. ágúst 2007

Heimspeki Kínverja er um það bil jafngömul evrópskri heimspeki. Kongzi var uppi um svipað leyti og fyrstu grísku spekingarnir.

Þótt hæpið sé að neinn samgangur hafi verið milli Grikkja og Kínverja er sumt líkt í fornri heimspeki Kína og Vesturlanda. Dulspekin í ritum taóista er ekki alveg ósvipuð sumu sem finna má hjá grískum Platónistum og hugmyndir Yin-Yang skólans um að tölur séu lykillinn að leyndardómum tilverunnar eru líkar talnaspeki Pyþagórasar og fylgismanna hans.

Þegar kemur fram á seinni aldir er meira álitamál hvort hugmyndir séu líkar vegna þess að þær hafi borist á milli heimshluta. Á 17. öld kynntust lærdómsmenn í Evrópu kínverskum menningarheimi dálítið, meðal annars af frásögnum kristniboða. Þýski fjölfræðingurinn og heimspekingurinn Leibniz ritaði til dæmis talsvert um Kína og kínverska menningu og á 18. öld koma vísanir í kínverska sögu allvíða fyrir hjá evrópskum heimspekingum eins og til dæmis skotanum David Hume.

Það væri gaman að komast að því hvort eitthvað af evrópskri speki frá 17. og 18. öld á ættir að rekja til Kína.

Í bók sinni A short History of Chinese Philosophy (The Free Press, New York 1948) bendir Fung Yu-Lan á að margt er sláandi líkt í taóismanum hjá Zhuangzi og heimspeki Hollenska gyðingsins Spinoza sem uppi var á 17. öld. Báðir leggja áherslu á að hin æðsta þekking færi mönnum heim sanninn um að allt er eins og það er af nauðsyn sem ekki fæst umflúin og hún færi huganum jafnframt hamingju og lausn frá amasömum geðshræringum (bls. 109). Það sem Zhuangzi segir um að sjá hlutina í himnesku ljósi er líkt því sem Spinoza kallar að skoða tilveruna undir sjónarhorni eilífðarinnar þaðan sem sést að það sem fyrst virðast andstæður er í raun eitt og hið sama (bls. 112). Dularfullar hugmyndir Zhuangzi um að sannur vitringur eigi sér eilíft líf, því hann sé eitt með alheiminum og nái þannig langt út fyrir sinn dauðlega skrokk, minna líka á pælingar Spinoza um að þekkingin hefji menn yfir allan forgengileika.

Fleira má tína til í evrópskri heimspeki frá seinni öldum sem á sér samsvörun í kínverskum fornritum. Það sem Mengzi (sem var fylgismaður Kongzi) sagði um uppruna siðferðisins er til dæmis mjög líkt kenningu Hume um sama efni. Mengzi áleit að fullmótað siðferði væri hvorki meðfætt né innbyggt í mannlegt eðli en að menn hefðu með náttúrulegum hætti tilhneigingar sem væru eins og frækorn að siðferði, eitthvað sem góðmennska sprytti upp af ef menn þroskuðust við rétt skilyrði.

Líkt og Hume, sem uppi var meira en tveim árþúsundum seinna, áleit Mengzi að samúð væri mönnum í blóð borin og hún væri sá angi sem góðmennskan yxi af. Hann sagði: „Ég segi að hjarta mannsins finni til með öðrum og ástæðan er þessi. Hugsum okkur að einhver sjái barn sem er í þann mund að falla niður í brunn. Undir slíkum kringumstæðum yrði öllum brugðið og allir fyndu til samúðar. Þetta er ekki vegna þess að menn vænti launa frá foreldrum barnsins og ekki vegna þess að þeir sækist eftir vinsældum meðal nágrannanna þeirra og vinafólks og ekki heldur vegna þess að þeim líki ekki að heyra öskrin í því.“ (Snarað eftir Readings in Classical Chinese Philosophy, Hackett Publishing Company, Indianapolis 2001, bls. 129.)

Hugmynd Mengzi um siðferði er að það sé ekki algerlega meðfætt eða náttúrulegt og heldur ekki alger tilbúningur eða eitthvað sem menn hafa sett saman með því að reikna út hvað er til hagsbóta fyrir þá. Það er, eins og Hume kenndi löngu seinna, orðið til vegna þess hvernig menningin og uppeldið bæta við náttúrulegar hneigðir. Þessi viðbót væri ómöguleg nema hneigðirnar væru til fyrir. Náttúrulegar tilhneigingar yrðu heldur aldrei að siðferði sem er öllum til góðs nema samfélagið og uppeldið stýrðu því hvernig nýjar hvatir vaxa upp af þeim.

Hvort Hume hafði spurnir af siðfræði Mengzi og hvort Spinoza þekkti eitthvað til Zhuangzi veit ég ekki. Þeir gætu hafa kynnst endursögum trúboða og annarra evrópskra Kínafara á hugmyndum úr austurheimi. Þeir gætu líka hafa rambað á svipaðar hugmyndir því hjörtum mannanna svipar saman víðar en bara í Súdan og Grímsnesinu.

Framhald í næsta bloggi.

Um lærdóm

Fimmtudagur, 9. ágúst 2007

Ummælum sem höfðu eru eftir Kongzi var safnað í rit sem kallast Lunyu. Á Vesturlöndum hefur það verið nefnt Analects. Rit þetta hefur komið út í íslenskri þýðingu Ragnars Baldurssonar í bók sem heitir Speki Konfúsíusar. Ragnar þýddi það úr frummálinu og skrifaði ítarlegar skýringar með og vandaðan inngang.

Í þessari gömlu bók er fjallað um mikilvægi þess að vera námfús, til dæmis í grein 17.8. þar sem stendur (á bls. 219 til 221 í íslensku þýðingunni sem kom út hjá Iðunni árið 1989):

Meistarinn sagði: „You, hefurðu heyrt um dygðirnar sex og lestina sex?“

Hann svaraði að það hefði hann ekki.

„Sestu hérna hjá mér, ég skal segja þér frá þeim. Þeim sem er annt um góðmennsku án þess að vera námfús er hætt við einfeldni. Þeim sem er annt um visku án þess að vera námfús er hætt við ístöðuleysi. Þeim sem er annt um orðheldni án þess að vera námfús er hætt við óhæfuverkum. Þeim sem er annt um heiðarleika án þess að vera námfús er hætt við umburðarleysi. Þeim sem er annt um hugdirfsku án þess að vera námfús er hætt við að vera uppreisnargjarn. Og þeim sem er annt um harðfylgi án þess að vera námfús er hætt við óbilgirni og ofstopa.“

Samkvæmt þessu dugar skammt að láta sér annt um dygðirnar (góðmennsku, visku, orðheldni, heiðarleika, hugdirfsku og harðfylgi) nema maður hirði líka um lærdóm. Kong-zi trúði engum rómantískum hugarórum um góðhjörtuð náttúrubörn sem breyttu rétt og siðlega án þess að styðjast við nokkurn lærdóm. Í þessu er siðfræði hans gerólík boðskap taóista sem dásömuðu gjarna einfaldar sálir og ómenntaðar.

Kannski er hugsun Kongzi um þetta efni ekki alveg ólík því sem Hallgrímur Pétursson kenndi Íslendingum á 17. öld, því Hallgrímur áleit líka að lærdómur væri forsenda fyrir góðu siðferði og kvað:

Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum;
hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.

Kínversk fortíðardýrkun

Miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Eins og nefnt var í síðasta pistli leit Kongzi á það sem hlutverk sitt að miðla fornri menningu. Hann talaði af virðingu um kónga og aðalsmenn frá 12. öld f.Kr. Nöfn sem hann nefnir oft sem siðferðilegar fyrirmyndir eru King Wen, og Shou Gong sem uppi voru á þessum löngu liðnu tímum.

Sennilega er það að fyrir áhrif frá Kongzi að fortíðardýrkun setti lengi svip á hugsun Kínverja um stjórnmál og siðferði. Þeir sem andmæltu Kongzi reyndu gjarna að vísa í enn eldri fyrirmyndir. Þannig talar Mozi til dæmis um keisarann Yu sem kvað hafa verið uppi þúsund árum á undan Wen.

Söguna af Yu taldi Mozi styðja þá skoðun sína að menn ættu að taka almannahag fram fyrir ættrækni því Yu vann að gerð flóðvarnargarða í almannaþágu og unni sér engrar hvíldar og kom ekki heim þótt hann heyrði kveinstafi konu sinnar og barna.

Taóistar sem mæltu í senn gegn Kongzi og Mozi vísuðu í enn eldra kennivald og töldu sögur af keisurunum Yao og Shun styðja sitt mál en þeir voru uppi enn fyrr en Yu.

Kongzi

Þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Kongzi (sem þekktur er á Vesturlöndum undir nafninu Konfúsíus) er talinn helsti upphafsmaður kínverskrar heimspeki. Hann fæddist árið 551 f.Kr. í héraði sem hét Lu og var þar sem nú er Shandong í austur Kína. Hann náði meira en 70 ára aldri og lést árið 479 f.Kr.

Í samfélaginu sem fóstraði Kongzi var lénsskipulag sem var ekki alveg ósvipað því sem Evrópumenn bjuggu við löngu seinna. Pólitískt vald fylgdi eignarrétti á jörð og þeir sem erjuðu akrana guldu lénsherrum fyrir jarðnæðið með kvaðavinnu og hluta af uppskerunni.

Um daga Kongzi var þetta lénskerfi orðið ævafornt enda á kínversk menning sér langa sögu. Meira en þúsund árum fyrir hans tíð hafði svæðið þar sem nú eru Henan og Shandong myndað pólitíska heild undir forystu Shang keisaraættarinnar sem ríkti frá 1766 til 1122 f.Kr. Þá tók Zhou ættin við og ríkti a.m.k. að nafninu til fram yfir daga Kongzi eða allt til 256 f.Kr.

Kongzi virðist ekki hafa litið á sjálfan sig sem frumlegan hugsuð. Þótt hann hafi markað tímamót með því að vera fyrsti sjálfstætt starfandi fræðimaðurinn og kennarinn á sínum heimaslóðum var honum fyrst og fremst umhugað um að miðla fornum menningararfi.

Eftir því sem best er vitað skrifaði hann ekki neitt sjálfur en lærisveinar hans skráðu ummæli sem þeir höfðu eftir honum og af þeim má ráða að hann hafi litið á valdatíma Shang ættarinnar og árdaga Zhou ættarinnar sem horfna gullöld. Honum var umhugað um að kenna samborgurum sínum að meta arfleifð þjóðar sinnar sem varðveitt var í Hinum sex fornu ritum: Bók breytinganna, Ljóðaritningunni, Söguritningunni, Helgisiðabókinni, Tónlistarbókinni og Vor- og hausannálunum. Síðast nefnda ritið er saga Lu héraðs og það sem fyrst var nefnt fjallar um spádóma.

Kongzi lifði breytingatíma og honum þótti samfélagið á fallanda fæti. Umbæturnar sem hann ráðlagði voru að hluta til siðferðileg vakning með áherslu á góðmennsku, hófsemi og lítillæti. Að þessu leyti má líkja honum við Búddha, Jesú og fleiri andlega leiðtoga. En hann var samt ólíkur trúarlegum leiðtogum að því leyti að kenningar um yfirnáttúrulegan veruleika gegndu litlu hlutverki í boðskap hans. Hann var líka einstakur í því að leggja áherslu á bóklegan lærdóm og virðingu fyrir fornri menningu, einkum fornritin sex sem fyrr voru talin. Íhaldssemi og áhersla á ættrækni og samheldni fjölskyldunnar einkenna líka boðskap hans.

Umrótið sem Kongzi var vitni að jókst eftir dauða hans og næstu aldir, eða fram til 221 f.Kr., var allmikið um hernað í Kína. Þessu ófriðatímabili lauk með því að Qin ættin komst til valda og sameinaði ríkið að nýju eftir að það hafði klofnað í smærri hluta. Nafn landsins „Kína“ kvað dregið af heiti þessarar ættar sem stjórnaði af mikill hörku í 14 ár. Frá þeim stutta tíma eru ljótar sögur af grimmd yfirvalda í garð alþýðu. En árið 206 eða 207 f.Kr. tók Han ættin við og ríkti lengi, eða í meira en 400 ár. Á valdatíma hennar leið lénsveldið undir lok og til varð miðstýrt samfélag þar sem embættismenn stjórnuðu í umboði keisarans og pólitískt vald var ekki tengt eignarhaldi á jörð eins og fyrr hafði verið.

Þegar Qin ættin náði völdum voru meira en 250 ár liðin frá dauða Kongzi og þessi 250 ár voru blómaskeið í kínverskri heimspeki. Merkir hugsuðir höfðu haldið fram því verki sem Kongzi hóf, að túlka fornan lærdóm. Þar var Mengzi fremstur í flokki. Aðrir höfðu andmælt stefnu Kongzi og mótað heimspeki af allt öðru tagi og fram komu margs konar stefnur. Í gömlum kínverskum bókum er talað um tíma hinna hundrað skóla. Þekktastir eru nú taóisminn sem boðaður var af Laozi og Zhuangzi og Mo-isminn sem kenndur er við Mozi (en um hann var fjallað hér þann 29. júní. Þá var þess einnig getið að „zi“ er skeytt aftan við nöfn kínverskra vitringa, en það orð mun merkja nokkurn veginn það sama og „meistari“.).

Í stuttu máli má segja að Mozi hafi andmælt áherslu Kongzi á skyldur við fjölskyldumeðlimi með kenningu um að hver og einn hafi sömu siðferðilegar skyldur við alla menn og taóistarnir hafi fundið að áherslu Kongzi á lærdóm og flókna siði og þess í stað lagt áherslu á náttúrulegt og einfalt líf. Um aðra heimspekiskóla frá þessum tíma mætti hafa langt mál en það verður að bíða.

Ráðamönnum Qin ættarinnar líkaði ekki öll þessi heimspeki. Þeir vildu að þegnar sínir hugsuðu allir á einn veg og fyrirskipuðu að heimspekirit skyldu brennd. Sem betur fer sluppu nokkrar bækur við að fara á bálið og þegar Han ættin tók við var aftur farið að skrifa þær upp.

Þótt keisarar Han ættarinnar gengju ekki svo langt að fyrirskipa eyðileggingu allra heimspekibóka reyndu þeir líka að samstilla hugsun þegna sinna. Niðurstaða þeirrar viðleitni var að á seinni hluta annarar aldar f.Kr. voru hin sex fornu rit og heimspeki Kongzi gerð að opinberri hugmyndafræði keisaradæmisins. Þetta var ekki gert með því að banna aðra heimspeki heldur með því að gera þekkingu á þessum ritum að skilyrði fyrir ráðningu í opinber embætti.

Eins og fyrr er getið fór vegur embættismanna vaxandi á tímum Han ættarinnar. Metnaðargjarnir ungir menn lærðu hin sex fornu rit og speki Kongzi til að standast próf sem voru forsenda fyrir frama í keisaraveldinu. Siðfræði Kongzi varð ríkisheimspeki og á stundum líka einhvers konar ríkistrú því við og við komu fram kenningar í þá veru að hann hefði verið guðlegrar ættar. Um miðja fyrstu öld f.Kr. voru hugmyndir um tengsl hans við yfirnáttúrulegan veruleika nokkuð útbreiddar en þær viku síðan fyrir raunsærri og jarðbundnari skoðunum um þennan helsta upphafsmann kínverskrar heimspeki svo um langan aldur var Kína ólíkt öðrum ríkjum í því að hafa ekki ríkistrú heldur ríkisheimspeki.

Að mestu byggt á A short History of Chinese Philosophy eftir Fung Yu-Lan (The Free Press, New York 1948) og Readings in Classical Chinese Philosophy (Hackett Publishing Company, Indianapolis 2001).

Mozi

Föstudagur, 29. júní 2007

Nú er veðrið of gott til að hanga inni svo þessi færsla verður stutt enda ekki frá miklu að segja. Ég get þó minnt á að fyrir tveim og hálfu árþúsundi var uppi, austur í Kína, heimspekingur sem hét Mo og er kallaður Mozi, því siður að er skeyta „zi“ aftan við nöfn kínverskra vitringa.

Mozi skrifaði um stjórnmál siðfræði. Hann var kannski fyrsti nytjastefnumaðurinn, a.m.k. snúast kenningar hans um að menn eigi ætíð að hegða sér eins og best er fyrir heildina, forðast hvers kyns hlutdrægni og reyna að verða öðrum til gagns. Sumt af því sem hann segir minnir svolítið á Jeremy Bentham og sumt er kannski í dúr við kommúnisma 20. aldar. Kannski var Maó formaður Mo-isti ekki síður en Marx-isti.

Þótt sumt í skrifum Mozi sé furðu nútímalegt er ýmislegt hjá honum nátengt kínverskri menningu þess tíma. Hann lagði til dæmis mikla áherslu á mikilvægi þess að fólk væri sannfært um tilveru drauga og rakti margt sem aflaga fór í samfélaginu til þess að draugatrú væri á undanhaldi. Hann rökstuddi þetta á ýmsa vegu og benti meðal annars á að þeir sem ekki tryðu á drauga gætu framið ill verk á laun og ímyndað sér að enginn sæi til þeirra en þeir sem gerðu ráð fyrir að draugar væru á kreiki hlytu að búast við að það sem enginn lifandi maður sá gætu framliðnir séð og látið lifendur vita um.

Þessi rök Mozi fyrir mikilvægi dragatrúar eru svo sem vel skiljanleg nútímamönnum. Annað í skrifum hans er erfiðara að botna í, eins og til dæmis hvað honum þótti illt að menn sæktu tónleika, en tónlist var honum mikill þyrnir í augum. Kannski var andóf hans gegn henni af svipaðri rót runnin og andúð Platons á skáldskap. Kannski taldi hann bara það hún tefði menn frá þarfari verkum því Mozi var siðavandur og strangur og taldi að menn ættu að vinna eins og þeir hefðu þrek til. Hangs og slór var honum ekki að skapi.

Eigin skrif og efahyggja Zhuang-zi

Sunnudagur, 17. júní 2007

Í síðasta hefti Skírnis (2007 vor, 1. tbl. 181. árg. bls. 203-215) er grein eftir mig sem heitir Um hjónabönd samkynhneigðra. Í nýjasta tölublaði Þjóðmála (2. hefti, 3. árg. bls. 31-35) á ég stutta grein sem heitir Efahyggja, umburðarlyndi og íhaldssemi. Báðar þessar greinar liggja frammi í pdf-skrám á heimsíðu minni http://this.is/atli/.

Bók eftir mig sem heitir Af jarðlegum skilningi og kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2001 er nú til sölu í vefbókaverslun Andríkis. (Hún fæst ekki lengur hjá forlaginu en hugsanlega eru einhver eintök til í öðrum bókabúðum.)

Bók um heimspekilega efahyggju sem ég hef unnið að undanfarið ár er nú loks að taka á sig endanlega mynd. Vonandi kemur hún út á fyrri hluta næsta árs. Það hefur verið skemmtilegt að vinna við þetta efni. Ég held mig við efahyggju í Vestrænni heimspeki en eitt af því sem ég uppgötvaði þegar ég var að kynna mér efahyggju grískra heimspekinga í fornöld er um svipað leyti kom lík stefna fram austur í Kína. Þar velti meistari Zhuang (eða Zhuang-zi eins og hann var kallaður á kínversku, en á því máli merki „zi“ meistari) fyrir sér rökum fyrir því að menn viti mun minna en þeir telja sig vita.

Zhuang-zi var annars lærisveinn Lao-zi þess sem eignuð er Bókin um veginn.

Efahyggja Zhuang-zi birtist viða í riti því sem við hann er kennt. Sumar pælingarnar og ráðgáturnar eru líkar þeim sem finna má í forngrískum textum. Í samræðunni Þeateitosi eftir Platon velta Sókrates og viðmælandi hans því til dæmis fyrir sér hvernig þeir geti vitað hvort þá er að dreyma og eru á einu máli um að slíka vitneskju sé ekki að hafa. Zhuang velti sömu ráðgátu fyrir sér. Hugsun sína um þetta efni orðaði hann svona á sinn ljóðræna hátt:

Eitt sinn dreymdi mig að ég væri fiðrildi sem flögraði hér og þar og fór mínu fram í samræmi við áform og markmið fiðrilda. Ég hafði aðeins meðvitund um að ég léti að duttlungum fiðrildis og hafði ekki vitund um sjálfan mig sem mennskan einstakling. En skyndilega vaknaði ég og þarna lá ég og var aftur ég sjálfur. En nú veit ég ekki hvort ég var þá maður sem dreymdi að hann væri fiðrildi eða hvort ég er nú fiðrildi sem dreymir að það sé maður.

Bók um pyrrhonisma og fundatörn gærdagsins

Þriðjudagur, 24. apríl 2007

Síðasta helgi var löng því starfólk skólans vann af sér föstudaginn og fimmtudagurinn var frídagur. Þá var haldið upp á sumarkomu. Ég notaði hluta tímans til að raða saman köflum um pyrrhonisma sem ég hef verið að skrifa undanfarin ár. Þeir eru smám saman að taka sig mynd og verða að bók. Ég veit ekki hvenær ég klára hana en það verður vonandi innan árs. Það er mál til komið að dusta rykið af þessari 23 alda gömlu heimspekistefnu.

Gærdagurinn var næstum eins langur og helgin á undan. Vinnan byrjaði klukkan 8 á samstarfsnefndarfundi sem gekk svo sem ljómandi vel og við gengum frá samkomulagi um launabreytingar hjá kennurum sem taka gildi 1. maí. Næsti fundur var svo í Reykjavík þar sem stjórnendur Fjölbrautaskólanna á Akranesi, Suðurnesjum, Selfossi og Grundarfirði komu saman til að ráða ráðum sínum eins og þeir gera jafnan nokkrum sinnum á ári. Það er gott að hitta þetta fólk enda er það að fást við svipuð vandamál í svipuðum stofnunum og hefur oft gagnleg ráð.

Seinnipartur gærdagsins fór svo í fund í Félagi íslenskra framhaldsskóla þar sem meðal annars var rætt um fyrirhugaðar breytingar á lögum um framhaldsskóla. Ég held að næstum allir skólastjórendur sem þarna voru voni að breytingarnar gangi í gegn og skólarnir fái aftur frelsi til að setja sér námskrár í samræmi við aðstæður á hverjum stað og þarfir nemendahópsins. Andinn í tillögunum sem liggja fyrir er að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði skóla. Þetta er afar þarft enda er 7 ára reynsla af því að láta menntamálaráðuneyti og starfsgreinaráð setja skólunum smásmugulegar og ítarlegar námskrár ekki mjög góð.

Fundatörn gærdagsins lauk klukkan rúmlega 22 þegar aðalfundi foreldrafélags Brekkubæjarskóla var slitið. Ég mætti þar, líklega í síðasta sinn, því Vífill lýkur tíunda bekk í vor. Á fundinum voru rúmlega 20 foreldrar mættir af nokkur hundruð. Kannski voru allir hinir að mótmæla smeðjulegum vaðlinum í frambjóðendum um að börnin séu það mikilvægasta sem við eigum og menntamál séu mál mála. Kannski gátu þeir ekki slitið sig frá sjónvarpinu. Kannski nenntu þeir bara ekki út eftir langan vinnudag. Allt þetta getur svo sem verið en trúlegasta skýringin á þessari litlu fundarsókn er nú samt trúlega að hér á Skaganum hafa foreldrar frekar litlar áhyggjur af skólagöngu barna sinna sem skýrist að nokkru af því að hlutirnir eru í þokkalega góðu lagi.

Vísindi og heiðarleiki

Miðvikudagur, 14. mars 2007

Í gær var ég byrjaður að skrifa um sumt af því sem ég held um vísindi og vísindalegar aðferðir. Raunar held ég að skilin milli vísinda og ýmissar annarrar iðju séu ekki mjög skörp. Sumar rannsóknir blaðamanna eru t.d. unnar með svipuðum aðferðum og margir vísindamenn nota. Það eru ekki alltaf mjög skörp skil milli vinnu bóndans og rannsókna búvísindamannsins. Listræn hönnun rennur stundum saman við verkfræði og verkfræði saman við náttúruvísindi.

Góður vísindamaður getur þurft jafnmikið á því að halda að hafa auðugt ímyndunarafl eins og listamaður. Iðja hans getur verið skapandi og hann getur átt það til að víkja frá öllum hefðbundnum aðferðum.

Það er ekkert einfalt að afmarka og skilgreina vísindi. Ekki er nóg með að mörkin milli þeirra og annars konar iðju séu á stundum heldur óljós heldur er hugtakið vísindi líka gildishlaðið með nokkuð flóknum hætti. Þegar við köllum kenningu eða starfsemi af einhverju tagi vísindalega erum við öðrum þræði að hrósa henni, gefa til kynna að hún standist einhverjar gæðakröfur. Stundum er umdeilt hvort eitthvað (eins og kannski einhver grein alþýðlegrar læknislistar á borð við hómópatíu) skuli teljast vísindi eða ekki. Deilan snýst þá um hvort það uppfylli einhverjar kröfur. En menn orða sjaldan skýrt hverjar þessar kröfur eru.

Hvaða skilyrði þurfa menn að uppfylla til að verðskulda sæmdarheitið vísindamenn? Hvað þarf til að hugsun þeirra og störf geti talist vísindaleg? Varla dugar að fara í hvítan slopp og nota dýr tæki á vel búinni rannsóknarstofnun.

Ég hef ekki tæmandi svar við þessum spurningum. En hluti af svarinu er væntanlega að sá sem starfar vísindalega leggur öll sín spil á borðið, gerir grein fyrir öllum rökum sem mæla með niðurstöðum hans, aðferðum eða kenningum. Hann reynir ekki að fela óþægileg gögn eða beita blekkingum af neinu tagi. Hann tekur gagnrýni á aðferðir sínar og rök alvarlega og reynir að svara þeim með málefnalegum hætti og viðurkennir að hann þurfi að draga í land ef honum tekst það ekki.

Sjálfsagt má tína til eitthvað fleira en ef þetta sem ég hef sagt er rétt þá er ekki hægt að vera vísindalegur án þess að vera heiðarlegur, opinskár og tilbúinn að hlusta á andmæli og gagnstæð rök. Að vinna og hugsa vísindalega er öðrum þræði siðferðileg dyggð ekki síður en kunnátta og tækni.

Raunvísindin og andófið gegn þeim

Þriðjudagur, 13. mars 2007

Í síðustu viku fékk ég í hendur bók eftir Susan Haack sem heitir Defending Scinece. Hún fjallar um vitið í raunvísindunum. Þetta er nokkuð löng bók og seinlesin svo það tekur mig vafalaust góðan tíma að þrælast í gegnum hana en ég held að það sé þess virði.

Efnið sem Susan fjallar um hefur verið býsna umdeilt undanfarna áratugi því alls konar stefnur innan stjórnmála, félagsvísinda og menningarrýni hafa innbyggða tortryggni í garð „borgarlegra“, „vestrænna“, „rökmiðaðra“ og „karllægra“ raunvísinda. Þau eru sögð hugmyndafræðileg réttlæting á valdi karla yfir konum, nauðgun á náttúrunni, hluti af vestrænni heimsvaldastefnu og ég veit ekki hvað og hvað. Andófið gegn vísindunum, einkum þeim sem nota mikla stærðfræði, hefur tekið á sig æði öfgafullar myndir hjá sumum femínistum, póstmódernistum og langskólagengnum róttæklingum.

Þessi harða gagnrýni á vísindin á sér nokkuð langan aðdraganda í hugmyndasögunni. Hún er að hluta til endurómur af því sem fulltrúar rómantísku stefnunnar höfðu út á upplýsinguna að setja og hún sækir líka innblástur til fleiri sem andmælt hafa upplýsingu og módernisma eins og Heideggers. En það andóf gegn vísindunum sem nú ber mest á fékk líklega fyrst almennilegan byr í seglin þegar Paul Feyerabend gaf út bók sína Against Method árið 1975.

Feyerabend skrifaði af víðtækri þekkingu á sögu vísindanna og vísindaheimspeki og hélt því fram að vísindin væru ekkert betur til þess fallin að skilja tilveruna og ná tökum á henni en trúarbrögð, galdrar, innhverf íhugun eða hvað annað. Against Method er skemmtileg bók, stíllinn glannalegur og töluverður húmor milli línanna svo þótt niðurstöðurnar væru fjarstæðukenndar og þótt höfundur treysti í sínu daglega lífi á vísindi og tækni sem á þeim byggist (fengi sér t.d. far með flugvélum fremur en að ríða kústi milli landa) þá voru heilu akademíurnar sem ginu við flugunni og kyngdu þessu „hook, line and sinker“ eins og Kanar segja.

Rök Feyerabends og þeirra sem fylgt hafa í fótspor hans– og reynt að sína fram á að vísindin séu ekki fyrst og fremst leit að sannleikanum heldur bara eins og annað brambolt í mannfólkinu, valdabrölt og metingur– eru að mér skilst fremur furðuleg í augum flestra vísindamanna. Fólkið sem er að reyna að meta stærð fiskistofna, spá fyrir um veðurfar á jörðinni, átta sig á byggingu prótínsameinda eða smíða sparneytnari bílvélar nær oft ágætum árangri, leysir alls konar vandamál og finnur ný sannindi sem stundum koma okkur öllum að gagni. Brigsl um að iðja þeirra sé fjandsamleg konum, ranglát gagnvart þriðja heiminum eða tómt valdabrölt hitta ekki í mark.

En hvernig skyldi þá standa á því að þetta andóf gegn vísindunum á svona mikinn hljómgrunn? Sjálfsagt eru skýringarnar fleiri en ein og fleiri en tvær. Á síðustu árum hafa þeir sem reyna að halda í trúarlegt kennivald tekið höndum saman við ofurrróttæklinga sem ráðast á vísindin „frá vinstri“ ef svo má segja. Það er kannski við því að búast að erkiklerkar, rabbínar, ayatollar og múllar séu fúlir út í upplýsingu og vísindi, því þetta grefur undan valdi þeirra. Það er líka einhver rómantísk taug í mörgum okkar sem finnur svolítið til þegar náttúran er skilin og skýrð með „kaldri“ rökvísi. Svo er kannski skiljanlegt að þeir sem aldrei gátu neitt í stærðfræði og raungreinum í skóla hafi gaman af því að taka undir illmælgi um þessi fög svona eins og við sem aldrei gátum gengið á höndum eða unnið nein afrek í boltaleik missum okkur stundum í að tala af lítilsvirðingu um sportista. En þetta er ekki öll sagan.

Þegar vísindabyltingin hófst á 17. öld og vísindamenn eins og Galíleó og Newton unnu hvert stórafrekið af öðru höfðu menntamenn í Vestur-Evrópu nýlega kynnst pyrrhonismanum, efahyggju fornaldar, því rit eftir Sextus Empiricus voru aftur aðgengileg eftir að hafa rykfallið á afviknum stöðum í meira en þúsund ár. Efahyggjan kenndi að ekkert væri öruggt og rétt væri að taka öllum flóknum og langsóttum kenningum með hæfilegum fyrirvara. Talsmenn hinna nýju vísinda, með franska heimspekinginn Descartes fremstan í flokki, töldu sig þurfa að svara þessari efahyggju og sýna fram á að vísindin væru traust og áreiðanleg. Af þessu spratt sú hugmynd að hægt væri að lýsa vísindalegri aðferð og sanna að hún væri bæði skynsamleg og örugg svo þeir sem beittu henni kæmust alltaf að sannleiknaum.

Með nokkurri einföldun má segja að samhliða raunvísindunum hafi þróast heimspekileg goðsögn um vísindalega aðferð sem hægt er að vera fyrirfram viss um að sé pottþétt í öllum tilvikum. En sannleikurinn er líklega sá að það er ekki til nein aðferð sem ævinlega dugar til að komast að sannleikanum og hægt er að vera fyrirframviss um að sé traust og áreiðanleg. Hvaða aðferðir duga veltur m.a. á eðli viðfangsefnisins og það er ekki þekkt fyrirfram, heldur er þekking á því afsprengi vísindalegra rannsókna.

Oft hafa menn rambað á nothæfar aðferðir og góðar tilgátur fyrir glópalán og oft hafa rannsóknir sem standast ströngustu kröfur um aðferðafræði leitt menn á villigötur. Goðsögnin um eina rétta vísindalega aðferð stenst ekki gagnrýni og margt af því sem andmælendur vísinda, upplýsingar og módernisma hafa sagt um hana er einfaldlega rétt. En raunveruleg vísindi hafa alltaf mótað aðferðir jafnóðum og starfinu vindur fram. Ný þekking kallar stöðugt á endurmat á aðferðafræðinni jafnframt því sem kunnátta í nýjum aðferðum leiðir til þess að menn afla víðtækari þekkingar.

Fjórða hugleiðing um sama efni

Fimmtudagur, 1. mars 2007

Kenningar af því tagi sem Wilson heldur fram í bókinni Darwin’s Cathedral gera ráð fyrir að það þurfi að skýra óeigingjarna hegðun sérstaklega en eigingjörn hegðun sé sjálfsögð. Fljótt á litið virðist þessi forsenda eðlileg afleiðing af þróunarkenningunni. Þeir sem hirða meira um hag sjálfs sín og sinna eigin afkvæma en annarra ættu að öðru jöfnu að koma upp stærri niðjahópi en hinir og arfgeng eigingirni því að vinna á með hverri nýrri kynslóð.

Málið er þó ekki alveg svona einfalt því náttúruvalið velur einkum erfðavísa sem stuðla að útbreiðslu sjálfra sín og erfðavísir sem fær einstakling til að hætta eigin lífi fyrir líf skyldmenna sinna getur unnið á. Skýringin á þessu er einföld. Erfðavísir einstaklings er að jafnaði í helmingi systkina hans, fjórðungi systkinabarna o. s.frv.

Á mótunarskeiði mannkynsins lifðu menn, eins og aðrir Afríkuapar, saman í ættbálkum sem töldu oftast fáeina tugi einstaklinga. Erfðavísir sem fannst í einum úr hópnum var að jafnaði í nokkrum öðrum líka. Hugsum okkur að hvöt til að sjá hag hópsins borgið eða vernda hann gegn hættum sé arfgeng. Hugsum okkur líka að maður sem erfir þessa hvöt sé líklegur til athafna þar sem eru 50% líkur á að hann sjálfur farist og 50% líkur á að hann bjargi tveim eða þrem öðrum með sama erfðavísi. Undir þessum kringumstæðum stuðlar erfðavísirinn að eigin útbreiðslu. Hann eyðir við og við einu afriti af sjálfu sér til að bjarna nokkrum öðrum.

Það kunna semsagt að vera fullkomlega eðlilegar líffræðilegar skýringar á því að menn eru ekki bara talsvert eigingjarnir heldur líka talsvert fórnfúsir, þ.e. til í að hætta eigin hag eða eigin lífi fyrir aðra í hópnum.

Menn búa ekki lengur í ættbálkum og nágrannar eru að jafnaði ekkert mjög skyldir. En hvöt manna til að sjá hag eigin hóps borgið hverfur væntanlega ekki við það, a.m.k. ekki ef hún er hluti af líffræðilegum arfi tegundarinnar. Hins vegar veltur sjálfsagt mest á félagsmótun hverja menn sjá sem hluta af eigin hópi.