Færslur undir „heimspeki“

Tvær nýlegar greinar

Laugardagur, 2. júní 2012

Ég var að bæta tveim greinum við lista yfir útgefin rit á heimasíðu minni (http://this.is/atli). Þær eru:

Nýjar greinar á vef

Sunnudagur, 5. júní 2011

Ég var að bæta nokkrum nýlegum greinum á vef minn http://this.is/atli.

Þrjár nýlegar tímaritsgreinar

Föstudagur, 21. janúar 2011

Nú nýlega hafa birst eftir mig þrjár greinar í tímaritum. Þær eru

  • Hvaða áhrif hafði Aðalnámskráin frá 1999 á bóknámsbrautir framhaldsskóla? Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun, birt 31. desember 2010.
  • Skilningur framhaldsskólakennara á almennum námsmarkmiðum. Tímarit um menntarannsóknir, 7. árg. bls. 93-107.
  • Inn við beinið: Um sjálf og sjálfsþekkingu. Hugur 22. árg. bls. 198-210.

Ennfremur á ég tvær ljóðaþýðingar í nýjasta hefti tímarits sem heitir Són, Tímarit um óðfræði. 8. árg. bls. 44-46.

Í sátt við óvissuna

Föstudagur, 4. september 2009

Ný bók eftir mig sem heitir Í sátt við óvissuna kom úr prentsmiðju í gær. Útgefandi er Heimspekistofnun Háskóla Íslands. Í inngangi bókarinnar segir:

Þessi bók fjallar um ýmsar hliðar heimspekilegrar efahyggju og fjölbreytileg áhrif hennar á hugsunarhátt og menningu Vesturlanda. Hún er málsvörn efahyggjumanns. Hún er líka öðrum þræði inngangur að heimspekilegri þekkingarfræði, enda hefur glíman við efahyggjuna löngum verið eitt helsta viðfangsefni þeirrar fræðigreinar.

Efahyggja hefur meðal annars stuðlað að umburðarlyndi og hún átti sinn þátt í sáttargjörð mótmælenda og kaþólikka eftir trúarbragðastríð 17. aldar. Glíman við róttæka efahyggju mótaði heimspeki nýaldar og varð bæði til þess að auka veg þekkingarfræði og breyta sýn heimspekinga á eigin viðfangsefni. Um allt þetta er fjallað í fyrri helmingi þessarar bókar, til og með 12. kafla.

Tilraunir til að hrekja rök efahyggjumanna sem frá segir í köflum 6 og 13 til 22 urðu kveikja að undarlegum heimspekikenningum eins og hughyggju og pragmatisma og áttu líka mikinn þátt í mótun kenninga um mál og merkingu sem settu svip á heimspeki 20. aldar.

Á síðustu öldum hafa framfarir í vísindum gefið hugsandi mönnum ný tilefni til efasemda um að þekking geti verið áreiðanleg. Frá þessu segir í stuttu máli í lokaköflum bókarinnar.

En þótt efahyggja hafi í vissum skilningi verið í sókn frá upphafi nýaldar er oft fullyrt að það sé ekki hægt að vera efahyggjumaður – efinn sé ógn sem menn verði einhvern veginn að sleppa frá. Þessu er ég ekki sammála. Ég held að hann sé vinur sem gott er að kjósa til fylgdar. Auðvitað geri ég mér fullvel ljóst að ekki er hægt að lifa án þess að gera ráð fyrir hinu og þessu og trúa því að minnsta kosti til bráðabirgða. Sú efahyggja sem mér þykir mest vit í snýst ekki um að neita sér algerlega um að hafa skoðanir heldur um að viðurkenna að þær séu vafa undirorpnar – að jafnvel það sem menn telja öruggast geti verið rangt.

Að baki hugmynda um að efahyggja sé með einhverjum hætti ómöguleg býr oft hugsun sem er eitthvað á þá leið að ef rök fyrir róttækri efahyggju verða ekki hrakin þá sé útilokað að menn geti vitað neitt. En eins og útskýrt er í köflum 14 til 16 er þetta misskilningur. Róttæk efahyggja útilokar ekki að menn viti ýmislegt, aðeins að þeir geti verið vissir um, að það sem þeir telja sig vita, sé raunveruleg vitneskja.

Spurningunni um hvort hægt sé að vera efahyggjumaður má svara í stuttu máli með annarri spurningu: Hvernig getur heiðarlegur maður verið nokkuð annað? Það má lesa þessa bók sem tilraun til að svara sömu spurningu í lengra máli. Hún er að minnsta kosti að nokkru leyti tilraun mín til að réttlæta eigin efagirni. Í heiminum er helst til mikið af smásálarlegum kreddum og sjálfbirgingslegri vissu en of lítið af einlægri forvitni og glaðværri spurn frammi fyrir leyndardómum tilverunnar.

Grein eftir Pál Skúlason um menningu og markaðshyggju

Föstudagur, 15. ágúst 2008

Í vorhefti Skírnis (182. árg. bls. 5-40) er grein eftir Pál Skúlason prófessor í heimspeki og fyrrum rektor Háskóla Ísland sem heitir Menning og markaðshyggja.

Í greininni fjallar Páll um markaðshyggju sem ríkjandi hugmyndafræði og lýsir því hvernig menn nota hugsunarlaust orð og hugtök úr viðskiptalífinu til að fjalla um menningu, stjórnmál og fleiri svið mannlífsins sem eru ekki hluti af markaði nema ef til vill í einhverri yfirfærðri eða myndhverfri merkingu.

Páll gerir greinarmun á markaði og markaðshyggju. Markaðurinn er hluti af veruleikanum en markaðshyggja er einn angi af hugsun manna um veruleikann og því sjálfsagt mál að gera greinarmun á þessu tvennu. Hins vegar er ekki algerlega sjálfsagt að skýra muninn á þann hátt sem Páll gerir. Hann lýsir markaðshyggju ekki sem skoðun sem er rökrædd eða sem fræðikenningu um samfélagið heldur sem hugmyndafræði og segir svo:

Áður en lengra er haldið er rétt að skýra hvað ég á við með „hugmyndafræði“. Með því orði á ég við samtengt safn hugmynda og hleypidóma sem öðlast hefur valdastöðu í mannfélaginu og hvetur fólk til að horfa á heiminn og haga sér á ákveðinn hátt. Hugmyndafræði í þessum skilningi á sér ekki ákveðna talsmenn eins og tiltekin stjórnmálaskoðun eða fræðikenning sem borin er fram í ræðu og riti af hugsandi einstaklingum. Hugmyndafræði styðst ekki við rök heldur það sem segir sig sjálft og ekki þarf að ræða eða rökstyðja. Þannig kyndir hún undir hugsunarleysi, enda aðhyllumst við yfirleitt ekki hugmyndafræði af fúsum og frjálsum vilja, heldur fylgjum henni í blindni og án þess að velta henni fyrir okkur. (Bls. 8.)

Vissulega er markaðshyggja til sem hugmyndafræði. En hún er líka til sem kenning eða meðvituð skoðun sem menn rökræða og gagnrýna. Sama má líklega segja um fleiri hugmyndir sem mótað hafa lífsviðhorf fólks og samfélagshætti: Þjóðernisstefna hefur bæði verið til sem meðvituð ræktarsemi við menningararf og sem þjóðremba eða hugmyndafræði sem elur af sér klisjur, slagorðagjálfur og úlfúð í garð þeirra sem leggja rækt við öðru vísi menningu. Ætli frjálslynd jafnaðarstefna sé ekki líka til bæði sem gagnrýnin afstaða og sem hugmyndafræði. Hvað er „pólitísk rétthugsun“ annað en frjálslynd jafnaðarstefna sem tekið hefur á sig þessa öfugsnúnu mynd? Og hvað með „grænar“ stjórnmálaskoðanir. Eru þær ekki bæði til sem upplýst afstaða manna sem hafa vit á náttúrufræðum og taka þátt í málefnalegum rökræðum og sem einstrengingslegar kreddur og jafnvel hrein hindurvitni? Um þetta fjallar Páll ekki og svo sem ástæðulaust að leggja honum það til lasts. Grein hans er um eina hugmyndafræði en ekki um allar bábiljur sem eru á kreiki í samtímanum.

Páll segir (á bls. 6) að á seinni hluta síðustu aldar hafi markaðshyggja orðið ríkjandi hugmyndafræði í Evrópu og hún hafi tekið við af marxisma og þjóðernisstefnu. Þetta er kannski ekkert fjarri lagi en það sem samt fráleitt að markaðshyggja hafi orðið einráð. Umhverfishugmyndafræði og pólitísk rétthugsun hafa líka verið í sókn og það sama má ef til vill segja um íhaldssama og trúarlega lífsafstöðu og hugmyndafræði sem af henni er dregin, bæði meðal kristinna Vesturlandabúa og ört fjölgandi hóps múslima. Þótt þjóðremba og marxismi hafi farið nokkuð halloka er af og frá að allur vindur sé úr þessum gömlu kreddum sem á sínum tíma hvöttu íbúa álfunnar til gegndarlausra morða og illvirkja.

Markaðshyggjan er engan vegin eins einráð og Páll gefur í skyn. Mér virðist að hann mikli nokkuð fyrir sér veldi hennar. Þetta kemur best fram í 9. kafla greinarinnar þar sem hann lýsir mögulegum afleiðingum þess að hugmyndafræði markaðshyggju ráði viðhorfum manna og skoðunum að öllu leyti. Þar segir hann:

Í fyrsta lagi hefur einkavæðing hugarfarsins í för með sér að við lítum ekki framar á sameiginleg siðferðileg gildi sem meginástæður breytni okkar, heldur eiginhagsmuni hvers okkar fyrir sig … (Bls. 30.)

Boðskapur markaðshyggjunnar ógnar sjálfri mennsku okkar ef honum er fylgt út í æsar. (Bls. 30.)

Einkavæðing hugarfarsins hefur þannig í för með sér að við hættum að hugsa um sameignir okkar á borð við Ríkisútvarpið, Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið … (Bls. 31.)

Ef við lítum á stjórnmál og menningarmál sem rekstrarmál, þá eigum við að vera sjálfum okkur samkvæm og einkavæða allar stofnanir á sviði stjórnmála og menningar. Kannski erum við búin að gera það í huganum: … Þar með værum við búin að leggja niður eiginleg stjórnmál. (Bls. 31.)

Vissulega örlar víða á hugmyndum sem stefna í þessar öfgar sem Páll lýsir en það er að mínu viti óþarfa svartsýni að ætla að klisjur af sauðahúsi markaðshyggju nái slíku valdi yfir fólki að öllum menningarlegum og siðferðilegum gildum verði kastað fyrir róða. Pólitískar ákvarðanir um einkavæðingu á undanförnum áratugum virðast raunar miklu fremur hafa stuðst við góð og gild hagfræðileg rök heldur en hugmyndafræði sem „á sér ekki ákveðna talsmenn eins og tiltekin stjórnmálaskoðun eða fræðikenning sem borin er fram í ræðu og riti af hugsandi einstaklingum.“ (Bls. 8.) Reyndin hefur  verið að bankar, símafyrirtæki, sementsverksmiða og ámóta rekstur hefur farið úr opinberri eigu en ekki stofnanir sem gegna lykilhlutverki í menningu þjóðarinnar eins og Ríkisútvarpið, Þjóðminjasafnið og Þjóðleikhúsið. Ef til vill er þessi mikla einkavæðing hugarfars, stjórnmála og menningar hvergi til nema í hugarheimi þeirra sem taka froðusnakk einum of alvarlega.

Um tengsl markaðshyggju sem hugmyndafræði við rökstuddar og ígrundaðar kenningar um mikilvægi verslunarfrelsis og kosti markaðshagkerfis mætti skrifa langt mál. Mér þykir það veikja málflutning Páls nokkuð að hann gerir þessu efni engin skil og lesandinn fær það á tilfinninguna að hugmyndafræðin og ígrunduðu skoðanirnar séu nánast sami grautur í sömu skál. Þetta er svipaður leikur og andstæðingar þjóðernisstefnu leika þegar þeir lýsa öfgum þjóðrembu eða þjóðhverfrar hugmyndafræði og ætlast, a.m.k. hálft í hvoru, til að menn álykti að allir sem leggja áherslu á mikilvægi þjóðrækni séu vandræðagripir. (Um þetta hef ég fjallað í grein um þjóðernisstefnu sem birtist í afmælisriti til heiðurs Arnóri Hannibalssyni sem út kom árið 2006.) Getur ekki hugsast að það eigi bæði við um þjóðræknina og áhersluna á markaðsbúskapinn, sem Aristóteles segir í II. bók Stjórnspekinnar (1289b), að versta útkoman fáist þegar það besta er keyrt út í öfgar? Ég held að minnsta kosti að það væri gáleysi að útiloka það án rökræðu og ígrundunar.

Ég hef nú fundið að nokkrum stöðum í máli Páls þar sem mér þykir hann annað hvort segja of mikið eða of lítið. Margt í grein hans er samt, eftir því sem ég best fæ skilið, vel hugsað og merkilegt. Ég held til dæmis að það sé rétt sem hann segir (á bls. 12) að markaðshyggjan hafi spillt umræðu um menntakerfi og menntastefnu. (Sjá grein eftir mig um Samkeppni framhaldsskóla sem birtist í Þjóðmálum, 3. hefti 2006.) Fleira má tína til enda kemur Páll víða við í greininni. Jafnframt því sem hann andæfir því að hugsun af sauðahúsi markaðshyggju leggi undir sig umræðu um æ fleiri svið mannlífsins teflir hann fram einstaklingshyggju sem hann sækir til Sigurðar Nordal. Páll kallar þetta menningarlega einstaklingshyggju en ég held að það mætti eins kalla hana rómantíska. Hvað sem því líður finnst mér talsvert vit í að tefla einstaklingashyggju fram sem svari við skrílslegum þankagangi af því tagi sem Páll kallar hugmyndafræði.

Óraplágan

Fimmtudagur, 3. júlí 2008

Í nýjasta tölublaði Þjóðmála (2. hefti, 4. árg. s. 76–82) er grein eftir mig um Órapláguna eftir Slavoj Žižek. Greinin liggur hér frammi.

Málþing um heimspeki í skólum

Laugardagur, 17. nóvember 2007

Í dag sat ég málþing um heimspeki í skólum sem haldið var í Háskóla Íslands. Þar sem ég hef sjálfur fengist við að kanna slík fræði í framhaldsskóla í rúma tvo áratugi, og verið heldur einn á báti við þá iðju, hlakkaði ég til að hitta aðra sem fást við svipaða kennslu.

Sumt af því sem þarna var sagt á ég sjálfsagt eftir að hugleiða og nota svo síðar, vonandi til einhvers gagns fyrir nemendur mína.

Þótt margt hafi verið vel sagt á málþinginu fannst mér dálítið miður hvað sumir fyrirlesarar tóku mikið upp í sig og voru fullyrðingaglaðir um gagnsemi heimspekikennslu. Allir virtust sammála um mikilvægi þess að innræta börnum og unglingum gagnrýna hugsun. En heimspekingar sem boða gildi slíkrar hugsunar eru að mínu viti ekki mjög trúverðugir nema þeir séu að minnsta kosti ofurlítið gagnrýnir á sjálfa sig og sín eigin fræði.

Lengst gekk síðasti ræðumaður, Kristín H. Sætran, sem hélt því bæði fram að íslenskir framhaldsskólar væru ómögulegir og nemendum þeirra leiddist og að heimspekikennsla fyrir alla nemendur gæti útrýmt leiðindunum, komið í veg fyrir brottfall, sparað ríkinu stórfé og nánast leyst allan vanda skólanna.

Mér þótt hún ýkja nokkuð ágalla skólakerfisins. En hvað um það. Gallalaust er það ekki og full þörf á duglegum umbótamönnum með ferskar hugmyndir. En það er samt frekar ódýrt að halda því fram á fundi með 20 heimspekimenntuðum mönnum að heimspekikennsla sé lausnin. Það væri mun djarfara að fara með slíkan boðskap á fund með fulltrúum annarra fræðigreina, sem flestir vilja koma sínum hugðarefnum að í skólakerfinu.

Sjálfur hef ég efasemdir um að heimspeki sé heppilegt skyldufag fyrir alla nemendur. Hún kann að eiga erindi inn í ýmsar greinar. Til dæmis á siðfræði erindi í lífsleikni, þekkingarfræði í ýmis bókleg fög og rökfræði má vera hluti af stærðfræðikennslunni. Flest skólastarf getur líka haft gagn af samræðulist í anda Sókratesar, svolitlum skammti af efahyggju og vilja til að skoða alls konar hugmyndir í stað þess að dæma allt sem ekki passar við kennslubókina úr leik að lítt athuguðu máli. Þetta gera góðir kennarar í ótal greinum. Til þess þarf vissulega talsverða samskiptahæfileika, skarpa greind og sjálfsöryggi til viðbótar við gott vald á námsgreininni. Kennarar sem loka á samræður og slá á puttana á nemendum sem segja eitthvað frumlegt eru trúlega flestir frekar litlir í sér. Þeir stækka hvorki né fara að leita sér að annarri vinnu þótt bætt sé nýrri námsgrein í stundatöflur nemendanna.

Heimspeki sem skyldufag er tæplega til þess fallin að útrýma leiðindum úr skólastofunum, því þótt heimspekingum kunni að finnast það ótrúlegt þá þykir sumu fólki heimspeki ekkert skemmtileg. (Mig rámar líka í að hafa einu sinni hitt íþróttakennara sem fannst ótrúlegt að nokkrum manni leiddust boltaleikir.)

Heimspeki í framhaldsskólum hefur hingað til verið skemmtileg, meðal annars vegna þess að hún hefur verið valgrein svo nemendurnir hafa gengið til leiks með því hugarfari að þetta yrði gaman. Hluti af skemmtilegheitunum er líka vegna þess að kennararnir geta skipulagt kennsluna eftir eigin höfði, en þurfa ekki að fylgja neinni námskrá. Þeir geta því, hver og einn, miðlað því sem þeim sjálfum finnst merkilegt og notið sín sem persónur í kennslunni. Þessar tvær uppsprettur skemmtilegheita munu líklega úr sögunni um leið og aðalnámskrá skilgreinir heimspeki sem skyldufag.

Ricci og kristniboð í Kína

Sunnudagur, 19. ágúst 2007

Heimspeki Vesturlanda var lítt þekkt í Kína fyrr en á 20. öld en Vesturlandabúar fengu dálitla nasasjón af hugsun Kínverja þegar Kristmunkar (Jesúítar) hófu kristniboð þar undir lok 16. aldar.

Fyrsta trúboðsstöðin þarna austur frá var stofnuð árið 1583 af ítölskum presti sem hér Matteo Ricci. Hann var fæddur árið 1552 og var því orðinn rúmlega þrítugur þegar hann fór til Kína þar sem hann dvaldi til dauðadags árið 1610. Hann fór víða um Kínaveldi. Síðustu árin dvaldi hann í Beijing og mun hafi verið fyrsti Vesturlandabúinn sem fékk að koma inn í keisarahöllina þar. Honum var veitt innganga eftir að hann gaf Wanli keisara evrópska klukku. Ekki mun hann þó hafa heitt keisara sjálfan.

Sagan segir að Ricci hafi fljótt orðið altalandi á kínversku og rit hans sem varðveist hafa sýna að hann skrifaði kínverskan stíl jafngóðan og lærðustu menn austur þar. Hann lærði að bera virðingu fyrir heimspeki Kongzi, enda taldi hann að þessi forna kínverska viska gæti að mestu samrýmst kristinni trú og beindist viðleitni hans einkum að því að fá áhangendur  hennar til fylgis við Jesú. Við Taóista og Búddhista hafði hann minna að segja.

Tilraunir Ricci til að sætta evrópska og kínverksa hugsun gengu svo langt að hann kallaði sig vestrænan konfúsíanista og þýddi rit Kongzi á latínu. Það var Ricci sem gaf honum nafnið Confucius (sem á íslensku er ritað Konfúsíus) og undir því nafni hefur hann síðan verið þekktur meðal Evrópumanna.

Ricci var líklega óvenjulega víðsýnn og umburðarlyndur maður. Hann vildi laga kristniboðið að hugsunarhætti kínverja og taldi ekkert athugavert við að þeir héldu siðum sínum, forfeðradýrkun og konfúsískum helgiathöfnum áfram þótt þeir tækju skírn. Eftirmaður hans, Nicolo Longobardo, sem tók við forystu í trúboði Kristmunka í Kína að Ricci látnum, hafði aðra afstöðu. Hann áleit að Kínverjar yrðu að breyta algerlega um siði ef þeir ætluðu að verða kristnir menn.

Þessi ágreiningur Ricci og Longobardo endurspeglaðist í skrifum Evrópumanna um Kína næstu 100 árin. Annars vegar voru þeir sem álitu Kínverja annað hvort efnishyggjumenn eða villutrúarmenn með kolrangar hugmyndir um hinstu rök tilverunnar. Hins vegar voru þeir sem tóku undir sjónarmið Ricci og álitu kínverska menningu jafnoka þeirrar evrópsku og vildu að við lærðum af þeim ekki síður en þeir af okkur.

Fremstur í flokki þeirra sem fylgdu Ricci að málum og héldu fram jákvæðum viðhorfum til kínverskrar heimspeki var Þjóðverjinn Gottfried Wilhelm Leibniz. Hann taldi að það besta í speki Kongzi væri, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki svo ólíkt sönnum og réttum kristindómi (sem kann að skýrast að nokkru leyti af því að kristindómurinn sem Leibniz aðhylltist var eilítið öðruvísi en hjá flestum öðrum).

Frummyndakenningin og Li

Miðvikudagur, 15. ágúst 2007

Fyrir nokkrum dögum, nánar tiltekið þann 10. ágúst, skrifaði ég örfá orð hér um samkenni evrópskrar og kínverskrar heimspeki. Þótt þessir menningarheimar hafi þróast um aldir án neinna tengsla sín á milli koma svipaðar hugmyndir fyrir í heimspekiritum frá þeim báðum. Vissulega er ekki hægt að útiloka að það sé vegna þess að hugmydir spyrjast frá manni til manns og ferðast þannig um hnöttinn. Til dæmis bárust ýmsar pælingar frá Indlandi bæði í austur og vestur. En svo geta menn líka fengið svipaðar hugmyndir án þess að um sé að ræða neitt samband á milli þeirra.

Ein af umtöluðustu kenningum evrópskrar heimspeki fyrr og síðar er frummyndakenningin sem Platon setti fram í Faídóni, Ríkinu og fleiri bókum. Þessi kenning átti að svara spurningum eins og:

  • Um hvað eru stærðfræðingar að tala þegar þeir segja frá beinni línu sem hefur enga breidd, er þráðbein og óendanlega löng eða hringi sem eru fullkomlega kringlóttir? Svona hlutir eru ekki til í efnisheiminum (jafnvel reglustika sem virðist þráðbein reynist skörðótt ef hún er skoðuð í smásjá).
  • Hvernig stendur á því að við höfum hugmynd um fullkomið réttlæti, eða algerlega beina línu þótt við höfum hvergi rekist á slík fyrirbæri?
  • Ef spurt er hvað allir þungir hlutir (allir rauðir hlutir, allir kringlóttir hlutir) eiga sameiginlegt þá er eðlilegast að svara þyngd (rauðan lit, hringlögun). Hlýtur þá ekki að vera til eitthvað sem heitir þyngd (rauður litur, hringlögun)?

Svar Platon við öllum þessum og þvílíkum spurningum er að til viðbótar við áþreifanlega hluti séu til frummyndir, þ.e. hlutir á borð við beinu línuna sem slíka, tölurnar, réttlætið og eiginleika á borð við þyngd, liti og lögun. Þessi fyrirbæri taldi Platon að væru óbreytanleg þannig að þótt t.d. einstök dæmi um réttláta menn og réttlát ríki komi og fari haldi réttlætið sjálft alltaf áfram að vera til og breytist ekki.

Helst er að skilja að Platon hafi talið að fyrir hvert hugtak sé til frummynd, þ.e. óhlutstæður veruleiki sem það vísar til.

Að sumu leyti virðist þetta undarleg kenning og hún vekur erfiðar spurningar eins og hvar þessar frummyndir geti eiginlega verið? Þessari spurningu svarar Platon ekki nema með líkingamáli. Sumir kristnir fylgismenn hans á seinni öldum hafa álitið að frummyndirnar séu í raun og veru hugsanir í huga Guðs. Þeir hafa þá sagt eitthvað á borð við að réttlætið sem slíkt (eða beina línan sem slík) sé réttlætið (beina línan) eins og Guð hugsar sér það (hana).

Pælingar sem eru nauðalíkar þessum má finna í ritum fylgismanna Kongzi frá 11. og 12. öld. Þeirra kunnastur er líklega Zhu Xi sem uppi var á árunum 1130 til 1200. Líkt og fyrirrennarar hans taldi hann að hver tegund hefði sitt li eða form eða eðli og þetta li væri óbreytanlegt og utan við heim áþreifanlegra hluta. Ýmislegt annað sem Zhu Xi sagði um li er afar líkt því sem Platon sagði um frummyndir einu og hálfu árþúsundi fyrr og líka því sem evrópskir miðaldaheimspekingar, samtímamenn Zhu Xi, ræddu um svipuð efni.

Zhu Xi taldi að allir hlutir hefðu sitt li (eðli eða form) og þessi form væru einhvern veginn tímalaus og þau væru til þótt enginn hlutur félli að þeim.

Ein skemmtileg hugmynd sem þessi gamli kínverji ræddi var li heimsins alls. Ef sérhver hlutur hefur sitt form eða eðli og þetta form er eilíflega til utan við veröld þess áþreifanlega, hlýtur þá ekki li alheimsins að eiga sér eilífa tilveru? Þetta li heimsins taldi hann æðra en annan veruleika og hann áleit líka að það speglaðist í öllum hlutum, að jafnvel í því smæsta og ómerkilegasta væri mynd alverunnar fólgin. Þetta minnir svolítið á það sem Platon sagði um æðstu frummyndirnar, það fagra og það góða. En ég kannast ekki við að Platon hafi álitið að heimurinn allur speglaðist í hverjum minnsta hluta sínum. Sú hugmynd kemur hins vegar fyrir hjá Leibniz á 17. öld og hver veit nema hann hafi fengið hana frá Kína.

Búddha og Taó

Laugardagur, 11. ágúst 2007

Á mótunarárum klassískrar heimspeki í Kína þekktu landsmenn lítið til annarra menningarheima. Líkt og Grikkir til forna skiptu þeir mannkyninu í tvennt. Annars vegar landa sína, sem voru siðmenntaðir, og hins vegar villimenn. Af villimönnum var ekkert hægt að læra svo kínverskur menningarheimur myndaði nánast lokaða heild þar til á fyrstu öld e.Kr. þegar Búddhatrú barst austur þangað frá Indlandi.

Kenningar Búddha eru um sumt líkar taóismanum sem kínverjar þekktu af ritum Laózi og Zhuangzi og vildu sumir skýra þetta með því að sá fyrrnefndi hefði farið til Indlands og kennt Gauthama prins, upphafsmanni Búddhismans, fræði sín– enda sagði sagan að Laózi hefði horfið í ellinni og gat hann ekki eins hafa farið til Indlands eins og hvað annað. Sagnfræðingum nútímans finnst þessi skýring víst ekki mjög trúleg. En hitt er víst að meðal Kínverja blandaðist útlend Búddhatrú saman við innlendan taóisma og af þessari blöndu spratt meðal annars sú stefna í Búddhisma sem þekkt er undir japanska heitinu zen-búddhismi.

Sagt er að á 3. og 4. öld e.Kr. hafi fræðimenn sem aðhylltust taóisma og Búddamunkar átt vingott. Gildi þess tilvistarlausa var hvorum tveggju hugleikið. Um það höfðu þeir engin orð. Það sem ekki er það fær mannlegt mál ekki fangað, því tjáðu þeir hug sinn með brosi og skildu þögn hver annars.