Færslur undir „dýrð heimsins“

Námsorlof

Miðvikudagur, 2. september 2009

Þar sem ég er í námsorlofi skólaárið 2009 til 2010 líða síðsumardagarnir öðru vísi hjá mér nú en undanfarin ár. Ég sit og les og skrifa punkta og glósur. Frá og með þessari viku mæti ég líka í tíma í Háskóla Íslands þar sem ég tek tvö námskeið nú á haustönn. Þau heita Kenningar í félagsfræði og heimspeki menntunar (MVS101F) og Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FOM102F). Þessi námskeið leggjast heldur vel í mig. Annað fjallar um efni sem ég hef áhuga á og hitt gefur mér tækifæri til að hefja vinnu við aðalverkefni mitt til PhD prófs sem verður meðal annars í því fólgið að taka allmörg viðtöl við kennara í framhaldsskólum.

Verkefnið sem ég hef tekist á hendur, og mun væntanlega taka mig nokkur ár að vinna, er í því fólgið að kanna hvaða menntastefna og hvaða gildismat ráða ferðinni við val á námsefni og áherslum á stúdentsbrautum framhaldsskóla og bera þetta annars vegar saman við opinbera menntastefnu, eins og hún birtist í lögum, reglugerðum og námskrám, og hins vegar við fræðilegar kenningar um námsmarkmið og gildi menntunar.

Ég hef ekki hugsað mér að skoða allar námsgreinar sem kenndar eru til stúdentsprófs enda væri það nú líklega of mikið verk. Greinarnar sem ég hyggst fjalla um eru annars vegar stærðfræði- og náttúruvísindi og hins vegar íslenska og saga.

Persepolis, Marjane Satrapi og amma hennar

Mánudagur, 12. maí 2008

Þegar Richard Corliss, kvikmyndagagnrýnandi Time magazine, valdi tíu bestu myndir síðasta árs setti hann teiknimyndina Persepolis í 6. sæti. Það er ekki oft sem evrópskar teiknimyndir hljóta slíka upphefð vestanhafs og líklega er enn sjaldgæfara að sögur frá Íran nái þvílíkri athygli þar um slóðir. Kannski er enn merkilegra að þessi sjálfsæfisaga stúlku frá Íran skuli vera ein þriggja teiknimynda sem til greina komu þegar Óskarsverðlaunin voru veitt fyrr á þessu ári.

Höfundur sögunnar, Marjane Satrapi (sem heitir víst مرجان ساتراپی á persnesku), er fædd árið 1969. Hún ólst upp í Teheran. Nokkrir af körlunum í fjölskyldu hennar tilheyrðu innsta hring íranskra kommúnista og sósíalista fyrir byltingu íslamista árið 1979. Sumir þeirra voru í fangelsi fyrir byltinguna þegar Mohammad Reza Pahlavi keisari stjórnaði landinu. Sumir voru fangelsaðir eða teknir af lífi af klerkastjórninni eftir að hún komst til valda.

Kvikmyndin er byggð á teiknimyndabókum sem Marjane Satrapi gerði eftir að hún flutti til Frakklands. Bækurnar segja sögu hennar frá því hún var barn í Teheran. Ég hef ekki séð þessar bækur en ég horfði á myndina í gærkvöldi og þótt hún ansi merkileg – enda þarf mynd með þennan uppruna líkast til að vera býsna sérstök til að ná heimsathygli.

Í myndinni er bylting íslamskra fundametnalista og það sem á eftir kom séð með augum barnsins. Saga fjölskyldunnar er sögð fram á 10. áratug síðustu aldar. Aðalpersónan gekk í franskan skóla og 14 ára gömul var hún send til Vínarborgar að því er virðist bæði til að hún menntaðist á evrópska vísu og til að forða henni frá ofsóknum af hálfu stjórnvalda. Hún endaði á götunni í Vín eftir að hafa kynnst nokkrum misgæfulegum fulltrúum vestrænnar menningar, fór aftur til Teheran, giftist, skildi við karlinn, lærði myndlist til meistaraprófs við háskóla í Teheran og flúði svo til Frakklands.

Fjölskylda Marjane Satrapi virðist hafa verið þokkalega efnuð og samfélagið sem hún ólst upp í nokkuð líkt heimi menntaðra borgara á Vesturlöndum. Eftir byltinguna var að vísu bannað að drekka vín, vestræn tónlist fékkst aðeins á svartamarkaði, menn voru settir í steininn eða drepnir fyrir að andmæla klerkunum og konur þurftu að ganga með blæjur. Stríðið við Írak kemur fram í bakgrunni en saga Marjane Satrapi er ekki fyrst og fremst saga um byltingar og stríð. Hún er fyrst og fremst saga um stúlku sem elst upp á umbrotatímum og hefði nokkrum sinnum getað farið í hundana en gerði það ekki vegna þess að hún átti góða ömmu sem var henni bæði stoð og fyrirmynd.

Það sem gerir myndina sérstaka og grípandi er ekki síst amman – kona sem lætur ekki hræða sig, en heldur alltaf áfram að trúa á jafnrétti og frelsi. En það er líka merkilegt að sjá hvernig Marjane Satrapi rifjar upp byltinguna og upphaf klerkaveldisins í Íran og kannski hjálpar myndin okkur ofurlítið til að skilja þá atburði. Viðbrögð íranskra stjórnvalda benda til að þarna sé eitthvað sagt sem máli skiptir, a.m.k. mótmæltu þau við franska sendiráðið í Teheran þegar myndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes, þar sem hún vann Prix du Jury árið 2007. Með þrýstingi á Tælensk stjórnvöld tókst klerkunum í Teheran að koma í veg fyrir að myndin væri sýnd á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Bangkok.

Það er kannski ekkert sérstakt undrunarefni að erkiklerkar séu svolítið hræddir við sögu um sjálfstæða konu með bein í nefinu eins og ömmu Marjane Satrapi. Mér finnst ekkert ótrúlegt að hún verði fólki fyrirmynd löngu eftir að klerkaveldið í Íran er farið veg allrar veraldar.

Rótarý

Sunnudagur, 17. febrúar 2008

Í allan dag sat ég á fundi sem Rótarýumdæmið á Íslandi hélt fyrir verðandi forseta í þeim 29 Rótarýklúbbum sem til eru í landinu. Þar sem ég hef ekki verið í Rótarýklúbbi í nema tæp 4 ár, og aldrei áður verið kosinn forseti, var þetta í fyrsta sinn ég fór á svona fund, en þeir eru haldnir á hverju ári.

Fyrir svo sem áratug hefði ég líklega svarið fyrir að ég mundi nokkurn tíma ganga í Rótarý, Lions, Kiwanis eða eitthvað í þeim dúr. Ég hélt að svona klúbbar væru aðallega eitthvert sambland af snobbi og smáborgaraskap.

Um Kiwanis og Lions veit ég næstum ekki neitt en eftir að Ingjaldur tannlæknir dró mig inn í Rótarý hef ég komist að því að þessi samtök eru að minnsta kosti alveg laus við snobb og það þarf talsvert lituð gler til að þau sýnist tiltakanlega smáborgaraleg. Rótarýklúbbur er einfaldlega félagsskapur þar sem fólk úr ólíkum starfsgreinum hittist vikulega, reynir að eiga skemmtilega stund saman og láta gott af sér leiða – og svo merkilegt sem það er tekst þetta alveg þokkalega.

Fundirnir hér á Akranesi eru alltaf klukkan 18:30 á miðvikudögum. Við borðum kvöldmat saman, spjöllum um daginn og veginn og oftast er einhverjum gesti boðið að koma og flytja svona tuttugu mínútna erindi. Mánaðarlega, eða þar um bil, eru fundirnir ekki á venjulegum fundarstað (sem er matsalur Sementsverksmiðjunnar) heldur hjá einhverju fyrirtæki eða stofnun í bænum sem tekur á móti hópnum og kynnir honum starfsemi sína. Í síðustu viku heimsóttum við til dæmis röntgendeildina á spítalanum. Á sumrin fara nokkrir fundir í vinnu við skógræktina í Slögu eða aðra útivinnu eins og til dæmis stígagerð í Akrafjalli. Allt er þetta frekar skemmtilegt. En Rótarýfélagar gera meira en bara að skemmta sér.

Rótarý starfar í 165 löndum. Klúbbarnir eru meira en 30 þúsund talsins og félagar um 1,2 milljónir. Þetta er semsagt fjölmenn hreyfing. Hún er líka orðin 102 ára gömul (og eldri en bæði Kiwanis sem varð til 1915 og Lions sem var stofnað 1917). Þessi fjölmenna hreyfing stuðlar auðvitað að kynnum manna frá ólíkum heimshornum og með ólíkan bakgrunn. Hún heldur líka á lofti hugsjónum um frið og fordómalaus samskipti og reynir að hvetja félagsmenn sína til að haga sér vel og láta gott af sér leiða.

Hreyfingin á líka sjóð, sem er að mestu myndaður úr framlögum félagsmanna. Þessi sjóður er býsna stór. Mér skilst að hann sé stærsti sjóður sem til er í eigu frjálsra félagasamtaka og notaður er til mannúðarmála. Fé úr honum hefur verið varið til að bólusetja börn gegn lömunarveiki með þeim ágæta árangri að henni hefur veri útrýmt í öllum löndum heims nema fjórum (Afganistan, Pakistan, Indlandi og Nígeríu). Meðal annarra verkefna sem sjóðurinn styrkir eru nemendaskipti milli landa, barátta gegn ólæsi og öflun drykkjarvatns þar sem það er af skornum skammti.

Rótarýklúbbar hafa áhrif sem munar um, ekki bara fyrir félagsmenn sína sem kynnast og mynda sambönd, heldur líka fyrir allan heiminn. Þessi áhrif eru sjaldan í fréttum og það er líklega mest vegna þess að góðar fréttir eru engar fréttir.

Bókabúðin við Klapparstíg og Jón S. Bergmann

Laugardagur, 2. febrúar 2008

Á mánudaginn var þurfti ég að skreppa til Reykjavíkur á fund sem var haldinn að Laugarvegi 13. Á leiðinni til baka á bílstæðið staðnæmist ég við fornbókabúðina á horni Klapparstígs og Hverfisgötu eins og ég geri oftast þegar ég á leið um miðbæinn. Ég geng inn og fótatakið verður eftir fyrir utan. Á báðar hendur eru bækur frá gólfi í loft.

Þetta er merkileg búð þar sem menningin og sagan bíða þolinmóð eftir fólki sem býr svo vel að eiga stundir aflögu. Þarna eru líka alltaf einhverjir karlar að spjalla saman. Sumir eru í gömlum hettuúlpum sem eru dálítið upplitaðar – í stíl við ábúðarfyllstu bækurnar – þessar sem eru komnar á virðulegan aldur og muna tímana tvenna.

Mest af vana fer ég að ljóðabókunum. Þær eru alltaf á sínum stað og horfa skáhallt gegn um gluggann sem vísar út á Klapparstíginn. Að hætti ljóða standa þær hver í sinni hillu en ekki í neinni sérstakri röð. Merki á hillunum gefa þó ofurlitla vísbendingu um hvaða flokki þær tilheyra. Á einu stendur, að mig minnir, „leirskáld“ og á öðru „þjóðskáld.“

Þegar ég kem þarna er ég stundum með nokkra bókartitla í huga – rit sem mig langar að eignast og er hálfpartinn að leita að. Oftast finn ég ekkert þeirra. En á mánudaginn var ég heppinn því Jón. S. Bergmann (1874–1927) var þarna í þunnu bandi, eða nánar tiltekið, bókin Ferskeytlur og farmannsljóð frá árinu 1949 sem geymir safn ljóða hans. Mest eru þetta ferskeytlur. Ein er svona:

Eru skáldum arnfleygum
æðri leiðir kunnar.
En ég vel mér veginn um
veldi ferskeytlunnar.

Jón S. Bergmann var frá Miðfirði í Húnavatnssýslum. Hann var með snjöllustu hagyrðingum landsins á sinni tíð. (Allmargar vísur eftir hann má finna á vefnum http://skjalasafn.skagafjordur.is/).

Jón fór að heiman 17 ára og tók að stunda sjóróðra á Suðurnesjum. Eftir það var hann einn vetur við nám í Flensborgarskólanum, svo til sjós á enskum togurum. Hann giftist 27 ára gamall Helgu Málfríði Magnúsdóttur og eignuðust þau hjón eina dóttur, Guðrúnu. Hún er skráð útgefandi bókarinnar sem ég fann þarna í hillunni. Ég borgaði fyrir hana og gekk aftur út.

Hjónabandið entist ekki lengi. Kannski hefur Helga orðið leið á drykkjuskap skáldsins. Ekki veit ég það. Ekki veit ég heldur hvort þessar vísur eru um hana eða einhverja aðra konu:

Man ég gleggst, þú gladdir mig
góðum yndisfundum;
því skal fórnað fyrir þig
flestum vökustundum.

Þó að okkar ástarskeið
enti að beggja vilja,
þá er einum örðug leið
eftir að vegir skilja.

Eftir skilnaðinn var skáldið um tíma lögreglumaður í Hafnarfirði, síðan farmaður á enskum kaupskipum sem sigldu milli Bretlands og Norður Ameríku. Síðustu 12 árin sem hann lifði var Jón S. Bergmann á flakki um Ísland og sinnti ýmsum störfum. Hann var fátækur og átti ekki fast heimili.

Margt af því sem Jón orti er glatað, því ferðakista hans tapaðist skömmu áður en hann flutti heim til Íslands eftir siglingarnar yfir Atlantshafið. En sumt sem varðveist hefur er heillandi kveðskapur eins og þessi vísa. Trúlega er hún ort úti á sjó:

Gesti fögnuð hrannir halda
hér á lögninni.
Kynjamögn er veðrum valda
vaka í þögninni.

Nóg við að vera

Miðvikudagur, 5. desember 2007

Desember er annatími hjá stjórnendum framhaldsskóla. Það er verið að undirbúa brautskráningu nemenda og næstu önn. Ég hef því haft lítinn tíma til grískunáms upp á síðkastið. En það er svo sem í lagi. Mér finnst allt í lagi að kennslubókin sem ég á endist í ár eða tvö.

Síðasta föstudag hélt Rótarýklúbburinn minn upp á sextugsafmæli sitt með heilmiklum mannfagnaði í Jónsbúð við Akursbraut. Kvöldið eftir var svo „julefrokost“ hjá starfsmönnum skólans. Flestir mættu en kræsingarnar á hlaðborðinu hefðu samt dugað fyrir tvöfalt fleiri. Nokkrir komu með heimatilbúin skemmtiatriði og að þessu sinni voru þau með allra besta móti.

Í dag og í gær voru nemendur mínir í heimspeki (þ.e. áföngunum HSP103, HSP123 og HSP203) í prófum. Ég var að standa upp frá því að fara yfir þau.

Það er semsagt nóg við að vera sem er ágætt. Það er líka nóg framundan– jólahlaðborð og alls konar skemmtilegheit svo ég legg ekkert af þrátt fyrir annríkið.

Nýjar reglur um fjárfestingaráðgjöf og verðbréfaviðskipti

Miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Hvílík dýrð og hvílík dásemd. Ég fékk bæði bréf frá Landsbankanum og Kaupþingi þar sem mér voru „kynntar“ nýjar reglur um fjárfestingaráðgjöf og verðbréfaviðskipti. Af innbyggðri samviskusemi renndi ég yfir fyrra bréfið, en þótt ég reyndi skildi ég ekki nærri allt sem í því stóð. Ég skildi þó að bankinn ætlaðist til að ég staðfesti að ég hefði kynnt mér þessar reglur.

Það var lína á einu blaðinu sem ég gat kvittað í og greinilega gert ráð fyrir að ég sendi bankanum bréfið til baka með undirskrift sem staðfesti að ég hefði sett mig inn í eitthvað sem ég skildi ekki. Ég kunni ekki við að setja nafnið mitt undir þetta, enda varla hægt að segjast hafa kynnt sér mál ef maður veit ekki enn almennilega um hvað það snýst. Ég hringdi því í bankann og spurði hvort ég mætti ekki bara treysta honum áfram fyrir peningunum mínum án þess að ljúga því upp á mig að ég hefði meðtekið efni bréfsins.

Konan sem varð fyrir svörum sagði að bankanum væri óheimilt að aðstoða mig við fjárfestingar í hlutabréfum fyrr en ég hefði staðfest að ég hefði kynnt mér reglurnar– þetta væru fyrirmæli frá æðstu stöðum í sjálfri Brussell og þau væru í lög leidd til að vernda neytendur og tryggja þeim góða þjónustu. Þetta var kurteis kona og mér þótti heldur óviðkunnanlegt að þræta við hana svo ég spurði hvort ég gæti ekki bara gefið bankanum munnlegt leyfi til að sjá um mín mál án þess að skrifa undir neitt. Hún kvaðst þá geta merkt við á einhverjum stað, sem ég man ekki hvað hún kallaði, að ég hefði staðfest að mér væru kunngerðar reglurnar góðu. Ég gerði ekki athugasemdir við það.

Vel má vera að þetta regluverk sé sett í þeim tilgangi að tryggja hag okkar sem eigum viðskipti við banka. Og það er líka vel trúlegt að einhvern daginn verði bakaríum bannað að selja mér snúð og vínarbraut eða ráðleggja mér um val á afmælistertu nema ég kvitti fyrir að hafa kynnt mér áhrif þess á heilsuna að úða í mig sætabrauði. Þær reglur verða sjálfsagt líka settar í góðum tilgangi. En það er eins og Hallgrímur sagði Passíusálmunum að „góð meining enga gjörir stoð“ enda ekkert mikið meiri vandi að vera pest og plága í góðum tilgangi heldur en illum.

Ef ég hef viðskipti við banka og skrifa ekki upp á að kunna eða þekkja neinar sérstakar reglur þá er það sem bankinn má gera mér takmarkað af lögum og þeim loforðum sem hann gefur. Að ég segist kunna, þekkja eða skilja lögin getur tæpast takmarkað svigrúm eða rétt bankans til að taka sína hagsmuni fram yfir mína. Hins vegar getur slík undirskrift, ef mér skjátlast ekki, undir vissum kringumstæðum rýmkað heimildir bankans á minn kostnað. Ef það er eitthvað sem er bannað að gera mér, nema ég veiti til þess samþykki, þá getur undirskrift sem staðfestir að ég hafi kynnt mér einhver ákvæði, ásamt þeirri staðreynd að ég hef ekki andmælt þeim, líklega jafngilt slíku samþykki.

Ég skildi ekki þessar reglur og átta mig því ekki á hvernig þær vernda mína hagsmuni. Ég skil ekki heldur hvaða vernd mér getur verið í því að staðfesta að ég hafi kynnt mér reglurnar. Ætli ég verði ekki enn jafnskilningsvana þegar umhyggjusöm yfirvöld í Brussell setja svipaðar reglur fyrir bakarí og þau hafa nú sett fyrir banka. Og hvað með þá sem eru bara of takmarkaðir til að geta kynnt sér flóknar reglur? Verður kannski bannað að eiga viðskipti við þá, greiðslukortin þeirra klippt í sundur og þeir geymdir einhvers staðar afsíðis sjálfum sér til verndar og hagsbóta?

Þriðjudagur 30. október

Þriðjudagur, 30. október 2007

Nú er komið vel fram yfir miðja önn og eins og ævinlega hafa nokkrir nemendur afrekað að skrópa sig út úr skóla. Að vanda hringjum við skólastjórnendur í forráðamenn þeirra sem eru undir 18 ára áður en við vísum þeim úr einstökum áföngum eða rekum þá alveg úr skólanum. Þetta er ekki mjög skemmtilegt verk. Eigi að segja eitthvað gott um það má kannski halda því fram að það sé lærdómsríkt. Meðal þess sem maður lærir af að tala við unglinga og  forráðamenn þeirra um vandræði eins og skróp er hvað lífið í rauninni fjári erfitt þrátt fyrir alla velmegunina og ríkidæmið.

Vinnan í skólanum gengur annars sinn vanagang. Mestur tíminn fer í skrifstofustörf og að svara ýmsum smáerindum en svo eru stærri uppákomur inn á milli og flesta daga gerist eitthvað skemmtilegt sem bregður birtu yfir starfið. Í dag hitti ég til dæmist starfsbrautina (fötluðu nemendurna og kennara þeirra) úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ sem höfðu að gamni sínu tekið strætó hingað upp á Skaga til að heimsækja nemendur og kennara á starfsbrautinni hér. Þetta var glaðlegur hópur sem leit við og skoðaði skólann og lagði svo leið sína á safnasvæðið að Görðum til að fræðast um liðna tíma og kannski líka til að skoða steinasafnið, kortasafnið og íþróttasafnið sem þar eru.

Eftir vinnu spjallaði ég svo stundarkorn í síma við stud. jur. Mána til að óska honum til hamingju með afmælið en hann er orðinn 22 ára.

Málverk eftir Wu Wei og töluorð á grísku

Laugardagur, 6. október 2007

Í morgun skruppum við Harpa Í Kópavoginn og skoðuðum sýningu á listmunum og handverki frá Wuhan í Kína. Þeir eru til sýnis í Gerðarsafni. Þessi sýning var jafnvel enn betri en ég bjóst við. Þó má finna að því að sumir smágerðir hlutir standa í fulldaufri birtu til að gott sé að greina alla drætti þerra.

Það verk á sýningunni sem ég staldraði lengst við er stór mynd af guðum hamingju, arðsemi og langlífis sem var máluð af manni sem hét Wu Wei og var uppi á 15. öld. Það eru sérstakir töfrar í þessari mynd og þessi ágætu guðir eru ótrúlega glaðlegir og sælir á svip.

Ég lít við og við í kennslubækur í grísku. Það verður þó að viðurkennast að námið gengur fremur hægt enda er þetta mál talsvert flókið. Það er kannski ekkert flókið að læra að

tría (τρια) þýðir þrír,
ðekatría (δεακτρια) þýðir þrettán,
tríanda (τριαντα) þýðir þrjátíu og
tríakosia (τριακοσια) þýðir þrjúhundruð.

Þá er næst að læra að tesera (τεσσερα) þýðir fjórir og nú heldur maður að hægt sé að mynda orðin fyrir fjórtán, fjörtíu og fjögurhundruð með sama hætti og þrettán, þrjátíu og þrjúhundruð eru dregin af orðinu fyrir þrjá. Þetta gildir um fjórtán en ekki fjörtíu og fjögurhundruð því

tesera (τεσσερα) þýðir fjórir
ðekatesera (δεκατεσσερα) þýðir fjórtán
saranda (σαραντα) þýðir fjörtíu og
tetrakosia (τετρακοσια) þýðir fjögurhundruð.

Þegar litið er á orðin yfir 300 og 400 virðist eðlilegt að álykta að kosia (κοσια) þýði hundrað. En ekki er það alveg svo einfalt. Hundrað í eintölu er ekato (εκατο).

En þeim sem tala íslensku ferst víst ekki að fjargviðrast yfir því að gríska sé flókin. Það er varla neitt auðveldara að læra okkar töluorð þar sem

tveir menn geta á
öðrum degi rætt
tveim tungum um
tvö efni í
tvennum skilningi og
tvær konur geta tekið
tvennt fyrir með
tvíræðum hætti í
tveggja mínútna samtali þann
annan maí.

Tilveran þessa daga og ritdómur í Þjóðmálum

Fimmtudagur, 13. september 2007

Þá er haustönn komin vel af stað og mesta annríkið við að byrja skólaárið frá. Framundan eru vonandi bara venjulegir átta til sautján vinnudagar. Í gær var þó tími til að gleðjast yfir 30 ára afmæli skólans, en Fjölbrautaskólinn hér á Akranesi var settur í fyrsta sinn 12. september 1977. Í tilefni dagsins var terta á kennarastofunni í löngufrímínútunum og ég sá ekki betur en starfsmenn væru í hátíðarskapi. Annað kvöld fer starfsfólkið svo saman út að borða. Fleira er á döfinni í tilefni afmælisins, meðal annars stórtónleikar þar sem fyrrverandi nemendur leika listir sínar.

Ég var að fá 3. tölublað 3. árgangs Þjóðmála inn um bréfalúguna. Í blaðinu er ritdómur eftir mig um nýlega bók eftir Ólaf Pál Jónsson sem heitir Náttúra, vald og verðmæti. Texti ritdómsins liggur hér frammi.

Vikan sem leið og grískunám

Sunnudagur, 26. ágúst 2007

Fyrsta vika skólaársins er jafnan annasöm hjá okkur stjórnendum. Ég var í vinnu fram á kvöld mestalla vikuna og þurfti líka að mæta í skólann í gærmorgun þó það væri laugardagur því þá hófst kennsla í meistaraskólanum hjá okkur, þ.e. hjá þeim sem lokið hafa sveinsprófi í iðn og eru að bæta við sig námi til iðnmeistaraprófs. Allt var þetta svo sem fremur ánægjulegt enda er Fjölbrautaskóli Vesturlands skemmtilegur vinnustaður.

Í svona viku gerir maður ekki mikið annað en að vinna. Ég hef þó aðeins kíkt í kennslubækur í grísku á kvöldin. Mér datt það í hug suður á Krít í sumar að það væri skemmtilegt að geta talað við fólk þar svo ég keypti bók sem heitir Learn Greek without a Teacher og er að hugsa um að læra tófta part af henni í hverjum mánuði. Ég verð þá kominn í gegnum hana eftir árið.

Grískan er svolítið eins og íslenska með kynjum og föllum á nafnorðum og fornöfnum og sagnirnar beygjast ekki alveg ósvipað og hjá okkur. Ég sé, þú sérð, hann sér er til dæmis ego vlepo (εγω βλεπω), esi vlepis (εσυ βλεπεισ), aftos vlepi (αυτοσ βλεπει). Í framsöguhættinum eru sagnirnar svo auðvitað öðru vísi í fleirtölu (við sjáum er emis vlepúme (εμεισ βλεπουμε) o.s.frv.) og enn öðru vísi í þátíð og sumar með sérstaka framtíðarbeygingu sem á sér ekki samsvörun í íslensku. Af þessum sökum er engin hætta á öðru en bókin endist árið. Beygingakerfið er þó að því leyti einfaldara en í íslensku að föllin eru bara þrjú (því þágufallið hvarf endanlega úr grísku fyrir um það bil þúsund árum) og beygingaflokkar sagna og nafnorða eru miklu færri (til dæmis beygjast karlkyns nafnorð eiginlega bara á tvo mismunandi vegu í grískunni en í íslensku beygjast orðin köttur, hundur, rjómi og sykur hvert með sínu móti).

Það er annars gaman að því hvað mörg orð í grísku eru kunnugleg. Sólin heitir til dæmis ilios (ηλιοσ) sem er af sama stofni og helíum. Sögnin að skína er lambo (λαμπω) sem ég hugsa að sé skyld orðinu lampi og orðið yfir mjólk, gala (γαλα), er kunnuglegt því það er fyrri helmingurinn af galaxy. Svona mætti lengi telja. Um að bil hálfur orðaforðinn á sér samsvörun í einhverju sem maður kannast við. Orðin sem ekki líkjast neinu og minna ekki á neitt er erfiðara að muna. Fyrir mig er að minnsta kosti meira átak að leggja það á minnið að föstudagur heiti paraskevi (Παρασκευι) heldur en að laugardagur heiti savato (Σαββατο).

Það er fleira líkt með grísku og íslensku en beygingakerfið. Það er líka ansi margt svipað í sögu þessara mála. Í þeim báðum hefur hljóðkerfið einfaldast með ámóta hætti (með fækkun sérhljóða, hljóðdvalarbreytingu og hvað þetta nú heitir) og þróun þeirra á 20. öld var að verulegu leyti stýrt af málhreinsunarmönnum sem vildu halda tungunni hreinni og varðveita hana lítt breytta. Fyrir vikið eru bæði málin með orð af innlendri rót yfir fjölmargt sem aðrar þjóðir hafa tökuorð um. Sem dæmi má taka vegabréf sem heitir ðiavatirio (διαβατιριο) á grísku og lögreglu sem hjá þeim kallast astinomia (αστυνομια).