Færslur undir „dagurinn“

Í námsorlofi

Laugardagur, 5. desember 2009

Nú er ég búinn að skila af mér þeim verkefnum sem skila þarf í námskeiðunum sem ég tók við Háskóla Íslands þetta misserið og líka búinn að skrá mig í námskeið fyrir vormisseri. Mér finnst ég samt hafa nóg að gera og vel það enda er ég aðallega að vinna rannsókn í námsleyfinu.

Ég er langt kominn með að vinna úr viðtölum sem ég hef tekið við raungreina- og stærðfræðikennara. Eftir áramót ætla ég svo að ræða við kennara í íslensku og sögu.

Mér finnst ég hafa orðið margs vísari um hvernig skólar bregðast við fyrirmælum frá Menntamálaráðuneyti – enda er ég meðal annars að reyna að átta mig á hvort og þá hvernig miðstýring á menntakerfinu getur virkað og hvernig háttað er sambúð nýrrar opinberrar stefnu og gamallar skólahefðar.

Ég hef einkum skoðað svör kennara við spurningum sem tengjast framkvæmd Aðalnámskrárinnar frá 1999. Mér virðist að því eldri sem skóli er því sterkari sé hefðin og áhrif Aðalnámskrár minni. Mér sýnist líka að kennarar muni almennt beita sér fyrir því að ákvæði Aðalnámskrár, sem falla síst að hefðinni í skólunum, muni ganga til baka um leið og ný námskrá tekur gildi – að til langs tíma litið stjórnist skólar meira af hefð en valdboði og þetta gildi bæði um yngri skóla og eldri.

Nú kann einhver að álykta af þessu að skólar hljóti að vera ósveigjanlegar stofnanir. Ég held að sú ályktun sé ekki alveg rétt. Hefðir eru nefnilega sveigjanlegar og laga sig að breyttum tímum, oft fljótar og betur en nokkur miðstýring getur gert. Þetta er ein af skemmtilegri þverstæðunum í stjórnmálum nútímans – að íhaldssöm kerfi laga sig stundum betur að nýjum þörfum en þau sem framfaramenn reyna að breyta og endurskapa með stjórnvaldsákvörðunum.

Árið 1999 gaf Menntamálaráðuneytið út Aðalnámskrá framhaldsskóla sem enn er í gildi þótt hún sé nú að renna sitt skeið til enda, því unnið er að gerð nýrrar námskrár í samræmi við lög um framhaldsskóla sem afgreidd voru frá Alþingi vorið 2008. Með námskránni frá 1999 var reynt að miðstýra kennslu í framhaldsskólum meira en áður hafði tíðkast. Allt stefnir í að horfið verði frá þessari miðstýringu í nýrri námskrá sem senn verður gefin út. Það má því líta á áratuginn 1999 til 2009 sem tilraun til að skipaleggja kennslu í framhaldsskólum ofan frá. Þessi tilraun vekur áhugaverðar spurningar um eðli svona stjórnunar, bæði að hve miklu leyti hún er möguleg og hvort  áhrif hennar eru í samræmi við væntingar.

Það er ekkert strik en þú verður samt grillaður ef þú ferð yfir það

Mánudagur, 9. nóvember 2009

Á síðustu áratugum hafa fjölmiðlar, a.m.k. sumir, týnt velsæmismörkunum. Þetta birtist með ýmsum mishallærislegum hætti, oftast sem betur fer fremur meinlausum. Sem dæmi má taka að útvarpsstöðvar sem telja sig virðulegar, a.m.k. í aðra röndina, spila rappara sem dæla úr sér klúryrðum; Blöð og sjónvarp daðra við klám eða hálfgert klám bæði í auglýsingum og skemmtiefni; Ókurteislegt orðbragð virðist fá inni nokkurn veginn hvar sem er; Fjölmiðlar eins og visir.is birta lítt eða ekki dulbúnar auglýsingar um vændi eða eitthvað í þá áttina. Eitt dæmi sem birtist í dag er: „NEW! LUXURY TANTRIC MASSAGE IN DOWN TOWN ANY TIME! 8698602“ Ég skil „any time“ svo að þarna sé opið 24 tíma á sólarhring og efast um að þeir sem bjóða sjúkranudd eða heilsurækt séu með opið svo lengi.

En tíðarandinn er margklofinn persónuleiki nú eins og endranær og á sama tíma og velsæmismörkin mást og dofna vex dómaharkan í garð þeirra sem verður eitthvað á. Það er eins og bæði sé búið að stroka strikið út og ákveða að grilla alla sem villast yfir það. Þessi sami visir.is birti í gær frétt undir fyrirsögninni „Tálbeitan tældi“. Í fréttinni segir meðal annars:

Gríðarleg eftirspurn er eftir vændi hér á landi. Um hundrað manns svöruðu einkamálaauglýsingu sem fréttastofa setti á einkamál.is á tæpum sólarhring og vildu kaupa vændi af nítján ára gamalli stúlku. Tveir menn mæltu sér mót við tálbeitu fréttastofu. Það á að loka þeim síðum sem hýsa auglýsingar um vændi, segir stjórnarkona í Stígamótum. […] Fréttastofa útbjó prófíl á einkamálum.is fyrir tæpum sólarhring. Notast var við nafnið draumadis19 með vísan í aldur stúlkunnar. Hún sagðist bjóða upp á erótískt heilnudd gegn gjaldi. […] Fréttastofa mælti sér mót við fimm menn í dag. Tveir karlmenn mættu á staðinn, einn á fimmtugsaldri og einn á áttræðisaldri. Fyrir það hafði verið prúttað um verð fyrir kynmök […].

Ekki kemur fram í fréttinni hvort talskona Stígamóta vill loka visir.is. Ekki er heldur ýjað að því að neitt sé athugavert við að hvetja til lögbrota, eða a.m.k. tilrauna til lögbrota, með því að nota tálbeitu. Fram undir þetta hefur verið talið að þeir sem hvetja til lögbrota séu litlu betri en þeir sem fremja þau, en okkar margklofni tíðarandi hefur kannski hafnað því. Kannski verður einhvern tíma farið að nota tálbeitur til að tæla fólk til að brjóta lög sem banna fíkniefnaneyslu. Hvað veit ég.

Er ég kannski svo utanveltu við tímann að vera einn um að þykja hallærislegt að sami miðill skuli bæði birta ofangreinda frétt og auglýsingu um „NEW! LUXURY TANTRIC MASSAGE IN DOWN TOWN ANY TIME“?

Í sátt við óvissuna

Föstudagur, 4. september 2009

Ný bók eftir mig sem heitir Í sátt við óvissuna kom úr prentsmiðju í gær. Útgefandi er Heimspekistofnun Háskóla Íslands. Í inngangi bókarinnar segir:

Þessi bók fjallar um ýmsar hliðar heimspekilegrar efahyggju og fjölbreytileg áhrif hennar á hugsunarhátt og menningu Vesturlanda. Hún er málsvörn efahyggjumanns. Hún er líka öðrum þræði inngangur að heimspekilegri þekkingarfræði, enda hefur glíman við efahyggjuna löngum verið eitt helsta viðfangsefni þeirrar fræðigreinar.

Efahyggja hefur meðal annars stuðlað að umburðarlyndi og hún átti sinn þátt í sáttargjörð mótmælenda og kaþólikka eftir trúarbragðastríð 17. aldar. Glíman við róttæka efahyggju mótaði heimspeki nýaldar og varð bæði til þess að auka veg þekkingarfræði og breyta sýn heimspekinga á eigin viðfangsefni. Um allt þetta er fjallað í fyrri helmingi þessarar bókar, til og með 12. kafla.

Tilraunir til að hrekja rök efahyggjumanna sem frá segir í köflum 6 og 13 til 22 urðu kveikja að undarlegum heimspekikenningum eins og hughyggju og pragmatisma og áttu líka mikinn þátt í mótun kenninga um mál og merkingu sem settu svip á heimspeki 20. aldar.

Á síðustu öldum hafa framfarir í vísindum gefið hugsandi mönnum ný tilefni til efasemda um að þekking geti verið áreiðanleg. Frá þessu segir í stuttu máli í lokaköflum bókarinnar.

En þótt efahyggja hafi í vissum skilningi verið í sókn frá upphafi nýaldar er oft fullyrt að það sé ekki hægt að vera efahyggjumaður – efinn sé ógn sem menn verði einhvern veginn að sleppa frá. Þessu er ég ekki sammála. Ég held að hann sé vinur sem gott er að kjósa til fylgdar. Auðvitað geri ég mér fullvel ljóst að ekki er hægt að lifa án þess að gera ráð fyrir hinu og þessu og trúa því að minnsta kosti til bráðabirgða. Sú efahyggja sem mér þykir mest vit í snýst ekki um að neita sér algerlega um að hafa skoðanir heldur um að viðurkenna að þær séu vafa undirorpnar – að jafnvel það sem menn telja öruggast geti verið rangt.

Að baki hugmynda um að efahyggja sé með einhverjum hætti ómöguleg býr oft hugsun sem er eitthvað á þá leið að ef rök fyrir róttækri efahyggju verða ekki hrakin þá sé útilokað að menn geti vitað neitt. En eins og útskýrt er í köflum 14 til 16 er þetta misskilningur. Róttæk efahyggja útilokar ekki að menn viti ýmislegt, aðeins að þeir geti verið vissir um, að það sem þeir telja sig vita, sé raunveruleg vitneskja.

Spurningunni um hvort hægt sé að vera efahyggjumaður má svara í stuttu máli með annarri spurningu: Hvernig getur heiðarlegur maður verið nokkuð annað? Það má lesa þessa bók sem tilraun til að svara sömu spurningu í lengra máli. Hún er að minnsta kosti að nokkru leyti tilraun mín til að réttlæta eigin efagirni. Í heiminum er helst til mikið af smásálarlegum kreddum og sjálfbirgingslegri vissu en of lítið af einlægri forvitni og glaðværri spurn frammi fyrir leyndardómum tilverunnar.

Námsorlof

Miðvikudagur, 2. september 2009

Þar sem ég er í námsorlofi skólaárið 2009 til 2010 líða síðsumardagarnir öðru vísi hjá mér nú en undanfarin ár. Ég sit og les og skrifa punkta og glósur. Frá og með þessari viku mæti ég líka í tíma í Háskóla Íslands þar sem ég tek tvö námskeið nú á haustönn. Þau heita Kenningar í félagsfræði og heimspeki menntunar (MVS101F) og Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FOM102F). Þessi námskeið leggjast heldur vel í mig. Annað fjallar um efni sem ég hef áhuga á og hitt gefur mér tækifæri til að hefja vinnu við aðalverkefni mitt til PhD prófs sem verður meðal annars í því fólgið að taka allmörg viðtöl við kennara í framhaldsskólum.

Verkefnið sem ég hef tekist á hendur, og mun væntanlega taka mig nokkur ár að vinna, er í því fólgið að kanna hvaða menntastefna og hvaða gildismat ráða ferðinni við val á námsefni og áherslum á stúdentsbrautum framhaldsskóla og bera þetta annars vegar saman við opinbera menntastefnu, eins og hún birtist í lögum, reglugerðum og námskrám, og hins vegar við fræðilegar kenningar um námsmarkmið og gildi menntunar.

Ég hef ekki hugsað mér að skoða allar námsgreinar sem kenndar eru til stúdentsprófs enda væri það nú líklega of mikið verk. Greinarnar sem ég hyggst fjalla um eru annars vegar stærðfræði- og náttúruvísindi og hins vegar íslenska og saga.

Myndir frá ættarmóti

Sunnudagur, 28. júní 2009

Myndir sem ég tók í gær af ættarmóti á Hvanneyri eru komnar á vefinn. Á mótinu komu saman afkomendur Árna Ingimundarsonar og Ástfríðar Árnadóttur sem reistu Bakka á Kópaskeri árið 1912. Eitt af 12 börnum Árna og Ástfríðar var Hólmfríður móðir Guðrúnar Einarsdóttur en Guðrún er tengdamóðir mín

Störf skólastjórnenda

Sunnudagur, 21. september 2008

Önnin var rétt komin af stað í skólanum þegar ég fór á þing ESHA (Samtaka evrópskra skólastjórnenda) sem haldið var í Kaupmannahöfn dagana 11. til 13. september. Þetta þing er haldið á tveggja ára fresti. Árið 2006 var það í Róm og 2010 verður það á Kýpur. Vonandi kemur svo að Reykjavík árið 2012.

Þegar ég kom heim biðu verkefni við að fullklára vinnuskýrslur fyrir haustönn 2008 og vinnustaðasamning um kaup og kjör við kennara. Hann var undirritaður af samstarfsnefnd skólans síðasta fimmtudag. Þann sama dag fundaði ég með fulltrúum Norðuráls, Íslenska Járnblendifélagsins, Verkalýðsfélags Akraness og Akraneskaupstaðar um undirbúning að stofnun þekkingarseturs í málmiðnaði á sunnanverðu Vesturlandi. Vonandi verður gengið frá ráðningu starfsmanns til að annast þetta verk á miðvikudaginn kemur. Á föstudag hitti ég svo fólk sem ég vinn með í stjórn Þekkingarklasa Vesturlands og við gengum frá dagskrá ráðstefnu um rannsóknir á Vesturlandi sem haldin verður í húsakynnum Fjölbrautaskóla Vesturlands þann 20. október.

Til viðbótar við venjulega rútínu er sem sagt margt að gerast í vinnunni og sumt af því bæði spennandi og skemmtilegt. Framundan er svo mjög áhugaverð vinna við endurskoðun á skólanámskrá og aðra aðlögun skólans að nýjum lögum um framhaldsskóla sem Alþingi samþykkti í vor. Samt er ég að vona að ég geri hlé á störfum við skólann næsta skólaár og fari sjálfur að læra. Ég sendi umsókn um námsorlof til menntamálaráðuneytisins í fyrradag.

*

Á ESHA þinginu í Kaupmannahöfn var flutt margt góðra erinda. Fróðlegast þótti mér erindi sem Barbara Ischinger flutti í byrjun þingsins. Hún er yfirmaður menntamála (Director for Education) hjá OECD. Í máli hennar kom meðal annars fram að í flestum OECD ríkjum  fækkar umsækjendum um stjórnunarstörf í skólum. Verður forvitnilegt að sjá hvort efnahagsþrengingar sem nú ganga yfir heiminn breyta þessu, en ætla má að á uppgangstímum sé frekar mannekla hjá því opinbera heldur en á tímum samdráttar í efnahagslífi.

Þessir erfiðleikar við að fá skólastjórnendur til starfa hafa verið umtalaðir hér á landi þar sem fremur fáar umsóknir hafa verið um stöður, a.m.k. í framhaldsskólum. Menn hafa velt fyrir sér ýmsum ástæðum þessa vanda og um þær hef ég heyrt nokkrar tilgátur. Sú sem mest er umrædd og mér finnst trúlegust er að með auknu sjálfstæði skóla og auknum skyldum skólastjórnenda vaxi fleirum það í augum að stjórna skólunum.

Í flestum OECD löndum eru skólastjórendur menn sem hafa kennt um árabil. Þeir líta á sig sem kennara og hafa fremur áhuga á mennta- og uppeldismálum heldur en því að vera eins og dæmigerðir forstjórar fyrirtækis. Hér er Ísland engin undantekning.

Reynsla skólastjórnenda af kennslu er styrkur fyrir skólana og að mínu viti forsenda þess að þeir geti stýrt samstarfi kennara með farsælum hætti, leitt vinnu við þróun námskrár eða mótað skólareglur og fylgt þeim eftir. Sá skilningur á skólastarfi sem fæst með því að kenna sjálfur er ómissandi þáttur í menntun skólastjórnenda. En við sem höfum slíka menntun höfum líklega fæst neinn sérstakan áhuga á sumum þeirra verkefna sem bæst hafa á skólastjórnendur á undanförnum árum og líkjast viðfangsefnum sem forstjórar í samkeppnisrekstri fást við. Hér má til dæmis nefna gerð kjarasamninga við starfsfólk og auglýsingamennsku sem beita þarf í samkeppni um nemendur við aðra skóla.

*

Síðan ég hóf kennslu við framhaldsskóla fyrir 22 árum hefur verkefnum skólastjórnenda fjölgað og mikið af viðbótunum eru viðfangsefni sem ólíklegt er að höfði sérstaklega til manna sem líta fyrst og fremst á sig sem kennara. Með fjárhagslegu sjálfstæði framhaldsskóla fengu stjórnendur þeirra ný verk að vinna. Með dreifstýrðum kjarasamningum bættist þref um kaup og kjör við önnur verkefni. Með lögum frá 1996 varð skipulegt og formlegt mat á starfi kennara skylda. Reiknilíkanið sem notað er til að úthluta framhaldsskólum fé úr ríkissjóði knýr þá til að keppa hver við annan til að fá sem stærstan bita af kökunni og sú keppni kostar auðvitað tíma og fyrirhöfn.

Sum þessi nýju verkefni skólastjórnenda horfa að ýmsu leiti til heilla. En fram hjá því verður ekki litið að þau hafa aukið álag á skólastjórnendur án þess stjórnunarstöðum hafi fjölgað og þau kunna að fæla kennara sem eru hæfir til að leiða faglegt starf frá því að sækjast eftir stjórnunarstöðum í skólunum.

Sá vandi sem hér um ræðir er ef til vill hluti af miklu stærra máli sem erfitt er að henda reiður á. Mér virðist að breytingar á opinberum rekstri undanfarin ár hafi miðað að því að gera hann um sumt líkan samkeppnisrekstri á markaði án þess samt að fórna neinu af (raunverulegum eða ímynduðum) kostum ríkisrekstrar eða sósíalísks rekstrar. Þetta minnir svolítið á hugmyndir Títós heitins forseta í Júgóslavíu um sósíalískan markaðsbúskap og verkur svipaðar grunsemdir um að það sem að er stefnt sé í rauninni mótsagnakennt ástand sem getur aldri orðið að raunveruleika. Um þetta mætti skrifa lengra mál og vonandi gefst mér tími til þess á næstu dögum.

Nóg við að vera

Miðvikudagur, 5. desember 2007

Desember er annatími hjá stjórnendum framhaldsskóla. Það er verið að undirbúa brautskráningu nemenda og næstu önn. Ég hef því haft lítinn tíma til grískunáms upp á síðkastið. En það er svo sem í lagi. Mér finnst allt í lagi að kennslubókin sem ég á endist í ár eða tvö.

Síðasta föstudag hélt Rótarýklúbburinn minn upp á sextugsafmæli sitt með heilmiklum mannfagnaði í Jónsbúð við Akursbraut. Kvöldið eftir var svo „julefrokost“ hjá starfsmönnum skólans. Flestir mættu en kræsingarnar á hlaðborðinu hefðu samt dugað fyrir tvöfalt fleiri. Nokkrir komu með heimatilbúin skemmtiatriði og að þessu sinni voru þau með allra besta móti.

Í dag og í gær voru nemendur mínir í heimspeki (þ.e. áföngunum HSP103, HSP123 og HSP203) í prófum. Ég var að standa upp frá því að fara yfir þau.

Það er semsagt nóg við að vera sem er ágætt. Það er líka nóg framundan– jólahlaðborð og alls konar skemmtilegheit svo ég legg ekkert af þrátt fyrir annríkið.

Þriðjudagur 30. október

Þriðjudagur, 30. október 2007

Nú er komið vel fram yfir miðja önn og eins og ævinlega hafa nokkrir nemendur afrekað að skrópa sig út úr skóla. Að vanda hringjum við skólastjórnendur í forráðamenn þeirra sem eru undir 18 ára áður en við vísum þeim úr einstökum áföngum eða rekum þá alveg úr skólanum. Þetta er ekki mjög skemmtilegt verk. Eigi að segja eitthvað gott um það má kannski halda því fram að það sé lærdómsríkt. Meðal þess sem maður lærir af að tala við unglinga og  forráðamenn þeirra um vandræði eins og skróp er hvað lífið í rauninni fjári erfitt þrátt fyrir alla velmegunina og ríkidæmið.

Vinnan í skólanum gengur annars sinn vanagang. Mestur tíminn fer í skrifstofustörf og að svara ýmsum smáerindum en svo eru stærri uppákomur inn á milli og flesta daga gerist eitthvað skemmtilegt sem bregður birtu yfir starfið. Í dag hitti ég til dæmist starfsbrautina (fötluðu nemendurna og kennara þeirra) úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ sem höfðu að gamni sínu tekið strætó hingað upp á Skaga til að heimsækja nemendur og kennara á starfsbrautinni hér. Þetta var glaðlegur hópur sem leit við og skoðaði skólann og lagði svo leið sína á safnasvæðið að Görðum til að fræðast um liðna tíma og kannski líka til að skoða steinasafnið, kortasafnið og íþróttasafnið sem þar eru.

Eftir vinnu spjallaði ég svo stundarkorn í síma við stud. jur. Mána til að óska honum til hamingju með afmælið en hann er orðinn 22 ára.

Skotlandsferð og pólitískur rétttrúnaður

Þriðjudagur, 16. október 2007

Í fyrradag kom ég heim úr þriggja daga ferð til Glasgow með hópi rúmlega 30 félagsmanna úr Félagi stjórnenda í framhaldsskólum. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja skóla og fór lunginn úr tveim dögum í það. Þriðja daginn, laugardaginn, var svo frí sem sumir notuðu til að versla, aðrir til að leik golf og enn aðrir til að skoða borgina. Sjálfur hékk ég mestallan daginn í bókabúðum og á Kelvingrove listasafninu. Það stendur við ána Kelvin sem rennur um vestanverða borgina og út stærri á sem heitir Clyde og var mikilvæg siglinga- og verslunarleið á árum áður.

Kelvin mun annars þekktust fyrir það nú  á tímum að einn af merkustu verkfræðingum og eðlisfræðingum allra tíma, William Thomson (1824-1907) kallaði sig eftir henni og nefndist Lord Kelvin. Ég sá íbúðarhús hans sem er rétt hjá Glasgow University. Það mun hafa verið fyrsta húsið á Bretlandi sem lagt var rafmagn í.

Við ferðafélagarnir fórum tvívegis saman út að borða. Í fyrra sinnið á kínverskan veitingastað. Við borðið þar sem ég sat var byrjað að tala um Kína enda hafði einn í hópnum ferðast þar um fyrir skömmu. Talið barst að Maó og ævisögu hans og auðvitað kom á daginn að sumir höfðu taugar til karluglunnar, litu jafnvel á hann sem einhvers konar hetju og þessu var auðvitað tekið af kurteisi enda eru skólastjórnendur upp til hópa alveg þokkalega háttvísir.

Það virðist sem sagt enn samræmast pólitískum rétttrúnaði að halda að Maó hafi verið vinur alþýðunnar og málsvari réttlætis og friðar en Jósef Stalín virðist endanlega fallinn í ónáð. Þó er það liðið sem sérviska hjá gömlum körlum að tala vel um hann og Lenín líka. En ef einhver lýsir aðdáun á Adolf Hitler fær hann um það bil alla þá skömm og fyrirlitningu sem hann á skilið og er þá engin afsökun að vera gamall eða sérvitur. Pólitískur rétttrúnaður mismunar þessum þrem afkastamestu morðingjum síðustu aldar því með nokkuð undarlegum hætti, enda er þessi rétttrúnaður fjarri því að vera sjálfum sér samkvæmur eða mynda rökrétt kerfi.

Klukkan 21 á þriðjudegi

Þriðjudagur, 25. september 2007

Það er gott að vera ekki aðgerðalaus. Þótt önnin sé komin vel af stað hef ég meira en nóg við að vera. Allan daginn í dag var ég að stefnumótunarfundi með stjórn Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands sem haldinn var á Hamri hjá Borgarnesi. Ole Imsland framkvæmdastjóri Rogaland kurs og kompetansesenter i Stavanger í Noregi leiddi fundinn og gerði það vel enda maður með mikla reynslu af uppbygginu á fullorðinsfræðslu og kennslu fyrir atvinnulífið. Eftir fundinn skutlaði ég Ole til Reykjavíkur og ég var að koma heim.

Ole heimsótti okkur hér í Fjölbrautaskóla Vesturlands í gær og skoðaði skólann. Ég rétt náði upp á Akranes í tæka tíð til að taka á móti honum því milli 10 og 11:30 var ég með tíma í stjórnmálheimspeki við HÍ.

Verkefnin í skólanum biðu á meðan ég var að þessu spani svo ég var í vinnunni til klukkan 19 í gær. Tíminn milli 18 og 19 er svo sem ágætur til sumra verka. Þá er friður í skólanum og þegar þarf að hringja í foreldra er best að gera það í kringum kvöldmat, því þá eru flestir heima hjá sér og svara í símann. Í gær talaði ég við nokkuð marga foreldra nemenda sem hafa skrópað í kennslustundir. Það er ekki mjög skemmtilegt verk að klaga krakka fyrir foreldrum sínum. En maður verður stundum að gera fleira en gott þykir.

Unglingarnir sem koma til okkar eru sumir hissa á að framhaldsskóli skuli hafa samband við foreldra eins og grunnskólar gera. En lögum samkvæmt eru þeir börn og á ábyrgð forráðamanna sinna til 18 ára aldurs.