Færslur septembermánaðar 2017

Ljóð eftir Þomas Tsalapatis

Sunnudagur, 10. september 2017

Askjan

Ég er með litla öskju og ofan í henni er sífellt verið að taka einhvern af lífi.

Hún er dálítið stærri en skókassi. Dálítið fáfengilegri en vindlakassi. Ég veit ekki hver, ég veit ekki hvern, en einhver er að aflífa einhvern. Það heyrist ekkert (nema í þau skipti sem það er auðheyrilegt). Ég set hana þar sem ég geymi bækurnar, læt hana upp á borð þegar ég vil verja tímanum til að horfa á hana, fjarri glugganum svo hún upplitist ekki í sólinni, undir rúmið þegar ég vil vera óþekkur. Innan í henni er verið að aflífa einhvern, líka þegar er gleðskapur í húsinu, meira að segja á sunnudögum, jafnvel þó það sé rigning.

Þegar ég fann öskjuna – ég ætla hvorki að segja hvernig né hvenær það gerðist – fór ég með hana heim og var harla ánægður. Á þeirri stundu bjóst ég við að heyra sjávarnið. En það sem gerist innan í henni er slátrun.

Mér fór að verða illt af þessu ónæði, af vitneskjunni um hvað gekk á innan í öskjunni. Nærvera hennar gerði mig veikan. Ég varð að grípa til einhverra aðgerða til að losa mig úr þessu, róa mig, fara í sturtu. Ákvarðanir voru óhjákvæmilegar.

Svo, ég sendi hana í pósti til vinar sem ég á til þess eins að gefa honum gjafir. Ég vafði sakleysislegum og marglitum pappír um öskjuna og batt um hana sakleysislegan og marglitan borða. Innan um bréfin í kassanum er semsagt askja og innan í henni er verið að taka einhvern af lífi. Hún bíður í póstkassanum eftir að komast í hendur vinar míns. Ég held vináttunni áfram til þess eins að gefa gjafir.

Þomas Tsalapatis (Θωμάς Τσαλαπάτης) fæddist í Aþenu árið 1984. Þetta ljóð, sem heitir á frummálinu Το κουτί kom út í bókinni Dagrenningin er sláturtíð herra Krak (Το ξημέρωμα είναι σφαγή κύριε Κρακ) sem kom út hjá forlaginu Εκάτη í Aþenu árið 2013. Ég þýddi það eftir textanum í ljóðasafninu Austerity Measures: The New Greek Poetry (https://www.amazon.com/gp/product/1681371146).
Þomas Tsalapatis birtir talsvert af verkum sínum á bloggsíðunni http://tsalapatis.blogspot.com/.