Ljóð eftir Elena Penga

Elena Penga (Έλενα Πέγκα) er fædd í Þessalóníku árið 1964. Ljóðið Bleik martröð (Ροζ εφιαλτικό) birtist fyrst í ljóðabók hennar Aðkreppt belti og önnur skinn (Σφιχτές ζώνες και άλλα δέρματα) sem kom út árið 2012. Ég þýddi það eftir textanum í ljóðasafninu Austerity Measures: The New Greek Poetry (https://www.amazon.com/gp/product/1681371146).

Bleik martröð

að er rigning. Hérna. Líka þarna. Þar sem þú syngur. Rigningin fellur af krafti. Ég á nátt-stað í húsi mínu í djúpum hægindastól. Hann getur snúist. Ég læt stólinn fara í hringi og ég hlusta á rigninguna. Þú syngur. Rigningin heyrist. Ég hlusta á hana. Rigninguna. Önnur mannvera kemur með nýjan bleikan lampaskerm. Slekkur, skrúfar peruna úr, tekur svarta af, leggur þann bleika á, kveikir aftur. Við sitjum í bleikri birtu og ræðum það sem lagt er á. Það sem lagt er á ljósin. Ég opna út á svalir. Þú syngur. En rigningin hefur kraftmeiri hljóð. Hún kemur inn í húsið. Dynur á því sem lagt er á ljósin. Fellir þau um koll. Skellur á veruleikanum. Árum saman hafa kirsuberjatrén í garði nágrannans ekki borið ávöxt. Það koma fjórir karlar með lurka. Þeir koma inn í garð nágrannans með rigningunni. Þeir koma til að aga trén og tyfta og klippa þau niður ef þau blómstra ekki. Ég horfi á karlana lemja trén. Ég horfi á rigninguna lemja karlana.

Það má fylgja sögu að ég gat ekki þýtt þetta ljóð mjög nákvæmlega, því það sem mannveran kom með er „καπέλο για το φωτιστικό“ sem er hattur (skermur) fyrir ljósið eða lampann. En „καπέλο“ er líka viðbótargjald (t.d. ólöglegar álögur). Það er því ekki hægt að þýða „μιλάμε για καπέλα“ með „við tölum um hatta“. Ég fer í kringum þetta og segi „ræðum það sem lagt er á“.Lokað er fyrir ummæli.