Veislan hjá Gvendi Edwin Arlington Robinson
Sunnudagur, 17. apríl 2016Edwin Arlington Robinson (1869–1935) fæddist og ólst upp í Maine í Norðaustuhorni Bandaríkjanna. Hann var með vinsældum og virtustu ljóðskáldum þar í landi í byrjun síðustu aldar. Sum eftirminnilegustu kvæði hans fjalla um auðnuleysingja og óskabörn ógæfunnar sem sumir tengja við heimabæ Robinsons, Gardiner í Maine. Ljóðið sem hér fer á eftir er eitt af þeim þekktustu. Það birtist í bókinni Avon’s Harvest sem út kom 1921.
Veislan hjá Gvendi
Seint að kvöldi Gvendur gamli einn
gekk um slóðann þar sem var hans leið
heim úr kaupstað yfir lágan ás.
Eyðilegt var kotið sem að beið,
og var hans eina athvarf hér á jörð.
Hann áði, „nægur tími“ sagði hann „já“,
þó heyrði engin önnur sála til
enda hvergi nokkurn mann að sjá.Svo hélt hann áfram: „Gvendur gamli minn
nú gerist tunglið fullt og haustar að
en við tveir höfum átt hér fundi fyrr
og fuglar hópast rétt sem áður kvað
skáldið og við skálum fyrir þeim.“
Mót skini mánans lyftust hendur tvær
með könnu af öli sem hann hafði sótt
og sagði: „Bestu þakkir vinur kær.“Hann fór í bæinn bara til þess eins
að bera þaðan öl um langan veg.
Á miðri götu minnti hann helst á draug
og mörgum þætti ferð hans undarleg.
En Gvendur heyrði úr bænum eins og ym,
því eitt sinn fann hann jafnan vini þar,
af röddum fólks sem forðum yrti á hann
en farið burtu, dautt og horfið var.Þá, eins og legði blíðust móðir barn
sem blundaði í hvílu og gætti að
það vaknaði ekki, ofurhægt með gát
inn á milli þúfna á góðan stað
lét hann könnu svo hún ylti ei,
því allt er fallvalt gengi heims og manns.
Og er hann hafði stigið fáein fet
fór í gang að nýju samtal hans.„Herra minn, ég held nú svei mér þá
við höfum ekki um skeið átt slíkan fund.
Margt er breytt hjá báðum sýnist mér
og býsna vel við hæfi að litla stund
við setjumst hérna saman, þú og ég.“
Síðan bakkar hálfhring, þykir mál
að lyfta könnu og ansa sjálfum sér
og segja: „Kæri vinur þína skál.“„Soldinn dreitil, Gvendur, gleymast ei
hin gömlu kynni, svona þetta er nóg,
römm er taug sem rekka dregur heim.“
Röddin skalf og gamla hjartað sló
og yfir gráa einsemd þessa nótt
eigin rómi lyfti hátt í söng.
Tunglið fulla heyrði eitt þann óm
sem undir tóku hæðardrögin löng.„Hin gömlu kynni.“ Svo varð röddin rám
og raunalega lyfti hann sínum drykk.
Aftur stóð hann aleinn. Niðrí byggð
var allt með heldur framandlegum skikk
svo héðan af hann vísast yrði vart
velkominn í bæinn líkt og fyrr.
Eflaust skelltu allir þar í lás
þótt opnað hefðu vinir forðum dyr.