Færslur aprílmánaðar 2016

Veislan hjá Gvendi Edwin Arlington Robinson

Sunnudagur, 17. apríl 2016

Edwin Arlington Robinson (1869–1935) fæddist og ólst upp í Maine í Norðaustuhorni Bandaríkjanna. Hann var með vinsældum og virtustu ljóðskáldum þar í landi í byrjun síðustu aldar. Sum eftirminnilegustu kvæði hans fjalla um auðnuleysingja og óskabörn ógæfunnar sem sumir tengja við heimabæ Robinsons, Gardiner í Maine. Ljóðið sem hér fer á eftir er eitt af þeim þekktustu. Það birtist í bókinni Avon’s Harvest sem út kom 1921.

Veislan hjá Gvendi

Seint að kvöldi Gvendur gamli einn
gekk um slóðann þar sem var hans leið
heim úr kaupstað yfir lágan ás.
Eyðilegt var kotið sem að beið,
og var hans eina athvarf hér á jörð.
Hann áði, „nægur tími“ sagði hann „já“,
þó heyrði engin önnur sála til
enda hvergi nokkurn mann að sjá.

Svo hélt hann áfram: „Gvendur gamli minn
nú gerist tunglið fullt og haustar að
en við tveir höfum átt hér fundi fyrr
og fuglar hópast rétt sem áður kvað
skáldið og við skálum fyrir þeim.“
Mót skini mánans lyftust hendur tvær
með könnu af öli sem hann hafði sótt
og sagði: „Bestu þakkir vinur kær.“

Hann fór í bæinn bara til þess eins
að bera þaðan öl um langan veg.
Á miðri götu minnti hann helst á draug
og mörgum þætti ferð hans undarleg.
En Gvendur heyrði úr bænum eins og ym,
því eitt sinn fann hann jafnan vini þar,
af röddum fólks sem forðum yrti á hann
en farið burtu, dautt og horfið var.

Þá, eins og legði blíðust móðir barn
sem blundaði í hvílu og gætti að
það vaknaði ekki, ofurhægt með gát
inn á milli þúfna á góðan stað
lét hann könnu svo hún ylti ei,
því allt er fallvalt gengi heims og manns.
Og er hann hafði stigið fáein fet
fór í gang að nýju samtal hans.

„Herra minn, ég held nú svei mér þá
við höfum ekki um skeið átt slíkan fund.
Margt er breytt hjá báðum sýnist mér
og býsna vel við hæfi að litla stund
við setjumst hérna saman, þú og ég.“
Síðan bakkar hálfhring, þykir mál
að lyfta könnu og ansa sjálfum sér
og segja: „Kæri vinur þína skál.“

„Soldinn dreitil, Gvendur, gleymast ei
hin gömlu kynni, svona þetta er nóg,
römm er taug sem rekka dregur heim.“
Röddin skalf og gamla hjartað sló
og yfir gráa einsemd þessa nótt
eigin rómi lyfti hátt í söng.
Tunglið fulla heyrði eitt þann óm
sem undir tóku hæðardrögin löng.

„Hin gömlu kynni.“ Svo varð röddin rám
og raunalega lyfti hann sínum drykk.
Aftur stóð hann aleinn. Niðrí byggð
var allt með heldur framandlegum skikk
svo héðan af hann vísast yrði vart
velkominn í bæinn líkt og fyrr.
Eflaust skelltu allir þar í lás
þótt opnað hefðu vinir forðum dyr.

(more…)

Ljóðið Cortège eftir Edwin Arlington Robinson

Sunnudagur, 17. apríl 2016

Sagan segir að Robinson (1869–1935) hafi ort þetta 1890 í heldur úfnu skapi. Hann hafði þá um skeið verið skotinn í Emmu Löehen Shepherd en mátti una því að eldri bróðir hans fengi hennar. Þau hjónakornin fóru frá Maine til nýrra heimkynna í Missouri með lestinni Cortège, en það nafn getur líka merkt röð, skrúðgöngu eða líkfylgd.

Cortège

Klukkan fjögur fær í dag,
fimmtán hundruð mílna veg,
ólmast lagið aldrei svo
endi slögin hrikaleg.

Klukkan fjögur fær í dag,
falið jörðin tveggja ná,
best þau fari og fari strax
í fjarlægð bæði grafa má.

Hefð‘ún dvalið hálfu meir
í heimi væri lítt um sel,
klukkan fjögur fær í dag,
ferðin byrjað gott og vel.

Klukkan fjögur fær í dag,
fólgið ástin þeirra leg
sem að gröf nú fetar fljótt
fimmtán hundruð mílna veg.

Klukkan fjögur fær í dag,
fylgt þau geta tónum seint,
mitt ólma lag í orða stað
allt það tjáð sem verður meint.

Best það gerist bara strax,
byrjað ferðin endanleg
klukkan fjögur fær í dag,
fimmtán hundruð mílna veg.

(more…)

Ljóð eftir Kiki Dimoula

Föstudagur, 8. apríl 2016

Kiki Dimoula (Κική Δημουλά) fæddist í Aþenu árið 1931 og býr þar enn eftir því sem ég best veit. Eftirfarandi ljóð er úr bók hennar Grasflöt í gróðurhúsi (Χλόη θερμοκηπίου) sem út kom árið 2005. Það er fyrsta ljóðið í bókinni og ber yfirskriftina Kennslufræðileg efni (Διδακτική Ύλη).

Tími
ég afhendi þér ritgerðina mína
sem er aðallega um þig
enda varst það þú sem færðir hingað
það sem ég er núna.

Mér var fátæktin í blóð borin og tekjurnar
dugðu ekki til að senda mig utan
eftir æðra menntunarleysi. Var bara hér
í leiguhúsnæði í átthagafræði
með lágt til lofts.

Ég var hagsýn
og komst áfram án kennara
og var svona almennt og yfirleitt án
sem er aðferð til að öðlast breiðari menntun.

Frá því sem ég gekk í gegnum verður ekki sagt, engin leið að komast inn í erfiða kaflann
sem heitir „án þýðingar“.
Allt sem var fyrir mér
var án fyrir öðrum.
Þótt ég væri iðin við námið
og full af undrun fékk ég samt bara núll.
Ég bætti einkunnina með því að undrast á ný
án þess að koma orðum að neinu sem er aðferðin þín
tími
svo þú færðir breytingar
samtímis því sem eyddist með öllu
það milda form
sem hlutirnir höfðu
áður en þeir voru lærðir.

Og jafnvel nú
þegar ég eldist með þeirri aðferð að vera án
og skrepp saman og verð rugluð
undrast ég hvað ánin sjálf hafa breyst
þau voru ekki eins oft

hvað dauðinn hefur breyst
það var ekki eins oft

sem hún var svona andheit að minna mig á hann, ástin.

(more…)