Færslur októbermánaðar 2015

Ljóð eftir Edwin Arlington Robinson

Sunnudagur, 25. október 2015

Ríkharður

Í hvert sinn sem hann kom hér nið‘rá torg
við hversdagsfólkið litum upp til hans:
Dánumaður mestur hér í borg
og mikil var hans reisn og elegans.

Við Ríkharð sáum aldrei angur tjá,
hann ávarpaði fólk og hélt sinn veg.
Þótt æðaslátt við enni mætti sjá,
alltaf var hans návist þægileg.

Og hann var ríkur – segja má með sann
að sjaldan kóngar eigi þvílíkt fé –
og hvað við vildum vera eins og hann
sem veröldin lét slíka auðnu í té.

Við máttum samt við þrældóm, þreytt og köld
þrauka, stundum nærri matarlaus,
en Ríkharður eitt kyrrlátt sumarkvöld
kúlu skaut í gegnum eigin haus.

(more…)

Ljóð eftir Oliver Wendell Holmes

Föstudagur, 23. október 2015

Ég rakst á fíflskaparkvæði eftir Oliver Wendell Holmes (1809–1894) sem mér þótti ekki leiðinlegt. Ég hef reynt að orða meginhugsun þess á íslensku og fer árangurinn hér á eftir.

Eitt sinn kvað ég lítið ljóð
og lúmskt mér vakti glott
sú vissa að flestum fyndist það
feikilega gott.

Það skrýtið var og skemmtilegt
og skondið svo ég hló.
Þótt háttvís sé og hagi mér
úr hlátri næstum dó.

Ég hóaði í húskarl minn,
hann er ekki smár,
væskli mínum vörn og skjól,
vaskur bæði og knár.

„Færðu þessi fínu skrif
nú fljótt til prentarans
og fyrir túkall þrykkir þau
þumbi sá með glans.“

Hann leit á blaðið, línubút
úr ljóði mínu sá
og hjartanlega hlátur sauð
í húskarlinum þá.

Aðra hending’ er hann las,
andlit skipti um ham
því munnvik upp við eyrnasnepil
öðru megin nam.

Í þriðju línu hlátur hár
hækkar enn og vex,
í þeirri fjórðu af fötum hans
fljúga tölur sex.

Hann áfram las og afarmennið
engjast sá ég þar,
ósjálfbjarga alveg hreint
í átján daga var.

Upp frá þessu árætt hef
ég ekki að slá það met,
en forðast umfram flest að vera
eins fyndinn og ég get.

(more…)

Ljóð eftir Robert Frost

Laugardagur, 17. október 2015

Robert Lee Frost (1874 –1963) telst með helstu ljóðskáldum Bandaríkjanna. Mörg kvæði hans bregða upp myndum af lífi sveitamanna á Nýja Englandi í upphafi síðustu aldar. Það sem hér fer á eftir var ort um 1920.

Borgarlækur

Hann fellur illa að beinni götu í borg
en bærinn hímir samt við nýgert torg,
norpir búinn númersplötu. En hvar
er núna lækjarbugðan sem að var
með kotið eins og inni í faðmi sér,
er ekkert sýnilegt af henni hér?
Ég spyr af því ég þekkti téðan læk
hans þunga straum og iðuköstin spræk
sem léku dátt. Ég lét þar fljóta blóm
og las í ferðir vatnsins, nam þess hljóm.
Þar sem var engi gras ei lengur grær
því gráleit steypan vöxt þess hamið fær
og eplatrén í eldinn hjuggu menn
en örvænt mun að vatnið hverfi senn,
því ódauðlegu ekkert grandað fær.
En eitthvað varð að gera þar sem tær
bæjarlækur leið við grænan svörð.
Hann luktur var í ræsi djúpt í jörð.
Þar dúsir hann og dýflissan er þröng,
daunill, myrk og lokuð undirgöng.
Hans eina sök var kannski að vera um kjurt
og komast ekki á flótta langt í burt.
Ef gömul kort ei gerðu honum skil
hann gleymdur væri, engin minning til.
Mér finnst samt eins og iðjuleysi vomi
yfir prísund dimmri og þaðan komi
hugsanir sem banna væran blund
svo borgin hvílist aldrei nokkra stund

(more…)