Færslur maímánaðar 2015

Ljóð eftir Kavafis

Sunnudagur, 31. maí 2015

Eftirfarandi ljóð mun Konstantinos P. Kavafis hafa ort árið 1919.  Maðurinn sem segir frá í ljóðinu, Janþis sonur Antóníosar, heitir grísku nafni þó hann sé gyðingur. Hann er tilbúningur Kavafis.

Af Hebreum (50. e. Kr.)

Janþis sonur Antóníosar, listmálari og skáld,
hlaupari og kringlukastari, fagur eins og Endymion.
Úr fjölskyldu sem lét sér annt um samkunduhúsið.

„Dýrmætastir eru mér dagarnir
þegar skynhrifin varða mig engu
og ég hafna strangri fegurð hellenismans
með sitt algera vald
í fullkomlega gerðum útlimum, forengilegum og hvítum.
Og ég verð sá sem ég vil
að eilífu vera: Hebreskur, heilagra Hebrea sonur.“

Mjög andheitur þegar hann sagði: „Að eilífu
vera Hebreskur, heilagra Hebrea –“.

Entist þó ekki sem slíkur.
Gefinn á vald listum og lífsnautnum Alexandríu
sem höfðu hann að sínu eigin barni.

(more…)

Eigum við að flýta okkur að menntast?

Föstudagur, 29. maí 2015

Árið 1986 opnaði McDonald‘s hamborgarstað á Piazza di Spagna í Róm. Skyndibitinn var kominn til Ítalíu. Þarlendur blaðamaður, Carlo Petrini, spurði: Ef þetta er matur til að éta í skyndi, hvernig er þá matur til að borða í rólegheitum? Af vangaveltum hans spratt hreyfing sem stendur vörð um staðbundnar hefðir í matargerð. Hún hefur breiðst út víða, fer vaxandi og heldur alþjóðlegar ráðstefnur á hverju ári. Hreyfingin hefur ekki nafn á íslensku svo ég viti til, en á ensku kallast hún The Slow Food Movement. Í stofnskrá hennar eru menn hvattir til að standa vörð um sannar lífsnautnir – að njóta efnislegra gæða í rólegheitum.

Æðibunugangur nútímans er ekki bundinn við að háma hratt í sig mat sem er of ómerkilegur til að taki því að tyggja hann. Í grein, sem birtist upphaflega árið 2002 og ber yfirskriftina It‘s Time to Start the Slow School Movement, líkir bandaríski menntunarfræðingurinn Maurice Holt skólum í heimalandi sínu við skyndibitastaði. Með skrifum sínum vildi Holt gera það sama fyrir skólamenninguna og Petrini hafði gert fyrir matarmenninguna. Rétt eins og eftir ákall Petrinis, 16 árum fyrr, fór af stað hreyfing, enda sjá flestir sem hafa augun í höfðinu að umbreyting menntastofnana í mannauðsverksmiðjur – miðstýring, stöðluð hæfniviðmið, ofhlaðnar námskrár, samræmd próf, áhersla á mælanlegar útkomur og allt sem því fylgir – þetta stuðlar ekki að betri menntun. Öðru nær. Þetta kemur í veg fyrir að kennarar nýti það staðbundna og einstaka og börn og unglingar njóti þess að læra í rólegheitum.

Greinin byrjar á að segja frá móður söngleikjaskáldsins Cole Porter. Hún laug til um aldur hans svo hann fékk að vera tveim árum lengur í foreldrahúsum og æfa sig á píanóið. Höfundur Can-Can og Anything Goes fór því að heiman í unglingaskóla fjórtán ára en ekki tólf. „Við ættum að þakka henni fyrirhyggjuna“ segir Holt en bætir við, að væri hún uppi nú fengi hún trúlega verri dóma en hún ætti skilið. Hann fjallar svo nokkrum orðum um árangursleysi tæknihyggju í skólamálum og kosti þess að gefa sér tíma. Með þessu er hann ekki að halda fram neinni tiltekinni skólagerð. Petrini hampar heldur ekki einni hefð í eldamennsku – það er jú menningarleysið sem er tilbreytingarlaust. Menningin er hins vegar fjölbreytileg. Holt heldur þó fram menntastefnu sem felur meðal annars í sér að það sé betra að skilja mikilvæg efni djúpum skilningi en þvælast um víðan völl, „betra að skoða í smáatriðum hvers vegna Sir Thomas More kaus píslarvætti eða af hverju Alexander Hamilton færði rök fyrir sterkri alríkisstjórn, en að muna nöfn allra kónga á Englandi eða fylkishöfuðborga í Bandaríkjunum“.

Skólar eru ekki til að nema það sem er fljótlegt að ná tökum á. Fólk fer ekki þangað til að læra að strjúka spjaldtölvur eða reima skó. Fólk fer í skóla til að læra lestur, mál, vísindi, tækni, listir, íþróttir. Alvöru menntun skilar meiru en yfirborðsþekkingu. Hún miðar að skilningi, smekkvísi, góðu handbragði og fleiru sem hver og einn þarf að ala með sér á sinn hátt, og á sínum tíma – og oftast á löngum tíma. Alvöru skóli er umfram allt griðastaður þess seinlega og menn læra sjaldan vel nema það sé slaki á tímanum og hægt að staldra við.

Hreyfingin sem Holt kom af stað heldur þessum sannindum til haga. Þau eru ekki ný. Annar Bandaríkjamaður, Theodore Sizer (1932 – 2009), sagði ýmislegt svipað í frægri bók sem út kom 1984 og heitir Horace’s Compromise. Holt vitnar raunar í Sizer og eldri fyrirrennara – góða og gegna íhaldsmenn í menntamálum, eins og Joseph Schwab (1909–1988) og Michael Oakeshott (1901-1990) sem minntu á það, hvor með sínum hætti, að menntun getur ekki verið stöðluð, útkoman ekki fyrirframákveðin, markmiðin ekki söm fyrir alla og asi er enginn flýtir.

Þegar ég las grein Holts í annað sinn nú um daginn kom mér í hug athugun sem ég gerði fyrir fimm árum á stærðfræðikennslu við nokkra framhaldsskóla. Ég kannaði hvernig þeir hefðu innleitt námskrána sem menntamálaráðherra setti árið 1999. Með upptöku hennar var mestallri stærðfræðinni sem kennd hafði verið á náttúrufræðibrautum í sjö þriggja eininga áföngum þjappað á fimm áfanga. Úr varð auðvitað hundavaðsháttur. Einn skólinn sem ég heimsótti bar þó gæfu til að þjappa efninu ekki saman, heldur gefa því jafnlangan tíma og áður, hvað sem leið fyrirmælum ráðherra. Það var MR. Mér skilst að nemendum þaðan gangi öðrum betur í stærðfræði í háskóla. Ef til vill er það að nokkru vegna þess að þeir fá að kafa djúpt í efnið fremur en að göslast yfir það.

Ég er annars ekki að skrifa þetta til að rifja upp könnun sem ég gerði fyrir fimm árum, heldur til að vara við að pæla sífellt hraðar og grynnra. Nú stytta framhaldsskólar nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Ég óttast að sumir reyni að gera þetta með því að æða yfir á enn meiri ferð, þar til ekkert er eftir nema þeytingur af glærum með stikkorðum í stað námsefnis. Útkoman úr því verður sennilega að þorri nemenda lærir ekki bara fjórðungi minna, heldur miklu minna.

(Birtist í Morgunblaðinu 28. maí 2015)

Þarf að breyta kennslu í iðngreinum?

Föstudagur, 29. maí 2015

Undanfarna áratugi hefur sífellt stærri hluti hvers árgangs aflað sér formlegrar menntunar umfram skyldunám. Iðnnemum hefur þó ekki fjölgað. Þeir hafa verið milli þrjú og fjögur þúsund talsins síðan núverandi skipan komst á framhaldsskóla um og fyrir 1980.

E.t.v. eru þessar tölur einar og sér ekki áhyggjuefni. Þegar rýnt er nánar í aðsókn að iðnnámi kemur þó ýmislegt í ljóst sem vekur áleitnar spurningar. Það er m.a. umhugsunarefni hve fáar greinar laða til sín nemendur. Árið 2012 voru sex greinar með langflesta nemendur. Þær voru bifvélavirkjun, hársnyrtiiðn, húsasmíði, matreiðsla, rafvirkjun og vélvirkjun. En margar greinar höfðu enga eða fáa nemendur. T.d. voru 19 í námi til sveinsprófs í múraraiðn, 9 í netagerð, 6 í blikksmíði og 5 í veggfóðrun og dúkalögn. Í öllum þessum greinum hafði nemendum fækkað frá aldamótum.

Annað umhugsunarefni er að þótt flest iðnnám sé skilgreint sem 3ja til 4ra ára nám eftir grunnskóla hafa að jafnaði innan við 2% af árgangi lokið sveinsprófi fyrir 22 ára aldur. Meðalaldur við sveinspróf hefur um langt árabil verið yfir 25 ár. Iðnnám er því í reynd orðið nám fyrir fullorðna fremur en unglinga og flestir safnast í fáar greinar.

Í ljósi þessa hljótum við að spyrja hvernig er:
a) Hægt að mennta iðnaðarmenn til fjölbreyttari starfa?
b) Fá fleiri til að ljúka iðnnámi snemma á ævinni?

Að mennta iðnaðarmenn til fjölbreyttari starfa

Í reglugerð um löggiltar iðngreinar (940/1999) eru taldar upp allmargar greinar sem eru næstum eða alveg horfnar vegna nýrra atvinnuhátta og réttast væri að leggja niður. Aðrar eru óþarflega sérhæfðar og ættu að sameinast, eins og þegar hárskurður og hárgreiðsla urðu að einni grein svo sömu fagmenn máttu bæði klippa hár karla og kvenna.

Nú eru til fimm rafiðngreinar. Í þrem þeirra (símsmíði, rafveituvirkjun og rafvélavirkjun) eru engir nemendur en tvær eru fjölmennar (rafvirkjun og rafeindavirkjun). Eigi að halda í löggildingu starfa í rafiðnaði þarf að sameina fögin í tvö og hætta með einkaleyfi til starfa í mannlausum greinum. Svipaða sögu má segja um fleiri greinaflokka. T.d. væri að líkindum til bóta að sameina rennismíði og vélvirkjun.

Sameining og fækkun greina leysir ekki að fullu þann vanda sem hér um ræðir. Til að viðhalda fámennum greinum sem ekki er hægt að sameina öðrum þarf að endurskilgreina hlutverk skóla. Núgildandi námskrár gera ráð fyrir að stór hluti af sérhæfðu iðnnámi fari fram í skólunum. Í múrsmíði er t.d. um eins og hálfs árs nám í áföngum sem engir aðrir taka en verðandi múrarar. Í veggfóðrun og dúkalögn er þessi sérgreinapakki um tveir þriðju af námsári. Skólar hafa tæpast ráð á að kenna þessi fög nema stórir hópar hefji nám í þeim samtímis. Það gerist ekki. Fámennar greinar komast trúlega betur af með því taka aftur upp þá skipan, sem tíðkaðist langt fram eftir síðustu öld, að skólar kenni einkum það sem er sameiginlegt mörgum iðngreinum en meistarar í fyrirtækjum annist mestan hluta af sérhæfingunni.

Að fá fleiri til að ljúka iðnnámi snemma á ævinni

Ég get mér þess til að tvennt valdi mestu um litla sókn ungmenna í iðnnám. Annað er að fáir eru tilbúnir að velja eina sérhæfða grein strax við lok grunnskóla. Ungt fólk vill halda mörgum leiðum opnum. Hitt er að kennsla iðngreina mótaðist þegar flestir hófu nám með reynslu úr atvinnulífi. Síðan hafa flókin og erfið fög, eins og tölvuteikning og stýritækni bæst við námskrár margra iðngreina. Af þessu leiðir að námið er orðið of erfitt fyrir flesta unglinga og krefst meiri reynslu en þeir hafa.

Séu tilgátur mínar réttar má hugsa sér tvær leiðir til að laða fleiri ungmenni að iðnnámi. Önnur er að létta námið og draga úr sérhæfingu. Hin er að færa iðnnám, a.m.k. að hluta, á skólastig ofan við framhaldsskóla og bjóða undirbúning fyrir iðnnám á framhaldsskólastigi. Um fyrri leiðina verður seint nein sátt, enda kemur hún illa heim við þróun atvinnulífs þar sem er sífellt meiri þörf fyrir fólk með skilning á flókinni tækni. Seinni leiðin er hins vegar vel fær. Það er hægt að skilgreina stúdentsbrautir sem búa nemendur undir iðnnám. Á slíkum brautum geta fög eins og teikning og smíði verið stór hluti námsins.

Mér þykir flest benda til að á næstu árum fjölgi þeim enn sem stefna á stúdentspróf eftir lok grunnskóla. Það er í dúr við þessa þróun að framhaldsskólar sem hafa verið stofnaðir eftir aldamót hafa engar iðnbrautir. Menntakerfið hlýtur að svara aukinni eftirspurn eftir breiðri almennri menntun með því að bjóða upp á fleiri leiðir til stúdentsprófs. Þetta ætti iðnaðurinn að nýta sér, fremur en að bægslast móti tímans straumi. Verði iðnnám skilgreint þannig að það sé ári styttra fyrir þá sem lokið hafa stúdentsbraut af tiltekinni gerð er líklegt að stórir hópar ungmenna velji slíkt stúdentsnám, ljúki því 19 ára og iðnnámi innan þriggja ára þar á eftir. Þeir klára þá sveinspróf um 22 ára aldur og mun fyrr en nú tíðkast.

(Allt talnaefni sem byggt er á í þessari grein er tekið af vef Hagstofu Íslands.)

(Birtist á bls. 33 í Morgunblaðinu 20. febrúar 2015)