Þarf að breyta kennslu í iðngreinum?

Undanfarna áratugi hefur sífellt stærri hluti hvers árgangs aflað sér formlegrar menntunar umfram skyldunám. Iðnnemum hefur þó ekki fjölgað. Þeir hafa verið milli þrjú og fjögur þúsund talsins síðan núverandi skipan komst á framhaldsskóla um og fyrir 1980.

E.t.v. eru þessar tölur einar og sér ekki áhyggjuefni. Þegar rýnt er nánar í aðsókn að iðnnámi kemur þó ýmislegt í ljóst sem vekur áleitnar spurningar. Það er m.a. umhugsunarefni hve fáar greinar laða til sín nemendur. Árið 2012 voru sex greinar með langflesta nemendur. Þær voru bifvélavirkjun, hársnyrtiiðn, húsasmíði, matreiðsla, rafvirkjun og vélvirkjun. En margar greinar höfðu enga eða fáa nemendur. T.d. voru 19 í námi til sveinsprófs í múraraiðn, 9 í netagerð, 6 í blikksmíði og 5 í veggfóðrun og dúkalögn. Í öllum þessum greinum hafði nemendum fækkað frá aldamótum.

Annað umhugsunarefni er að þótt flest iðnnám sé skilgreint sem 3ja til 4ra ára nám eftir grunnskóla hafa að jafnaði innan við 2% af árgangi lokið sveinsprófi fyrir 22 ára aldur. Meðalaldur við sveinspróf hefur um langt árabil verið yfir 25 ár. Iðnnám er því í reynd orðið nám fyrir fullorðna fremur en unglinga og flestir safnast í fáar greinar.

Í ljósi þessa hljótum við að spyrja hvernig er:
a) Hægt að mennta iðnaðarmenn til fjölbreyttari starfa?
b) Fá fleiri til að ljúka iðnnámi snemma á ævinni?

Að mennta iðnaðarmenn til fjölbreyttari starfa

Í reglugerð um löggiltar iðngreinar (940/1999) eru taldar upp allmargar greinar sem eru næstum eða alveg horfnar vegna nýrra atvinnuhátta og réttast væri að leggja niður. Aðrar eru óþarflega sérhæfðar og ættu að sameinast, eins og þegar hárskurður og hárgreiðsla urðu að einni grein svo sömu fagmenn máttu bæði klippa hár karla og kvenna.

Nú eru til fimm rafiðngreinar. Í þrem þeirra (símsmíði, rafveituvirkjun og rafvélavirkjun) eru engir nemendur en tvær eru fjölmennar (rafvirkjun og rafeindavirkjun). Eigi að halda í löggildingu starfa í rafiðnaði þarf að sameina fögin í tvö og hætta með einkaleyfi til starfa í mannlausum greinum. Svipaða sögu má segja um fleiri greinaflokka. T.d. væri að líkindum til bóta að sameina rennismíði og vélvirkjun.

Sameining og fækkun greina leysir ekki að fullu þann vanda sem hér um ræðir. Til að viðhalda fámennum greinum sem ekki er hægt að sameina öðrum þarf að endurskilgreina hlutverk skóla. Núgildandi námskrár gera ráð fyrir að stór hluti af sérhæfðu iðnnámi fari fram í skólunum. Í múrsmíði er t.d. um eins og hálfs árs nám í áföngum sem engir aðrir taka en verðandi múrarar. Í veggfóðrun og dúkalögn er þessi sérgreinapakki um tveir þriðju af námsári. Skólar hafa tæpast ráð á að kenna þessi fög nema stórir hópar hefji nám í þeim samtímis. Það gerist ekki. Fámennar greinar komast trúlega betur af með því taka aftur upp þá skipan, sem tíðkaðist langt fram eftir síðustu öld, að skólar kenni einkum það sem er sameiginlegt mörgum iðngreinum en meistarar í fyrirtækjum annist mestan hluta af sérhæfingunni.

Að fá fleiri til að ljúka iðnnámi snemma á ævinni

Ég get mér þess til að tvennt valdi mestu um litla sókn ungmenna í iðnnám. Annað er að fáir eru tilbúnir að velja eina sérhæfða grein strax við lok grunnskóla. Ungt fólk vill halda mörgum leiðum opnum. Hitt er að kennsla iðngreina mótaðist þegar flestir hófu nám með reynslu úr atvinnulífi. Síðan hafa flókin og erfið fög, eins og tölvuteikning og stýritækni bæst við námskrár margra iðngreina. Af þessu leiðir að námið er orðið of erfitt fyrir flesta unglinga og krefst meiri reynslu en þeir hafa.

Séu tilgátur mínar réttar má hugsa sér tvær leiðir til að laða fleiri ungmenni að iðnnámi. Önnur er að létta námið og draga úr sérhæfingu. Hin er að færa iðnnám, a.m.k. að hluta, á skólastig ofan við framhaldsskóla og bjóða undirbúning fyrir iðnnám á framhaldsskólastigi. Um fyrri leiðina verður seint nein sátt, enda kemur hún illa heim við þróun atvinnulífs þar sem er sífellt meiri þörf fyrir fólk með skilning á flókinni tækni. Seinni leiðin er hins vegar vel fær. Það er hægt að skilgreina stúdentsbrautir sem búa nemendur undir iðnnám. Á slíkum brautum geta fög eins og teikning og smíði verið stór hluti námsins.

Mér þykir flest benda til að á næstu árum fjölgi þeim enn sem stefna á stúdentspróf eftir lok grunnskóla. Það er í dúr við þessa þróun að framhaldsskólar sem hafa verið stofnaðir eftir aldamót hafa engar iðnbrautir. Menntakerfið hlýtur að svara aukinni eftirspurn eftir breiðri almennri menntun með því að bjóða upp á fleiri leiðir til stúdentsprófs. Þetta ætti iðnaðurinn að nýta sér, fremur en að bægslast móti tímans straumi. Verði iðnnám skilgreint þannig að það sé ári styttra fyrir þá sem lokið hafa stúdentsbraut af tiltekinni gerð er líklegt að stórir hópar ungmenna velji slíkt stúdentsnám, ljúki því 19 ára og iðnnámi innan þriggja ára þar á eftir. Þeir klára þá sveinspróf um 22 ára aldur og mun fyrr en nú tíðkast.

(Allt talnaefni sem byggt er á í þessari grein er tekið af vef Hagstofu Íslands.)

(Birtist á bls. 33 í Morgunblaðinu 20. febrúar 2015)Lokað er fyrir ummæli.