Eigum við að flýta okkur að menntast?

Árið 1986 opnaði McDonald‘s hamborgarstað á Piazza di Spagna í Róm. Skyndibitinn var kominn til Ítalíu. Þarlendur blaðamaður, Carlo Petrini, spurði: Ef þetta er matur til að éta í skyndi, hvernig er þá matur til að borða í rólegheitum? Af vangaveltum hans spratt hreyfing sem stendur vörð um staðbundnar hefðir í matargerð. Hún hefur breiðst út víða, fer vaxandi og heldur alþjóðlegar ráðstefnur á hverju ári. Hreyfingin hefur ekki nafn á íslensku svo ég viti til, en á ensku kallast hún The Slow Food Movement. Í stofnskrá hennar eru menn hvattir til að standa vörð um sannar lífsnautnir – að njóta efnislegra gæða í rólegheitum.

Æðibunugangur nútímans er ekki bundinn við að háma hratt í sig mat sem er of ómerkilegur til að taki því að tyggja hann. Í grein, sem birtist upphaflega árið 2002 og ber yfirskriftina It‘s Time to Start the Slow School Movement, líkir bandaríski menntunarfræðingurinn Maurice Holt skólum í heimalandi sínu við skyndibitastaði. Með skrifum sínum vildi Holt gera það sama fyrir skólamenninguna og Petrini hafði gert fyrir matarmenninguna. Rétt eins og eftir ákall Petrinis, 16 árum fyrr, fór af stað hreyfing, enda sjá flestir sem hafa augun í höfðinu að umbreyting menntastofnana í mannauðsverksmiðjur – miðstýring, stöðluð hæfniviðmið, ofhlaðnar námskrár, samræmd próf, áhersla á mælanlegar útkomur og allt sem því fylgir – þetta stuðlar ekki að betri menntun. Öðru nær. Þetta kemur í veg fyrir að kennarar nýti það staðbundna og einstaka og börn og unglingar njóti þess að læra í rólegheitum.

Greinin byrjar á að segja frá móður söngleikjaskáldsins Cole Porter. Hún laug til um aldur hans svo hann fékk að vera tveim árum lengur í foreldrahúsum og æfa sig á píanóið. Höfundur Can-Can og Anything Goes fór því að heiman í unglingaskóla fjórtán ára en ekki tólf. „Við ættum að þakka henni fyrirhyggjuna“ segir Holt en bætir við, að væri hún uppi nú fengi hún trúlega verri dóma en hún ætti skilið. Hann fjallar svo nokkrum orðum um árangursleysi tæknihyggju í skólamálum og kosti þess að gefa sér tíma. Með þessu er hann ekki að halda fram neinni tiltekinni skólagerð. Petrini hampar heldur ekki einni hefð í eldamennsku – það er jú menningarleysið sem er tilbreytingarlaust. Menningin er hins vegar fjölbreytileg. Holt heldur þó fram menntastefnu sem felur meðal annars í sér að það sé betra að skilja mikilvæg efni djúpum skilningi en þvælast um víðan völl, „betra að skoða í smáatriðum hvers vegna Sir Thomas More kaus píslarvætti eða af hverju Alexander Hamilton færði rök fyrir sterkri alríkisstjórn, en að muna nöfn allra kónga á Englandi eða fylkishöfuðborga í Bandaríkjunum“.

Skólar eru ekki til að nema það sem er fljótlegt að ná tökum á. Fólk fer ekki þangað til að læra að strjúka spjaldtölvur eða reima skó. Fólk fer í skóla til að læra lestur, mál, vísindi, tækni, listir, íþróttir. Alvöru menntun skilar meiru en yfirborðsþekkingu. Hún miðar að skilningi, smekkvísi, góðu handbragði og fleiru sem hver og einn þarf að ala með sér á sinn hátt, og á sínum tíma – og oftast á löngum tíma. Alvöru skóli er umfram allt griðastaður þess seinlega og menn læra sjaldan vel nema það sé slaki á tímanum og hægt að staldra við.

Hreyfingin sem Holt kom af stað heldur þessum sannindum til haga. Þau eru ekki ný. Annar Bandaríkjamaður, Theodore Sizer (1932 – 2009), sagði ýmislegt svipað í frægri bók sem út kom 1984 og heitir Horace’s Compromise. Holt vitnar raunar í Sizer og eldri fyrirrennara – góða og gegna íhaldsmenn í menntamálum, eins og Joseph Schwab (1909–1988) og Michael Oakeshott (1901-1990) sem minntu á það, hvor með sínum hætti, að menntun getur ekki verið stöðluð, útkoman ekki fyrirframákveðin, markmiðin ekki söm fyrir alla og asi er enginn flýtir.

Þegar ég las grein Holts í annað sinn nú um daginn kom mér í hug athugun sem ég gerði fyrir fimm árum á stærðfræðikennslu við nokkra framhaldsskóla. Ég kannaði hvernig þeir hefðu innleitt námskrána sem menntamálaráðherra setti árið 1999. Með upptöku hennar var mestallri stærðfræðinni sem kennd hafði verið á náttúrufræðibrautum í sjö þriggja eininga áföngum þjappað á fimm áfanga. Úr varð auðvitað hundavaðsháttur. Einn skólinn sem ég heimsótti bar þó gæfu til að þjappa efninu ekki saman, heldur gefa því jafnlangan tíma og áður, hvað sem leið fyrirmælum ráðherra. Það var MR. Mér skilst að nemendum þaðan gangi öðrum betur í stærðfræði í háskóla. Ef til vill er það að nokkru vegna þess að þeir fá að kafa djúpt í efnið fremur en að göslast yfir það.

Ég er annars ekki að skrifa þetta til að rifja upp könnun sem ég gerði fyrir fimm árum, heldur til að vara við að pæla sífellt hraðar og grynnra. Nú stytta framhaldsskólar nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Ég óttast að sumir reyni að gera þetta með því að æða yfir á enn meiri ferð, þar til ekkert er eftir nema þeytingur af glærum með stikkorðum í stað námsefnis. Útkoman úr því verður sennilega að þorri nemenda lærir ekki bara fjórðungi minna, heldur miklu minna.

(Birtist í Morgunblaðinu 28. maí 2015)Ein ummæli við “Eigum við að flýta okkur að menntast?”

  1. Þorbergur Þórsson ritar:

    Ég vil þakka fyrir þessa ljómandi fínu hugleiðingu og þörfu áminningu.