Af Langa-Nonna sem var rithöfundur þótt hann kynni ekki að lesa
Sunnudagur, 8. desember 2013Ég hef frétt af blindum myndlistarmönnum og heyrnarlausum tónlistarmönnum. En ég hef aðeins spurnir af einum ólæsum rithöfundi. Hann hét Ioannis Makrijannis (Ιωάννης Μακρυγιάννης), eða Jóhannes Langi-Nonni, og ritaði ævisögu sína. Sú bók kom út árið 1907. Þá voru 43 ár liðin frá dauða höfundar.
Makrijannis, fæddist í sveit rétt norðan Korintuflóa í Grikklandi árið 1797. Hann var af fátæku fólki. Faðir hans var fjárhirðir og móðir hans erfiðiskona. Saga hans hefst þar sem hún er að safna eldiviði í skógi, fær hríðir og fæðir hann ein fjarri alfaraleið – reitti gras ofan á viðinn, lagði barnið þar á og kom byrði sinni svo heim til bæjar. Þau mæðgin lifðu þetta af, en ekki nema rétt svo.
Um skólagöngu var ekki að ræða fyrir svo fátækan pilt. Frá sjö ára aldri mátti hann vinna fyrir mat sínum. Í frásögninni kemur vel fram hve honum sveið fátæktin og niðurlægingin sem henni fylgdi. Þáttaskil urðu í uppvexti hans þegar heilagur Jóhannes bænheyrði hann fjórtán vetra gamlan. Okkar maður hafði þá verið flengdur fyrir allra augum út af smáyfirsjón. Hann leitaði í kirkju, yrti á nafna sinn sem þar var teiknaður á helgimynd og hét að gefa honum silfurlampa stóran ef dýrlingurinn liðsinnti sér við að komast yfir peninga og vopn. Skömmu síðar var falast eftir honum í vinnu í borginni Jannínu. Sú vinna bauð upp á betri tækifæri en baslið í sveitinni. Að nokkrum árum liðnum átti Makrijannis bæði sæmileg klæði og karlmannleg vopn. Hann gaf sig að verslun og eignaðist peninga til að efna heit sitt við helgimyndina í kirkjunni.
Þetta var í byrjun nítjándu aldar. Þjóðerniskennd fór vaxandi meðal Grikkja. Leynifélög lögðu á ráðin um uppreisn gegn tyrkneskum yfirráðum, en mestur hluti Grikklands hafði lotið veldi Tyrkjasoldáns frá því Mehmed hinni sigursæli vann Miklagarð árið 1453.
Makrijannis kenndi kúgun og ofríki Tyrkja um aum kjör foreldra sinna og sveitunga og gekk til liðs við uppreisnarmenn áður en frelsisstríð Grikkja hófst 1821. Þetta stríð stóð í meira en áratug. Stórveldi Evrópu liðsinntu Grikkjum nokkuð og lögðu þeim til kóng með blátt blóð í æðum. Sá hét Ottó frá Bæheimi og tók við ríki 1832.