Færslur nóvembermánaðar 2013

Sérstök íslensk þrepaskipting

Fimmtudagur, 21. nóvember 2013

Fyrir stuttu birtist pistill eftir mig á vef Kennarasambandsins um þrepaskiptingu áfanga í framhaldsskólum. Þar benti ég á vankanta á ákvæðum Aðalnámskrár frá 2011 um þetta efni. Þeir vankantar eru þó aðeins lítill hluti af undarlegheitunum. Stærri hluti þeirra er hvernig þrepaskiptingin er ólík því sem tíðkast annars staðar. 

Víðast er notuð þrepaskipting UNESCO sem kallast ISCED (International Standard Classification of Education). OECD notar þessa þrepaskiptingu t.d. í alþjóðlegum samanburði á menntun og menntakerfum. Hún fellur líka að samræmingunni á menntakerfum Evrópusambandslanda sem er kennd við Bologna. Nýjasta gerð ISCED sem ég hef séð er frá 2011 og þeim hluta hennar sem varðar framhaldsskóla og neðri skólastig er lýst á efri hluta myndarinnar.

Hér á landi er næstum hálfum skalanum þvælt inn í framhaldsskóla eins og neðri hlutinn af myndinni sýnir. Þetta er gert eftir furðulega flóknum reglum sem ég held að verði skólunum fjötur um fót. Hvað sem annars má segja um þessa séríslensku þrepaskiptingu er hún afar frumleg og hugsanlega er hér um að ræða raunverulegt heimsmet en ekki bara heimsmet miðað við höfðatölu.

Þrepaskipting náms útgáfa UNESCO að ofan og sú �slenska að neðan