Færslur maímánaðar 2013

Argaþras um brottfall úr framhaldsskólum

Laugardagur, 25. maí 2013

Háværasta umræðan um framhaldsskóla í fjölmiðlum er argaþras um mikið brottfall og litla skilvirkni. Mest er þetta óttalegt bull.

Í ritinu Education at a Glance 2012 sem gefið er út á vegum OECD eru tölfræðilegar upplýsingar um menntakerfi OECD landa til ársins 2010. Gögn um kostnað ná þó aðeins til ársins 2009. Þarna má lesa að árið 2010 töldust aðeins 67% Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára hafa lokið námi á framhaldsskólastigi. Sambærileg tala fyrir Danmörku var 76% og meðaltal OECD landa var 74%. Tölur af þessu tagi munu helsta kveikja umræðu um ágalla íslenska skólakerfisins, enda virðist hér allmiklu muna. Þessi samanburður við önnur lönd er þó tæpast marktækur og veldur þar einkum þrennt:

a) Hér gerðist það seinna en í nágrannalöndum að þorri árgangs innritaðist í framhaldsskóla og  fyrir vikið eru margir fullorðnir án prófa úr framhaldsskólum án þess það segi mikið um kerfið eins og það er nú.

b) Hér telst 2ja ára nám ekki með þegar talið er hve margir hafa lokið framhaldsskóla. T.d.  teljast þeir mörgu sem hafa verslunarpróf af viðskiptabraut ekki með þótt fólk með sambærilegt nám teljist hafa lokið framhaldsskóla í flestum öðrum löndum.

c) Hér teljast nemendur sem hafa stundað nám en fengið falleinkunn ekki hafa lokið framhaldsskólanámi. Allvíða er brautskráning úr framhaldsskólum eins og úr grunnskólum hér, þannig að allir eru brautskráðir þótt aðeins sumir standist kröfur sem gerðar eru til að komast í áframhaldandi nám. Í Svíþjóð útskrifast t.d. margir stúdentar með „fall“ í þeim skilningi að einkunnir þeirra duga ekki til inngöngu í háskóla. Hér útskrifast þeir einir sem standast próf í öllum greinum.

Þegar litið er á upplýsingar sem eru samanburðarhæfar kemur í ljós að íslenska framhaldsskólakerfið er fremur dæmigert og ef eitthvað er heldur skárra en gerist og gengur. Samkvæmt tölum í Education at a Glance 2012 voru t.d. 88% íslenskra ungmenna á aldrinum 15 til 19 ára í skóla árið 2010. Sambærileg tala fyrir Danmörku var 85% og meðaltal OECD landa  83%. Munurinn á okkur og meðaltali OECD landa er enn meiri ef litið er til þeirra sem eru á aldrinum 20 til 29 ára. Hér á landi voru 38% þeirra á skólabekk 2010 en meðaltal OECD landa var 27%. Hér á landi eru 33% fólks á aldrinum 25 til 64 ára með háskólagráðu sem er sama hlutfall og í Danmörku. Meðaltalið fyrir OECD er 31%.

Umræða sem er ekki lengur í takti við tímann
Umræðan um brottfall úr íslenskum skólum var þörf og tímabær þegar hún hófst af kappi fyrir um tuttugu árum. Þá var þjóðin enn að venjast því að það væri sjálfsagt og eðlilegt að þorri unglinga væri við nám. Stór hluti þeirra átti foreldra sem höfðu ekki farið í framhaldsskóla og þótti ekki tiltökumál að sleppa því. Til marks um þetta er að samkvæmt tölum á vef Hagstofunnar fór fjöldi sem brautskráðist úr framhaldsskóla fyrir 25 ára aldur úr um 70% í um 90% af meðalstærð árgangs á fyrsta áratug þessarar aldar.

Fleiri merkileg sannindi um íslenska menntakerfið má finna á vef Hagstofunnar. Þar má t.d. lesa að fjöldi sem brautskráðist yngri en 25 ára úr framhaldsskóla fór úr 3210 skólaárið 2000-2001 upp í 4244 skólaárið 2009-2010. Á sama tíma fór heildarfjöldi brautskráninga úr framhaldsskóla (þar sem allir sem útskrifast eru taldir með, líka þeir sem eru eldri en 25 ára) úr 4067 upp í 5790 eða úr rúmum 90% upp í um 130% af dæmigerðum fjölda í árgangi. (Árgangarnir sem urðu tvítugir á fyrsta áratug aldarinnar töldu milli 4 og 5 þúsund einstaklinga hver og meðaltalið var 4430.)

Framhaldsskólakerfi sem útskrifar um 130% af dæmigerðum fjölda í árgangi á hverju ári hlýtur að saxa nokkuð hratt á „brottfall“ liðinna ára. Það er fjarstæða að halda að slíkt kerfi sinni illa eða ekki eftirspurn eftir menntun.

Hagkvæmt og skilvirkt skólakerfi
Árið 2009 var kostnaður við íslenska framhaldsskóla 7.934 Bandaríkjadalir (USD) á hvern nemanda í fullu námi ef marka má tölur í Education at a Glance 2012. Sambærileg tala fyrir Danmörku var 10.996 USD og meðaltal OECD landa 9.755 USD. Síðan hefur framlag ríkisins til framhaldsskóla á Íslandi verið skorið talsvert niður. Þeir eru því afar ódýrir miðað við framhaldsskóla í öðrum löndum.

Að vísu fer hærra hlutfall þjóðartekna í framhaldsskóla hér en víðast annars staðar eða 1,5% samanborið við 1,3% bæði í Danmörku í OECD löndum að meðaltali. Skýringin á þessu er næsta augljós. Hún er að hér á landi eru framhaldsskólanemar hlutfallslega mun fleiri en víðast hvar. Þetta er bæði vegna þess að mikill fjöldi fullorðinna er í framhaldsskólum og vegna þess að Íslendingar eru þokkalega duglegir að fjölga sér svo stærri hluti þjóðarinnar er á framhaldsskólaaldri en í löndum þar sem fólk eignast að jafnaði færri börn.

Rökræður um endurbætur og þróun framhaldsskóla verða hvorki skynsamlegar né gagnlegar nema menn geri sér ljósa grein fyrir styrk og kostum íslenskra skóla. Það hlýtur að vera betra að hlúa að því sem gefist hefur vel og byggja á sterkum undirstöðum sem til eru heldur en að mikla fyrir sér vandamál sem voru áhyggjuefni fyrir tuttugu árum og staglast á tölum sem virðast okkur í óhag í villandi og röngum samanburði við önnur lönd.

(Birtist í Morgunblaðinu 24. maí 2013)