Færslur aprílmánaðar 2013

Hvernig er hægt að komast í Evrópusambandið þótt flestir vilji vera fyrir utan það?

Föstudagur, 12. apríl 2013

Í augum þeirra sem standa að umsókn Íslands um inngöngu Evrópusambandið kann andstaða við aðild að sýnast vandamál. Almennt er gert ráð fyrir að á einhverju stigi verði þjóðaratkvæðagreiðsla og það kann að virðast erfitt að koma málinu í gegn ef flestir eru á móti. Þetta vandamál er þó alls ekki eins stórt og virðast kann. Ef réttum aðferðum er beitt er hægt að komast inn þótt fylgi við það sé nær öllum stundum vel innan við helming.

En hverjar eru þessar réttu aðferðir?

Það þarf auðvitað að byrja á að sækja um. Ef fólk vill ekki sækja um er allt í lagi að kalla umsóknina eitthvað annað: jólatrésskemmtun, bjölluat, könnunarviðræður eða bara hvað sem er. Aðalatriðið er að skila fullgildri umsókn, ekki hvað hún er kölluð. Þetta er raunar búið að gera og ekkert meira um það að segja. Næst þarf að búa svo um hnúta að hægt sé að afgreiða umsóknina í flýti en hún geti samt beðið nokkurn vegin hvað lengi sem er. Til að tryggja það fyrra þarf að breyta stjórnarskránni eitthvað smávegis. Þótt það hafi ekki gengið alveg eins greiðlega og til stóð tekst það sjálfsagt á næstu árum.

Þetta síðara, að umsóknin geti staðið opin í ótiltekinn tíma, virðist næstum í höfn. Samt þarf áfram að passa að enginn geti knúið á um að málið verði klárað og þannig eyðilagt allt saman. Það er ágætt að láta við og við í veðri vaka að það sé verið að opna einhverja kafla eða kíkja í einhverja pakka eða semja um eitthvað – en umfram allt ekki gera neitt sem getur orðið til þess að það verði rokið í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild á kolvitlausum tíma. Málið er að láta fullgilda umsókn standa opna. Svo er bara að bíða.

Meðan er beðið sakar ekki að segja við og við eitthvað fallegt um sambandið. Svo er fínt að gefa þeim sem helst hafa áhrif á skoðanir fólks og ráða einhverju slatta af peningum. Það eru fáir svo heillum horfnir að fjármunir hafi ekki einhver góð áhrif á þá. Það má líka reyna að kjafta Ísland svolítið niður. Þegar krónan er lágt skráð er til dæmis hægt tala um ónýtan gjaldmiðil og þegar gengi krónunnar hækkar má alveg segja eitthvað um hátt matvælaverð hér á landi. En það borgar sig ekki að vera að ræða svona mál í þaula eða segja neitt ákveðið um hvað er í öllum köflunum og pökkunum. Aðalatriðið er að bíða.

Á næstu áratugum koma vísast kollsteypur, alls konar hryðjuverk, ógnir og skelfingar, kannski stríð úti í heimi, nýjar kreppur – eitthvað sem hristir vel upp í fólki svo almenningsálit sveiflast til í nokkrar vikur, jafnvel mánuði. Ef umsóknin stendur munu á endanum atburðir verða sem valda því að fylgi við aðild sveiflast aðeins yfir 50% í dálitla stund og þá skiptir öllu að hægt sé að vinna hratt. Þegar þar að kemur má sem best láta svo heita að búið sé að opna alla kaflana og kíkja í alla pakkana en það skiptir ekki öllu máli. Bara að kýla á fjandans þjóðaratkvæðagreiðsluna og málinu er reddað.

Sé þessari aðferð fylgt samviskusamlega er vel hægt að ganga í sambandið þótt ríflegur meirihluti sé á móti því 99 mánuði af hverjum 100 alla þessa öld. Pólitík er nú einu sinni list þess mögulega eins og Bismarck sagði. Ef það er ómögulegt að komast inn í Evrópusambandið í góðri sátt sem stendur lengri tíma verða þeir sem ætla þangað hvað sem það kostar að fara þessa einu leið sem er fær – enda svo sem ekkert meiri lýðræðishalli á henni en sambandinu sjálfu.

(Birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2013)