Af Langa-Nonna sem var rithöfundur þótt hann kynni ekki að lesa

Ég hef frétt af blindum myndlistarmönnum og heyrnarlausum tónlistarmönnum. En ég hef aðeins spurnir af einum ólæsum rithöfundi. Hann hét Ioannis Makrijannis (Ιωάννης Μακρυγιάννης), eða Jóhannes Langi-Nonni, og ritaði ævisögu sína. Sú bók kom út árið 1907. Þá voru 43 ár liðin frá dauða höfundar.

Makrijannis, fæddist í sveit rétt norðan Korintuflóa í Grikklandi árið 1797. Hann var af fátæku fólki. Faðir hans var fjárhirðir og móðir hans erfiðiskona. Saga hans hefst þar sem hún er að safna eldiviði í skógi, fær hríðir og fæðir hann ein fjarri alfaraleið – reitti gras ofan á viðinn, lagði barnið þar á og kom byrði sinni svo heim til bæjar. Þau mæðgin lifðu þetta af, en ekki nema rétt svo.

Um skólagöngu var ekki að ræða fyrir svo fátækan pilt. Frá sjö ára aldri mátti hann vinna fyrir mat sínum. Í frásögninni kemur vel fram hve honum sveið fátæktin og niðurlægingin sem henni fylgdi. Þáttaskil urðu í uppvexti hans þegar heilagur Jóhannes bænheyrði hann fjórtán vetra gamlan. Okkar maður hafði þá verið flengdur fyrir allra augum út af smáyfirsjón. Hann leitaði í kirkju, yrti á nafna sinn sem þar var teiknaður á helgimynd og hét að gefa honum silfurlampa stóran ef dýrlingurinn liðsinnti sér við að komast yfir peninga og vopn. Skömmu síðar var falast eftir honum í vinnu í borginni Jannínu. Sú vinna bauð upp á betri tækifæri en baslið í sveitinni. Að nokkrum árum liðnum átti Makrijannis bæði sæmileg klæði og karlmannleg vopn. Hann gaf sig að verslun og eignaðist peninga til að efna heit sitt við helgimyndina í kirkjunni.

Þetta var í byrjun nítjándu aldar. Þjóðerniskennd fór vaxandi meðal Grikkja. Leynifélög lögðu á ráðin um uppreisn gegn tyrkneskum yfirráðum, en mestur hluti Grikklands hafði lotið veldi Tyrkjasoldáns frá því Mehmed hinni sigursæli vann Miklagarð árið 1453.

Makrijannis kenndi kúgun og ofríki Tyrkja um aum kjör foreldra sinna og sveitunga og gekk til liðs við uppreisnarmenn áður en frelsisstríð Grikkja hófst 1821. Þetta stríð stóð í meira en áratug. Stórveldi Evrópu liðsinntu Grikkjum nokkuð og lögðu þeim til kóng með blátt blóð í æðum. Sá hét Ottó frá Bæheimi og tók við ríki 1832.

Í byrjun stríðsins var Makrijannis tekinn til fanga af Tyrkjum og átti að taka hann af lífi. En hann gat nýtt sér mútuþægni og spillingu yfirvaldanna til að sleppa. Eftir það tekur við löng saga af fólkorrustum þar sem sögumaður kemst til metorða í her Grikkja, verður hershöfðingi og þjóðhetja jafnframt því sem hann bæklast og fatlast meir og meir af sárum og mannraunum.

Sögunni lýkur ekki með sigri í sjálfstæðisbaráttunni gegn Tyrkjum. Makrijannis hélt stríðinu áfram því honum þótti sem alþýða nyti lítt eða ekki góðs af sjálfstæðinu nú þegar ný innlend yfirstétt raðaði sér kringum nægtaborðið þar sem embættismenn soldánsins höfðu áður setið. Þessi yfirstétt var að hans dómi litlu skárri en Tyrkir. Hann fór því fremst í flokki þeirra sem vildu setja kóngi og öðrum valdhöfum í nýfrjálsu ríki skorður. Þeirri baráttu lauk með byltingu og gildistöku stjórnarskrár 1843. Næstu ár á eftir hafði hann  talsverð áhrif á grísk stjórnmál, en 1852 náðu kóngsmenn fram hefndum, fengu hann fangelsaðan og dæmdan til dauða. Yfirvöld heyktust samt á að kála Makrijannis – enda ekki heiglum hent að drepa mann sem í augum alþýðu var frelsishetja og tákn fyrir hugrekki og ættjarðarást. Haustið 1854 urðu atburðir sem tengdust stríðinu á Krímskaga til þess að honum var sleppt. Þegar Ottó kóngur var loks hrakinn frá völdum árið 1862 endurheimti Makrijannis stöðu sína í hernum og var fullgildur hershöfðingi þegar hann dó vorið 1864.

Eins og ráða má af þessu stutta ágripi hafði Makrijannis frá ansi miklu að segja. Honum var líka mikið niðri fyrir og það var þess vegna sem hann ákvað að læra að draga til stafs á fullorðins aldri þótt ólæs væri. Hann lét sér þó duga að læra að teikna litlu stafina. Upphafsstöfum sleppti hann og greinamerki notaði hann engin og ekki heldur bil milli orða. Textinn ber það með sér að höfundur var ókunnur öllum venjum um stafsetningu og frágang ritaðs máls. Handrit hans sem geymdist ólesið fram yfir aldamótin 1900 er eins og tilraun til að hljóðrita munnlega frásögn með framburði úr heimasveit höfundar.

Sá sem gaf sögu Makrijannis út árið 1907 hét Jannis Vlachojannis (Γιάννης Βλαχογιάννης). Hann var fyrsti forstöðumaður þjóðaskjalasafnsins í Aþenu. Það tók Vlachojannis eitt og hálft ár að stauta sig gegn um handritið og umrita það á venjulegt ritmál enda var þetta ólíkt öllu sem tíðkast hjá bóklærðu fólki. Textinn er samt á máli sem þykir fagurt og til fyrirmyndar. Hann er að ég held elsta dæmið um meiri háttar ritverk á alþýðlegu grísku nútímamáli eða því sem Grikkir kalla ðimotiki (δημοτική). Makrijannis var þó ekki alveg einn um að skrifa alþýðlegt nútímamál á fyrri hluta nítjándu aldar því um svipað leyti og hann ritaði endurminningar sínar glímdi helsta þjóðskáld Grikkja, Dionysios Solomos (Διονύσιος Σολωμός), við að yrkja á máli alþýðu og sótti sér fyrirmyndir í þjóðvísur. (Þrjú stutt ljóð eftir Solomos eru þýdd á íslensku í nýútkominni bók sem heitir Grikkland alla tíð.)

Flest sem ritað var á grísku á átjándu og nítjándu öld og fram á þá tuttugustu var á máli sem var talsvert frábrugðið talmáli fólks. Þetta mál er kallað kaþarevúsa (καθαρεύουσα) og dregur dám af orðfæri Biblíunnar. Kaþarevúsa var raunar opinbert mál á Grikklandi allt til 1976 þótt frá 1930 hafi verið heimilt að kenna á alþýðumálinu, ðimotiki, í fjórum yngstu bekkjum barnaskóla.

Höfuðskáld Grikkja á síðustu öld rituðu alþýðumál og samræmdur ritháttur forn, eða kaþarevúsa, á sér nú formælendur fáa enda hefur það aldrei verið lifandi mál í munni fólks. (Ef Stephan G. hefði verið Grikki hefði hann trúlega  kallað þá sem tóku kaþarevúsa fram yfir ðimotiki „andleg ígulker ótal skólabóka“.) Flestir sem nú unna fögru máli sækja sér því fremur fyrirmynd til Makrijannis en lærdómsmanna sem skrifuðu á grísku um svipað leyti.

Skáldið Giorgos Seferis (Γιώργος Σεφέρης) hélt mjög upp á endurminningar Makrijannis og skrifaði talsvert um þær. Hann taldi líklegast að Makrijannis hefði aldrei lesið aðra bók en sína eigin og hæpið að hann hafi yfirleitt kunnað að lesa venjulegan texta. Ef þetta er rétt hjá Seferis þá var Makrijannis einstakur fyrir fleira en hugsjónir og baráttuþrek. Hann er kannski eina dæmið um að ólæs maður hafi skrifað 500 blaðsíðna bók.Lokað er fyrir ummæli.