Færslur júnímánaðar 2012

Eiga framhaldsskólar að velja nemendur eftir einkunnum?

Föstudagur, 29. júní 2012

Eftirfarandi pistill birtist í Morgunblaðinu í fyrradag:

Nú í vor afhenti Kennslusvið Háskóla Íslands (HÍ) stjórnendum framhaldsskóla upplýsingar um meðaleinkunnir nemenda í grunnnámi við háskólann á árabilinu 2008 til 2011. Vorið áður fengu skólastjórnendur gögn um hve stórt hlutfall þeirra sem hófu nám í HÍ eftir aldamót höfðu lokið grunnnámi.

Ég hef skoðað þessar tölur svolítið og mér sýnast þær forvitnilegar. Eitt af því sem vekur athygli er gott gengi nemenda úr landsbyggðarskólum. Af gagnapakkanum frá í vor má t.d. reikna út að vegin meðaleinkunn allra nemenda í HÍ sem koma úr framhaldsskólum utan Reykjavíkursvæðisins er 6,97. Sambærileg tala fyrir Reykjavíkursvæðið (þ.e. Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð) er 6,89. Hér munar að vísu litlu. En sé litið til þess að einkunnir á samræmdum prófum í grunnskólum eru talsvert mikið hærri á Reykjavíkursvæðinu en landsbyggðinni má vænta þess að stúdentum úr borginni vegni betur en þeim sem koma utan af landi. Þar sem nemendur koma betur undirbúnir inn í framhaldsskóla má að öðru jöfnu gera ráð fyrir að þeir komi með meiri lærdóm út úr þeim.

Svipað er uppi á teningnum þegar gögn um námsgengi, sem dreift var í fyrra, eru skoðuð. Af stúdentum úr framhaldsskólum utan af landi sem hófu nám við HÍ eftir 2000 höfðu 36% lokið námi í fyrra. Sambærileg tala fyrir Reykjavíkursvæðið var 34%.

Hvað getur hugsanlega valdið þessu? Hafa nemendur úr dreifbýli eitthvert forskot í menntunarlegu tilliti sem ekki mælist á samræmdum grunnskólaprófum? Er mögulegt að framhaldsskólar á landsbyggðinni bjóði betri kennslu? Er skýringin kannski sú að heldur hærra hlutfall af höfuðborgarsvæðinu fer í háskólann? Skólaárið 2008 til 2009 útskrifuðu skólar á höfuðborgarsvæðinu um 71% stúdenta á landinu og úr þeim komu þá um 74% nemenda í grunnnámi við HÍ. (Ég hef ekki nýrri tölur.)

Ég held að það geti vel verið að þessar þrenns konar ástæður sem hér var spurt um skýri muninn að einhverju leyti. Mér þykir þó sennilegt að fjórða ástæðan skipti ekki síður máli, en hún er að framhaldsskólar úti á landi taka nær allir við sundurleitum hópi nemenda. Þar blandast t.d. saman þeir sem fengu háar og lágar einkunnir við lok grunnskóla. Á höfuðborgarsvæðinu virðast nemendur hins vegar raðast í skóla eftir einkunnum þannig að stór hluti þeirra sem fá hæstu einkunnirnar upp úr tíunda bekk safnast í fáa skóla.

Sjálfur hef ég starfað við fjölbrautaskóla, sem tekur við heilu bekkjunum upp úr grunnskóla, síðan 1986 og reynslan hefur sannfært mig um að fjölbreytileiki mannlífsins í skólanum hefur góð áhrif á allan hópinn. Öflugustu námsmennirnir hrífa aðra með sér og hinir sem minna geta setja pressu á kennarana að leita sífellt leiða til að kenna svo efnið verði sem skiljanlegast.

Ég held að það sé vel þess virði að skoða hvort of einsleitir nemendahópar í framhaldsskólum höfuðborgarsvæðisins eigi einhvern þátt í að dreifbýliskrakkar, sem voru eftirbátar þeirra á samræmdum prófum í grunnskóla, stinga þá af í háskóla. Ef svo er þá er e.t.v. ástæða til að velja milli umsækjenda um skólavist með öðrum hætti en nú er gert.

Tvær nýlegar greinar

Laugardagur, 2. júní 2012

Ég var að bæta tveim greinum við lista yfir útgefin rit á heimasíðu minni (http://this.is/atli). Þær eru: