Færslur októbermánaðar 2011

Á að hætta með alvöru framhaldsskóla?

Mánudagur, 10. október 2011

Ég gekk í menntaskóla á áttunda áratug síðustu aldar. Á fyrsta ári vorum við 25 saman í bekk og álíka mörg á öðru ári. Á þriðja og fjórða ári var ég í 6 manna eðlisfræðideild. Við vorum 6 saman í eðlisfræði og hluta af stærðfræðinni en með hópi úr náttúrufræðideild í ýmsum öðrum greinum. Valfög voru flest kennd í litlum hópum og stór hluti kennslustunda sem ég sat var mjög fámennur miðað við það sem nú gerist. Ég var heppinn. Lánið elti mig svo upp í háskóla þar sem ég var oftast í minna en 25 manna hópum. Það var ráðrúm til að spyrja og spjalla.

Þegar ég fór kenna fyrir aldarfjórðungi var svona ríkmannlegt skólahald orðið heldur fágætt. Við fjölbrautaskóla með blöndu af bóknámi og verknámi, eins og þann sem ég starfa við, var þó vanalegt að hafa 8,5 til 9 kennara í fullri vinnu á hverja 100 nemendur. Nú er þessi tala nær 7,5. Þá tíðkaðist líka að kenna verklegar raungreinar í 10 til 15 manna hópum og valfög voru sett á vetur þótt fjöldi nemenda væri ekki nema helmingur af því sem nú er talið lágmark. Þá var kostnaður við að kenna hverjum nemanda í eitt ár álíka mikill í framhaldsskólum og í grunnskólum. Nú er framlag á hvern ársnemanda í framhaldsskólum að jafnaði innan við tveir þriðju af því sem kostar að hafa barn einn vetur í grunnskóla.

Eftir linnulausa „hagræðingu“ og kröfur um „skilvirkni“ og „framleiðni“ er algengt orðið að hafa 30 manna hópa í byrjunaráföngum í framhaldsskólum og verulega hefur dregið úr verklegri kennslu t.d. í raungreinum. Þrátt fyrir yfirstandandi kreppu er samfélagið samt miklu auðugra nú en þá. En hvers vegna í ósköpunum er ríkið orðið svo nískt á kennslu fyrir unglinga?

Það er hægt að benda á heimskulega græðgi og áherslu á steypu og byggingar fremur en auðugt mannlíf og víst er fótur fyrir slíkum ábendingum. Það má líka segja að því fleiri verkefni sem ríkissjóður borgar því minna fari í hvert þeirra. Þetta er þó ekki öll sagan. Hluti af vitleysisganginum er held ég vegna þess að of margir af þeim sem ráða ferðinni í menntamálum hafa tapað áttum, halda jafnvel að skóli sé eins og sumar greinar framleiðsluiðnaðar að því leyti að best sé að gera sem mest á sem skemmstum tíma og með sem minnstri fyrirhöfn – skyndibiti sé fullgott veganesti út í lífið.

Fyrir flesta tekur það langan tíma og krefst raunverulegrar handleiðslu að ná valdi á góðum stíl, vísindalegri hugsun á einhverju sviði, erlendu máli, listfengi eða fallegu handbragði. En skóli sem snýst um að afkasta sem flestum „einingum“ með sem minnstri kennslu kemst illa eða ekki hjá að svíkja nemendur sína um þetta. Hætt er við að þá verði þrautalendingin að færa þeim í staðinn lauslega kynningu og yfirborðsvaðal um hitt og þetta. Þegar svo er komið er í raun hætt að starfrækja alvöru skóla og búið að ræna ungt fólk ansi miklu af þeim lífsgæðum sem mestu varða.

Það er eins og allt of margir hafi misst sjónar á því að skólinn á að vera griðastaður þess seinlega í heimi hraðans – staður þar sem má vera lengi að hlutunum og þar sem gefst ráðrúm til að tala saman. Í skóla er líka í lagi að hafa meiri áhuga á stjörnufræði, leiklist eða sögu heldur en einhverju sem er talið hagnýtt í dag (og enginn veit nema reynist svo fánýtt hjóm á morgun).

Þegar kreppan skall á haustið 2008 vonaði ég að hraðinn og tryllingurinn sem var að hola og mola skólastarf og menningu í landinu heyrði sögunni til. Sú von hefur ekki ræst. Öðru nær. Það er þvert á móti gengið enn lengra í „hagræðingu“ jafnframt því sem áformin um stórhýsi og óhófseyðslu á kostnað ríkisins eru, ef eitthvað er, enn fáránlegri en í óðærinu sem kallað var góðæri. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga sem nú liggur fyrir Alþingi á enn að minnka kennsluna sem nemendur fá í framhaldsskólum – eins og eyðileggingin sé ekki orðin meiri en nóg nú þegar.

(Birtist á bls. 17 í Morgunblaðinu 10. október 2011)