Færslur septembermánaðar 2011

Enn eitt ljóð eftir Elytis

Sunnudagur, 25. september 2011

Hér fer á eftir þýðing á fjórða ljóðinu úr Hetjusöng og harmaljóði um flokksforingjann sem fórst í Albaníu eftir Oðysseas Elytis, en sú bók kom út árið 1946.

Hann liggur nú ofan á skorpnuðum hermannafrakka
með gust sem hefur staðnæmst í kyrru hári
með grein af meiði gleymskunnar í vinstra eyra
líkur garði sem fuglarnir hafa skyndilega yfirgefið
líkur söng sem er keflaður í myrkrinu
líkur englaklukku sem stöðvaðist
þegar augnhárin sögðu „sæll og bless“
og undrunin varð að steini …

Hann liggur ofan á skorpnuðum hermannafrakka.
Í kringum hann gjamma myrkar aldir
með beinagrindum hunda að hræðilegri þögninni
og stundirnar sem aftur urðu að steindúfum
hlusta vandlega eftir;
Þótt brosið sviðnaði og jörðin yrði heyrnarlaus
þótt enginn heyrði það hinsta hróp
tæmdist veröld öll við hinsta hróp.

Undir fimm sedrusviðartrjám
án annarra kerta
liggur hann á skorpnuðum hermannafrakka;
Hjálmurinn tómur, gruggað blóðið
hálfur handleggur hjá
og milli augnabrúnanna —
lítill beiskur brunnur, fingrafar örlaganna
lítill beiskur dumbrauður brunnur
brunnur þar sem minningarnar kólna!

Æ lítið ekki á æ lítið ekki á hvar frá honum
hvar lífið flúði frá honum. Ekki segja
ekki segja hve reykurinn steig hátt upp af draumnum
þannig eitt augnablik, þannig eitt
þannig skilur eitt augnablik sig frá öðru
og ódauðleg sólin í skyndi frá mannanna heimi!

(more…)

Óður númer 5 úr Αξιον Εστί eftir Elytis

Laugardagur, 24. september 2011

Óður númer 5 úr Verðugt er (Αξιον Εστί) eftir Odysseas Elytis (Οδυσσέας Ελύτης)

Með lukt úr ljósi stjarna, ég leitaði til himna,
út á svölum engjum, á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Brúðarlaufi mæddu, silfruðu af svefni,
ýrðu mér um andlit, einn ég geng og blæs,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Þú sem stýrir geislum, rekkjugaldrakarlinn,
svikahrappur vitandi um seinni tíma, seg mér
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Í stúlkum mínum sitja sorgir heilla alda,
með riffla mínir piltar en vita ekki samt
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Hundraðhentar nætur í himinhveli víðu
erta mig í iðrum, undan sviðinn kvelur,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

Með lukt úr ljósi stjarna, ég geng um himingeima,
út á svölu engin, á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína, hið fjögurra laufa tár!

(more…)