Færslur febrúarmánaðar 2011

Heimsmet í flumbrugangi eða úthugsuð sýndarmennska?

Fimmtudagur, 10. febrúar 2011

Lög um stjórnlagaþing (90/2010) tóku gildi 2. júlí 2010. Talsverðar breytingar voru gerðar á þeim með lagasetningu (120/2010) sem samþykkt var þann 9. september og tók gildi 24. september.

Samkvæmt lögunum skyldi kosið til þingsins fyrir lok nóvember. Kosningin skyldi auglýst eigi síðan en 8 vikum fyrir kjördag og framboðum skilað í síðasta lagi 40 dögum fyrir kjördag. Kosningin fór fram 27. nóvember. Hún var auglýst af landskjörstjórn 17. september og framboðsfrestur rann út mánuði síðar. Lögin kváðu á um að þingið skyldi koma saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 og ljúka störfum 15. apríl 2011.

Ljóst var að á svo skömmum tíma gætu þeir sem hygðu á framboð tæpast áttað sig á verkefnum þingsins. Einnig var ljóst að mörgum yrði erfitt að fá sig lausa frá vinnu til þingstarfa með svo skömmum fyrirvara. Ennfremur var hæpið að þing gæti lokið uppbyggilegri samræðu um nýja stjórnarskrá á aðeins tveim mánuðum. Sá tími væri of stuttur jafnvel þótt eðlilegt ráðrúm hefði gefist til að undirbúa framboð og rökræða málin fyrir kosningar.

Þessi mikli hraði er undrunarefni. Það er líka undrunarefni að í aðdraganda kosninga var lítið sem ekkert gert til að ýta undir málefnalega umfjöllun um verkefni þingsins. Ætla má að skynsamlegt hefði verið að fá fræðimenn sem víðast að til að fjalla um málið og gera grein fyrir breytingum á stjórnarskrám í nágrannalöndum okkar. Þegar kosningarnar voru haldnar fór víðs fjarri að kjósendur hefðu átt þess raunhæfan kost að átta sig á stefnu frambjóðenda eða fræðast um hvaða kostir á breyttri stjórnarskrá kæmu helst til greina, hverjir þeirra ættu sér samsvörun í öðrum löndum og hvernig þeir hefðu reynst þar. Þingið átti einfaldlega að starfa með hraði eftir að það hafði verið kosið með skömmum fyrirvara samkvæmt lögum sem voru sett í miklum flýti og breytt á síðustu stundu. Þetta leit út eins og tilraun til að setja heimsmet í flumbrugangi.

Ef til vill er þó ekki allt sem sýnist. Í júní 2010 skipaði Alþingi 7 manna stjórnlaganefnd sem skyldi meðal annars leggja hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá fyrir stjórnlagaþingið. Átti þessi 7 manna hópur sem var valinn af Alþingi í sumar kannski að búa til nýja stjórnarskrá? Var stjórnlagaþingið bara til að gefa breytingum sem keyra átti í gegn án opinskárrar umræðu lýðræðislegt yfirbragð? Ég veit þetta auðvitað ekki. En mér finnst ekki koma heim og saman að það hafi raunverulega staðið til að kjörnir fulltrúar almennings ynnu að stjórnarbót en væri hvorki veittur tími til að undirbúa framboð og rökræða kosti í stöðunni né til að vinna verkið. Kannski var þetta allt saman úthugsuð sýndarmennska en ekki eintómt bráðræði og óðagot.

Ef menn bera ekki gæfu til að hætta við þessa vitleysu þá held ég illskást sé að kjósa aftur, auglýsa kosninguna með góðum fyrirvara og gefa þinginu ríflegan tíma til að vinna verkið.

(Grein þessi birtist á bls. 16 í Morgunblaðinu, mánudaginn 7. febrúar.)