Nám til stúdentsprófs fyrir alla unglinga

Síðan ég byrjaði að fylgjast með málefnum framhaldsskóla hefur aftur og aftur komið upp umræða um þörf fyrir fleiri stuttar námsbrautir og að þær geti dregið úr brottfalli frá námi. Ákvæði um framhaldsskólapróf eftir eins og hálfs til tveggja ára nám í 16. grein laga um framhaldsskóla (nr. 92/2008) eru e.t.v. einhvers konar bergmál af þessari umræðu. Hugmyndir um að fjölgun stuttra brauta sé gott ráð við brottfalli byggjast þó á fremur hæpnum forsendum. Vandi þeirra sem hætta í skóla án þess að ljúka skilgreindu námi er, að ég held, fremur of fáir kostir á löngu námi en skortur á stuttum námsbrautum.

Ég hef starfað við framhaldsskóla í rúman aldarfjórðung og kynni mín af unglingum benda til að flestir vilji klára þriggja til fjögurra ára nám og útskrifast svo með jafnöldrum sínum. Styttri brautir hafa ekki verið fjölsóttar af fólki innan við tvítugt þótt víða hafi verið boðið upp á þær.

Flestar þriggja til fjögurra ára námsbrautir sem nú standa til boða eru annað hvort starfsmenntabrautir, sem búa fólk undir tiltekið og afmarkað starf, eða fremur strembnar bóknámsbrautir til stúdentsprófs, sem eru einkum undirbúningur fyrir akademískt nám í háskóla. Það er vart við því að búast að allur þorri þeirra unglinga sem ekki sækja í hefðbundið menntaskólanám sé tilbúinn að velja eina tiltekna starfsgrein. Marga þeirra langar í breiðari menntun og flestir þeirra vita vel að störfin sem bjóðast í framtíðinni munu fæst falla að sérgreinum, sem voru skilgreindar fyrir margt löngu af mönnum sem verða dauðir þá, ef þeir eru það ekki nú þegar.

Það vantar líklega meira framboð af almennu námi sem býr fólk ekki undir tiltekið starf heldur opna og óvissa framtíð. Slíkt nám á meira skylt við hefðbundið stúdentsnám en eiginlegt starfsnám, en þarf samt ekki allt að vera jafnbundið bóklegum fræðum og stúdentsnám er nú um stundir. Listir, handverk, félagsmál, íþróttir og þroskandi vinna geta vel verið drjúgur hluti þess. En það þarf að njóta virðingar og hafa tilgang og til þess er best að það sé af fullri lengd og heiti það sama og annað nám á framhaldsskólastigi.

Ég hugsa að heppilegast sé að móta námsleiðir af þessu tagi án þess að umturna að ráði þeim starfsmennta- og bóknámsbrautum sem fyrir eru og miða við að upp til hópa ljúki unglingar þriggja til fjögurra ára námi í framhaldsskóla og útskrifist eftir það með próf sem kallast stúdentspróf.

Um og upp úr miðjum áttunda áratug síðustu aldar voru stofnaðir fjölbrautaskólar víða um land, sums staðar með samruna gagnfræða- og iðnskóla. Á þessum tíma var um það rætt að í þeim yrði enginn aðgreining á bóknámi og verknámi. Reyndin varð samt sú að gera greinarmun á stúdentsprófi og öðrum lokaprófum eins og hefðbundið var. Þessi mannamunur var, og er enn, undirstrikaður með því að stúdentar bera hvíta húfu þegar þeir útskrifast en aðrir eru ýmist húfulausir eða með höfuðfat í öðrum lit.

Á árunum frá því um 1980 fram til 1999 var þessi gamalgróna aðgreining milduð nokkuð með fjölgun stúdentsbrauta sem höfðuðu til æ breiðari hóps. Undir aldarlok voru t.d. víða komnar íþrótta-, tónlistar- og tæknibrautir til stúdentsprófs. Árið 1999 tók gildi Aðalnámskrá sem stöðvaði þessa þróun og kvað á um að bóknámsbrautir skyldu aðeins þrjár (þeim var svo fjölgað í fjórar nokkrum árum seinna) og allar með þunga áherslu á undirbúning fyrir akademískt nám. Námskráin frá 1999 opnaði að vísu leið til að klára viðbótarnám til stúdentsprófs eftir tveggja til fjögurra ára starfstengt nám eða listnám, en sú leið var aðeins fyrir þá sem luku sérhæfðu starfs- eða listnámi. Með nýrri Aðalnámskrá, sem var gefin út í vor á þessu ári, fá skólar aftur svigrúm, eins og þeir höfðu fyrir 1999, til að bjóða fleiri kosti á námi til stúdentsprófs. Ég held að heppilegt sé að nýta þetta svigrúm til að afnema aðskilnaðarstefnuna alveg og skilgreina allt framhaldsskólanám sem nám til stúdentsprófs.

Nú kann einhver að segja að með þessu hljóti að vera horfið frá því að stúdentspróf dugi til inngöngu í háskóla. Því er til að svara að nú þegar fer fjarri að öll stúdentspróf dugi til inngöngu í hvaða háskóladeild sem er – enda tæpast vit í öðru en þær setji hver sín inntökuskilyrði sem geta t.d. verið svo og svo margar námseiningar í tilteknum greinum (eins og er þegar gert í verkfræði við Háskóla Íslands) eða árangur á inntökuprófi (eins og í læknadeild Háskóla Íslands og leiklistar- og dansdeild Listaháskóla Íslands).

Verði þessi breyting gerð á næstu árum munu skólar útskrifa suma með stúdentspróf af félagsfræða-, mála- eða náttúrufræðibraut og aðra með stúdentspróf í iðngreinum eins og húsasmíði eða hársnyrtiiðn og enn aðra með stúdentspróf þar sem áhersla er lögð á listir, íþróttir eða hvað annað sem menntar fólk og bætir. Það verður þá væntanlega tekið að líta á það sem sjálfsagðan hlut að ungt fólk klári þriggja til fjögurra ára framhaldsskólanám og útskrifist með stúdentspróf.

(Birtist í Morgunblaðinu 13. desember 2011)Lokað er fyrir ummæli.