Dauði Byrons eftir Georgios Drosinis

Byron lávarður (1788 – 1824) var bæði með helstu skáldum og frægustu persónugervingum rómantísku stefnunnar á sínum tíma. Hann endaði ævina á sóttarsæng í Grikklandi en þangað fór hann til að styðja Grikki í frelsisstríðinu gegn Tyrkjaveldi.

Byron aflaði sjálfstæðisbaráttu Grikkja fylgis meðal rómantískra menntamanna í heimalandi sínu, Englandi, og víðar í Evrópu og varð þjóðhetja hjá Grikkjum.

Allmörg grísk skáld hafa ort um Byron. Má þar frægastan telja Dionysios Solomos (Διονύσιος Σολωμός, 1798 – 1857) sem einnig er höfundur gríska þjóðsöngsins. Eitt af hans þekktustu verkum er langur bálkur um dauða Byrons. Annað velþekkt ljóð um sama efni er Dauði Byrons eftir Georgios Drosinis (Γεώργιος Δροσίνης, 1859–1951).

Dauði Byrons

Hvers leitaðir þú svanur hér á söndum
við seyrublandin fen og vatnalendur
hvar hafa vetursetu í sólarlöndum
svarleit gæsakyn og villtar endur?

Þú norðangestur heillað hafðir lýði,
en heillast lést af brúði sem við frelsi
er kennd þó innan virkisveggja skrýði
vatnadís þá stríðsklæðanna helsi.

Svanur hvíti að erni verða vildi,
og veita lið með ógnarklóm í hildi;
en banvæn ofdirfð var það slíkri veru …
Og vorið kom og fuglar aftur sneru,
þeir flugu sína leið til heimalanda,
líkfylgd hvítum svani norðurstranda …

Á Grikklandi eru farfuglarnir flestir vetrargestir og fara aftur heim til sín í norður þegar vora tekur. 

Á frummálinu:

Ό θάνατος του Μπάϊρον

Εκεί πού η μαύρη φαλαρίδα κι η άγρια πάπια
χειμαδιό βρίσκουν στήν προσηλιακή στεριά,
στης λιμνοθάλασσας τ’ ακρόνερα τά σάπια
τί ήρθες ζητώντας, λευκέ Κύκνε, τού βοριά;

Τόν Κύκνο κοσμοπλάνευτη πλάνεψε κάποια
τής λιμνοθάλασσας νεράϊδα, η Λευτεριά·
Παλάτι στεριανό τού κάστρου είχε τήν τάπια,
κι αντί στολίδια νύφης, άρματα βαριά.

Αητός ο λευκός κύκνοσ θέλησε νά γίνει,
κι αητού φτερά καί νύχια τάνυσε γιά κείνη·
μά ήταν θανάσιμη ή παράτολμή του ορμή …
Καί τά μαγιάπριλα όταν γύριζαν καί πάλι
τά νεροπούλια πρός τό βοριανό ακρογιάλι,
συνοδιά γίνηκαν στού Κύκνου τό κορμί …Ein ummæli við “Dauði Byrons eftir Georgios Drosinis”

  1. Guðmundur Brynjólfsson ritar:

    Ég kann ekki að segja frá því hvort þýðingin er góð.

    En mikið er fallega ort.