Ljóð úr Axion Estí
Þriðjudagur, 21. september 2010Hér fer á eftir tilraun til að þýða annað ljóðið í miðhluta ljóðabálksins Verðugt er (Αξιον Εστί) eftir Odysseas Elytis (Οδυσσέας Ελύτης, 1911 –1996).
Gáfu mér málið mitt, hellenska tungu
Gáfu mér málið mitt, hellenska tungu –
fátæklegt kot, á ströndum sem tilheyra Hómer.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
á ströndum sem tilheyra Hómer.
Þar eru aborrar og kólguflekkir, hreggbarðar sagnir,
grænleitir straumar í bládjúpi hafsins,
allt sá ég, er sírenur mæltu hin fyrstu orð,
ljóma í iðrum mín sjálfs,
marglyttur, svampa og rauðleitar skeljar
með fyrsta hrollinum svarta.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
með fyrsta hrollinum svarta.
Þar eru granatepli og aldin af runnanum rjóða,
hörundsdökk goð og bræðrungar, frændur,
tæmandi olíu ofan í risastór ker –
úr gilinu ilmandi gustur,
tágavíðir og róðutré, sefgresi, engiferrætur
við fyrstu tíst finkunnar
sætlegur lofsöngur, Dýrð-sé-þér, í allrafyrsta sinn.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
Dýrð-sé-þér, kveðið í alfyrsta sinn.
Þar er lárviður, pálmar, reykelsisker og heilög angan
blessandi sverðin og byssur með tinnusteinslása.
Ilmur af grilluðu kjöti og brestandi skurn
á dúkuðum vínekrum jarðar
og Kristur upprisinn
þá kveðjuskot Hellena hljóma hið fyrsta sinni.
Leyndar ástir í fyrstu orðum Lofsöngsins.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
í fyrstu orðum Lofsöngsins.
Undir lok ljóðsins koma fyrir vísanir sem líklegt er að flestir grískir lesendur átti sig á en útlendingar síður. Orðin „κνίσες, τσουγκρίσματα“ sem hér eru þýdd með „ilmur af grilluðu kjöti og brestandi skurn“ vísa trúlega til páskanna þegar lambakjöt er steikt á grilli og vinir slá saman soðnum eggjum og sjá hjá hvorum skurnin brotnar fyrr. Lofsöngurinn sem nefndur er í síðustu vísuorðunum er væntanlega þjóðsöngur Grikkja sem er Lofsöngur til frelsisins eftir Dionysios Solomos (Διονύσιος Σολωμός, 1798 – 1857).
Ég þýði „στις αμμουδιές του Όμηρου“ með „á ströndum sem tilheyra Hómer.“ En kvenkynsorðið „αμμουδιά“ þýðir stundum strönd, oftast þó sandströnd en það getur líka merkt sand. Það er því mögulegt að þýða þetta með „á söndum Hómers.“
Eins og víðar í ljóðabókinni Verðugt er virðist mælandinn ýmist vera skáldið eða land þess. Það er að minnsta kosti enginn venjulegur maður sem sér sjávardýr ljóma í eigin iðrum.