Færslur ágústmánaðar 2010

Af Jóníu eftir Kavafis

Sunnudagur, 15. ágúst 2010

Ljóðið Af Jóníu er frá árinu 1911.

Af Jóníu

Þótt við höfum brotið líkneskjur þeirra
og hrakið þá úr hofum sínum
höfum við ekki gengið af guðunum dauðum.
Jónía, enn ert það þú sem þeir elska
og enn ert þú jörðin sem sál þeirra minnist.
Þegar dagar yfir þér í ágúst þá hríslast
um loft þitt kraftar þess lífs sem þeir lifa
og svifléttar, óljósar myndir,
ungmennum líkar, fara á stundum
hratt yfir fjöll þín og hæðir.

(more…)

Eitt af seinni ljóðum Kavafis

Sunnudagur, 8. ágúst 2010

Eftirfarandi ljóð birtist fyrst árið 1928. Það er um margt dæmigert fyrir seinni ljóð Kavafis, nánast eins óljóðrænt og verið getur.

Annað grískt skáld, Giorgos Seferis (Γιώργος Σεφέρης) sagði í frægri ritgerð að Konstantinos P. Kavafis (Κωνσταντίνος Π. Καβάφης) hafi farið með ljóðlistina að ystu mörkum þess óljóðræna og í þessu hafi enginn annar komist lengra.

Í ritgerð þessari ber Seferis saman tvo frumkvöðla módernisma í ljóðagerð, Bandaríkjamanninn Thomas Stearns Eliot (1888 – 1965) og einfarann frá Alexandríu, Kavafis (1863 –1933), og segir að Kavafis hafi öðrum skáldum fremur farið eftir því sem Eliot boðaði að tilfinningar yrðu aðeins tjáðar á listrænan hátt með því að lýsa hlutlægri samsvörun þeirra („objective correlative“).

Þetta ljóð virðist aðeins segja brot úr gamalli sögu. Ef til vill var þessi saga hlutlæg samsvörun þess hvernig framsýnir menn upplifðu samtíð sína rétt fyrir kreppuna miklu.

Hægt er að heyra ljóðið lesið á frummálinu með því að smella hér.

Í stórri grískri nýlendu árið 200 f. Kr.

Á því er enginn minnsti vafi að hlutirnir ganga
öðru vísi en menn óska hér í nýlendunni.
Samt eru framfarir hjá okkur.
Kannski er þó, eins og margir halda, orðið tímabært
að fá hingað pólitískan umbótamann.

Vandamálið sem flækist fyrir okkur
er bara að þeir gera svo mikið mál úr öllu
þessir umbótamenn. (Best væri
að þurfa aldrei að leita til þeirra.)
Þeir spyrja um hvaðeina
og grafast fyrir um langsótt aukaatriði,
upphugsa róttækar breytingar fyrirvaralaust
og heimta að þær séu framkvæmdar án tafar.

Þeir hneigjast líka til að færa fórnir:
Afsalið ykkur þessari eign,
það er áhættusamt að halda henni,
Það eru einmitt eignir af þessu tagi sem spilla nýlendunum.
Afsalið ykkur þessum tekjustofni
og líka þessu öðru sem tengist honum
og þessu þriðja líka, eins og af sjálfu leiðir.
Það munar vissulega um þetta, en hvað getur maður gert?
Þeir velta á þig ábyrgð sem veldur beinlínis tjóni.

Sem rannsókn þeirra vindur fram
finna þeir fleiri og fleiri smáatriði sem þeir heimta
að verði afnumin, atriði sem er samt erfitt að skera niður.

Er þeir ljúka verki sínu, ef allt gengur eftir,
og sérhvert lítilræði hefur verið dregið undir hnífinn
og þeir fara burt með þau laun sem þeim ber,
þá má merkilegt heita ef eitthvað verður eftir
þegar skurðhnífnum hefur verið beitt af þvílíkri leikni.
 
Annars er þetta kannski ekki tímabært.
Við skulum ekki flýta okkur. Óðagot er áhættusamt.
Menn sjá eftir því sem gert er í bráðræði.
Vissulega fer margt aflaga hér í nýlendunni.
En er mannlífið nokkurs staðar án misfellu?
Og þrátt fyrir allt eru framfarir hjá okkur.

(more…)

Ljóð eftir Kavafis

Laugardagur, 7. ágúst 2010

Frá klukkan níu

Tólf og hálf. Tíminn hefur liðið hratt
frá klukkan níu þegar ég kveikti á lampanum
og settist. Hér hef ég setið án þess að lesa
og án þess að segja neitt. Við hverja
ætti ég að tala, ég er aleinn í þessu húsi.

Frá klukkan níu þegar ég kveikti á lampanum
hefur myndin af líkama æsku minnar
komið að finna mig og vakið minningar
um lokuð herbergi sem ilmuðu
og unað fyrri tíma – unað svo djarfan!
Og hún setti mér líka aftur fyrir sjónir
stræti sem nú eru óþekkjanleg og staði
fulla með iðandi næturlíf sem nú hafa lokað, 
leiksvið og kaffihús sem eitt sinn voru.

Myndin af líkama æsku minnar
kom og hún færði mér einnig harma,
sorg sem fjölskyldan varð fyrir, aðskilnað,
hvernig mínir nánustu fundu til
og þeir dauðu sem svo lítils eru metnir.

Tólf og hálf. Hvað tíminn líður.
Tólf og hálf. Hvað árin líða.

(more…)

Krít og Gorgónan sem var systir Alexanders mikla

Mánudagur, 2. ágúst 2010

Í ævintýri eftir Andreas Karkavítsas (Ανδρέας Καρκαβίτσας, 1865–1922) segir frá Gorgónunni, systur Alexanders mikla. Hún lifir í hafinu, er útlits sem hafmeyja, birtist sjómönnum og spyr þá:

Sjóari góður segðu mér frá, er Alexander konungur einhvers staðar lífs?

Söguhetjan í ævintýrinu er ungur sjóari. Hann áttar sig ekki strax og umlar einhver óljós orð um að tími Alexanders sé löngu liðinn en segir þó ekki berum orðum að hann sé dauður. 

Við svar hans tekur hin sporðfætta mær hamskiptum og verður að illilegum kíklópa. Sjórinn ókyrrist af bægslagangi hans og bræði. Þá áttar piltur sig og man eftir sögum af Gorgónunni sem spyr um bróður sinn. Hann bjargar sér og skipinu á síðustu stundu með því að svara:

Lifir og ríkir sem lávarður heims.

Við þetta svar fékk Gorgónan aftur sína fögru ásýnd og öldurnar stilltust. Á gullfallegu máli Andreasar er svar piltsins á þessa leið með rími í áhersluatkvæðum: Ζει και βασιλεύει και τον κόσμο κυριεύει (frb. Zi ke vasilevi ke ton kosmo kirievi).

Í skáldsögunni um Mikael kaftein (Καπετάν Μιχάλης – ensk þýðing kallast Freedom and Death) sem út kom árið 1950 vísar Nikos Kazantzakis (Νίκος Καζαντζάκης, 1883–1957) í þessa sögu af Gorgónunni. Hetjan Mikael, sem berst gegn yfirráðum Tyrkja  á Krít á seinni hluta 19. segir um land sitt að það sé ekki eyja heldur lifandi vera, Gorgónan systir Alexanders mikla, vættur sem engist í sjónum. Á öðrum stað í sögunni gerir Mikael athugasemd við hlátur nágranna síns og segist munu hlæja þegar Krít verður frjáls því þá slái hjart sitt frjálst.

Þessi tvenn ummæli söguhetjunnar eru hluti af prósa en þau eru samt sungin við lag eftir tónskáldið Manos Hgatziðakis (Μάνος Χατζιδάκις,  1925 – 1994) sem varð vinsælt í flutningi Nönu Múskúri (Nάνα Μούσκουρη, f. 1934).

Hér flytur Nana lag Hgatziðakis. Á undan söngnum rifjar hún upp söguna af Gorgónunni og hefur hana svolítið öðru vísi en í ævintýri Andreasar Karkavítsas. Upptakan var gerð af BBC árið 1973.

Krítverskar rímur

Sunnudagur, 1. ágúst 2010

Krít og Ísland eru um sumt andstæður. Önnur eyjan er norðvestast hin suðaustast í Evrópu. Önnur er „álfu vorrar yngsta land“ en hin á sér lengri sögu en flestar mannabyggðir. Íbúar þessara landa eiga það þó sammerkt að kveða rímur.

Rímnakveðskapur Krítverja kallast mantinaðes (μαντινάδες) og er vinsæll meðal alþýðu rétt eins og ferskeytlur á Íslandi.

Í krítverskum rímum er hvert erindi tvö 15 atkvæða vísuorð. Menn kasta fram lausavísum en kveða líka eða kyrja langar sögur undir þessum hætti.

Hefti með vinsælum vísum fást víða í söluturnum á Krít og algengt verð á slíkum prentgripum er þrjár evrur. Mættu íslenskar vegasjoppur taka þetta til fyrirmyndar.

Hér er dæmi um krítverska lausavísu:

Λαός που την παράδοση ξεχνά και δεν θυμάται
στο λήθαργο του μαρασμού παντοτινά κοιμάται

Þetta er borið fram nokkurn veginn svona:

Laos pú tin paraðosi kseghna ke ðen þímate
sto liþargo tú marasmú pantotína kímate

Kommurnar í grísku ritmáli eru áherslumerki en áhersla er ævinlega á einu af þrem síðustu atkvæðum í orði. Í umrituninni eru sérhljóðar sem bera áherslu feitletraðir.

Þýðing orðanna er hér innan sviga: Λαός (þjóð) που (sem) την παράδοση (hefðinni) ξεχνά (gleymir) και (og) δεν (ekki) θυμάται (man) στο (í) λήθαργο (doða) του μαρασμού (hnignunarinnar) παντοτινά (alla tíð) κοιμάται (sefur).