Færslur maímánaðar 2010

Ljóð eftir Zoi Karelli

Föstudagur, 14. maí 2010

Zoi Karelli (Ζωή Καρέλλη) fæddist í Þessalóníku árið 1901 og lést í þeirri sömu borg árið 1998.

Zoi var frumkvöðull í baráttu fyrir réttindum kvenna í Grikklandi. Hún sendi frá sér 10 ljóðabækur sem út komu á árunum 1940 til 1958. Eftir 1960 samdi hún m.a. leikrit og skrifaði greinar um evrópskar nútímabókmenntir.

Nafnið, Zoi Karelli, er höfundarnafn. Hún hét Hgrysúla Pentziki (Χρυσούλα Πεντζίκη) þar til hún giftist og fékk þá, að grískum sið, eftirnafn sem er eignarfallsmynd af ættarnafni maka síns og hét Hgrysúla  Argyriaðú (Χρυσούλα Αργυριάδου).

Hér fer á eftir tilraun til að þýða eitt af ljóðum hennar:

Verkamaður á vinnustofu tímans

Þegar glerblásarinn gaf því mynd
fann hann svo vel
hvað hann elskaði efnið
sem hann blés í
með andardrætti sínum.
Stundum kristall, stundum líkt perlu,
perluskel, dýrindis fílabeini
eða ópal með litbrigðum misturs
og yfir í heiðblátt.
Allt þetta efni varð mynd,
mynd ástar á sérhverju því
sem er til innan tímans.

Myndin, umbúðir tímans,
umlykur hann eins og elskendur gera
hún er tímanum gefin,
vænting og viðtaka í senn,
og tíminn faðmar þá lögun,
hann laðaði fram þessa einstæðu mynd
úr eigin ímyndunum
og úr inntaki sjálfs sín.

En seinna þegar hönd hans, hönd úr efni,
snart mynd sem var fullmótuð orðin,
skildi hann að tíminn er af efnislegum toga;
Þegar hönd hans og myndin
og ástleitið dýrindis efnið urðu í senn
að gagnsæjum hugmyndum tímans.
Allt í senn.
Einkum þó hann sjálfur.

(more…)