Færslur aprílmánaðar 2010

Konungur Asínu eftir Seferis

Þriðjudagur, 20. apríl 2010

Konungur Asínu

Morgunninn leið og við leituðum hvarvetna um virkið
byrjuðum þar sem var skuggsælt og hafaldan
græn og laus við blik – bringa af slátruðum páfugli –
tók við okkur líkt og sú tíð þar sem hvergi er smuga.
Hátt að ofan komu æðar bjargsins
marggreindar vínviðarflækjur, naktar og snúnar
      og lifnandi við
fyrir snertingu vatnsins en augað sem fylgdi þeim
reyndi að losna frá þreytandi ruggi
og rambi með þverrandi kröftum.

Sólarmegin var ströndin víð og opin
og ljósið myljandi demanta á sterkbyggða veggi.
Hvergi nein lifandi skepna, villidúfurnar farnar
og konungur Asínu, sem við höfum nú leitað í tvö ár,
ókunnur öllum og gleymdur, Hómeri líka,
einu einasta vafasömu orði úr Ilionaskviðu
kastað hér niður sem dánargrímunni gullnu.
Þú snertir við henni, manstu ekki hljóminn? Tómahljóð
     í ljósinu
eins og í þurru keri í uppgreftri úr mold
sama hljóð og árar okkar mynda niðrí sjónum.
Konungur Asínu, holrúm undir grímunni,
hvarvetna meðal vor, hvarvetna  meðal vor og það undir
     nafni:
„… og Asínu, … og Asínu“
                                    og líkneskjur börn hans
löngun hans, vængjasláttur fugla og vindur
sem gnauðar um eyður í því sem hann hugsar og skip hans
bundin við festar í horfinni höfn
holrúm undir grímunni.

Bak við stór augu, sveigðar varir, liðað hár
höggvið sem lágmynd í gullið lok tilverunnar
dökkleitt merki sem ferðast um eins og fiskur
í kyrrum sænum að morgni og þú sérð það
holrúm sem hvarvetna er meðal vor.
Og fulginn sem flaug með brotinn væng
hinn fyrra vetur
jarðneskar leifar af lífi
og konan sú unga sem hélt burt til að leika
við hundstennur sumarsins
sálin sem leitaði organdi í undirheima
og landið eins og stórt laufblað af platanusviði hrifið
     brott af iðum sólarinnar
með minnisvörðum fornaldar og harmi samtímans.

Og skáldinu dvelst og það horfir á grjótið og spyr sig
hvort eigi sér tilvist
innan um þessar ónýtu línur, brúnir, rendur og sveigi
hvort eigi sér tilvist
hér þar sem mætast farvegir eyðingar, vinda og regns
hvort til séu hræringar andlits, útlínur ástar og blíðu
sem rýrnuðu með svo undarlegum hætti í lífi okkar
urðu eftir eins og skuggar af öldum og þankar sem ómæli
     hafsins
eða var ef til vill ekkert eftir annað en þungi
eða löngun í þunga þess lífs sem á tilvist í raun
þar sem við erum núna án þess að vera og svignum
líkt greinum þess hörmungavíðis sem grær meðan vonleysið
     varir
og gulur straumurinn dregur seinlega niður sefgresi rifið úr
     eðju með rótum
myndir af ásjón sem steingerð er orðin af dómum um beiskju
     til eilífðarnóns
og skáldð er holrúm.

Röðull með skjöld sinn klífur stríðandi hærra
og skelfingu lostin leðurblaka úr hellisins djúpi
skellur á ljósið sem örvar á hlífum
„… og Asínu, … og Asínu“ ef þetta skyldi vera konungur
     Asínu
sem við höfum leitað svo vandlega hér innan borgarinnar
að stundum hafa fingur okkar þreifað á snertingu hans við
     steinana.

(more…)

Afneitun eftir Seferis

Mánudagur, 19. apríl 2010

Í síðustu færslu minntist ég á ljóðið Afneitun (Αρνηση) eftir Seferis. Hér fer á eftir fremur ónákvæm þýðing á því.

Afneitun

Við flæðarmál á feluströndu 
fagurhvítri eins og dúfu        
þorstinn mjög á miðjum degi
mæddi en vatnið salti blandað.

Þar á ljósan ljóma sandsins
letrað höfðum nafnið hennar,
en frá sænum golan gladdi
og gustur eyddi skrifum þessum.

Ó hve hjartað ákaft bærðist,
öndin þreyði full af löngun,
er líf vort tókum tökum – röngum!
Og tilverunni út því skiptum.

(more…)

Ljóð eftir Giorgos Seferis

Laugardagur, 17. apríl 2010

Giorgos Seferis (Γιώργος Σεφέρης) fæddist árið 1900 skammt frá Smyrnu í Anatólíu. Hann nam lögfræði við Sorbonne háskóla í Frakklandi og starfaði síðan lengst af í grísku utanríkisþjónustunni m.a. sem sendiherra í Tyrklandi, Englandi og Albaníu.

Seferis hætti að þjóna gríska ríkinu eftir að herforingjar tóku völd árið 1967. Þegar hann  lést árið  1971 voru herforingjar enn við völd. Við jarðarförina safnaðist mikill fjöldi manna saman í Aþenu og söng ljóð hans Afneitun (Άρνηση) við lag Mikis Þeodorakis og varð þessi söngur, sem hafði þá um nær tíu ára skeið verið vinsæll og vel þekktur, að sameiningartákni þeirra sem börðust  gegn herforingjastjórninni. (Þessi illa þokkaða stjórn sem hrökklaðist frá völdum 1974 stjórnaði Grikklandi að hætti fasista.)

Seferis fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1963.

Ljóðið sem hér er reynt að þýða heitir Frásögn. Flutningur á hluta þess er hér.

Frásögn

Þessi maður gengur um grátandi
og enginn veit af hverju
stundum halda þeir að það séu horfnar ástir
eins og þær sem kvelja okkur hvað mest
á sumrin með hljómflutningstæki á ströndinni.

Aðrir menn hafa verk að vinna
endalausa pappíra, börn sem vaxa
og konur sem eldast illa
hann hefur tvö augu eins og draumsóleyjar
eins og afskornar draumsóleyjar á vorin
og tvær uppsprettulindir í augnkrókunum.

Gengur um göturnar, leggst aldrei til hvíldar,
en arkar um hornréta fleti á hryggjum jarðarinnar
vél endalausrar þjáningar
sem hefur á endanum enga þýðingu.

Einhverjir heyrðu einræður hans
við sjálfan sig þegar hann gekk hjá
um spegla sem brotnuðu fyrir mörgum árum
og ásýndir sem inni í þessum speglum voru brotnar
og enginn getur nokkru sinni raðað aftur saman.
Aðrir heyrðu að hann ræddi um svefninn
og myndir af hryllingi á þröskuldi svefnsins
andlit, óbærileg vegna viðkvæmni sinnar.

Við höfum vanist honum,
viðkunnanlegur og spakur sem hann er
þótt hann gangi sífellt um grátandi
eins og víðirinn á árbakkanum
sem þú sérð út um lestargluggann
á drungalegum morgni
þegar þú vaknar upp af vondum svefni.

Við höfum vanist honum og hann er ekki fulltrúi neins
fremur en aðrir hlutir sem hafa orðið venjulegir
og ég tala um hann við þig því mér hugkvæmist
ekkert annað en það sem þú hefur vanist
og ég kann mig.

(more…)