Færslur janúarmánaðar 2010

Bækur síðasta árs

Laugardagur, 16. janúar 2010

Ég eignaðist nokkrar nýjar íslenskar bækur um jólin og nokkrar náði ég í á bókasafni eftir jól. Sumar þeirra þykja mér ansi góðar eins og til dæmis söguleg skáldsaga Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu. Þarna lifnar við heimur norrænna manna á Suðureyjum, Mön og Írlandi. Vilborg virðist hafa aflað sér mikillar þekkingar á lífi Kelta og innrásarmanna frá Norðurlöndum á 9. öld.

Ég bjóst svo sem við að Auður væri flott skáldsaga þegar ég tók hana með mér heim af bókasafninu og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Hins vegar vissi ég ekki við hverju ég átti að búast af Hlín Agnarsdóttur. Ég hafði aldrei lesið neitt eftir hana en vissi að hún var annar tveggja höfunda leikritsins Láttu ekki deigan síga, Guðmundur sem er með því fyndnasta sem ég hef séð á sviði svo ég tók skáldsögu hennar Blómin frá Maó með mér af safninu í byrjun þessarar viku. Sú bók er virkilega góð skemmtun.

Blómin frá Maó er sumu leyti svipað uppgjör við róttækni frá 8. áratugnum eins og leikritið um Guðmund. Fyrir þá sem muna eftir EIK-ML og KSML er margt í bók Hlínar óborganlega fyndið – enda er í sjálfu sér hlægilegt að hugsa til þess hvernig fáeinir úlpuklæddir fylgismenn Mao Zedong og Enver Hoxha voru þess fullvissir að þeir væru í þann mund að ná landinu undir sig og gera hér byltingu. Þrátt fyrir háðið missir Hlín sig ekki í tómhyggju, kaldhæðni eða innantóm sniðugheit. Milli línanna er samúð með fólki sem er leitandi og kannski um leið dálítið ráðvillt. Fyrir þá sem ekki muna þessa tíma hugsa ég að bók Hlínar sé ekki síður fróðleg en fyndin.

Önnur bók sem kom mér skemmtilega á óvart er ljóðabókin Hundgá úr annarri sveit eftir Eyþór Árnason. Um góð ljóð er stundum lítið hægt að segja svo ég held ég hafi engar málalengingar um þessa ljóðabók en mæli bara með henni við alla sem á annað borð hafa vit á að lesa ljóð. Aðrar nýjar ljóðbækur sem ég leit í komu mér svo sem ekki beint á óvart. Ég vissi nokkurn vegin hvað væri að finna í safni Ingibjargar Haraldsdóttur. Hún er eitt af bestu ljóðskáldum samtímans hér á landi. Þýðingarnar aftast í Ljóðasafni hennar, sem kom út á síðasta ári, hafði ég ekki áður lesið nema fáeinar og ég held að þær séu mjög merkilegar og ætla að lesa þær aftur við tækifæri.

Ég hef lítið lesið af kveðskap Matthíasar Johannessen en þar sem mér var gefin nýja bókin hans, Vegur minn til þín, las ég hana og þótti talsvert varið í hana. Sum ljóðin raunar mjög heillandi.

Hér hef ég nefnt nokkrar skruddur sem mér þótti varið í. Um aðrar vildi ég skrifa lengra mál eins og þær tvær sem ég hafði mesta ánægju af að lesa. Önnur þeirra er bók Bjarna, Svo skal dansa, sem segir sögu ömmu okkar, langömmu og langalangömmu. Hin er gersemin Grikkland ár og síð sem kom fyrst út 1991 en var nú endurútgefin.

*

Sumt annað sem ég las var ekki eins gott. Einhverju af því henti ég frá mér hálflesnu. En ég þrælaðist í gegnum alla Ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson þótt mér þætti hún heldur léleg. Hún er lítið annað en endursögn á Sturlungu og hefur sama galla og Sturlunga, sem er að lesandi sér ekki skóginn fyrir trjánum – smáatriðum ægir saman svo aðalatriðin í valdabaráttu höfðingjanna verða ekki ljós. Það ætti þó að vera hægt að sjá atburði 13. aldar úr meiri fjarlægð nú en þegar Sturla Þórðarson skrifaði um þá. Ég hugsa að lesandi sem ekki þekkir Sturlungu eigi erfitt með að halda þræði í frásögn Óskars. Sá sem þekkir Sturlungu finnur fátt nýtt í henni.

Stílinn á bókinni er í þokkalegu lagi en ekkert meira en það og Óskari tekst ekki að draga upp mynd af Snorra þannig að lesandi kynnist honum sem persónu. Hann er jafn andlitslaus og óræður og í Sturlungu.

IceSave

Fimmtudagur, 14. janúar 2010

Þeir sem vörðu samninginn sem Svavar og Indriði komu með heim í sumar sögðu flestir að ríkið yrði að borga IceSave því annars yrði lokað á lán frá AGS og jafnvel öll viðskipti Íslendinga við aðrar þjóðir. Boðskapurinn var að þetta væri ömurlegur samningur en íslenska ríkið væri kúgað til að skrifa undir hann. Mér fannst þessi málflutningur svo sem skiljanlegur, enda ekkert mjög óvenjulegt að litlar þjóðir séu beittar ofríki. Nú ber minna á fullyrðingum í þessa veru þó nýjustu fréttir af AGS kunni að breyta því.

Í haust bar meira og meira á tali um að ríkisstjórnin yrði að fallast á kröfur Breta og Hollendinga, því annars gæti „endurreisn efnahagslífsins“ ekki byrjað. Ég skildi þetta svo að undirritun væri forsenda þess að fá nauðsynleg lán (eða framlengingu á lánum) og þótti þau rök svo sem skiljanleg þótt ég saknaði þess að gerð væri grein fyrir því hverjir mundu lána hingað peninga eftir undirritun en ekki fyrr. (Getur kannski verið að það verði jafnerfitt að fá erlend lán eftir sem áður þótt Bretar og Hollendingar fái sitt fram?)

Nú segja margir sem verja samninginn og vilja staðfesta hann að okkur verði ekki treyst nema hann sé undirritaður. Ég hef ekki séð neinar útlistanir á því hverjir muni þá fá aukið traust á okkur. (Sjálfur treysti ég betur þeim sem eru tregir til að skuldbinda sig og neita að gefa loforð, sem er óvíst að þeir geti staðið við, heldur en hinum sem lofa alltaf öllu fögru.)

Ég býst við að flestir hafi heyrt þessar þrenns konar fullyrðingar um hættu á einangrun landsins, erfiðleika við að „endurreisa efnahaginn“ og vantraust ef IceSave samkomulaginu er hafnað. Ég get auðvitað ekki útilokað að þær eigi við gild rök að styðjast. En þær glefsur af rökum sem ég hef séð eru bara hálfkveðnar vísur og því ekkert mjög trúverðugar. Þetta er miður, því spurningin um hvort eigi að segja já eða nei í þjóðaratkvæðagreiðslu snýst að mínu viti fyrst og fremst um hvort einhver svona rök fá staðist, eða með öðrum orðum um hvort við verðum að láta undan vegna þess að ríkisstjórnir Bretlands og Hollands hafi ráð okkar í hendi sér.

Ég hef ekki séð nein góð rök fyrir því að málið snúist um siðferðilega skyldu. Sumir láta að vísu í veðri vaka að hún sé fyrir hendi. Hafi þeir skýrt mál sitt þá hefur það farið fram hjá mér eins og svo margt annað í fjölmiðlum. (Ef Siggi tapar peningum vegna þess að Sigga verður gjaldþrota á hann að öllu jöfnu enga siðferðilega heimtingu á að Jón og Gunna bæti honum tjónið.)

Þjóðaratkvæðagreiðslan getur heldur ekki snúist um lagalega skyldu. Ef málið snerist um lög þá væri því vísað til dómastóla. Hver lagaleg skylda íslenska ríkisins er í þessu máli veit ég svo sem ekki enda virðast lögfræðingar, sem best ættu að vita það, ekki sammála þótt þeir séu, að mér virðist, heldur fleiri sem telja að engin lög skyldi íslenska ríkið til að borga þessi ósköp.

Sé þetta svona eins og mér sýnist er spurningin sem kjósendur standa frammi fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu: Verðum við að láta undan þrýstingi vegna þess að ella töpum við enn meiru en því sem ríkisjóður þarf að greiða ef samkomulagið er undirritað? Þetta er sem sagt ekki spurning um skyldur íslenska ríkisins heldur um hvort tekist hafi að snúa það niður með bolabrögðum.

Enn eitt ljóð úr Αξιον Εστί

Þriðjudagur, 5. janúar 2010

Enn eitt ljóð úr Verðugt er (Αξιον Εστί, frb. axjon estí) eftir Oðysseas Elytis (Οδυσσεας Ελύτης, 1911—1996).

Réttlætissól er í andanum ljómar
   og brúðarlauf þú sem lofsungið ert
ég bið að þið gleymið ei
   gleymið ei landinu mínu!

Með fjöllin sín háu í arnarlíki
   eldborgir vínviði grónar
og húsin svo hvít
   við himinsins bláma!

Snertir það Asíu á eina hlið
   við Evrópu nemur á hina
horfir þó einstakt við hafsæ
   og heiðríkju loftsins!

Hvorki rök aðkomumanna
   né kærleikur eigin niðja
aðeins harmur, vei, á alla vegu
   og vægðarlaust ljósið!

Mínar bitru hendur bera Þrumufleyginn
   á bak við Tíðina ég vendi þeim 
og ákalla svo aldagamla vini
   með ægilegum hótunum og blóði!

En horfið er allt blóð það hefur þornað
   hótanirnar grafnar, vei, í steina
og hver á móti öðrum úti setjast
   allir vindar loftsins!

Réttlætissól er í andanum ljómar
   og brúðarlauf þú sem lofsungið ert
ég bið að þið gleymið ei
   gleymið ei landinu mínu!

Brúðarlauf eða myrta (myrtus communis) er algeng jurt á Grikklandi og víðar við Miðjarðarhaf. Hún tengist bæði ódauðleika og dýrkun Afródídu ástargyðju.

Gríska orðið καιρός (keros) sem kemur fyrir í fimmta erindi hefur sömu tvíræðu merkingu og íslenska orðið tíð, getur merkt bæði tíma og veður.

Ljóðin í Verðugt er (Αξιον Εστί) hafa ekki öll sérstök nöfn en þau eru tölusett og þetta er sjötti óðurinn í miðhlutanum sem kallast Þjáningarnar eða Passían (Τα Πάθη). Fyrsti hlutinn heitir Sköpunin  (Η Γένεσις) og sá síðasti Lofsöngurinn eða Glorían (Τo Δοξαστικόν). Hin tvö ljóðin úr Αξιον Εστί sem hér hafa birst (11. des. 2009 og 14. des. 2009) eru einnig úr miðhlutanum.

Þessi ljóðabálkur er annars einhvers konar sálmur um Grikkland og stundum óljóst hvort ljóðmælandinn er skáldið eða land þess.

(more…)

Furðuleg ummæli höfð eftir Gunnari Helga Kristinssyni

Föstudagur, 1. janúar 2010

Ég var eiginlega enn að hlæja að áramótaskaupinu frá í gærkvöld þegar ég heyrði kvöldfréttirnar í Ríkisútvarpinu klukkan 18. Þar var rætt um áramótaávarp forsetans og sagt:

Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor, segir ómögulegt að ráða af ræðu forseta Íslands, hvort hann hyggist staðfesta lögin um Icesave eða ekki. […] Gunnar telur líklegra að forsetinn skrifi undir þó ekki sé hægt að vera viss. Skrifi hann ekki undir standi hann uppi vinalaus í hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Stór hluti þeirra sem vilja að forsetinn neiti að staðfesta lögin eru litlir vinir hans en þeir sem treysta á að hann skrifi undir eru frekar pólitískir félagar.

Ég vissi fyrst ekki hvort ég ætti að halda áfram að hlæja – en þegar ég áttaði mig á alvöru málsins skildi ég að þetta var allt annað en fyndið. Í orðum Gunnars Helga fólst ansi alvarleg ásökun. Hann gaf í skyn að forsetinn væri í raun og veru jafn gerspilltur og grínast var með í áramótaskaupinu.

Er ekki illa komið ef talið er sjálfsagt og eðlilegt að ákvörðun forseta ráðist af því hvað honum þykir helst til vinsælda fallið? Hlýtur þjóðhöfðingi ekki að taka mið af landslögum, réttlæti og almannahag, og ef til vill líka virðingu embættisins og hefðum í stjórnsýslu, fremur en því hvar vinir hans eru staddir í einhverju pólitísku landslagi?

Hallgrímur orti um svona þankagang í sínum 27. Passíusálmi þar sem stendur:

Vei þeim dómara, er veit og sér,
víst hvað um málið réttast er,
vinnur það þó fyrir vinskap manns
að víkja af götu sannleikans.

Ég veit ekki frekar en aðrir hvað Ólafur Ragnar gerir en hvað sem það verður vona ég að annars konar ástæður stýri gerðum hans en þær sem Gunnar Helgi tilgreindi.

Ég óska lesendum gleðilegs árs og vona að þeir þurfi ekki að eyða ævinni í að borga skuldir óreiðumanna.