Finnski hesturinn

Þjóðleikhúsið sýnir nú leikrit eftir Sirkku Peltola sem heitir Finnski hesturinn. Sviðið er heimili í sveit þar sem búskapurinn er skelfilegt basl. Hjónin, sem eru skilin, hafa ekki efni á að flytja sundur. Bóndinn á kærustu sem vinnur í banka og er næstum því fín kaupstaðardama. Þegar hún kemur í heimsókn mætir hún fyrrum eiginkonu hans og tengdamóður sem er gömul heldur orðljót kerling. Á bænum eru líka uppkominn sonur og dóttir á grunnskólaaldri.

Í fyrstu senunni segir bóndasonurinn, sem á sér þann draum að eignast stórt mótorhjól, föður sínum frá leið út úr baslinu: Mafían er til í að kaupa hross til slátrunar. Þeir ákveða að fórna Grána gamla og nokkrum bikkjum af næstu bæjum. Peningarnir skila sér og pilturinn kaupir Harley Davidson en vörubíllinn með hrossunum ekur út af, gripirnir komast aldrei til skila og mafían vill fá peningana aftur. Þetta er upphafið að atburðarás sem endar með því að kerlingin gamla drepst án þess að eiga fyrir útför sinni, húsið hrynur og býlinu er synjað um styrkina sem fjölskyldan lifir á vegna þess að tilskildum skýrslum hefur ekki verið skilað. Þegar tjaldið fellur er tilvera fólksins ein rjúkandi rúst.

Það er hægt að horfa á þetta sem skrípaleik. Kerlingin gamla, sem er leikinn af Ólafíu Hrönn, sér um það, alveg fram í andlátið, að láta áhorfendur hlæja þótt gamanið sé heldur grátt. En það er líka hægt að horfa á leikritið sem harmleik – og sem innlegg í umræðu um Evrópusamband og Alþjóðavæðingu. Þegar það var frumsýnt í Helsinki árið 2004 höfðu Finnar verið tæpan áratug í Evrópusambandinu og aðildin haft talsvert mikil áhrif á landbúnað þeirra.

Feðgarnir í Finnska hestinum sjá tækifæri í viðskiptum við ítölsku mafíuna og sem leikritinu vindur fram verður ljóst að hokur þeirra er hætt að snúast um að nýta landgæði og þekkingu sína á þeim. Allt gengur út á að laga sig að kenjum framandi afla, einkum regluverki Evrópusambandsins. Við þessar aðstæður verður allt sem fólkið raunverulega kann og skilur einskis virði. Fólkið á bænum breytist í viðundur, ekki vegna þess að það skorti vit, heldur vegna þess að raunverulegir vitsmunir eru næsta haldlausir í sveit sem er fjarstýrt utan úr buskanum.

Textinn er öðrum þræði gagnrýni á Evrópusambandið en öðrum þræði líka athyglisverð pæling um hvernig fólk getur orðið rótlaust í eigin heimahögum þegar lífsbaráttan fer að lúta framandlegum leikreglum og raunveruleg búhyggindi hætta að gefa nokkuð í aðra hönd.

Þetta er merkilegt leikrit. Þeir sem vilja hlæja í leikhúsi geta hlegið að því. Það er líka hægt að gráta yfir harmleik fjölskyldu sem tapar öllu sínu. Þeir sem vilja pælingar um stjórnmál, alþjóðavæðingu og Evrópusamband fá líka sinn skammt. Ég væri sjálfur alveg til í að horfa á það í annað sinn.Lokað er fyrir ummæli.