Krít og Gorgónan sem var systir Alexanders mikla

Í ævintýri eftir Andreas Karkavítsas (Ανδρέας Καρκαβίτσας, 1865–1922) segir frá Gorgónunni, systur Alexanders mikla. Hún lifir í hafinu, er útlits sem hafmeyja, birtist sjómönnum og spyr þá:

Sjóari góður segðu mér frá, er Alexander konungur einhvers staðar lífs?

Söguhetjan í ævintýrinu er ungur sjóari. Hann áttar sig ekki strax og umlar einhver óljós orð um að tími Alexanders sé löngu liðinn en segir þó ekki berum orðum að hann sé dauður. 

Við svar hans tekur hin sporðfætta mær hamskiptum og verður að illilegum kíklópa. Sjórinn ókyrrist af bægslagangi hans og bræði. Þá áttar piltur sig og man eftir sögum af Gorgónunni sem spyr um bróður sinn. Hann bjargar sér og skipinu á síðustu stundu með því að svara:

Lifir og ríkir sem lávarður heims.

Við þetta svar fékk Gorgónan aftur sína fögru ásýnd og öldurnar stilltust. Á gullfallegu máli Andreasar er svar piltsins á þessa leið með rími í áhersluatkvæðum: Ζει και βασιλεύει και τον κόσμο κυριεύει (frb. Zi ke vasilevi ke ton kosmo kirievi).

Í skáldsögunni um Mikael kaftein (Καπετάν Μιχάλης – ensk þýðing kallast Freedom and Death) sem út kom árið 1950 vísar Nikos Kazantzakis (Νίκος Καζαντζάκης, 1883–1957) í þessa sögu af Gorgónunni. Hetjan Mikael, sem berst gegn yfirráðum Tyrkja  á Krít á seinni hluta 19. segir um land sitt að það sé ekki eyja heldur lifandi vera, Gorgónan systir Alexanders mikla, vættur sem engist í sjónum. Á öðrum stað í sögunni gerir Mikael athugasemd við hlátur nágranna síns og segist munu hlæja þegar Krít verður frjáls því þá slái hjart sitt frjálst.

Þessi tvenn ummæli söguhetjunnar eru hluti af prósa en þau eru samt sungin við lag eftir tónskáldið Manos Hgatziðakis (Μάνος Χατζιδάκις,  1925 – 1994) sem varð vinsælt í flutningi Nönu Múskúri (Nάνα Μούσκουρη, f. 1934).

Hér flytur Nana lag Hgatziðakis. Á undan söngnum rifjar hún upp söguna af Gorgónunni og hefur hana svolítið öðru vísi en í ævintýri Andreasar Karkavítsas. Upptakan var gerð af BBC árið 1973.Lokað er fyrir ummæli.