Bækur síðasta árs

Ég eignaðist nokkrar nýjar íslenskar bækur um jólin og nokkrar náði ég í á bókasafni eftir jól. Sumar þeirra þykja mér ansi góðar eins og til dæmis söguleg skáldsaga Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu. Þarna lifnar við heimur norrænna manna á Suðureyjum, Mön og Írlandi. Vilborg virðist hafa aflað sér mikillar þekkingar á lífi Kelta og innrásarmanna frá Norðurlöndum á 9. öld.

Ég bjóst svo sem við að Auður væri flott skáldsaga þegar ég tók hana með mér heim af bókasafninu og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Hins vegar vissi ég ekki við hverju ég átti að búast af Hlín Agnarsdóttur. Ég hafði aldrei lesið neitt eftir hana en vissi að hún var annar tveggja höfunda leikritsins Láttu ekki deigan síga, Guðmundur sem er með því fyndnasta sem ég hef séð á sviði svo ég tók skáldsögu hennar Blómin frá Maó með mér af safninu í byrjun þessarar viku. Sú bók er virkilega góð skemmtun.

Blómin frá Maó er sumu leyti svipað uppgjör við róttækni frá 8. áratugnum eins og leikritið um Guðmund. Fyrir þá sem muna eftir EIK-ML og KSML er margt í bók Hlínar óborganlega fyndið – enda er í sjálfu sér hlægilegt að hugsa til þess hvernig fáeinir úlpuklæddir fylgismenn Mao Zedong og Enver Hoxha voru þess fullvissir að þeir væru í þann mund að ná landinu undir sig og gera hér byltingu. Þrátt fyrir háðið missir Hlín sig ekki í tómhyggju, kaldhæðni eða innantóm sniðugheit. Milli línanna er samúð með fólki sem er leitandi og kannski um leið dálítið ráðvillt. Fyrir þá sem ekki muna þessa tíma hugsa ég að bók Hlínar sé ekki síður fróðleg en fyndin.

Önnur bók sem kom mér skemmtilega á óvart er ljóðabókin Hundgá úr annarri sveit eftir Eyþór Árnason. Um góð ljóð er stundum lítið hægt að segja svo ég held ég hafi engar málalengingar um þessa ljóðabók en mæli bara með henni við alla sem á annað borð hafa vit á að lesa ljóð. Aðrar nýjar ljóðbækur sem ég leit í komu mér svo sem ekki beint á óvart. Ég vissi nokkurn vegin hvað væri að finna í safni Ingibjargar Haraldsdóttur. Hún er eitt af bestu ljóðskáldum samtímans hér á landi. Þýðingarnar aftast í Ljóðasafni hennar, sem kom út á síðasta ári, hafði ég ekki áður lesið nema fáeinar og ég held að þær séu mjög merkilegar og ætla að lesa þær aftur við tækifæri.

Ég hef lítið lesið af kveðskap Matthíasar Johannessen en þar sem mér var gefin nýja bókin hans, Vegur minn til þín, las ég hana og þótti talsvert varið í hana. Sum ljóðin raunar mjög heillandi.

Hér hef ég nefnt nokkrar skruddur sem mér þótti varið í. Um aðrar vildi ég skrifa lengra mál eins og þær tvær sem ég hafði mesta ánægju af að lesa. Önnur þeirra er bók Bjarna, Svo skal dansa, sem segir sögu ömmu okkar, langömmu og langalangömmu. Hin er gersemin Grikkland ár og síð sem kom fyrst út 1991 en var nú endurútgefin.

*

Sumt annað sem ég las var ekki eins gott. Einhverju af því henti ég frá mér hálflesnu. En ég þrælaðist í gegnum alla Ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson þótt mér þætti hún heldur léleg. Hún er lítið annað en endursögn á Sturlungu og hefur sama galla og Sturlunga, sem er að lesandi sér ekki skóginn fyrir trjánum – smáatriðum ægir saman svo aðalatriðin í valdabaráttu höfðingjanna verða ekki ljós. Það ætti þó að vera hægt að sjá atburði 13. aldar úr meiri fjarlægð nú en þegar Sturla Þórðarson skrifaði um þá. Ég hugsa að lesandi sem ekki þekkir Sturlungu eigi erfitt með að halda þræði í frásögn Óskars. Sá sem þekkir Sturlungu finnur fátt nýtt í henni.

Stílinn á bókinni er í þokkalegu lagi en ekkert meira en það og Óskari tekst ekki að draga upp mynd af Snorra þannig að lesandi kynnist honum sem persónu. Hann er jafn andlitslaus og óræður og í Sturlungu.Lokað er fyrir ummæli.