Færslur desembermánaðar 2009

Dýrir grunnskólar

Þriðjudagur, 15. desember 2009

Á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu í dag er athyglisverð fréttaskýring um skólamál eftir Steinþór Guðbjartsson.

Steinþór minnir þar á að íslenskir grunnskólar eru einhverjir þeir dýrustu í heimi. Hvert námsár kostar um 1.150 þúsund. Ef marka má Pisa-kannanir er námsárangur þó ekki nema rétt í meðallagi í samanburði við önnur lönd.

Þrátt fyrir þennan mikla kostnað eru laun grunnskólakennara fremur lág hér á landi. Samkvæmt frétt sem birtist á vef Hagstofu Íslands 8. september 2009 eru grunnlaun kennara sem hlutfall af landsframleiðslu næstlægst hér af öllum löndum í OECD. Mikill kostnaður við grunnskólahald hér er ekki vegna þess að kennarar og aðrir starfsmenn fái há laun heldur vegna þess hvað þeir eru margir.

Skólarnir eru, samkvæmt því sem Steinþór segir, með um 11,5 starfsmenn á hverja 100 nemendur. Árið 2000 voru hins vegar aðeins 8,7 starfsmenn á hverja 100 nemendur í grunnskólum landsins.

Fjölgun starfsmanna og aukinn kostnaður við skólahald undanfarinn áratug vekja grunsemdir um að skólastefnan sem fylgt er sé komin í ógöngur. Getur hugsast að hún einkennist af skriffinnskulegum þankagangi sem gerir nánast sjálfkrafa ráð fyrir að ef eitthvað virkar ekki þá þá þurfi að gera meira af því sama? Um þetta fjallaði ég, á þessu bloggi, fyrir tveim árum síðan og sagði þá meðal annars að augljósasti vandi skólakerfisins væri að það reyndi að gera of mikið en ekki of lítið.

Nú er ef til vill lag að vinda ofan af vitleysunni vegna þess að það eru einfaldlega ekki til peningar handa þeim sem vilja leysa öll vandamál með því að gera meira í staðinn fyrir að gera eitthvað annað.

Sjálfur held ég enn að hluti vandans hér á landi sé að skólarnir reyna að kenna nemendum fleira en raunhæft getur talist. En þetta er trúlega ekki öll skýringin. Sennilega er hluti hennar að í stefnunni sem grunnskólar fylgja skortir á að eðlilegt jafnvægi sé milli tvenns konar sjónarmiða: Hér hef ég annars vegar í huga áherslu á gildi námsgreinanna og að kennari stjórni vinnu nemenda á forsendum fagsins sem hann kennir; Hins vegar er ég að hugsa um áherslu á að nemandinn þroskist á þann hátt sem hann hefur upplag til og kennarinn leiðbeini honum í krafti skilnings á þörfum hans og hæfileikum. Fyrrgreindu áherslurnar má kenna við faggreinar og þær síðarnefndu má kalla þroskamiðaðar ef menn vilja setja einhverja merkimiða á þetta.

Þessar áherslur hafa báðar nokkuð til síns ágætis, en ég held að hvorug þeirra megi vera einráð í grunnskólum. Ég held líka að því eldri sem nemendur eru því meira vægi eigi faggreinasjónarmiðin að hafa. Ég hef grun um að við unglingadeildir grunnskóla hér á landi fari þau heldur halloka og það tengist ef til vill of lítilli áherslu á að þeir sem kenna á unglingastigi hafi góða menntun í námsgreinum eins og íslensku, náttúrufræði, sögu, tungumálum eða stærðfræði.

Ég er kannski kominn út á hálan ís að vera að setja fram tilgátu um efni sem er utan við mitt sérsvið. Ég árétta því að þetta er aðeins tilgáta og það þarf meiri þekkingu en ég hef til að sannreyna hana. En ef þessi tilgáta er rétt – ef einhvers konar þroskamiðuð einsýni ræður för í grunnskólum og það kemur niður á námsárangri – þá dugar ekki að keyra sömu stefnu áfram af meiri ákafa og með meiri tilkostnaði. Þá þarf að rétta kúrsinn – breyta um stefnu.

Úr Αξιον Εστί

Mánudagur, 14. desember 2009

Eftirfarandi ljóð er, eins og þýðingin sem ég birti hér 11. desember, hluti af ljóðabálknum Verðugt er (Αξιον Εστί) eftir Odysseas Elytis (Οδυσσεας Ελύτης, 1911—1996).

Klæddir sem „vinir“ komu þeir
andskotar mínir ótal sinnum
og tróðu fótum forna mold.
En moldin hæfði aldrei hælum þeirra.

Þeir komu með vitringinn,
landtökumanninn og rúmfræðinginn,
ritningar fullar af bréfum og tölum
og samleik auðsveipni og valds
sem ríkti yfir ljósinu forna.
En ljósið hæfði aldrei hlífum þeirra.

Ekki varð býflugan ginnt í sinn gullna leik
né heldur golan af vestri blekkt til að þenja voðirnar hvítu.

Efst á tindum, við opin sund og inni í dölum
reistu þeir voldug virki og smíðuðu mikil hús
eikjur bæði og önnur fley,
settu lögin sér í hag
sem brutu hvergi í bág við forna reglu.
En reglan hæfði aldrei hugsun þeirra.

Ekki var spor eftir guð markað í sál þeirra
né heldur gerði huldan þá mállausa með augnaráði sínu.*

Klæddir sem „vinir“ komust þeir hingað
andskotar mínir ótal sinnum
gefandi sínar fornu gjafir.
En gáfu ekkert nema eld og járn.
Í opnar lúkur sem lengi biðu,
ekkert nema eld og vopn og járn.
Ekkert nema eld og vopn og járn.

* Grísk þjóðtrú segir að ef maður horfist í augu við huldukonu steli hún rödd hans.

(more…)

Blóð elskunnar

Föstudagur, 11. desember 2009

Eftirfarandi ljóð er hluti af ljóðabálknum Verðugt er (Αξιον Εστί) eftir Odysseas Elytis (Οδυσσέας Ελύτης, 1911—1996). Þessi bálkur, sem út kom árið 1959, er þekktasta verk hans.

Síðasta vísuorðið er eins í öllum erindunum og þar ávarpar skáldið fjarstadda móður með orðunum Roðo mú Amaranto (Ρόδο μου Αμάραντο) sem þýða rós mín sem aldrei fölnar eða rós mín eilífðarblóm. Þessi orð tengjast Maríu guðsmóður þótt það sé ef til vill álitmál hvort skáldið ávarpar hana eða einhverja af landvættum Grikklands, enda kannski engin leið að segja á venjulegu máli um hvað Elytis yrkir.

Blóð elskunnar  prýddi mig purpura
ég hjúpaðist yndi sem aldrei var séð
í næðingi mannfólksins þraut ég og þvarr 
fjarlæga móðir, mín eilífa rós

Þeir biðu mín þar sem útsærinn opnast
á þrímastra skipum og skeytin mér sendu
synd mín að dirfðist ég sjálfur að elska
fjarlæga móðir, mín eilífa rós

Einn júlídag opnuðust með mér hið innra
augu hennar stóru en aðeins til hálfs
að bregða á meyjar líf birtu í örskamma stund
fjarlæga móðir, mín eilífa rós

Eftir það hefur snúist og geisað í gegn mér
aldanna bræði sem öskrar og hrín
„Hver sem þig litið fékk augum lifi í blóði og í steini“
fjarlæga móðir, mín eilífa rós

Landinu mínu ég líktist á ný
blómstraði í grjótinu, greri og óx
morðingja blóðskuld borga með ljósi
fjarlæga móðir, mín eilífa rós

(more…)

Í námsorlofi

Laugardagur, 5. desember 2009

Nú er ég búinn að skila af mér þeim verkefnum sem skila þarf í námskeiðunum sem ég tók við Háskóla Íslands þetta misserið og líka búinn að skrá mig í námskeið fyrir vormisseri. Mér finnst ég samt hafa nóg að gera og vel það enda er ég aðallega að vinna rannsókn í námsleyfinu.

Ég er langt kominn með að vinna úr viðtölum sem ég hef tekið við raungreina- og stærðfræðikennara. Eftir áramót ætla ég svo að ræða við kennara í íslensku og sögu.

Mér finnst ég hafa orðið margs vísari um hvernig skólar bregðast við fyrirmælum frá Menntamálaráðuneyti – enda er ég meðal annars að reyna að átta mig á hvort og þá hvernig miðstýring á menntakerfinu getur virkað og hvernig háttað er sambúð nýrrar opinberrar stefnu og gamallar skólahefðar.

Ég hef einkum skoðað svör kennara við spurningum sem tengjast framkvæmd Aðalnámskrárinnar frá 1999. Mér virðist að því eldri sem skóli er því sterkari sé hefðin og áhrif Aðalnámskrár minni. Mér sýnist líka að kennarar muni almennt beita sér fyrir því að ákvæði Aðalnámskrár, sem falla síst að hefðinni í skólunum, muni ganga til baka um leið og ný námskrá tekur gildi – að til langs tíma litið stjórnist skólar meira af hefð en valdboði og þetta gildi bæði um yngri skóla og eldri.

Nú kann einhver að álykta af þessu að skólar hljóti að vera ósveigjanlegar stofnanir. Ég held að sú ályktun sé ekki alveg rétt. Hefðir eru nefnilega sveigjanlegar og laga sig að breyttum tímum, oft fljótar og betur en nokkur miðstýring getur gert. Þetta er ein af skemmtilegri þverstæðunum í stjórnmálum nútímans – að íhaldssöm kerfi laga sig stundum betur að nýjum þörfum en þau sem framfaramenn reyna að breyta og endurskapa með stjórnvaldsákvörðunum.

Árið 1999 gaf Menntamálaráðuneytið út Aðalnámskrá framhaldsskóla sem enn er í gildi þótt hún sé nú að renna sitt skeið til enda, því unnið er að gerð nýrrar námskrár í samræmi við lög um framhaldsskóla sem afgreidd voru frá Alþingi vorið 2008. Með námskránni frá 1999 var reynt að miðstýra kennslu í framhaldsskólum meira en áður hafði tíðkast. Allt stefnir í að horfið verði frá þessari miðstýringu í nýrri námskrá sem senn verður gefin út. Það má því líta á áratuginn 1999 til 2009 sem tilraun til að skipaleggja kennslu í framhaldsskólum ofan frá. Þessi tilraun vekur áhugaverðar spurningar um eðli svona stjórnunar, bæði að hve miklu leyti hún er möguleg og hvort  áhrif hennar eru í samræmi við væntingar.