Færslur nóvembermánaðar 2009

Bréfið hennar js

Fimmtudagur, 26. nóvember 2009

Að borga hverja krónu með glöðu geði vil
í gjaldeyri með vöxtum – þó ljósið sé að deyja –
og þegar þú færð bréfið þá held ég hér um bil
að hallað mér ég geti og á náttkjól meira segja.

Ég svík þig ekki vinur og sendi þetta bréf  
til að sýna þér að ég er hvorki leiðinleg né snúin,
til að segja, til að segja, til að segja að ég hef
sætt mig við að tapa, ég er svo voðalega lúin.

Í guðsbænum þú mátt ekki gera nokkuð ljótt
og gættu þess að rýja okkur ekki inn að skinni
svo læðist ekki að mér þegar líða fer á nótt
leiðinlegar hugsanir með ugg og kvíða’í sinni.

Ég veit að þú ert góður og gætir vel að þér
og gengur ekki lengra á illa þrifnum skónum
Þá er engin hætta, þú mátt trúa mér
þæg og góð ég bugta mig fyrir gömlum ljónum.

Þó sumir voni að greiðslurnar reddist rétt um sinn
er rétt og skylt að játa að ég skrifa þetta ei hress
en þó að ég sé lúin þá veistu vilja minn
og veist ég ætla að borga
                                     þín elsku hjartans js.

Þjóðfundurinn

Fimmtudagur, 19. nóvember 2009

Í gær las ég listann yfir gildi sem birtur var með niðurstöðum „þjóðfundar“. Þar er heiðarleiki efstur á blaði og jafnrétti, virðing, réttlæti og ábyrgð líka ofarlega.

Það sem mér finnst mest áberandi á þessum lista er ekki það sem stendur á honum, heldur það sem vantar. Þar er hvorki hófsemi né hógværð.

Getur verið að þjóðfundur hafi talið upp gildin sem hafa í raun verið höfð mestum í hávegum hér landi fremur en þau sem við þyrftum að leggja meiri áherslu á hér eftir en hingað til?

Með þessari spurningu er ég alls ekki að gera lítið úr þeim gildum sem þjóðfundurinn kom sér saman um. Þau eru öll mikils virði. En ég held samt að það sem fór aflaga hér síðustu ár megi að verulegu leyti skrifa á reikning óhófs og hroka. Þessar andstæður hófseminnar og hógværðarinnar eru kannski okkar versta þjóðarskömm.  

Ef listi þjóðfundar endurspeglar ríkjandi gildismat þá bendir hann ef til vill til þess að landsmenn eigi enn eftir að læra sína lexíu.

Það er ekkert strik en þú verður samt grillaður ef þú ferð yfir það

Mánudagur, 9. nóvember 2009

Á síðustu áratugum hafa fjölmiðlar, a.m.k. sumir, týnt velsæmismörkunum. Þetta birtist með ýmsum mishallærislegum hætti, oftast sem betur fer fremur meinlausum. Sem dæmi má taka að útvarpsstöðvar sem telja sig virðulegar, a.m.k. í aðra röndina, spila rappara sem dæla úr sér klúryrðum; Blöð og sjónvarp daðra við klám eða hálfgert klám bæði í auglýsingum og skemmtiefni; Ókurteislegt orðbragð virðist fá inni nokkurn veginn hvar sem er; Fjölmiðlar eins og visir.is birta lítt eða ekki dulbúnar auglýsingar um vændi eða eitthvað í þá áttina. Eitt dæmi sem birtist í dag er: „NEW! LUXURY TANTRIC MASSAGE IN DOWN TOWN ANY TIME! 8698602“ Ég skil „any time“ svo að þarna sé opið 24 tíma á sólarhring og efast um að þeir sem bjóða sjúkranudd eða heilsurækt séu með opið svo lengi.

En tíðarandinn er margklofinn persónuleiki nú eins og endranær og á sama tíma og velsæmismörkin mást og dofna vex dómaharkan í garð þeirra sem verður eitthvað á. Það er eins og bæði sé búið að stroka strikið út og ákveða að grilla alla sem villast yfir það. Þessi sami visir.is birti í gær frétt undir fyrirsögninni „Tálbeitan tældi“. Í fréttinni segir meðal annars:

Gríðarleg eftirspurn er eftir vændi hér á landi. Um hundrað manns svöruðu einkamálaauglýsingu sem fréttastofa setti á einkamál.is á tæpum sólarhring og vildu kaupa vændi af nítján ára gamalli stúlku. Tveir menn mæltu sér mót við tálbeitu fréttastofu. Það á að loka þeim síðum sem hýsa auglýsingar um vændi, segir stjórnarkona í Stígamótum. […] Fréttastofa útbjó prófíl á einkamálum.is fyrir tæpum sólarhring. Notast var við nafnið draumadis19 með vísan í aldur stúlkunnar. Hún sagðist bjóða upp á erótískt heilnudd gegn gjaldi. […] Fréttastofa mælti sér mót við fimm menn í dag. Tveir karlmenn mættu á staðinn, einn á fimmtugsaldri og einn á áttræðisaldri. Fyrir það hafði verið prúttað um verð fyrir kynmök […].

Ekki kemur fram í fréttinni hvort talskona Stígamóta vill loka visir.is. Ekki er heldur ýjað að því að neitt sé athugavert við að hvetja til lögbrota, eða a.m.k. tilrauna til lögbrota, með því að nota tálbeitu. Fram undir þetta hefur verið talið að þeir sem hvetja til lögbrota séu litlu betri en þeir sem fremja þau, en okkar margklofni tíðarandi hefur kannski hafnað því. Kannski verður einhvern tíma farið að nota tálbeitur til að tæla fólk til að brjóta lög sem banna fíkniefnaneyslu. Hvað veit ég.

Er ég kannski svo utanveltu við tímann að vera einn um að þykja hallærislegt að sami miðill skuli bæði birta ofangreinda frétt og auglýsingu um „NEW! LUXURY TANTRIC MASSAGE IN DOWN TOWN ANY TIME“?