Færslur septembermánaðar 2009

Einkamál forsætisráðherra

Laugardagur, 19. september 2009

Hugsum okkur að staðan sé eitt-eitt og tvær mínútur eftir af knattspyrnuleik þegar framherji annars liðsins á dauðafæri. Boltinn er fyrir framan hann rétt utan við teig og auð línan að markinu. En hann ákveður að setjast í grasið og fá sér í nefið.

Mundu stuðningsmenn liðsins segja: „Hann kaus að láta boltann eiga sig. Það er hans persónulega ákvörðun og hana verða allir að virða.“ Varla, enda væru slíkir stuðningsmenn heillum horfnir.

Á síðu 2 í Lesbók Morgunblaðsins i dag er pistill eftir Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Hún segir þar um forsætisráðherra:

Jóhanna, og ráðgjafar hennar, eru nú í þeirri stöðu að geta valið við hvaða erlenda fjölmiðla hún vill tala við [svo]. Þar með valið hvar og með hvaða hætti málstað Íslands er komið á framfæri nú þegar ímynd þjóðarinnar á erlendri grundu er í molum. […]

En það er ekki stíll Jóhönnu. Hún hefur kosið á tjá sig lítið sem ekkert við erlenda og innlenda fjölmiðla. Hvort sem það er útpæld ákvörðun hennar eður ei, verða allir að virða hennar persónulegu ákvörðun.

Hvenær fór friðhelgi einkalífsins að ná svo langt að allir verði að virða ákvörðun forsætisráðherra um að klúðra tækifærum sem skipta máli fyrir þjóðarhag?

Það var svo sem löngu ljóst að það þyrfti að skipta um ritstjóra á Mogga en mér sýnist að það þurfi líka að skipta um sitthvað fleira bæði þar og annars staðar.

Leiguþý

Fimmtudagur, 10. september 2009

Eftirfarandi ljóð eftir Kavafis frá árinu 1910 heitir á frummálinu Η Σατραπεία (I Satrapia) en það orð er notað yfir umdæmi sem menn fengu að léni hjá Persakonungi og σατράπης (satrapis) er maður sem þiggur slíkt lén. Í grísku máli eru þessi orð stundum höfð um harðstjóra sem eru lægra settir en kóngurinn og um leiguþý illra valdhafa.

Borgin Súsa í Persíu (eða Íran) var norðan við botn Persaflóa skammt frá þar sem nú eru landamæri Íraks. Á valdatíma Cambysesar II (sem dó 522 f. Kr.) var borgin gerð að höfuðstað Persaveldis. Artaxerxes, sem nefndur er í ljóðinu, er trúlega Artaxerxes I sem ríkti yfir Persaveldi frá 465 til 424 f. Kr.

Sagan segir að aþenski stjórnmálamaðurinn og hershöfðinginn Þemistókles (Θεμιστοκλής, um 524 – 459  f. Kr.) hafi  leitað ásjár hjá Artaxerxes I eftir að hann var útlægur ger úr löndum Grikkja og kóngurinn hafi fagnað því að fá þennan höfuðfjandmann úr Persastríðunum í sína þjónustu. Óvíst er þó hvort Kavafis hafði Þemistókles sérstaklega í huga þegar hann orti ljóðið, enda hafa fleiri Grikkir á fornri tíð gengið á mála hjá Persum.

Leiguþý

Þvílíkt ólán, þú sem búinn varst
til vegsemdar og verka stórmannlegra,
þér hafa ranglát örlög alla tíð
bannað velgengi og viðurkenning;
þau leggja á þig lúalegan brag
lítilsigldar venjur, sinnuleysi.
Og uppgjöf þín, hve uggvænlegur dagur
(sá dagur þegar gefst þú upp og guggnar)
er farandmaður ferðu burt til Súsu
og gengur fyrir Artaxerxes einvald
sem veitir þér af vinsemd sinni að dvelja
í konungsgarði hirðmaður með hefðartitil.
Í örvæntingu viðtöku þú veitir
öllu því sem allra síst þú vilt.
Sál þín heimtar önnur gæði og yfir þeim hún grætur;
hún vill lýðsins lof og Fræðaranna,
torfenginn Hróður, öllu æðri og meiri,
Lárviðarsveiga, Leikhús, Aðaltorg.
Ekki getur Artaxerxes veitt þér neitt af þessu,
þetta eignast ekkert leiguþý;
en án þess, hvaða lífi er hægt að lifa.

(more…)

Fyrsta þrepið eftir Kavafis

Laugardagur, 5. september 2009

Eftirfarandi ljóð eftir Konstantinos P. Kavafis frá árinu 1899 er eitt af mörgum þar sem hann vísar í langa sögu Grikkja. Þeókrítos frá Sýrakúsu, sem nefndur er í annarri línu ljóðsins, var uppi á árunum 310 til 245 f. Kr. Hann bjó um tíma í Alexandríu og var þekktur fyrir skáldskap sinn um sveitasælu. Ungskáldið Evmenis er líklega tilbúningur Kavafis.

Fyrsta þrepið

Ungskáldið Evmenis kvartaði
eitt sinn við Þeókrítos og sagði:
„Í tvö ár hef ég verið við skriftir,
samið eitt hjarðljóð
og engu öðru verki lokið.
Vei mér, svo hátt, svo ofurhátt er að líta
upp stiga ljóðlistarinnar
af fyrsta þrepinu, þar sem ég stend
veslingur minn og kemst ekki ofar.“
Þeókrítos svaraði honum og sagði:
„Goðgá er svo að mæla og ekki við hæfi.
Jafnvel þótt þú standir á neðsta þrepi
skaltu samt vera stoltur og hrósa happi.
Þú ert hingað kominn og það er hreint ekki lítið;
dýrðlegt í meira lagi að ná þetta langt.
Fyrsta þrepið sem þú hefur klifið
er hátt yfir veraldarvegum.
Til að komast hér upp
þarf sjálfur, ef eigin rammleik,
að vinna sér þegnrétt í ríki andans.
Að komast í tölu fullgildra borgara
er fágætt og erfitt í þessu ríki.
Á aðaltorgi þess finnur þú löggjafa
sem aldrei láta gleiðgosa hafa sig að fífli.
Þú ert hingað kominn og það er hreint ekki lítið;
dýrðlegt í meira lagi að ná þetta langt.“

(more…)

Í sátt við óvissuna

Föstudagur, 4. september 2009

Ný bók eftir mig sem heitir Í sátt við óvissuna kom úr prentsmiðju í gær. Útgefandi er Heimspekistofnun Háskóla Íslands. Í inngangi bókarinnar segir:

Þessi bók fjallar um ýmsar hliðar heimspekilegrar efahyggju og fjölbreytileg áhrif hennar á hugsunarhátt og menningu Vesturlanda. Hún er málsvörn efahyggjumanns. Hún er líka öðrum þræði inngangur að heimspekilegri þekkingarfræði, enda hefur glíman við efahyggjuna löngum verið eitt helsta viðfangsefni þeirrar fræðigreinar.

Efahyggja hefur meðal annars stuðlað að umburðarlyndi og hún átti sinn þátt í sáttargjörð mótmælenda og kaþólikka eftir trúarbragðastríð 17. aldar. Glíman við róttæka efahyggju mótaði heimspeki nýaldar og varð bæði til þess að auka veg þekkingarfræði og breyta sýn heimspekinga á eigin viðfangsefni. Um allt þetta er fjallað í fyrri helmingi þessarar bókar, til og með 12. kafla.

Tilraunir til að hrekja rök efahyggjumanna sem frá segir í köflum 6 og 13 til 22 urðu kveikja að undarlegum heimspekikenningum eins og hughyggju og pragmatisma og áttu líka mikinn þátt í mótun kenninga um mál og merkingu sem settu svip á heimspeki 20. aldar.

Á síðustu öldum hafa framfarir í vísindum gefið hugsandi mönnum ný tilefni til efasemda um að þekking geti verið áreiðanleg. Frá þessu segir í stuttu máli í lokaköflum bókarinnar.

En þótt efahyggja hafi í vissum skilningi verið í sókn frá upphafi nýaldar er oft fullyrt að það sé ekki hægt að vera efahyggjumaður – efinn sé ógn sem menn verði einhvern veginn að sleppa frá. Þessu er ég ekki sammála. Ég held að hann sé vinur sem gott er að kjósa til fylgdar. Auðvitað geri ég mér fullvel ljóst að ekki er hægt að lifa án þess að gera ráð fyrir hinu og þessu og trúa því að minnsta kosti til bráðabirgða. Sú efahyggja sem mér þykir mest vit í snýst ekki um að neita sér algerlega um að hafa skoðanir heldur um að viðurkenna að þær séu vafa undirorpnar – að jafnvel það sem menn telja öruggast geti verið rangt.

Að baki hugmynda um að efahyggja sé með einhverjum hætti ómöguleg býr oft hugsun sem er eitthvað á þá leið að ef rök fyrir róttækri efahyggju verða ekki hrakin þá sé útilokað að menn geti vitað neitt. En eins og útskýrt er í köflum 14 til 16 er þetta misskilningur. Róttæk efahyggja útilokar ekki að menn viti ýmislegt, aðeins að þeir geti verið vissir um, að það sem þeir telja sig vita, sé raunveruleg vitneskja.

Spurningunni um hvort hægt sé að vera efahyggjumaður má svara í stuttu máli með annarri spurningu: Hvernig getur heiðarlegur maður verið nokkuð annað? Það má lesa þessa bók sem tilraun til að svara sömu spurningu í lengra máli. Hún er að minnsta kosti að nokkru leyti tilraun mín til að réttlæta eigin efagirni. Í heiminum er helst til mikið af smásálarlegum kreddum og sjálfbirgingslegri vissu en of lítið af einlægri forvitni og glaðværri spurn frammi fyrir leyndardómum tilverunnar.

Vandi heimilanna og framlenging á kreppunni

Fimmtudagur, 3. september 2009

Mér þykir góð greinin eftir Jón Steinsson hagfræðing á síðu 19 í Morgunblaðinu í dag. Hann skrifar um skuldsett heimili og hugmyndir um að ríkið komi þeim til bjargar og bendir á að hjálp við þá sem skulda mikið hljóti að vera á kostnað þeirra sem skulda minna.

Nú kann að vera réttlætanlegt að skattleggja einhverja sem eru aflögufærir til að hjálpa fólki sem hefur lágar tekjur og er í vanda vegna þess að lán vegna hóflegra húsnæðiskaupa hafa hækkað.

En stór hluti þeirra sem eru í vanda vegna mikilla skulda er fólk með þokkalegar tekjur sem tók há lán meðan óðærið stóð sem hæst. Þessi lán voru kannski notuð til að kaupa stór íbúðarhús og dýra bíla.

Ef fólk sem hefur álíka tekjur eða jafnvel lægri, en lét sér duga að búa í litlu húsi og aka á ódýrum bíl, er skattlagt til að hjálpa þeim sem kusu að lifa hátt meðan lán voru auðfengin, þá er hætt við að kreppan verði ansi löng.

Hvað gera þeir sem sýndu ráðdeild og höfðu vit á að skella skollaeyrum við gylliboðum bankanna um endalaus lán ef þeir verða látnir eyða sínum sparnaði í að borga lán hinna? Ég held að þeir hugsi sem svo að það borgi sig illa að vera gætinn í fjármálum og reyni eftirleiðis að sukka að minnsta kosti jafnmikið og nágranninn. Ef flestir eða allir gera það þá blasir ekkert betra við en kreppa sem engan enda tekur.

Samfélagið þarf á því að halda að fólk læri að hyggindi og ráðdeild borgi sig og treysti því að sá lærdómur standist.

Námsorlof

Miðvikudagur, 2. september 2009

Þar sem ég er í námsorlofi skólaárið 2009 til 2010 líða síðsumardagarnir öðru vísi hjá mér nú en undanfarin ár. Ég sit og les og skrifa punkta og glósur. Frá og með þessari viku mæti ég líka í tíma í Háskóla Íslands þar sem ég tek tvö námskeið nú á haustönn. Þau heita Kenningar í félagsfræði og heimspeki menntunar (MVS101F) og Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FOM102F). Þessi námskeið leggjast heldur vel í mig. Annað fjallar um efni sem ég hef áhuga á og hitt gefur mér tækifæri til að hefja vinnu við aðalverkefni mitt til PhD prófs sem verður meðal annars í því fólgið að taka allmörg viðtöl við kennara í framhaldsskólum.

Verkefnið sem ég hef tekist á hendur, og mun væntanlega taka mig nokkur ár að vinna, er í því fólgið að kanna hvaða menntastefna og hvaða gildismat ráða ferðinni við val á námsefni og áherslum á stúdentsbrautum framhaldsskóla og bera þetta annars vegar saman við opinbera menntastefnu, eins og hún birtist í lögum, reglugerðum og námskrám, og hins vegar við fræðilegar kenningar um námsmarkmið og gildi menntunar.

Ég hef ekki hugsað mér að skoða allar námsgreinar sem kenndar eru til stúdentsprófs enda væri það nú líklega of mikið verk. Greinarnar sem ég hyggst fjalla um eru annars vegar stærðfræði- og náttúruvísindi og hins vegar íslenska og saga.