Færslur ágústmánaðar 2009

Þýðing á ljóði eftir Odysseas Elytis

Föstudagur, 14. ágúst 2009

Hér fer á eftir tilraun til að þýða ljóð eftir Odysseas Elytis  (Οδυσσέας Ελύτης,  1911 –1996). Hann var með helstu ljóðskáldum Grikkja á síðustu öld og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1979.

Ljóðið er áttundi kafli af ljóðabálki í átján köflum sem birtist árið 1943 og kallast Sól hin fyrsta (Ηλιοσ ο πρωτος).

Ég hef lifað nafnið sem er elskað

Ég hef lifað nafnið sem er elskað
í skugga af tré – það var ólívukerlingin gamla –
í dyn frá hafsins ævilöngu leið.

Þeir sem grýttu mig lifa ekki lengur
ég hlóð brunn úr steinunum
að barmi hans koma ferskar og grænleitar stúlkur
varir þeirra berast niður úr dagrenningunni
hár þeirra raknar djúpt inn í ókomna tíma.

Koma svölur, ungbörn sem vindurinn á,
þær drekka og fljúga svo lífið gangi sinn gang
ógnvaldur draumsins breytist í draum
og bágindin sveigja hjá höfðanum góða
hvergi fer rödd til einskis um himinsins flóa.

Ódauðlegi sær, hvað hvíslar þú, segðu mér frá því
snemmendis kom ég að þínum árdegismunni
á efsta leiti þar sem ástin þín birtist
sé ég löngun næturinnar til að hella niður stjörnum
löngun dagsins til að kroppa gróður jarðar.

Í akra lífsins sáði ég smáblómum, þúsundum saman,
þúsundum barna þar sem réttsýnir vindar blása
fallegra og hraustra barna sem anda góðvild
og kunna að beina augum að ystu sjónarrönd
þegar tónlistin hefur eyjarnar á loft.

Ég hef letrað nafnið sem er elskað
í skugga af tré – það var ólívukerlingin gamla –
í dyn frá hafsins ævilöngu leið.

(more…)