Færslur júlímánaðar 2009

Skáldið eftir Anestis Evangelú

Þriðjudagur, 14. júlí 2009

Anestis Evangelú (Ανέστης Ευαγγέλου) fæddist í Þessalóniku árið 1937 og dó í þeirri sömu borg 1994. Eftir hann eru 7 ljóðabækur. Hér fer á eftir tilraun til að þýða eitt af ljóðum hans.

Skáldið

Hafði klifið hæsta tindinn
á himni var rödd hans hvítur fugl.
Aragrúinn, iðandi sem maurar neðst í hlíðum,
heyrði rödd hans, hóf sig stöðugt ofar,
þrengdi hringinn haldandi á lurkum,
hnífum og grjóti, þeir gengu nær,
greina mátti gargað drepum hann
og þegar flugu fyrstu hnullungarnir
og sólin blikaði á beittum hnífum
voru honum endalokin ljós.

En rödd hans
var hvítur fugl sem flaug yfir höfðum þeirra
og henni náðu hvorki garg né hnífar.

(more…)

„Aðildarviðræður“

Laugardagur, 11. júlí 2009

Enn tala Samfylkingarmenn um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hvers vegna kalla þeir hlutina ekki sínum réttu nöfnum og tala um aðildarumsókn?

Það sem þeir reyna nú að koma gegn um Alþingi, og vilja alls ekki bera undir þjóðaratkvæði, er heimild til að sækja um aðild að Sambandinu. Slík umsókn þýðir að stjórnvöld ætli sér að koma landinu þar inn.

Hvers vegna reyna þingmenn Samfylkingarinnar að fá fólk til að halda að málið snúist um að ræða svona almennt og yfirleitt um á hvað kjörum Ísland geti gengið í Evrópusambandið? Hvers vegna vilja þeir ekki að almenningur fái að kjósa um málið fyrr en búið er að sækja um og ganga frá tímasetningum og örðum atriðum sem varða inngöngu?

Gæti þetta verið vegna þess að þeir vita að um leið og umsókn hefur verið samþykkt af Sambandinu og aðildarríkjum þess er erfitt að snúa við? Ef inngöngu er þá hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu verða samskipti við Sambandið tæpast aftur eins og þau voru áður. Við komumst ekki til baka á byrjunarreit.

Í umræðum um umsóknina verður ýmislegt í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og samskiptum Íslands við Sambandið skoðað upp á nýtt. Eins veik og staða landsins nú er mun þetta því miður gefa Sambandinu ýmis tækifæri til að ná á okkur tangarhaldi sem torvelt verður úr að komast.

Ef Samfylkingin fær sitt fram núna – sem hún gerir ef þingmenn Vinstri-grænna halda áfram að láta eins og þeir séu bundnir af öllu nema samvisku sinni – þá er hætt við að almenningur í landinu fái ekki að kjósa um aðild fyrr en búið er að breyta stöðunni þannig að valið stendur á milli hreinna afarkosta: Inngöngu í Sambandið eða stöðu sem er talsvert lakari en við njótum nú.

Ástæðan fyrir því að Samfylkingin vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn er einfaldlega sú að meirihluti landsmanna mun ekki samþykkja inngöngu í Sambandið ef hann á raunverulegt og frjálst val. En með því að sækja um núna er mögulegt að koma hlutunum þannig fyrir að þegar loks verður kosið þá verði í reynd engra kosta völ.

Svo virðist sem Samfylkingin hafi tamið sér sama virðingarleysi fyrir lýðræði og valdastofnanir Evrópusambandsins. Þetta kemur mér svo sem ekki á óvart – en ekki átti ég von á að það yrði svona auðvelt að fá þingflokk Vinstri-grænna til að svíkja kjósendur sína, loforð, hugsjónir og stefnu.

Icesave, Davíð og fjölmiðlarnir

Þriðjudagur, 7. júlí 2009

Eftir að hafa hlustað á helst til marga fréttatíma velti ég því fyrir mér hvernig deilan um 200 mílna fiskveiðilögsöguna hefði farið á sínum tíma ef Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson hefðu samið fyrir Íslands hönd. Ætli hefði ekki verið bakkað úr 50 mílum og aftur niður í 12.

Fréttamenn hafa annars, að því er virðist, frekar lítinn áhuga á að skoða hvernig menn voru valdir til að semja um icesave við Breta og Hollendinga. Þess meiri virðist áhuginn á að finna veilur í málflutningi Davíðs Oddssonar í viðtalinu sem Agnes Bragadóttir átti við hann í Sunnudagsmogganum. Samkvæmt tilkynningu sem Agnes birti í Morgunblaðinu í dag varð henni á lítils háttar skyssa þar sem hún rangfeðraði skýrslu sem Davíð vitnaði til. Hún sagði að plaggið væri frá OECD þótt það væri unnið af öðrum. Í fréttum Ríkisútvarpsins varð þessi rangfeðrun að aðalatriði og reynt að nota minniháttar mistök blaðamanns til að gera allan málflutning Davíðs ótrúverðugan.

Getur hugsast að blaðamannastéttin sé enn að reyna að hefna sín á Davíð fyrir að hafa reynt, á sínum tíma, að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum – eða er kannski frekar um það að ræða að hópsál kjaftastéttanna sé með einhverja sektarkennd eftir óðærið 2007 og telji brýnt að tukta sig og um leið alla þjóðina til með nógu háum sektum?

Mér skilst að líklegt sé talið að icesave samningurinn kosti milli 2% og 3% af þjóðarframleiðslu á ári hverju meðan verið er að borga lánin niður. Þetta er álíka hlutfall og varið er til almannatrygginga og velferðarmála eða um það bil tvöfalt meira en rekstur allra framhaldsskóla í landinu kostar.

Rökin fyrir því að íslenska ríkinu beri skylda til að tryggja innistæður á icesave reikningum í Bretlandi og Hollandi eru fremur veik. Fleiri en Davíð Oddsson hafa bent á það. Í þeim hópi eru þungavigtarmenn eins og  til dæmis Jón Daníelsson hagfræðingur við London School of Economics, Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

Vel má vera að óhjákvæmilegt sé að semja um pólitíska lausn við Breta og Hollendinga. En er virkilega óhjákvæmilegt að flýta sér að ganga að skilmálum þeirra? Þurfa ráðamenn þjóðarinnar nauðsynlega að tala gegn okkar hagsmunum og samþykkja í ræðu og riti kröfur sem færustu lögfræðingar með þekkingu á þessu efni telja hæpið að standist? Eru þeir sem vilja samþykkja icesave samninginn nógu harðir á því að gæta hagsmuna Íslendinga? Finnst þeim kannski óþægilegt ef þeir sem sitja hinu megin við borðið hnykla brýnnar?

Bundnir af öllu nema eigin samvisku

Sunnudagur, 5. júlí 2009

Einu sinni var látið heita að Alþingismenn væru ekki bundnir af neinu nema eigin samvisku.

Nú tala þeir, fleiri en einn og fleiri en tveir, eins og þeir séu bundnir af svo gott sem öllu nema eigin samvisku – jafnvel af minnisblöðum fyrrum ráðherra, túlkun útlendra peningamanna á reglum Evrópska efnahagssvæðisins, meintum vilja „alþjóðasamfélagsins“ eða hugmyndum fjölmiðlamanna um skilyrði Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Hvað kemur næst?