Enn tala Samfylkingarmenn um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hvers vegna kalla þeir hlutina ekki sínum réttu nöfnum og tala um aðildarumsókn?
Það sem þeir reyna nú að koma gegn um Alþingi, og vilja alls ekki bera undir þjóðaratkvæði, er heimild til að sækja um aðild að Sambandinu. Slík umsókn þýðir að stjórnvöld ætli sér að koma landinu þar inn.
Hvers vegna reyna þingmenn Samfylkingarinnar að fá fólk til að halda að málið snúist um að ræða svona almennt og yfirleitt um á hvað kjörum Ísland geti gengið í Evrópusambandið? Hvers vegna vilja þeir ekki að almenningur fái að kjósa um málið fyrr en búið er að sækja um og ganga frá tímasetningum og örðum atriðum sem varða inngöngu?
Gæti þetta verið vegna þess að þeir vita að um leið og umsókn hefur verið samþykkt af Sambandinu og aðildarríkjum þess er erfitt að snúa við? Ef inngöngu er þá hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu verða samskipti við Sambandið tæpast aftur eins og þau voru áður. Við komumst ekki til baka á byrjunarreit.
Í umræðum um umsóknina verður ýmislegt í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og samskiptum Íslands við Sambandið skoðað upp á nýtt. Eins veik og staða landsins nú er mun þetta því miður gefa Sambandinu ýmis tækifæri til að ná á okkur tangarhaldi sem torvelt verður úr að komast.
Ef Samfylkingin fær sitt fram núna – sem hún gerir ef þingmenn Vinstri-grænna halda áfram að láta eins og þeir séu bundnir af öllu nema samvisku sinni – þá er hætt við að almenningur í landinu fái ekki að kjósa um aðild fyrr en búið er að breyta stöðunni þannig að valið stendur á milli hreinna afarkosta: Inngöngu í Sambandið eða stöðu sem er talsvert lakari en við njótum nú.
Ástæðan fyrir því að Samfylkingin vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn er einfaldlega sú að meirihluti landsmanna mun ekki samþykkja inngöngu í Sambandið ef hann á raunverulegt og frjálst val. En með því að sækja um núna er mögulegt að koma hlutunum þannig fyrir að þegar loks verður kosið þá verði í reynd engra kosta völ.
Svo virðist sem Samfylkingin hafi tamið sér sama virðingarleysi fyrir lýðræði og valdastofnanir Evrópusambandsins. Þetta kemur mér svo sem ekki á óvart – en ekki átti ég von á að það yrði svona auðvelt að fá þingflokk Vinstri-grænna til að svíkja kjósendur sína, loforð, hugsjónir og stefnu.