Færslur júnímánaðar 2009

Myndir frá ættarmóti

Sunnudagur, 28. júní 2009

Myndir sem ég tók í gær af ættarmóti á Hvanneyri eru komnar á vefinn. Á mótinu komu saman afkomendur Árna Ingimundarsonar og Ástfríðar Árnadóttur sem reistu Bakka á Kópaskeri árið 1912. Eitt af 12 börnum Árna og Ástfríðar var Hólmfríður móðir Guðrúnar Einarsdóttur en Guðrún er tengdamóðir mín

Þegar þær örvast eftir Kavafis

Sunnudagur, 21. júní 2009

Eftirfarandi ljóð eftir Kavafis er frá árinu 1916.

Þegar þær örvast
Reyndu, skáld, að gæta þeirra
þótt ekki staðnæmist nema fáar.
Myndir sem munúð þín fær.
Í setningar þínar láttu þær huldar til hálfs.
Reyndu, skáld, að halda þeim
þegar þær örvast í heila þín sjálfs
um nótt eða í hádegisbirtu.

(more…)

Hestar eftir Kostes Kokorovits

Miðvikudagur, 17. júní 2009

Þetta ljóð sem heitir Hestar er eftir Kostes Kokorovits (Κοστις Κοκοροβιτς). Um höfundinn veit ég því miður ekkert.

Hestar

1.
Ofan fjallið
fara hestar
er þá snerta þokuskýin.
Svartir hestar,
hvítir hestar,
öskugráir fákar líka.
Hneggja ei og
hvorki hlaupa
þeir né koma á stökki hröðu
heldur fara aðeins fetið,
hugulsamir,
hátign bæði
hafa þeir og sorg í fasi.
Líkast því
til hinstu hvílu
fylgi látnum þjóðhöfðingjum
eða snúi aftur heim úr
stríði sem er tapað og þeir
harmi kappa
horfna sjónum
riddara frá öðrum tíma
þá er líf sitt létu fyrir
Ástina – og eins og hringi
þyrlist þeir og snúi kvörnum,
sem þeir væru öllum gleymdir
í óbyggðum og
yfirgefnir. . .

2.
Ofan fjallið koma og fara
knapalausir
hestar – ganga
þeir í gegnum skýjahulu
og týnast þegar
nóttin kemur.
Aldrei framar
sjást á ferli
og enginn veit
og enginn spyr. . .

(more…)

Á Torgi hins himneska friðar fyrir 20 árum

Þriðjudagur, 16. júní 2009

Ljósmyndir sem Stuart Franklin tók Á Torgi hins himneska friðar í Peking fyrir 20 árum þegar kínverski herinn framdi fjöldamorð á námsmönnum. (Á undan myndinni er stutt auglýsing.)

Borgin eftir Kavafis

Föstudagur, 12. júní 2009

Borgin er með þeim þekktari af eldri ljóðum Kavafis. Hann lauk því árið 1910. Frumtextinn er með endarími.

Borgin
Þú sagðir: „Ég ætla í annað land, ætla að framandi sævi.
Ætla að finnist þá önnur borg, önnur og betri en þessi.
Áfellisdóm hafa örlög skráð um allt sem ég reyni að gera;
Hjarta mitt orðið sem andvana lík og innlyksa í gröfum dauðra:
Æ hugur mín sjálfs, hve lengi enn skal una þeim döpru kjörum.
Hvert sem ég skima, hvert sem ég hvörmunum renni
sé ég hér sömu, svartleitu rústir míns lífs.
Hversu mörg ár til einskis ég hef eyðilagt – spillt og glatað.“

Ekki finnur þú annan stað, enga framandi sjói.
Borgin þig eltir. Er aldurinn færist yfir þá muntu
ganga um sömu götur og verða gamall í sömu hverfum.
Vertu ekki að gera þér vonir – þú kemur alltaf
í þessa borg – í sömu húsunum hvítnar af elli.
Þú finnur ei far með skipi né færan veg héðan burtu.
Þín tilvera ónýt hérna í útnára smáum og alveg með sama hætti
til einskis þitt lífshlaup um alla jörð – eyðilagt, spillt og glatað.

(more…)

Hvernig er hægt að draga úr útgjöldum framhaldsskóla?

Sunnudagur, 7. júní 2009

Á fimmtudaginn sat ég aðalfund Félags íslenskra framhaldsskóla sem haldinn var í Keflavík. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra kom á fundinn og spjallaði við skólastjórnendur sem þar voru.

Meðal þess sem Katrín sagði var að vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs þyrfti að draga úr útgjöldum til skólamála og því mætti búast við lægri framlögum á fjárlögum fyrir næsta ár en skólarnir fengu á þessu ári.

Það er vandasamt að draga úr útgjöldum. Til þess þarf skýra forgangsröð, mótaðar hugmyndir um hverju helst má sleppa. Það er ekki um það að ræða að skólarnir sinni öllum verkum sem þeir nú inna af hendi með minni kostnaði nema laun verði lækkuð, því annar kostnaður en launakostnaður er afar lítill hluti af útgjöldum skóla. Stærsti liðurinn fyrir utan laun er húsaleiga. Víst gætu Fasteignir ríkisins lækkað hana en það drægi varla neitt úr heildarútgjöldum ríkissjóðs - færði peningana bara frá einni ríkisstofnun til annarrar.

Í rauninni eru bara tvær leiðir til að spara í framhaldsskólum þannig að eitthvað muni um það. Önnur er að lækka laun. Hin er að kaupa færri vinnustundir sem þýðir einfaldlega að minnka kennslu (þ.e. kenna færri nemendum eða kenna einhverjum hluta nemandanna færri stundir).

Kannski er hægt að lækka laun eitthvað dálítið. Kannski á til dæmis ekki að greiða jafnhátt kaup fyrir fjarkennslu, þar sem skyldur kennara við nemendur eru illa skilgreindar, eins og greitt er fyrir hefðbundna kennslu. Kannski á ekki að greiða jafnmikið fyrir alla hefðbundna kennslu. Hvort hægt er að ná einhverjum sparnaði þarna veit ég ekki. Hitt þykist ég vita að kennarastéttin muni leita allra leiða til að verja kjör sín. Það kostaði langa baráttu að ná þeim upp fyrir velsæmismörk á sínum tíma. Hætt er því við að herkostnaður af stríði við Félag framhaldsskólakennara verði allhár.

Hin leiðin, að kaupa minni vinnu, er að mínu viti vænlegri og ég held satt að segja að hægt sé að draga nokkuð úr kennslu við framhaldsskóla án þess að það bitni á menntun unglinga.

Samkvæmt tölum á vef Hagstofu Íslands voru milli 25 og 26 þúsund nemendur við íslenska framhaldsskóla á síðasta ári. Þar af voru rúm 17 þúsund eða um 2/3 á aldrinum 15 til 20 ára. Fjórði hver nemandi var 23 ára eða eldri.

Við framhaldsskólana er sem sagt mikill fjöldi fullorðinna nemenda. Þrátt fyrir þetta eru námskrár skólanna að miklu leyti sniðnar að þörfum unglinga. Ýmislegt sem gert er þjónar uppeldislegum markmiðum sem eiga tæpast við þegar um fullorðna nemendur er að ræða. Að mínu viti er til dæmis fullkomið álitamál hvort námsgreinar eins og íþróttir eða lífsleikni eiga erindi við fullorðna nemendur.

Stór hluti fullorðinna nemenda er á starfsmenntabrautum. Á þessum brautum eru kenndar almennar greinar eins og móðurmál og erlend tungumál. Þessi almenna kennsla er ekki fyrst og fremst vegna þess að menn þurfi hennar við til að læra starfið, heldur vegna þess að hún nestar unglinga fyrir líf sem snýst um fleira en eina atvinnugrein. En ættu fullorðnir nemendur á starfsmenntabrautum ekki að hafa um það frjálst val hvort þeir gangast undir uppeldi af þessu tagi eða hvort þeir nesta sig sjálfir fyrir lífið með einhverjum öðrum hætti?

Vorið 2006 sendi menntamálaráðuneytið bréf til framhaldsskóla þar sem tilkynnt var að nemendur á sjúkraliðabraut mættu sleppa námi í almennum greinum (eins og íslensku, íþróttum, lífsleikni, tungumálum, stærðfræði) ef þeir hefðu náð 23 ára aldri og aflað sér 5 ára starfsreynslu við umönnun sjúkra, fatlaðra eða aldraðra og framvísuðu meðmælum frá vinnuveitanda.

Þetta bréf var ekki ritað til að draga úr útgjöldum skóla heldur til að bæta úr skorti á sjúkraliðum. En þótt tilgangurinn hafi ekki verið að spara hlaust af þessu talsverður sparnaður, því það kostaði skólana meira en milljón krónum minna að mennta fullorðinn nemanda sem kom í sjúkraliðanám með 5 ára starfsreynslu.

Mér finnst full ástæða til að skoða hvort fleiri bréf lík því sem ritað var um sjúkraliðanám árið 2006 ásamt sveigjanlegri afstöðu til starfsmenntunar fullorðinna geti dregið úr útgjöldum skólanna?

Þessi leið er í dúr við áherslur á raunfærnimat sem mótaðar hafa verið hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og mun trúlega mælast vel fyrir hjá fullorðnum nemendum. Hún þarf ekki að draga út möguleikum þeirra á að nema almennar greinar á framhaldsskólastigi því engum yrði bannað að læra meira en krafist er. Hún hefur líka þann kost að skerða ekki á neinn hátt þann kjarna skólastarfsins sem er kennsla fyrir unglinga.