Færslur maímánaðar 2009

Ljóð eftir Stasinopúlos

Þriðjudagur, 26. maí 2009

Mikael D. Stasinopúlos (Μιχαηλ Δ. Στασινοπουλος) fæddist árið 1903 og lést í hárri elli árið 2002. Hann var lögfræðingur og átti langan feril í grískum stjórnmálum auk þess sem hann var afkastamikill rithöfundur og þýðandi. Hans er meðal annars minnst í sögunni vegna þess að hann var forseti Grikklands í hálft ár eftir að herforingjastjórnin var hrakin frá völdum og lýðræði endurreist árið 1974.

Ljóðið sem hér fer á eftir heitir á frummálinu To alogo tú skakiú (Τό άλογο τού σκακιού) og það þýðir orðrétt Hesturinn í skákinni. Sú þýðing gengur þó varla því á íslensku heitir þessi taflmaður riddari en ekki hestur. Mér finnst við hæfi að það heiti Gangvari.

Gangvari

Stilltur og þögull, árvökull, ábúðarfullur,
auðsveipur stekkur að svörtum reit eða hvítum,
dvelur um kyrrt og djúpt er þá hugsað,
orðlausa leiki og ógnandi reiknar hann út.

Ein hreyfing, þá tvær, ein hugsun, svo önnur.
Allt í kring, vélráðir fjendur úr tré.
Hvert ráð er að taka, með hverju skal reikna?
Aðkrepptur hugur á þröngum, ferhyrndum flötum,

fábreytnin vaxandi, lífshlaupið kunnuglegt orðið!
Hreyfing, þá tvær, ein hugsun, og aftur hin sama!
Orðlausa leiki hann reiknar og telur –

en veit samt að honum er fyrirbúið að sækja
gegn fjendum úr tré og falla sem hetja
á svörtum reit eða hvítum hjá konungi sínum.

(more…)

Skírnir - vor 2009: Grein eftir Stefán Snævarr

Mánudagur, 25. maí 2009

Ein af fjórum kreppugreinum í nýjasta Skírni er eftir Stefán Snævarr. Hún heitir Frjálshyggjan, sjöunda plága Íslands: Hannesi svarað, Þorvaldur áminntur og er, a.m.k. öðrum þræði, svar við grein sem Hannes Gissurarson skrifaði í hausthefti Skírnis á síðasta ári.

Grein Stefáns er nokkuð ólík öðru sem skrifað er í þetta gamla og virðulega tímarit. Hann lætur vaða á súðum og hefur uppi stór orð og mér þóttu skrif hans minna dálítið á Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson (sjá færslu frá 4. júní 2007).

Að sumu leyti er skemmtilegt hvað Sefáni er mikið niðri fyrir og hvað hann reiðir stundum hátt til höggs. Sumt í stíl hans kann ég þó ekki við eins og þegar hann gerir andstæðingum sínum upp einhverjar hálftrúarlegar grillur og talar hálft í hvoru niður til þeirra þar sem hann lýsir skoðunum þeirra með orðasamböndum eins og „hinni ginnhelgu frjálshyggju“, „hinni helgu Ameríku“, „hinu vonda velferðarríki“. (Þessi þrjú dæmi eru öll af fyrstu tveim síðum greinarinnar.)

Kenning Stefáns er einkum sú að frjálshyggja sé plága. Lokaorð greinarinnar eru: „Kominn er tími á alvarlegt uppgjör við frjálshyggjuna. Hún er sjöunda plága Íslands, þjóðin er komin á kaldan klaka vegna ofurtrúar á markaðinn.“

*

Nú er orðið frjálshyggja notað um nokkuð sundurleitt safn hugmynda og kenninga. Það er álíka hæpið að setja alla frjálshyggju undir einn hatt eins og að setja allan sósíalisma undir einn hatt. En Stefán hirðir ekkert um að segja hvers konar frjálshyggja það er sem hefur leikið Íslendinga svo grátt. Hann segir heldur ekkert um hverjar hinar sex plágurnar voru. Ef hann er að jafna frjálshyggju við svartadauða og móðuharðindi finnst mér að hann mætti alveg láta fylgja einhver gögn um hve stór hluti þjóðarinnar lét lífið af hennar völdum.

Þau slitur af rökum sem hægt er að finna í grein Stefáns eru einkum af tvennu tagi. Annars vegar tínir hann upp hugmyndir frá fólki sem hann kallar einu nafni frjálshyggjumenn, steypir þeim saman og lætur sem allt það hugmyndafarg hafi valtað yfir mannlífið á einu bretti. Hins vegar hendir hann á lofti samanburð Hannesar á Evrópu og Bandaríkjunum og reynir að sýna fram á að ekki sé eins gott að búa í Vesturheimi og Hannes vildi vera láta.

Fyrri rökin eru skelfilegt sullumbull hjá honum svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þau eru álíka gáfuleg eins og ef reynt væri að færa rök gegn jafnaðarstefnu, eða sósíalisma, með því að tína upp eina fullyrðingu frá Karli Marx og aðra frá Kastró og þá þriðju frá Olof Palme og klastra svo utan á þetta einhverju rugli eftir Maó formann, Kim Il Sung, Einar Olgeirsson, Lacan, Žižek og Helga Hóseason – benda svo á óskapnaðinn og býsnast yfir því hvað mennirnir séu mikil fífl að halda þessu öllu saman fram. Gallinn við svona málflutning væri auðvitað að enginn einn maður er sammála öllum þessum söfnuði. Þótt mennirnir sem ég nefndi séu allir sósíalistar hafa þeir afar ólíkar skoðanir. Að benda á að þeir hafi haldið fram ýmsum grillum og vitleysum er ekki tæk rök gegn sósíalisma almennt og yfirleitt og það væri heldur ekki málefnalegt innlegg í umræðu um það sem vinstri stjórnirnar í Noregi og á Íslandi eru að bauka um þessar mundir – svo einhver dæmi séu tekin.

Grein Stefáns hefði verið betri ef hann hefði tilgreint einhver dæmi um frjálshyggjuleg úrræði sem hafa leitt til ófarnaðar hér á landi – hefði hann til dæmis reynt að rökstyðja að hér væri allt ein rjúkandi rúst út af  fjölgun einkarekinna háskóla, frjálsu framsali aflaheimilda (sem var reyndar ákveðið af vinstristjórn sem hér sat undir lok níunda áratugarins en er samt mörgum frjálshyggjumönnum vel þóknanlegt), tiltölulega flötum tekjuskatti eða fríverslun við Færeyjar.

Kannski heldur Stefán að bankakreppan sé afleiðing af einhvers konar frjálshyggju en það verður ekki ráðið af skrifum hans, því hann sullar öllu saman og segir fyrir vikið ekkert nógu skýrt og ákveðið til að hægt sé að finna rök með því eða á móti.

Um tengsl frjálshyggjuhagfræði og yfirstandandi bankakreppu er margt óljóst, að minnsta kosti enn sem komið er. Sumir menn sem eru vel að sér um bankamál, eins og Ragnar Önundarson, hafa bent á ástæður til að ætla að meiri ríkisafskipti (og minni frjálshyggja) hefðu verið til bóta. Aðrir hafa bent á að sumar af rótum vandans hefðu vart komið til ef eindregnari frjálshyggja hefði ráðið ríkum. Hér er einkum bent á ríkisumsvif á borð við niðurgreidd húsnæðislán úr opinberum sjóðum, einkum í Bandaríkjunum, og hvernig ríkið tryggir innistæður á bankareikningum og dregur þannig úr hvata bankamanna til að sýna aðgát.

*

Seinni rökum Stefáns er beint gegn Hannesi Gissurarsyni, sem sagði í sinni Skírnisgrein að hagvöxtur væri meiri í Bandaríkjunum en í Svíþjóð og lét að því liggja að betra væri að búa þar vestur frá. Ekki dettur mér í hug að ég geti alhæft um í hvoru þessara landa er betra að eiga heima. Í þeim báðum er lífskjör talsvert betri en þau sem þorri mannkyns býr við. Hins vegar þykist ég geta fullyrt að það sé hrein þvæla að stilla Bandaríkjunum upp sem dæmi um land þar sem frjálshyggja er ríkjandi og Svíþjóð sem dæmi um stjórnarhætti sem eru andstæðir frjálshyggju. Þetta tekur Stefán samt gagnrýnislaust upp frá Hannesi en  reynir að snúa samanburðinum við og sýna að þegar öllu er á botninn hvolft hafi Svíar það betra en Kanar. Mér hefði þótt gáfulegra að benda á hvað svona samanburður er í raun hæpinn heimild um kosti eða galla frjálshyggju.

Ef frjálshyggja er sú stefna að tryggja öllum sömu lagaleg réttindi, banna mönnum fátt, hafa lága og flata skatta, lítil ríkisafskipti af efnahagslífi, réttarríki þar sem mannréttindi eru virt og eignarréttur er friðhelgur og reyna að finna markaðslausnir á fleiri samfélagsvandamálum þá eru samfélagshættir bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð að nokkru snúnir úr frjálshyggju og að nokkru af allt öðru vísi þáttum.

Sé betra að lifa í öðru landinu en hinu þá getur það eins verið vegna þessara annarra þátta eins og vegna mismikillar frjálshyggju.

Það er mikil einföldun að halda því fram að jafnaðarstefna sé ríkjandi í Evrópu en frjálshyggja í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn ganga býsna langt í „jákvæðri mismunun“ (t.d. í menntakerfinu), niðurgreiðslum og styrkjum til sumra atvinnugreina, byggðastefnu, stighækkandi sköttum, reglum um eignarhald á fyrirtækjum, opinberu eftirliti með atvinnulífi, ríkisafskiptum af einkalífi fólks o.fl. sem rímar illa við a.m.k. sumar gerðir frjálshyggju.

Sænskt hagkerfi einkennist af einkaeign á framleiðslutækjum og samkeppni á markaði ekki síður en það bandaríska og sænskar stjórnsýsluhefðir mótuðust að verulegu leyti meðan frjálshyggjumenn höfðu undirtökin í stjórnmálum þar í landi. Sannleikurinn er sá að frjálshyggja er sterk, en samt langt frá því að vera neitt allsráðandi, bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð.

Meðan kommúnistar stjórnuðu Austur-Evrópu var skárra (á flesta mælikvarða) að búa í Búlgaríu en í Rúmeníu, skárra að vera í Júgóslavíu en Albaníu svo einhver dæmi séu nefnd. Fræðimaður sem reyndi að skýra þennan mun með því að skipa löndunum í röð eftir því hvað kommúnistar réðu miklu fengi tæpast háa einkunn. Hann væri sekur um ofureinföldun og bjánalega reglustikuhugsun. Ólíkar menningarhefðir, sögulegar hendingar, ólíkar myndir þjóðrækni og þjóðernisstefnu, misjafnlega þróuð menntakerfi og margt fleira höfðu líka sitt að segja.

Að raða lýðræðisríkjum upp á einn kvarða eftir því hvort þar er meiri eða minni frjálshyggja og halda að það skýri mismuninn á kjörum fólks er líka reglustikuhugsun af bjánalegustu gerð og vonandi láta þeir sem vilja að fólk fái notið frelsis svoleiðis hundakúnstir ekki slá sig út af laginu.

Skírnir - vor 2009: Grein eftir Pál Skúlason

Sunnudagur, 17. maí 2009

Í síðustu færslu sagði ég að í nýjasta Skírni væru þrjár greinar sem fjalla um kreppuna og ástand samfélagsins nú um stundir. Þetta var ekki rétt. Greinarnar eru fjórar og sú sem ég tilgreindi ekki er eftir Guðrúnu Nordal og heitir Endurtekin stef um óhóf, ofsa og ágirnd. Ég hélt að hún væri bara um Sturlungu þangað til ég las hana og sá að Guðrún notar dæmi frá 13. öld til að varpa ljósi á samtímann. Grein Guðrúnar er feikigóð en ég ætla ekki að fjalla um hana hér heldur skrif Páls Skúlasonar.

Grein Páls nefnist Lífsgildi þjóðar og hefur þá kosti að vekja áhugaverðar spurningar og tæpa á ýmsu sem er vert að hafa í huga þegar rætt er um málefni samfélagsins.

Í greininni útskýrir Páll greinarmun á þrenns konar gildum: efnahagslegum, stjórnmálalegum og andlegum. Þessi greinarmunur minnir um sumt á svipaðan greinarmun sem Platon gerði í Ríkinu og á sér líka hliðstæðu stjórnspeki Georgs Hegel. Ég held að það sé talsvert vit í að hafa einhverja svona skiptingu í huga þótt ég sé svo sem ekki viss um hvort betra sé að tala um þrjú eða fjögur svið mannlífsins. Sé talað um fjögur svið bætist einkalífið við það þrennt sem Páll telur.

Farsælt líf þarf á öllum þessum sviðum að halda og fólk lifir í reynd á þeim öllum. Það má nefna þau ýmsum nöfnum: Einkalíf, atvinnulíf, pólitík og ríki andans eða fjölskyldu, hagkerfi, ríki og siðmenningu. Hegel tengdi síðastnefnda sviðið einkum við listir, trú og heimspeki og ég býst við að Páll geri það líka. Þarna á leitin að sannleikanum ef til vill líka heima, og þar með öll vísindi sem stunduð er í þeim tilgangi að vita og skilja.

Páll reynir að nota þessa hugmynd um svið mannlífsins til að varpa ljósi á vandamál líðandi stundar og segir: „Tilgáta mín er […] að sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á efnahagsmálin í þjóðfélagi okkar síðustu árin og þá sérstaklega á tiltekinn þátt þeirra, nefnilega fjármálin, hafi orðið til þess að við höfum sem þjóð vanrækt stórlega bæði stjórnmálin og andlegt líf þjóðarinnar.“ (s. 44). Hann vill að menn leggi meiri áherslu á andleg lífsgildi og segir: „Hinn nýi hugsunarháttur, sem ég er að kalla eftir, byrjar á hinum andlegu lífsgildum, ekki síst hinum siðferðilegu, og skoðar stjórnmálin og efnahagsmálin í ljósi þeirra.“ (s. 49)

Nú hygg ég að í þessu sé nokkur sannleikur fólginn. Undanfarin ár voru fjölmiðlar fullir af umfjöllun um ríka karla og kaup þeirra á fyrirtækjum. Markaðurinn var í sviðsljósinu fremur en til dæmis listir, trú og heimspeki eða stjórnmálahugsjónir og stjórnmálastarf og sjálfsagt hefur efnahagslífið líka fengið mikið rúm í meðvitund margra meðan góðaærið (sem Elísabet Jökulsdóttir segir að hafi ekki verið góðæri heldur óðæri) stóð sem hæst. En allan þennan tíma lifði fólk samt sínu einkalífi, tók þátt í stjórnmálum og lagði rækt við andleg verðmæti. Ég hugsa að meira að segja árið 2007 hafi verið fleiri ljóðskáld en bankastjórnar í landinu. Raunveruleiki mannlífsins var alltaf á öllum sviðum og önnur verðmæti en þau efnahagslegu (eins og t.d. vinátta og ást) skiptu fólk alltaf jafnmiklu máli. Það sem ef til vill vantaði á var að nógu margir gerðu sér glögga grein fyrir þessu – áttuðu sig á því hvað þeim er kærast og hvað skipti þá mestu.

Sumt sem Páll segir virðist sjálfsagt mál. En sumt er að mínu viti hæpið. Hann gefur t.d. til kynna, án þess að segja það berum orðum, að hægt sé að komast hjá efnahagslegum áföllum með því að leggja rækt við önnur gildi en þau efnahagslegu og að kreppan sé á einhvern hátt afleiðing af of mikilli áherslu á svið efnahags- og atvinnulífs. Er ekki sönnu nær að efnahagsvandi sé afleiðing af ákvörðunum sem eru óskynsamlegar á efnahagslegum forsendum? Sparsemi er skynsamlegri en eyðslusemi fyrir þann sem vill bæta efnahag sinn og ástæðurnar fyrir því eiga heima á sviði þess efnahagslega.

Ef efnahagskreppan verður yfirleitt rakin til óskynsamlegs þankagangs þá held ég að fremur sé um það að ræða að of fáir hafi hugsað hagfræðilega og sýnt hyggindi í meðferð fjár heldur en að of margir hafi verið með hugann við að græða. (Og með þessu er ég hvorki að neita því né játa að of margir hafi verið með hugann við það að græða sem mest.)

Það er eins og Páll hugsi í aðra röndina sem svo að í góðærinu (eða óðærinu) hafi samfélagið eiginlega bara verið hagkerfi og nú sé verkefnið að byggja samfélag þar sem hið hagræna, það pólitíska og það andlega er í jafnvægi. Þetta er ef til vill skýringin á að hann byrjar greinina á að segja: „Íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir því verkefni að endurreisa samfélag sitt eftir hrun fjármálakerfisins í haust.“ (s. 39.) En er sannleikurinn ekki sá að samfélagið stóð af sér hrun fjármálakerfisins og stendur enn – enda er fjármálakerfið ekki nema partur af hagkerfi sem er aðeins hluti af samfélaginu.

Fleira í grein Páls þykir mér orka tvímælis eins og til dæmis sú trú hans að við Íslendingar þurfum „að öðlast sameiginlegan skilning á því hvernig við hugsum og metum gildi hlutanna.“ (s. 45). Skilningur okkar á mannlífinu er ósköp takmarkaður og við vitum ekki nema að litlu leyti hvaða gildi skipta okkur mestu máli og hvað er okkur sjálfum fyrir bestu. Hallgrímur Pétursson orðaði þetta svo í 44. Passíusálmi að „vér vitum ei hvers biðja ber.“

Sameiginlegur skilningur verður trúlega enn vitlausari en þær sundurleitu hugmyndir sem ólíkir menn nú hafa, því ef allir skilja lífið á sömu lund er enginn til að leiðrétta þær villur sem þó er hægt að laga með gagnrýni og andmælum. Ætli við þurfum ekki meira á því að halda að þeir sem hafa annan skilning, en þann sem algengastur er, tali fullum hálsi og skýri mál sitt. Þetta gerir Páll og ef skrif hans gera gagn þá er það, held ég, einkum vegna þess að hann er ekki sammála öllum lesendum sínum og fær þá ekki alla á sitt band.

Skírnir - vor 2009: Grein eftir Má Guðmundsson

Laugardagur, 16. maí 2009

Í gærkvöldi og fram eftir nóttu las ég nokkrar greinar í nýútkomnu hefti Skírnis. Þrjár greinar í heftinu fjalla um ástand efnahagsins og samfélagsins í yfirstandandi kreppu. Sú lengsta af þeim, og sú eina sem fjallar um málið frá hagfræðilegu sjónarhorni, er eftir Má Guðmundsson. Hann er aðstoðarframkvæmdastjóri peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel og fyrrum aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. Hinar tvær eru eftir heimspekingana Pál Skúlason og Stefán Snævarr.

Hér ætla ég að segja fáein orð um grein Más. Ég læt bíða að fjalla um innlegg Stefáns og Páls.

Már nefnir grein sína „Hin alþjóðlega fjármálakreppa: Rætur og viðbrögð.“

Hann útskýrir, að mér virðist, afar skilmerkilega hvernig bankakerfi heimsins lentu í ógöngum. Ég hef ekki slíkt vit á efninu að ég geti fullyrt að skýringar hans séu réttar en þær eru að minnsta kosti vel skiljanlegar og skilmerkilega fram settar.

Már rekur bankakreppuna til nokkurra þátta sem mögnuðu hver annan upp og bendir á að óheppilegt samspil þeirra hafi ekki verið fyrirsjáanlegt út frá skoðun á neinum einum þeirra. Hann skýrir til dæmis að álagspróf á einstakar fjármálastofnanir hafi verið gagnslítil „því þau voru miðuð við álag á einstakar stofnanir en allt samspilið þeirra á milli, […] vantaði.“ (s. 30)

Í lokaorðum segir Már: „Ójafnvægi í heimsbúskapnum og áherslur í hagstjórn stuðluðu að lágum raunvöxtum og miklu framboði lánsfjár sem ýtti undir útlánaþenslu og skuldsetningu. Fjármálanýjungar lögðust á sömu sveif auk þess sem sumar þeirra gerðu fjármálakerfið flóknara og ógagnsærra. Áhættustjórnun fjármálafyrirtækja var að mörgu leyti ábótavant og sama má að nokkru leyti segja um regluverk og eftirlit með fjármálakerfinu.“ (s. 34–5)

Hann gerir heldur lítið úr skýringum sem vísa til græðgi eða glæpsamlegrar hegðunar hjá eigendum fjármálafyrirtækja og segir: „Í fjármálakerfinu eru það fyrst og fremst hvatarnir í kerfinu sem stýra hegðuninni, og regluverkið og eftirlitið sem setur mörkin. […] Hvaða sjálfstætt hlutverk hegðunarmynstur þeirra sem stýrðu fjármálastofnunum lék þar til viðbótar, […] er óútkljáð og að nokkru leyti óútskýrt mál.“ (s. 32)

Már leyfir sér enga ódýra sleggjudóma. Hann lýsir því sem gerðist en reynir ekki að kenna neinum sérstökum um, hvorki tiltekinni stjórnmálastefnu né hópi manna. Ef skýringar hans eru réttar þá er heldur varla um neina eiginlega sökudólga að ræða.

Már fjallar ekki um íslensku kreppuna sérstaklega, heldur, eins og hann segir (á s. 35), „það alþjóðlega samhengi sem hún átti sér stað í.“ En þótt umfjöllunarefnið sé ekki beinlínis efnahagsvandi Íslendinga þykir mér trúlegt að þessi grein marki þáttaskil í rökræðu um kreppuna hér á landi. Mér virðist Már skrifa af slíkri yfirsýn og þekkingu að allir sem vilja taka þátt í skynsamlegri umræðu um efnið (fremur en nornaveiðum, grjótkasti, gargi og hávaða) hljóti að taka nokkurt mið af því sem hann segir.

Ár

Miðvikudagur, 13. maí 2009

2008
Héðan hverfur ljósið
langt og mjótt
með verk okkar,
daga og vit
inn í suðandi vélar.

1880
Ef aðeins ein verður eftir
er óvíst að nafnið komist upp.
Þess var þrívegis vitjað
og alltaf í draumi
um líf hér á bænum.

Ljóð eftir Kavafis

Föstudagur, 1. maí 2009

Í eftirfarandi ljóði frá árinu 1911 vísar Kavafis (sjá færslu frá 7. mars) í sögu sem Plútarkos (46 – 120) segir í riti sínu um ævi rómverska hershöfðingjans Markúsar Antoníusar. Þar segir að rétt fyrir fall Alexandríu og dauða Antóníusar hafi hershöfðinginn heyrt hljóðfæraleik, söng, óp og ym af dansi. Hljóðið kvað hafa borist gegnum borgina og út um hliðið þar sem óvinaherinn beið. Fólk skildi þetta svo að guðinn Díonýsos hefði yfirgefið Markús Antoníus.

Guðinn yfirgefur Antoníus

Á miðnætti þegar heyrist allt í einu
ósýnilegur leikflokkur fara hjá,
með forláta tónlist og raddir,
þá skaltu ekki að þarflausu harma lán þitt
sem lætur nú undan síga, misheppnuð verk
og áform um líf þitt sem öll reyndust blekking og tál.
Eins og djarfur maður og viðbúinn fyrir löngu
skaltu kveðja Alexandríu, þá borg sem nú er að fara.
Umfram allt, láttu ekki glepjast, ekki segja
að þetta hafi verið draumur og heyrnin hafi blekkt þig;
þú sættist ekki við svo falskar vonir.
Eins og djarfur maður og viðbúinn fyrir löngu
skaltu gjöra hvað hæfir þér sem ert verðugur þvílíkrar borgar,
nálgast gluggann jöfnum skrefum
og hlusta snortinn, en laus við
bænir og sífur hugleysingjanna,
á forláta hljóðfæri þessa dularfulla leikflokks
uns ómurinn nær hástigi lystisemdanna og svo
skaltu kveðja Alexandríu, þá borg sem þú ert að glata.

(more…)