Færslur aprílmánaðar 2009

Gáta

Laugardagur, 25. apríl 2009

Margir vildu kjósa kyrr.
Kepp’að þessu ver og fljóð.
Um þau tíðum stendur styr.
Stundum auglýst betr’ en góð.

Fleiri gátur eru hér.

Gamla Ísland – kreppa, öryggisleysi og frumstæð trúarbrögð

Fimmtudagur, 23. apríl 2009

Ætli óvissa og erfiðir tímar breyti stjórnmálaskoðunum fólks? Mér þykir að minnsta kosti trúlegt að kreppa, ótti og kvíði fái allmarga til að binda vonir við eitthvað sem þeim þykir tákn um stöðugleika og öryggi – eitthvað sem er annað hvort nógu voldugt til að standa af sé allar sviptingar eða einhvern veginn utan við umrótið og ólguna.

Margt að því sem ég hef heyrt af stjórnmálaumræðum síðustu vikur og mánuði finnst mér til marks um löngun í eitthvað öruggt og traust. Algengasta orðið í kosningabaráttunni er líklega „stöðugleiki“ og nú er nánast í tísku að mæla með hefðbundnum landbúnaði og ríkisrekstri upp á gamla móðinn. Kannski verður Samvinnuhreyfingin endurvakin og reynt að dusta rykið af sósíalískri hagfræði.

Í hugum sumra er Evrópusambandið ímynd þessa stöðugleika sem svo margir virðast þrá. Fyrir öðrum er það einhver fortíð: Gömul siðferðileg og trúarleg gildi eða draumsýn um veröld sem var – gamla Ísland fyrir daga ójafnaðar, græðgi og útrásar.

Um Evrópusambandið hef ég þegar sagt allmargt á þessu bloggi og litlu við það að bæta. Það má kannski ítreka að það ver aðildarríki sín ekki gegn kreppu og það leyfir þeim sem þyrftu helst á stöðugri gjaldmiðli að halda (t.d. Eystrasaltsöndum) ekki að nota evru því þau uppfylla ekki Maastricht-skilyrðin* og munu ekki gera það í bráð. Sambandið er ekki örugg höfn. Það er miklu fremur hluti af rótinu – breytilegt og stendur sífellt frammi fyrir nýjum vandamálum. Þannig er tilveran innan þess rétt eins og utan þess.

Ekki veit ég svo sem hvort er vitlausara að trúa á Evrópusambandið eða fortíðina og sauðkindina og allan þann pakka en ég er nokkuð viss um að hvort tveggja hlýtur að flokkast sem frumstæð trúarbrögð. Þessi hindurvitni virðast samt höfða til ansi margra. Að minnsta kosti benda skoðanakannanir til þess að flokkarnir sem boða þau (og halda að þau hafi eitthvað með vinstri stefnu að gera) hafi meira fylgi nú en áður.

Fortíðin kemur ekki aftur og tilraun til að endurskapa hana verður í besta falli fyndin þótt trúlegra sé að hún endi sem dauðans grámygla, sorgleg og leiðinleg. Og jafnvel þótt fortíðin kæmi aftur yrði hún ekkert lík draumnum um gamla Ísland þar sem var öryggi og stöðugleiki og gott ef ekki líka jöfnuður og réttlæti og kannski jafnvel blóm á þakinu. Sú upphafna fortíð var aldrei til. Þetta er nánast tóm lygi, allt nema kannski blómin á þakinu. Íslenskt efnahagslíf, og heimurinn allur ef út í það er farið, voru á enn meiri heljarþröm fyrir 30 eða 40 árum heldur en nú og ójöfnuðurinn síst minni. Heldur einhver í alvöru að bilið milli auðmanna og verkafólks nú í byrjun 21. aldar sé eitthvað öllu meira en það sem eitt sinni var á milli vinnukonu á sveitabæ og toppanna hjá Sambandinu?

Til að rata út úr kreppu og basli held ég að menn þurfi að hafna þessum hálftrúarlegu táknum um stöðugleika og öryggi og horfa með hugrekki og bjartsýni á tækifærin í breytingunum og umrótinu.

* Maastricht-skilyrðin, þ.e. skilyrðin fyrir upptöku evru eru (skv. því sem segir á http://www.esb.is/policies/emu.htm): Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB ríkjum með lægstu verðbólguna; Langtíma stýrivextir mega ekki vera meira en 2% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum þar sem verðlag er stöðugast; Halli á rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu og heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir  60% af vergri landsframleiðslu; Aðili að gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils innan ákveðinna vikmarka.

Breytingar á stjórnarskrá

Sunnudagur, 19. apríl 2009

Núgildandi reglur um breytingar á stjórnaskrá Íslands eru á þessa leið:

Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög. (79. gr. í stjórnarskrá Íslands.)

Sú hefð hefur skapast að Alþingi samþykki ekki breytingar á stjórnarskrá nema um það sé þokkaleg sátt í öllum flokkum. Nú á síðustu vikum hefur þó verið reynt að rjúfa þessa hefð því minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hyggst koma frumvarpi til stjórnskipunarlaga í gegn um Alþingi þrátt fyrir andstöðu Sjálfstæðisflokks.

Eitt atriði í frumvarpinu til stjórnskipunarlaga sem Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Birkir J. Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson hafa lagt fram á Alþingi fjallar um breytingar á stjórnarskrá. Í frumvarpinu er lagt til að í stað 79. greinar (sem vitnað er til hér að ofan) komi:

Frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari má bera upp á Alþingi. Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarpið skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi frumvarpinu, þó minnst 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá, skal það staðfest af forseta Íslands og öðlast þá gildi sem stjórnarskipunarlög.

Verði stjórnarskránni breytt á þennan hátt verður framvegis hægt að keyra breytingar á henni í gegn á fáeinum vikum og hætt er við að sú hefð að leita víðtækrar samstöðu um stjórnarskrárbreytingar rofni.

Þótt það kunni að vera skynsamlegt og réttlátt að láta þjóðaratkvæðagreiðslu skera úr um hvort breyting á stjórnarskrá öðlast gildi sýnist mér að hér sé ætlunin að gera það helst til auðvelt að breyta henni í fljótheitum.

Við höfum nýlega kynnst því hvernig óðagot og múgæsingur getur svipt fólk dómgreind um pólitísk mál. Undir slíkum kringumstæðum er hætt við vanhugsuðum ákvörðunum og þá ver stjórnarskrá, sem hæfilega erfitt er að breyta, ríkið gegn skaðlegum hringlandahætti. En það eru fleiri ástæður fyrir því að réttara væri að gera það erfiðara en nú er að breyta stjórnarskránni heldur en að auðvelda það.

Stjórnarskrá er ólík öðrum lögum. Hún ákvarðar hvernig ríkinu skuli stjórnað, kveður meðal annars á um hverjir megi setja lög og hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að lög öðlist gildi; Hún setur valdstjórninni líka takmörk sem koma í veg fyrir að meirihlutinn geti beitt minnihlutann takmarkalausu ofríki.

Til að stjórnarskrá gegni þessum mikilvægu hlutverkum þarf að vera erfiðara að breyta henni en öðrum lögum. Ef einfaldur meirihluti þings eða þjóðar getur í fljótheitum breytt stjórnarskrá verður í reynd lítill munur á henni og venjulegum lögum og þá setur hún litlar skorður við yfirgangi gegn þeim sem eru í minnihluta.

Stjórnarskrá er eins konar samfélagssáttmáli.

Við getum ímyndað okkur að maður, sem finnst hann vera í minnihluta, spyrji hvers vegna hann ætti að sætta sig við lögsögu ríkisins: Hvers vegna ætti ég að samþykkja að meirihluti, sem ég er ósammála, ráði yfir mér?

Í ríki þar sem er stjórnarskrárfesta og stjórnarskráin tryggir mannréttindi er eðlilegast að svara manninum með því að benda á að meirihlutinn hafi aðeins takmarkað vald og stjórnarskráin tryggi að hann fái haldið eignum sínum, geti skotið ágreiningi við aðra menn til óvilhallra dómstóla og treyst því að stjórnvöld virði mannhelgi hans og ýmis réttindi eins og tjáningarfrelsi.

Hugsum okkur að þessi fulltrúi minnihlutans sé sanngjarn maður sem tekur tali. Ætti hann þá ekki að segja eitthvað á borð við: „Allt í lagi, einhvern veginn verður víst að stjórna ríkinu og ég get svo sem skilið að um viss mál þurfi að taka ákvarðanir þótt ekki séu allir sammála og kannski sanngjarnt að þeir sem eru fleiri ráði eitthvað meiru en við sem erum færri. Ég skal því samþykkja að gegna lögum sem sett eru af fulltrúum meirihlutans svo fremi mér sé tryggt að þeir haldi sig innan marka sem stjórnarskráin setur.“

En hvað ætti þessi skynsami minnihlutamaður að segja ef meirihlutinn gæti hvenær sem er breytt stjórnarskránni?

Stjórnarskrá á bæði að tryggja stöðugleika og koma í veg fyrir það ranglæti að meirihlutinn traðki á minnihlutanum. Til að hún gegni þessum hlutverkum þarf að vera hæfilega erfitt að breyta henni.

Eigi stjórnarskrárbreyting að öðlast gildi við það að vera samþykkt bæði af Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og fyrirliggjandi frumvarp gerir ráð fyrir, held ég að bæði sé rétt að láta líða meiri tíma frá samþykkt Alþingis fram að þjóðaratkvæðagreiðslu og krefjast aukins meirihluta.

(Birtist líka á síðu 42 í Morgunblaðinu í dag og hafði þar undirfyrirsögnina: „Eigi stjórnarskrá að setja valdstjórninni takmörk þarf að vera erfiðara er að breyta henni en öðrum lögum.“)

Umsögn um bók eftir Björn Bjarnason

Laugardagur, 18. apríl 2009

Í nýjasta hefti Þjóðmála er umsögn eftir mig um bókina Hvað er Íslandi fyrir bestu? eftir Björn Bjarnason. Þessi umsögn liggur hér frammi.

Kreppulok

Fimmtudagur, 16. apríl 2009

Lóan er komin og kreppan er búin
kosningar framundan, vorið og sól.
Þjóðin með búsáhöld beygluð og lúin
bindur nú trúss sitt við álf út úr hól.

Hætt er rasanda ráði

Mánudagur, 13. apríl 2009

Á facebook.com hafa 5289 skráð sig í hóp sem heitir „Frystum eignir þeirra sem eyðilögðu Ísland.“ Þeir sem stofnuðu þennan hóp virðast álíta í fullri einlægni að búið sé að eyðileggja landið. Hins vegar virðast þeir ekki hafa miklar áhyggjur af skemmdarverkum á íslensku máli því lýsing þeirra á hópnum er stafrétt á þessa leið:

Allir þeir fyrrverandi bankaeigendur og útrásarofstopar eiga að taka fulla ábyrgð á því hvernig komið er fyrir okkar þjóð. við skorum á ríkisstjórn að eignir þessara manna verði frystar og peningarnir sem þeir hafa dregið til sín verði skilað til almennings.

Fullyrðingar um að búið sé að eyðileggja landið skera sig ef til vill ekki mikið úr innan um yfirlýsingar um að það verði að semja nýja stjórnarskrá, krónan sé ónýt, landið gjaldþrota, þingmenn án umboðs frá þjóðinni, frjálshyggjan búin að leggja allt í rúst og nú verði að byggja hagkerfið ef ekki samfélagið allt upp á nýtt frá grunni.

Séu þessar fullyrðingar teknar bókstaflega eru þær allar ósannar. Hér stefnir að vísu í tímabundið atvinnuleysi en ekki samt eins mikið og margar Evrópuþjóðir hafa búið við árum saman; Framundan er samdráttur en ekki samt neitt ámóta slæmur og kreppan undir lok sjöunda áratugarins. Stjórnarskráin hefur reynst vel. Smáu hagkerfi fylgja vandamál sem birtast meðal annars í gengissveiflum og mundu koma fram í öðru ef við hefðum ekki eigin gjaldmiðil, en að krónan sé algerlega ónýt er af og frá. Þannig má áfram telja. Stóryrðin eru innistæðulaus. Þau eru fyrst og fremst til marks um óhemjugang og taumleysi.

Meðan yfrið nóg var af lánsfé og fjölmiðlar létu heita að Íslendingar sem höfðu mest umleikis í öðrum löndum væru hetjur og snillingar þá birtist óhemjugangurinn einkum í fáránlegu neyslukapphlaupi og yfirgengilegri skuldsetningu. Stór hluti almennings tók þátt í þessari vitleysu og var jafnvel stoltur af að hafa fjármál sín öll í sukki. Ætli gífurmælin sem nú eru uppi séu ef til vill birtingarmynd sömu heimskunnar og óhófið 2007?

Ég tek auðvitað heilshugar undir að þeir sem hafa stolið peningum eigi að skila þeim aftur og taka út réttláta refsingu. En til að bæta samfélagið og koma í veg fyrir fleiri kollsteypur er, að ég held, mikilvægara að sem flest fólk temji sér meiri hófsemi, ekki bara í neyslu og lántökum, heldur líka í orðum og hugsunum því hætt er rasanda ráði eins og Hallgrímur benti á í fertugasta og sjötta Passíusálmi.

Breytingar á stjórnarskrá

Laugardagur, 4. apríl 2009

Minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur reynir enn að þræla breytingum á stjórnarskrá gegnum Alþingi með hraði. Þetta óðagot er óskiljanlegt og raunar mjög varhugavert. Breytingar á stjórnarskrá á ekki að gera í bráðræði. Þetta sjá og skilja felstir málsmetandi menn eins og vel kemur fram í umsögnum fræðimanna og hagsmunaðila. Hér á eftir fara nokkur dæmi:

Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti:
„Það er skoðun mín, að með því að naumur meirihluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má vænta að næsti meirihluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“

Davíð Þorláksson, lögfræðingur:
„…tel ég það verulega misráðið af stjórnarskrárgjafanum að binda 1. gr. frumvarpsins í stjórnarskrána.“

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu:

„Veittur var frestur til 20. mars til að skila inn umsögn. Þennan frest verður að telja mjög skamman þegar umfang málsins er haft í huga.… æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði [1. gr. frumvarpsins] og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Sigurður Líndal, prófessor emeritus í lögfræði:
„Ég tel að skoða þyrfti 1. gr. frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð.  … tel rétt að fella burt 1. gr. þannig að betra tóm gefist til að huga að því hvernig slíkum yfirlýsingum verði fyrir komið ef á annað borð þykir rétt að hafa slíkt í stjórnarskrá. … Annars get ég ekki dulið þá skoðun mína að ólíklegt sé að þing skipað 41 manni valdi þessu verkefni. Líklegast er að þingið þróist yfir í eins konar umræðufund og þrætusamkomu sem sökkvi niður í deilur sem engu skili.“

Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson, prófessorar í hagfræði:
„…teljum við að með samþykkt ákvæðisins væri verið að veikja efnahag þjóðarinnar enn frekar.“

Landsvirkjun:
„Ekki verður hjá því komist hjá því að benda á að sá tími sem veittur er af hálfu Alþingis til umfjöllunar og umsagnar um svo viðamikið mál er afar stuttur. … Landsvirkjun telur að nauðsynlegt sé að slík umræða og skoðanaskipti fari fram með faglegum og vönduðum hætti áður en ákvæði af þessu toga er tekið upp í íslensku stjórnarskrána. Það gerist ekki á nokkrum dögum. Þar til slík opin og hreinskiptin umræða hefur farið fram leggur Landsvirkjun til að frestað verði að taka inn í íslensku stjórnarskrána efnisákvæði 3. mgr. 1. frumvarpsins.“

Norðurál:
„…telur Norðurál að bæta mætti skýrleika í lagatexta frumvarpsins.“

Rarik:
„Jafnframt vill RARIK leggja sérstaka áherslu á gagnrýni á þau vinnubrögð sem í þetta skiptið eru viðhöfð við breytingu á stjórnarskránni.“

Samorka:
„…efnisatriði frumvarpsins hafa ekki fengið þá almennu umfjöllun í samfélaginu sem eðlilegt hlýtur að teljast við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins … Leggur Samorka til að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr. frumvarpsins.“

Reykjavíkurakademían:
„Tíminn alltof naumur til að taka saman vandaðar efnislegar athugasemdir með þeim kröfum um vinnubrögð sem viðhöfð eru hér innanhúss.… RA hefur verulegar athugasemdir um þau frumvarpsdrög um stjórnlagaþing sem fylgja frumvarpinu…“

Samtök atvinnulífsins:
„ Samtök atvinnulífsins leggja því höfuðáherslu á að þess sé vandlega gætt að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá ýti ekki undir óstöðugleika, vegi að ofangreindum gildi eða leiði til óæskilegra hindrana. … Eitt brýnasta verkefni okkar er að endurvekja traust umheimsins. Hringlandaháttur í lagasetningu er ekki skref í þá átt.“

Landssamband smábátaeigenda:
„LS finnst mjög miður hversu knappan tíma það hefur til umsagnar um þetta mikilvæga mál. … Það vefst fyrir LS hver hugmyndafræðin er að baki 1. gr. frumvarpsins og hvað hún þýðir í raun og framkvæmd.“

Viðskiptaráð Íslands:
„Fyrir það fyrsta gerir Viðskiptaráð talsverðar athugasemdir við þá ætlan löggjafans að afgreiða þetta frumvarp með þeim hraða sem raun ber vitni. Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og aðra hagsmunaaðila.“

Félag umhverfisfræðinga:
„FUMÍ telur að fyrir þurfi að liggja skilgreining á því hvað felst í að láta náttúruauðlindir í þjóðareign varanlega af hendi…“

Orkustofnun:

Um auðlindahugtakið: „Hvor skilningurinn sem er lagður til grundvallar þá er þetta óskiljanlegt.“ (vísað til 1. gr.)
„Ljóst er að með umorðun á því sem fram kemur í niðurstöðum auðlindanefndar þeirrar, sem kosin var á Alþingi í kjölfar samþykktar á þingsályktun í júní 1998, hefur eitthvað misfarist af hálfu stjórnarskrárgjafans“. (Hér er átt við frumvarpshöfunda). „Orkustofnun leggur til að hinu nýja þjóðareignarhugtaki verði sleppt…“

Samband íslenskra sveitarfélaga:
„Stjórnarskrá lýðveldisins er grundvallarlöggjöf þessa lands sem öllum ber að virða. Þannig er stjórnarskránni ætlað að vera hafin yfir dægurþras og sveiflur í stjórnmálum. Vegna mikilvægis stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að stjórnskipunarlög séu sett að vel ígrunduðu máli og í sem mestri sátt.“
„Tilgangur ákvæðisins er fremur óljós og sömuleiðis hvaða áhrif ákvæðinu er ætlað að hafa“ (um 1. gr.)

Landssamband íslenskra útvegsmanna:

„Breyting á stjórnarskránni krefst vandaðs undirbúnings og því teljum við rétt að lengri tími verði tekinn til að undirbúa þær en hér er gert ráð fyrir. … Við leggjumst eindregið gegn því að þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins nái fram að ganga. Það er mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg að búa við stöðugt laga- og rekstrarumhverfi en þetta frumvarp gengur þvert þar á.“

Samtök um lýðræði og almannahag:
„Samtök um lýðræði og almannahag telja að mest allt frumvarpið sé ólýðræðislegt og þarfnist gagngerrar endurskoðunar við.“

Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri:

„Því miður gildir hið sama í báðum tilfellum að tími til umsagnar um svo viðamikið mál er of skammur til að forsvaranlegt sé að senda skriflega umsögn um málið.“

HS ORKA hf.:
„HS Orka hf. vill þó nota tækifærið til að árétta sérstaklega að sá frestur sem gefinn er til svo veigamikilla breytinga er ekki boðlegur. Þá er skilgreiningu hugtaka mjög ábótavant og loks tekur HS Orka hf. undir kröfu Samorku um að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr. frumvarpsins.“

Laganefnd Lögmannafélags Íslands:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingar er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Þessi dæmi eru tekin af vefnum http://www.xd.is

Umrætt frumvarp til breytinga á stjórnarkrá (Frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum) liggur frammi á vef Alþingis. Flutningsmenn þess eru Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Birkir J. Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson.