Færslur marsmánaðar 2009

Leitin að uppruna lífs eftir Guðmund Eggertsson

Mánudagur, 30. mars 2009

Um daginn þegar ég fór á bókasafnið á Akranesi til að skila bókum fyrir Hörpu rakst ég fyrir tilviljun á bók sem heitir Leitin að uppruna lífs eftir Guðmund Eggertsson prófessor emeritus í líffræði við Háskóla Íslands.

Þar sem mér þykja skrif um líffræði oft heldur skemmtileg og finnst bækur eftir Richard Dawkins, Antonio Damasio, Andrew H. Knoll (svo einhverjir séu nefndir) miklu meira spennandi en glæpasögur greip ég bókina með mér heim þótt þar væri fyrir um álnarhár stafli af ólesnum öndvegisbókmenntum. Ég sé ekki eftir því. Þetta er líklega ein af betri bókum sem út komu á íslensku á síðasta ári.

Guðmundur rekur sögu hugmynda um uppruna lífs frá vísindabyltingunni á 17. öld til okkar daga. Hann tæpir aðeins á eldri hugmyndum og fer nokkuð hratt yfir sögu þar til kemur fram á 20. öld. Stærstur hluti bókarinnar (sem er 198 síður) fjallar um það sem vísindamenn nútímans telja sig best vita um hvernig líf gæti hafa kviknað. Höfundi tekst að mínu viti afar vel að skýra þau flóknu vísindi á skiljanlegu og góðu máli og bókin er virkilega skemmtileg lesning.

Þessi bók er ólík flestu sem ritað er til að kynna vísindi fyrir almenningi að því leyti að höfundur segir ekki aðeins frá því sem er vitað heldur gerir hann líka ljósa grein fyrir því hve margt er ekki vitað um efnið. Hann ræðir ýmsar tilgátur en heldur ekki uppi áróðri fyrir neinni þeirra heldur bendir bæði á takmörk þeirra og styrk. Bókin er því ekki aðeins kynning á niðurstöðum vísindamanna heldur líka skínandi dæmi um vísindalega hugsun.

Vonandi skrifar Guðmundur meira um líffræði fyrir almenning enda eru bækur af þessu tagi ekkert lítil búbót fyrir menningarlíf þar sem skynsamleg hugsun þarf sífellt að verjast hindurvitnum, vaðli og vitleysu.

Ræða Davíðs Oddssonar

Sunnudagur, 29. mars 2009

Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 18 í gær var sagt að í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði Davíð Oddsson líkt sjálfum sér við Jesú Krist. Mér þótti þetta nokkuð merkilegt svo ég fann upptöku af ræðunni á vefnum og bjóst hálft í hvoru við að Davíð hefði misst eitthvað út úr sér sem væri að minnsta kosti hægt að túlka sem yfirdrifið sjálfshól. En sem betur fer fyrir Davíð og því miður fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði hann ekkert í þessa veru.

Raunar líkti hann sjálfum sér við ræningjana sem voru krossfestir um leið og Kristur og sagði eitthvað á þá leið að þá hefði átt að taka tvo óbótamenn af lífi og einn saklausan en nú hefði einn skúrkur verið negldur og tveir menn sem ekkert hefðu til saka unnið fengið að fara með honum. Meiningin var frekar augljós – Davíð þótti hart að ákafi ríkistjórnarinnar að losna við sig úr embætti seðlabankastjóra skyldi bitna  á Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni með þeim hætti sem raun er á orðin.

Ræða Davíðs var annars stórgóð. Hann fór á kostum allan tímann.

En hvers vegna skyldi fréttamaðurinn snúa út úr henni og segja rangt frá? Er hann svona yfirgengilega skilningssljór og fávís? Eða er það raunin að fréttamenn telji almennt allt satt sem sagt er ljótt um óvini Baugs og því sé sjálfsagt og eðlilegt að ljúga bara þegar ekki er hægt að klína neinum sönnum ávirðingum á sjálfan erkifjandann?

Að fara í viðræður við Evrópusambandið

Laugardagur, 28. mars 2009

Um þessar mundir reyna þeir sem eru æstir í að koma Íslandi inn í Evrópusambandið að fá sitt fram með því að tala um einhvers konar könnunarviðræður. Þeir segja gjarna eitthvað á þá leið að rétt sé að fara í viðræður við Sambandið, sjá hvað út úr þeim kemur og leggja niðurstöðuna svo í dóm kjósenda. Gjarna er látið að því liggja að ef kjósendur segja nei verði allt eins og áður var.

Þessi tillaga kann að hljóma vel. Hver getur verið á móti því að ræða málin og leyfa almennum kjósendum svo að hafa síðasta orðið? Er þetta ekki allt ósköp lýðræðislegt, sætt og krúttlegt og í anda samræðustjórnmála?

Eða er kannski ekki allt sem sýnist?

Viðræður um „sérkjör“ við inngöngu í Evrópusambandið fara ekki fram fyrr en eftir að ríki hefur sótt um aðild. Umsókn um aðild þýðir að stjórn ríkisins óskar eftir henni. Þessar umtöluðu „könnunarviðræður“ munu því ekki fara fram nema ríkisstjórn Íslands óski formlega eftir að landið gangi í Sambandið. Sú hugmynd að ríkisstjórnin geti verið hlutlaus þar til niðurstaða viðræðna liggur fyrir er ekki raunhæf.

Ef Ísland sækir um aðild og umsókn er samþykkt af Sambandinu og aðildarríkjum þess þá verður sjálfsagt rætt um alls konar mál eins og 200 mílna lögsöguna. Vel er líklegt að í þeim viðræðum verði reynt að velta við hverjum steini í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hjá stofnunum þess. Hvað út úr því kemur veit enginn en það er barnaskapur að halda að allt geti lagst aftur í sama far ef aðild að Sambandinu verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar flókin mál eru skoðuð upp á nýtt kemur jafnan eitthvað á daginn sem menn skilja á ólíkan veg og þykir rétt að endurskoða. Við „samningaborðið“ verður Ísland með afleita stöðu ef gagnaðilinn reynir að nota tækifærið og færa eitthvað til okkur í óhag. Þá er raunar eins víst að „könnunarviðræðurnar“ endi með að valið standi milli þess að ganga í Sambandið eða enda með verri stöðu en áður.

Þetta hygg ég að þeir sem virðast hvað blíðmálastir þegar þeir tala um viðræður og þjóðaratkvæði viti vel. Mér heyrist vera falskur tónn í málflutningi þeirra þegar þeir reyna telja fólki trú um að tillaga sín sé hlutlaus í þeim skilningi að ef eftir henni verði farið þá eigi kjósendur á endanum val milli inngöngu í Sambandið og óbreyttrar stöðu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hvernig væri að láta af þessum óheilindum og koma hreint fram? Sambandssinnar ættu að sjá sóma sinn í að leggja einfaldlega til að sótt verði um aðild og hætta að fela sig á bak við barnalegar hugmyndir um „könnunarviðræður.“

Einn af guðum þeirra eftir Kavafis

Fimmtudagur, 26. mars 2009

Ljóðið Einn af guðum þeirra er um margt dæmigert fyrir Kavafis. Í því blandast uppreisn hans gegn púritanisma saman við vangaveltur um söguna.

Borgin Selevkía, sem nefnd er í ljóðinu, varð miðstöð hellenskrar menningar og viðskipta eftir herferðir Alexanders mikla. Hún hét eftir Selevkusi sem var foringi í her Alexanders og tók við völdum í Mesópótamíu og Persíu um 312 f.Kr.

Einn af guðum þeirra

Þegar einn af þeim gekk yfir markaðstorgið í Selevkíu,
um það leyti sem kvöld lagðist yfir, eins og unglingur,
svo íturvaxinn og fagur sem mest getur verið,
með gleði óforgengileikans í augunum
og ilm í svörtum lokkum,
þá litu vegfarendur upp og spurðu hver annan
hvort nokkur þekkti hann og hvort hann væri
sýrlenskur helleni eða útlendingur.
En fáeinir sem tóku betur eftir
skildu hvers kyns var og viku til hliðar:
og þegar hann hvarf undir súlnagöngin
inn í ljós og skugga kvöldsins í átt að borgarhlutum
sem lifna aðeins um nætur, þar sem er svall og munúð
og hvers kyns ölvun og frygð, þá varð þeim
umhugsunarefni hver af Þeim hann gæti verið
og hvaða grunsamlegu skemmtanir
hann sækti niðri á götum Selevkíu, fjarri þeim
dýrðlegu sölum sem mest eru í hávegum hafðir.

(more…)

Kreppan og óheft frjálshyggja

Mánudagur, 16. mars 2009

Í stjórnmálaumræðum síðustu vikna hafa margir sagt eitthvað á þá leið að nú þurfi að hverfa frá hagstjórn í anda frjálshyggju eins og kostir í hagstjórn séu aðallega tveir: Frjálshyggja og ekki frjálshyggja.

Þetta er ansi mikil einföldun bæði vegna þess að frjálshyggja er ekki ein kenning heldur klasi af ýmsum hugmyndum sem snúast með einum eða öðrum hætti um að æskilegt sé að lögin í landinu tryggi frelsi borgaranna og heppilegt sé að stilla skattheimtu í hóf og leita markaðslausna á heldur fleiri en færri sviðum.

Sjónarmið sem kenna má við frjálshyggju eru hluti af lýðræðishefð ríkja í okkar heimshluta og löngu komin í bland við stefnu jafnaðarmannaflokka auk mið- og hægriflokka alveg eins og bestu þættir jafnaðarstefnunnar eru orðnir hluti af pólitík flokka hægra megin við miðju.

Það er ekki til neitt hagkerfi sem færir fólki þokkaleg lífskjör og ekki er að mestu leyti dreifstýrt markaðshagkerfi. Menn komast heldur ekki langt í hagstjórn með því einu að hafna einhverju sem þeir kalla frjálshyggju eða markaðslögmál. Það er hægt að færa einstök svið úr opinberum rekstri í einkarekstur eða öfugt. En það er fráleitt að þess sé raunhæfur kostur að hverfa frá markaðsbúskap í stórum hluta viðskipta- og atvinnulífs. Hins vegar er hægt að breyta markaðnum á ýmsa vegu með reglum og löggjöf. Markaðsbúskapur er ekki, og hefur aldrei verið, nein lögleysa. Hann er raunar óhugsandi án laga og ýmissa stofnana sem eru afsprengi lagasetningar og það er hægt að haga þessari lagasetningu á marga vegu án þess að hverfa frá markaðsbúskap.

Markaðslausnir og markaðskerfi eru ekki á einn veg heldur marga. Lögin, venjurnar, tískan, menningin, aðstæðurnar og þankagangurinn sem móta markaðinn geta verið með ýmsu móti. Ef eitthvað eitt af þessu bilar er bráðræði að halda því fram að allur markaðsbúskapur sé ómögulegur. Ef ég er á leið til Akureyrar og það springur á bílnum hjá mér þá hrapa ég ekki að þeirri niðurstöðu að samgöngutækni nútímans hafi brugðist og best sé að fara fótgangandi, heldur skipti ég um dekk.

Við búum við blandað hagkerfi (þ.e. kerfi sem er í aðalatriðum markaðskerfi en með talsverðri skattheimtu og opinberan rekstur á ákveðnum sviðum) og vandamálin sem nú er við að etja urðu til í slíku kerfi. Menn skilja orsakir þeirra ekki til hlítar og það er af og frá að nokkur maður viti hvort svipaður vandi hefði komið upp í öðru vísi hagkerfi (með meiri eða minni ríkisafskipti, meiri eða minni alþjóðavæðingu eða meira eða minna af einhverju öðru sem sumum er vel við og sumum illa við).

Meint þekking á hagkerfum sem aðeins eru til í viðtengingarhætti og skildagatíð er eins og hverjir aðrir loftkastalar. Hins vegar er allnokkur reynsla af tilraunum til að hverfa frá markaðsbúskap og hún bendir til að því lengra sem gengið er á braut miðstýringar á efnahagslífinu því meiri verði spillingin og sóunin og lífskjör alls almennings lakari.

Fullyrðingar þeirra, sem er illa við markaðsbúskap, um að rót vandans sé of mikil eða „óheft“ frjálshyggja eru eftir því sem ég best fæ séð lítið annað en órökstuddir sleggjudómar.

Kreppan hér á landi er hluti af alþjóðlegri kreppu. En að svo miklu leyti sem vandi okkar á sér innlendar orsakir held ég að hann sé ekki síður afleiðing af hugsunarhætti og menningarhefðum heldur en markaðsbúskap.

Þessi hugsunarháttur sem mér sýnist hafa leitt til ófarnaðar er eitthvað í ætt við hroka og græðgi og líka svolítið skyldur spilafíkn. Þeir sem réðu ferðinni í viðskiptabönkunum og fjölmiðlarnir og forsetinn og listamennirnir sem lofsungu þá voru drambsamir og glannalegir. Eyðslusemi var nánast talin lofsverð og fólki fannst ekkert athugavert við fáránlega skuldasöfnun. Þessi vitleysisgangur tengist ekki neinni einni stjórnmálaskoðun öðrum fremur, a.m.k. ekki frjálshyggju – nema menn kalli Jón Ásgeir, Ólaf Ragnar, Hallgrím Helgason, yfirmenn og eigendur bankanna og ritsjóra Fréttablaðsins alla saman einu nafni frjálshyggjumenn.

Í viðtali sem ég sá við Össur Skarphéðinsson nefndi hann of mikið testósteron í sambandi við stórbokkalegan glannaskap í Íslendingum sem héldu að þeir væru stórlaxar í alþjóðalegum Matador. Það er kannski ekki svo vitlaust að skoða þetta eins og hann frá líffræðilegu sjónarhorni. En það er líka hægt að sjá ógöngur okkar í ljósi þeirrar gömlu speki að dramb er falli næst og skömm er óhófs æfi.

Í þessu ljósi er það undarlegt og kannski svolítið aumkunarvert að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skuli hafa látið það verða sitt fyrsta (og kannski eina) verk að reka seðlabankastjórana sem helst mæltu gegn óhófinu, hvöttu til minni skuldsetningar og vildu ekki taka þátt dansinum kringum útrásargullkálfana.

Það er líka svolítið undarlegt hvernig menn komast upp með að tengja þennan vitleysisgang í viðskiptum við Sjálfstæðisflokkinn. Kannski halda sumir að allir sem eiga eitthvað undir sér hljóti að vera fæddir inn í þann flokk. En þeir sem muna lengra aftur en fáeinar vikur hljóta þó að vita að það voru Sjálfstæðismenn (meira að segja úr þeim hluta flokksins sem er hvað hliðahollastur frjálshyggju) sem komu í veg fyrir að glæframenn í útrás legðu Orkuveitu Reykjavíkur undir í alþjóðlegu fjárhættuspili.

Sjálfum sér samkvæmir frjálshyggjumenn krefjast þess að þeir sem taka áhættu í viðskiptum hætti eigin fé en ekki annarra. Vandi okkar nú er að hluta til sá að of margir komust upp með að leggja annarra manna eigur undir á spilaborðinu.

Ríkið, krónan og kreppan

Fimmtudagur, 12. mars 2009

1.
Það er margt talað um kreppuna. Sumt af þessu tali þykir mér undarlegt, eins og til dæmis þegar rosknir menn og ráðsettir segja, að því er virðist í fullri alvöru, að ríkið eigi að bjarga heimilunum. Kannski halda þeir að Evrópusambandið muni svo bjarga ríkinu. Vita menn ekki að fólkið í landinu heldur ríkissjóði uppi og ríkið á enga peninga aðra en þá sem stjórnvöld taka af fólkinu. Það er engin leið að bjarga fólki með því að taka af því peninga og rétta því svo aftur hluta af fénu.

Vissulega er hægt að bæta kjör sumra með því að taka af öðrum og það getur verið fullt vit í að ríkið hlaupi undir bagga með þeim sem hafa lágar tekjur en „björgunaraðgerðir“ fyrir aðra en fólk í neðsta fjórðungi tekjuskalans eru hvorki réttlátar né skynsamlegar. Ef fólk með þokkalegar tekjur hefur keypt hús eða annað sem það hefur ekki efni á að borga þá hefur það blessað fólk bara reist sér hurðarás um öxl og svoleiðis ráðsmennska er ekki tilefni til stóraðgerða af hálfu stjórnvalda.

Menn þurfa víst að hafa eitthvað til að trúa á og nú um stundir mæna vonir fólks helst upp á ríkið. Engu skiptir þótt bent sé á að ríkið mettar hvergi svanga munna enda eru trúarbrögð að miklu leyti handan við alla skynsemi.

2.
Það er líka rætt um að breytingar á stjórnarskrá séu nauðsynlegar til að komast út úr efnahagskreppunni. Það er eins og sumir haldi að ef eitthvað er að í samfélaginu þá hljóti vandinn að vera að stjórnskipan ríkisins virki ekki nógu vel og þurfi að stilla hana betur. Ég hugsa að jafnvel í Brussel sé leitun að svo mikilli trú.

Víst er fullt vit í mörgum hugmyndum sem fram hafa komið um lagfæringar á stjórnarskránni. Það kann til dæmis að vera tímabært að setja þar ákvæði um þjóðaratkvæði og aukin bein áhrif almennra kjósenda.

Mér finnst líka vel koma til greina að stjórnarskrárbreytingar öðlist gildi við að vera samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að minnsta kosti eru gildandi reglur um stjórnarskrárbreytingar meingallaðar, því þótt Alþingi þurfi að samþykkja þær tvisvar og þingkosningar að vera á milli munu þær kosningar jafnan snúast um önnur efni en boðaða stjórnarskrárbreytingu.

En þessar breytingar munu ekki hafa nein teljandi áhrif á efnahagsástandið og það er mjög langsótt að rekja orsakir kreppunnar til ágalla á stjórnarskránni. Hins vegar geta vanhugsaðar breytingar á stjórnarskrá haft vond áhrif í langan tíma. Ég vona því að þeir sem vilja stjórnarskrárbreytingar hafi vit á að flýta sér hægt.

3.
Enn ein klisjan er að krónan sé ónýt. Bankamenn og útrásarvíkingar stögluðust á þessu þegar þeir voru með sem mest umleikis í öðrum löndum. Þá hét það að krónan væri of lítil fyrir svo stóra banka. Nú er reyndar komið á daginn að það voru bankarnir sem voru of stórir en ekki krónan sem var of lítil. Þeir voru ekki bara of stórir fyrir krónuna heldur með umsvif langt umfram það sem var neinn grundvöllur fyrir - álíka blásnir og bólgnir og sjálfsálit þeirra sem gumuðu af útrásinni. Þótt þetta sé orðið ljóst glymur enn sami söngurinn um að krónan sé ómögulegur gjaldmiðill og nú er því borið við að hún sé of óstöðug.

Geta menn ekki komið því inn í hausinn á sér að lítið hagkerfi sem byggist að mestu á fáum atvinnuvegum er miklu sveiflukenndara en stærri kerfi og heldur áfram að vera það hvaða gjaldmiðil sem það notar (sjá færslu frá 3. júlí).

Krónan sveiflast með öðrum pörtum kerfisins. Víst hafa stórfyrirtæki misnotað smæð hennar á síðustu misserum og búið til gengissveiflur í þeim tilgangi að græða á þeim (með skortsölu). En þau fyrirtæki eru nú flest farin veg allrar veraldar.

Það getur vel verið að það sé betra á einhvern hátt að skipta um gjaldmiðil (ég efast að vísu um það en er ekki nógu vel að mér í hagfræði til að geta verið alveg viss) en að ónýtur gjaldmiðill sé orsök þess að fólk er að missa vinnuna og fyrirtæki að fara á hausinn er fjarstæða. Meginástæðan fyrir því er græðgi og glannaskapur aðallega hjá stjórnendum þriggja banka en líka hjá öllum þeim sem skuldsettu sig í botn með veðum sem voru verðlögð allt of hátt og það mest út af fíflagangi.

4.
Fjórða kreppuklisjan og sú þreyttasta er að hægt sé að galdra vandræðin burt með inngöngu í Evrópusambandið. Ég veit að vísu að sumir álíta að þetta samband gangi næst guði almáttugum en sannleikurinn er sá að það fyrirgefur engar skuldir. Innganga í það mun ekki hafa nein áhrif sem heitið getur á efnahag okkar í bráð. Til lengri tíma er vonlaust að spá enda er sambandið sífellt að breytast og ómögulegt að átta sig á hvort það muni til dæmis hleypa spænskum og enskum togurum inn í 200 mílna lögsöguna.

Það er hreinn og klár barnaskapur að halda að hægt sé að semja um að ganga í sambandið og halda samt yfirráðum yfir auðlindum í hafinu. Það er sama hvað stendur í svoleiðis samningi ný löggjöf innan Sambandsins (enn einn sáttmálinn til viðbótar við þá sem kenndir eru við Maastricht, Amsterdam, Nissa, Lissabon) getur ógilt hvaðeina sem um er samið við inngöngu.

5.
Eftir að hafa fylgst með öllu þessu tali um kreppuna vona ég að ríkið geri sem minnst til að bjarga okkur frá henni enda eru flest ráðin sem stungið er upp á líklegri til að gera ástandið verra heldur en til að bæta það.

Ég skrifaði annars svolítið um hjálpræði ríkisins og efnahagsráðstafanir þann 4. október og sagði þá meðal annars:

Þeir sem heimta að ríkið grípi til miklu meiri efnahagsráðstafana ættu kannski að hafa í huga að slíkt kann að draga úr þeim mörgu og smáu „efnahagsráðstöfunum“ sem samanlagt duga líkast til betur en aðgerðir yfirvalda og byggja á meiri þekkingu heldur en nokkurn tíma gefst ráðrúm til að safna saman í stjórnarráðinu. Einnig er þess að gæta að ráðstafanir sem henta illa stöddum stórfyrirtækjum kunna að skaða fyrirtæki sem enn eru lítil en verða stór ef þau fá frið til að vaxa. Upplýsingar um þessi litlu fyrirtæki eru af skiljanlegum ástæðum ekki uppi á borðinu þegar stjórnmálamenn taka ákvarðanir um efnahagsmál.

Vonandi finna stjórnvöld sér eitthvað annað til dundurs en að reyna að bjarga hagkerfinu. Ef þau sætta sig ekki við að vera alveg aðgerðalaus má fallast á að ríkið bæti ruslatínslu úr sauðfjárveikvarnagirðingum við þau verkefni sem það annast nú þegar og láti þar við sitja.

Fróðleikur um Kavafis og enn eitt söguljóð

Laugardagur, 7. mars 2009

Konstantinos P. Kavafis dvaldi á Englandi frá 9 ára aldri þar til hann var 16 ára. Enska var honum því töm og hann varð fyrir talsverðum áhrifum af enskum skáldskap, kannski mest af Browning og Oscar Wilde en líka Shelley og öðrum höfuðskáldum enskrar rómantíkur. Raunar mun það fyrsta sem Kavafis orti hafa verið á ensku.

Kavafis fæddist árið 1863 svo þessi ár hans á Englandi voru á áttunda áratug 19. aldar. Hann dvaldi líka í Frakklandi um tíma og sem unglingur var hann um tveggja ára skeið í Konstantinopel (Istanbul). Annars bjó hann mestalla sína tíð í Alexandríu í Egyptalandi. Þótt finna megi áhrif frá enskum og líka frönskum samtímakveðskap í ljóðum hans var hann mest einn á báti og utan við meginstrauma í bókmenntum enda var Alexandría ekki nein sérstök menningarmiðstöð um hans daga.

Kavafis vann fyrir sér sem skrifstofumaður og reyndi aldrei að hafa neinar tekjur af kveðskap. Raunar gaf hann ljóð sín ekki út í venjulegum skilningi heldur dreifði þeim í bæklingum innan lítil hóps. Flest af því sem hann orti birti hann aldrei.

Vera má að ástæðan fyrir því hvað Kavafis var lítið fyrir að bera hugsanir sínar á torg hafi verið samkynhneigð hans. Hann var, eins og sagt er, í skápnum. En kannski var hann bara einfari að upplagi og hirti meira um að fága kveðskap sinn en sækjast eftir frægð og frama.

Fyrsta ljóðahefti sitt gerði hann 41 árs gamall árið 1904. Það innihélt aðeins 14 ljóð og hann dreifði því í 100 eintökum.

Ljóðin sem ég hef sett hér á bloggið eru öll með eldri ljóðum Kavafis. Hestar Akkillesar er elst frá 1897, Kerti frá 1899, Che fece  … il gran rifiuto frá 1901, Laugaskörð frá 1903, Beðið eftir barbörunum frá 1904, Demetrios konungur frá 1906 og Íþaka frá 1911. (Hér eru krækjur í upplestur á ljóðunum Beðið eftir barbörunum og Íþaka og hér eru mörg af þekktustu ljóðum Kavafis bæði á grísku og í enskum þýðingum.)

Kavafis var ekki ánægður með nema lítið af því sem hann orti fyrir 1911 og sum þeirra fáu ljóða sem hann birti fyrir þann tíma hafði hann ekki með í seinni ljóðasöfnum. Til dæmis er Kerti ekki með í söfnum eftir 1911.

Stór hluti af eldri ljóðum Kavafis er svipmyndir úr sögunni. Þegar hann var kominn um fimmtugt tók að bera meira á myndum og minningum úr umhverfi hans í Alexandríu. Meira um það seinna. Hér er enn eitt söguljóð eftir Kavafis: Tími Nerós frá 1918. Þar er ort um Neró sem var keisari í Róm á árabilinu frá 54 til 68. Þess má geta að Galbas var hylltur sem keisari af hermönnum sínum á Spáni árið 68.

Tími Nerós

Neró hafði ekki áhyggjur af því
sem véfréttin í Delfí spáði.
„Hræðast skyldi hann sjötíu og þriggja ára aldur.“
Enn mundi ráðrúm til að njóta.
Hann er þrítugur. Guðinn gefur
nægan tíma og vel það
til að bregðast við hættum framtíðarinnar.

Nú snýr hann aftur til Rómar dálítið þreyttur,
en þreyttur með besta móti eftir þessa ferð,
sem var ánægjuleg hvern einasta dag –
í leikhúsum, görðum og þar sem menn æfðu fimi sína …
Kvöldin í borgum Akkea …
Mest af öllu, unaður nakinna líkama …

Svo er Neró. En á Spáni er Galbas
og þjálfar her sem hann hópar saman á laun,
gamall maður, sjötíu og þriggja ára að aldri.

(more…)

Demetrios konungur eftir Kavafis

Sunnudagur, 1. mars 2009

Í ljóðasafni Kavafis stendur tilvitnun í ævisögu Demetriosar ofan við eftirfarandi ljóð. Ævisagan var rituð af sagnamanninum Plútarkosi, en hann var uppi frá 46 – 120 e. Kr. Tilvitnunina má þýða á þessa leið: „Ekki eins og konungur, heldur eins og leikari, sem fór í gráan serk, í stað búningsins sem hann bar í harmleiknum, og laumaðist burt.“

Demetrios konungur

þegar Makedóníumenn yfirgáfu hann
og gjörðu ljóst að þeir kysu fremur að fylgja Pyrrosi,
þá kom Demetrios konungur (stórlyndur
sem hann var) alls ekki – að því sagt er –
fram sem konungur væri. Hann
kastaði hinum gullna skrúða
og fleygði purpurarauðum
fótabúnaði sínum. Bjóst með skyndi
í látlaus klæði og kom sér undan.
Framferði hans var svipað og hjá
leikara sem að lokinni sýningu
hefur fataskipti og fer.

Demetrios Makedóníukonungur var uppi frá 336 eða 7 til 283 f.Kr. Pyrros var konungur í Epírus (norðvesturhluta Grikklands). Hann var uppi á árunum 319 til 272 f. Kr.

Þegar Pyrros (sem þekktur er af útistöðum sínum við Rómverja og pyrrosarsigar eru við kenndir) réðist inn í Makedóníu svikust hermenn Demetriosar undan merkjum og gengu til liðs við innrásarherinn.

(more…)