Færslur febrúarmánaðar 2009

Ritdómur um bókina Heimspeki fyrir þig eftir Ármann Halldórsson og Róbert Jack

Fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Í nýjasta tölublaði Hugar - Tímarits um heimspeki er ritdómur sem ég skrifaði um bókina Heimspeki fyrir þig eftir Ármann Halldórsson og Róbert Jack. Hann liggur hér frammi.

Íþaka

Laugardagur, 21. febrúar 2009

Líkt og ljóð Kavafis um hesta Akkillesar (sjá færslu frá 11. febrúar) vísar það sem hann orti um Íþöku í kviður Hómers, en í Odysseifskviðu segir frá ævintýrum hins ráðagóða Odysseifs sem var áratug á leið heim til Íþöku úr Trójustríðinu.

Í þessari miklu ferð rataði Odysseifur í ótal mannraunir: Grimmur kýklópi (eineygður tröllkarl), Pólýfemus að nafni, át hluta af föruneyti hans. Odysseifur slapp með því að reka eldibrand í auga hans og blinda hann. Með þessu kallaði hann yfir sig reiði sjávarguðsins, Póseidons, því kýklópinn sá arna var sonur hans. Lestrýgónar voru illir jötnar sem brutu flest af skipum Odysseifs með grjótkasti.

Íþaka

Er þú heldur af stað til Íþöku skaltu
óska þess að ferðin verði löng,
fróðleiksrík og full af ævintýrum.
Óttast þú ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur reiðan sjávarguð.
Ef hugur þinn dvelur við háleit efni,
ef hold þitt og andi eru snortin því besta
sem hrífur, þá verða slíkir ekki á vegi þínum.
Þú hittir ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur trylltan sjávarguð
nema þú berir þá sjálfur í eigin sál,
nema sál þín reisi þá upp á móti þér.

Óska þess að ferðin verði löng,
að marga sumarmorgna komir þú
með unaði og gleði í ókunnar hafnir;
að í kaupstöðum Fönikíumanna,
staldrir þú við og eignist ágæta gripi,
perlumóðurskeljar, kóralla, raf og fílabein
og þokkafullan ilm af öllum gerðum,
sem allramest af þokkafullum ilmi;
að í borgum Egypta komir þú víða
og nemir, já nemir af þeim lærðu.

Hafðu Íþöku ávalt í huga.
Að komast þangað er þitt lokatakmark.
Gættu þess samt að herða ekki á ferðinni.
Betra er að hún endist árum saman;
þú takir land á eynni gamall maður,
auðugur af því sem þér hefur áskotnast á leiðinni
og væntir þess ekki að Íþaka færi þér neitt ríkidæmi.

Íþaka gaf þér stórkostlegt ferðalag.
Án hennar hefðir þú aldrei lagt af stað.
En hún hefur ekkert meira að gefa þér.

Þótt kostarýr virðist hafði Íþaka þig ekki að fífli.
Enda ert þú orðinn svo vitur, með slíka reynslu,
að þér hefur skilist hvað Íþökur þýða.

(more…)

Beðið eftir barbörunum

Sunnudagur, 15. febrúar 2009

Nú stend ég mig að því að breyta þýðingum á ljóðum sem ég birti hér fyrir nokkrum dögum. Þetta bendir til að mér sé meiri alvara með þeim en ég hélt.

Eitt af mörgum kvæðum Kavafis sem kallast á við langa sögu Grikkja og fleiri Miðjarðarhafsþjóða heitir Beðið eftir barbörunum (Περιμενοντας τους βαρβαρους). Í gærkvöldi reyndi ég að orða hugsun þess á íslensku. Útkoman fer hér á eftir:

Beðið eftir barbörunum

– Eftir hverju erum vér að bíða, samankomnir á torginu?

Eftir barbörunum. Þeir koma í dag.

– Hví sitja öldungarnir svo aðgerðalausir á þingi?
Hví sinna þeir ekki setningu laga?

Af því að barbararnir koma í dag.
Hvaða lög setja öldungar héðan af?
Þegar barbararnir koma ákveða þeir lögin.

– Hví er keisari vor svo furðu árla á fótum
og hví situr hann við breiðasta borgarhlið
á veldisstóli með viðhöfn og kórónu á höfði?

Af því að barbararnir koma í dag.
Hann bíður eftir að taka á móti
foringja þeirra og hefur tilbúið bókfell
til að gefa honum. Á það hefur keisarinn
ritað fyrir hann marga titla og nöfn.

– Hví eru ræðismenn báðir og æðstu dómarar úti staddir
með klæðin rauð í útsaumuðum yfirhöfnum;
hví bera þeir skart með öllum þeim fjölda af ametystum
og bauga sem lýsa af ljómandi smaragðafjöld;
hví eru þeir líka með sprota svo flúraða og fína,
alsetta dýrustu djásnum úr silfri og gulli?

Af því að barbararnir koma í dag
og barbarar heillast af slíkum hlutum.

– Hví koma ei vorir rómuðu ræðumenn,
út eins og jafnan með erindin snjöllu?

Af því að barbararnir koma í dag
og barbörum leiðist málskrúð og ræður.

– Hví upphefst þvílíkur órói skyndilega og glundroði.
(Svipmót fólksins, hve þungbúið er það nú orðið.)
Hví tæmast götur og torg svona hratt
og skunda allir heim til sín hugsi?

Af því að dagurinn er liðinn og engir barbarar hér,
það hafa líka komið menn frá útjöðrum ríkisins
og sagt að það séu engir barbarar lengur til.

– – –
Hvað verður nú um oss án barbaranna.
Á einhvern hátt voru þeir leið til að ljúka við dæmið.

(more…)

Hestar Akkillesar eftir Kavafis

Miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Í kvæðum sínum staldrar Kavafis (sem fjallað hefur verið um í siðustu færslum) við á ólíkum tímum í sögu Grikkja. Í ljóðinu um hesta Akkillesar vísar hann í kviður Hómers og hrynjandin minnir líka á fornan kveðskap. Lausleg þýðing fer hér á eftir:

Hestar Akkillesar

Er litu þeir Patroklos lagðan að velli,
hann sem var hugrakkur, sterkur og ungur,
fákarnir grétu sem Akkilles átti;
hestunum tveimur með ódauðlegt eðli
ofbauð að líta á hervirki dauðans.
Þeir hnykktu til höfði og sveifluðu faxinu langa,
jörðina tróðu með hófum og hörmuðu sáran
því klárarnir fundu að kappinn var núna
fjörinu sviptur og einskisvert andvana hold –
bjargarlaus – horfinn með öllu úr lifenda lífi
til baka í Ekkertið – auðnina miklu og stóru.

Tár þau er felldu ódauðleg hrossin, augum fékk litið
Seifur. Hann hryggðist og sagði: „Í brúðkaupi Peleifs
óþarfi var það og andvaraleysi að gefa ykkur frá mér,
betur að væri það ógert, æ óheppnu skepnur,
hestarnir mínir, hvers leitið þið hér meðal manna,
aumingja þeirra sem örlögin hafa sem leikföng.
Þið sem dauðinn og ellin geta ekki grandað
megið samt hörmungar þola. Við þjáningar sínar
og vandræði hafa vesælir menn ykkur bundið.“
Samt tárfelldu fákarnir tignu
og hörmuðu dauðans hrylling sem aldregi lýkur.

Frásögnin í Ilíonskviðu sem hér er lagt út af hefst í línu númer 426 í 17. þætti kviðunnar. Textinn er svona í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar:

Hestar Ajaksniðja [Akkillesar] voru langan veg frá og grétu, jafnskjótt og þeir urðu varir við, að kerrusveinn Akkils [Patroklos] var að velli lagður af Víga-Hektor. … Heit tár flutu til jarðar af hvörmum þeirra, er þeir hörmuðu af söknuði eftir kerrusveininn … En er Kronusson [Seifur] sá þá báða harmandi, kenndi hann í brjósti um þá, hristi höfuð sitt og mælti í hug sér: „Vesölu hross, fyrir hví gáfum vér ykkur Peleifi konungi, dauðlegum manni, þar sem þið eruð ódauðlegir og eldizt aldrei. Var það til þess, að þið nú skylduð eiga illt hjá vesölum mönnum; því ekkert er aumara, en maðurinn, af öllu því, sem á jörðu andar og um jörð skríður …“

Ég beygi nafnið Akkilles eins og mér þykir eðlilegast að gera á íslensku en fylgi Sveinbirni ekki í því að hafa eignarfallið „Akkils.“

(more…)

Enn eitt ljóð eftir Kavafis

Laugardagur, 7. febrúar 2009

Ég er enn að blaða í eldri ljóðum Kavafis. Eitt þeirra heitir Κεριά (Kerti) og ég hef fyrir satt að hann hafi ort það árið 1899, en þá var hann 36 ára gamall. Ljóðið er svona á frummálinu:

Του μέλλοντος η μέρες στέκοντ’ εμπροστά μας
σα μια σειρά κεράκια αναμένα -
χρυσά, ζεστά, και ζωηρά κεράκια.

Η περασμένες μέρες πίσω μένουν,
μια θλιβερή γραμμή κεριών σβυσμένων·
τα πιο κοντά βγάζουν καπνόν ακόμη,
κρύα κεριά, λυωμένα, και κυρτά.

Δεν θέλω να τα βλέπω· με λυπεί η μορφή των,
και με λυπεί το πρώτο φως των να θυμούμαι.
Εμπρός κυττάζω τ’ αναμένα μου κεριά.

Δε θέλω να γυρίσω να μη διω και φρίξω
τι γρήγορα που η σκοτεινή γραμμή μακραίνει
τι γρήγορα που τα σβυστά κεριά πληθαίνουν.

Ég reyndi að þýða það í gærkvöldi og var að fram á nótt:

Dagar framtíðarinnar standa andspænis okkur
eins og röð af logandi smákertum –
líflegum smákertum, ljómandi og heitum.

Hinir umliðnu dagar dvelja að baki,
dapurleg runa af kulnuðum ljósum;
beygðum, útbrunnum kertum og köldum,
af kveik þeirra fremstu rýkur enn sótið.

Ég vil ekki sjá þau; mér þykja þau sorgleg
og sorglegt að muna birtu sem áttu þau fyrrum.
Ég horfi því fram á ljós mín sem lifa.

Ég vil ekki snúa mér við, mig hryllti að líta
hve hratt lengist röðin sú dimma
hve hratt fjölgar kertunum brunnu.

Meira af kveðskap eftir Kavafis

Miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Eitt af eldri ljóðum Kavafis heitir Che fece  … il gran rifiuto. Þessi titill, sem er á ítölsku, er raunar tilvitnun í þriðja hluta Vítisljóða í Gamanleiknum Guðdómlega eftir Dante. Þar segir frá því þegar Dante ber kennsl á vistmenn í víti sem í jarðlífi sínu gjörðu hina mikla neitun og er talið að hann hafi þar einkum átt við páfa nokkurn sem kjörinn var 1294 og sagði af sér embætti.

Ljóðlínan í Vítisljóðum er „Che fece  per viltate il gran rifiuto“ og merkir þeir sem af hugleysi gjörðu hina miklu neitun. Kavafis sleppir orðunum „per viltate“ kannski til að segja að þeir sem hann yrkir um hafni vegtyllum eða viðmiðum heimsins en gjöri það af öðrum ástæðum en hugleysi.

Ljóðið er svona:

Σε μερικούς ανθρώπους έρχεται μια μέρα
που πρέπει το μεγάλο Ναι ή το μεγάλο το Οχι
να πούνε. Φανερώνεται αμέσως όποιος τόχει
έτοιμο μέσα του το Ναι, και λέγοντάς το πέρα

πηγαίνει στην τιμή και στην πεποίθησί του.
Ο αρνηθείς δεν μετανοιώνει. Αν ρωτιούνταν πάλι,
όχι θα ξαναέλεγε. Κι όμως τον καταβάλλει
εκείνο το όχι — το σωστό — εις όλην την ζωή του.

Þokkalega nákvæm þýðing getur verið á þessa leið.

Til sumra manna kemur sá dagur að þeir
verða að segja hið mikla Já eða Nei-ið
það mikla. Undir eins verður ljóst hver hefir
inni í sér tilbúið Já, og segjandi það fer hann

yfir til sæmdar og fullvissu sinnar. En hinn
er synjaði iðrast þess ekki. Ef þeir spyrðu hann aftur
þá segði hann nei upp á nýtt. Samt íþyngir honum
ævilangt – svo rétt sem það var – þetta nei.

Það er ef til vill álitamál hvort „íþyngir“ er rétta orðið því καταβαλλω er meira en bara að íþyngja, það merkir nánast að gera mann örmagna eða yfirbuga hann. Bókstaflega þýðir orðið að varpa niður.

Þýðingin sem hér fer á eftir hermir að nokkru eftir formi ljóðsins en það er allmjög á kostnað nákvæmninnar:

Hjá ýmsum kemur sá ævinnar dagur
að undan verður ei komist þeir segi
hið mikla Já eða Nei-ið mikla. Þá eigi
mun dyljast í hverjum býr Játun og hagur

hans snúast til fremdar og fullvissu. En ekki
fæst hinn til að iðrast sem neitar. Ef spyrðu
segir hann nei líkt og fyrr – þótt æ honum yrðu
efni þau réttmætu nei í fjötra og hlekki.

Laugaskörð eftir Konstantinos P. Kavafis

Þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Til forna lá helsta landleiðin milli Þessalóníku og Lókris um Laugaskörð (gr. Θερμοπύλες) sem eru við austurströnd mið-Grikklands. Þar varðist fámennt lið frá Spörtu, undir forystu Leonídasar, miklum her Meda í orrustu árið 480 f. Kr.

Medar voru frá Medíu (gr. Μηδία) en þar er nú norðvesturhluti Írans. Í sögubókum eru þeir oftast kallaðir Persar og stríð þeirra við Grikki nefnd Persastríðin.

Í orrustunni við Laugaskörð féll Leonídes og allir hans menn. Þótt þeir lokuðu um stund veginum fyrir fjölmennum her Meda kom það fyrir ekki, því komast mátti fyrir skörðin um fjallaslóð sem erfitt var að finna. Svikarinn Efíaltis vísaði innrásarhernum á þessa torfundnu leið og komust Medar eftir henni inn til lands.

Þar sem Spartverjar börðust við Laugaskörð var síðan reist súla með kvæði eftir Símonídes frá Keos (um 556 f.Kr. – 469 f.Kr.). Þetta kvæði Símonídesar hefur verið þýtt a.m.k. tvisvar sinnum á íslensku. Þar sem Spartverjar börðust við Laugaskörð var síðan reist súla með kvæði eftir Símonídes frá Keos (um 556 f.Kr. – 469 f.Kr.). Þetta kvæði Símonídesar hefur verið þýtt a.m.k. tvisvar sinnum á íslensku. Það kemur fyrir sem tilvitnun í ljóði eftir Friedrich von Schiller sem nefnist Skemmtigangan („Der Spaziergang“). Þetta ljóð Schillers hefur Steingrímur Thorsteinsson þýtt á íslensku og í þýðingu hans er tilvitnunin svona:

Vegfari, ber frá oss boð og borglýðnum seg það í Spörtu,
fallnir að hvílum vér hér, hlýðnir við ættjarðarlög

(Þessi þýðing hefur stundum verið eignuð Ásgeiri Hjartarsyni og hélt ég að það væri rétt þar til Jón Örn Bjarnason benti mér á að hún er hluti af þýðingu Streingríms á ljóði Schillers.)

Helgi Hálfdánarson, sem nýlega er látinn í hárri elli, þýddi kvæðið á þessa leið:

Flyt heim til Spörtu þá fregn, þú ferðalangur, að trúir
lögunum hvílum við hér hjúpaðir gróandi mold.

Vörn Spartverja við Laugaskörð er með frægustu hetjudáðum grískrar sögu. Hún hefur orðið fleirum en Símonídesi að yrkisefni. Einn þeirra er Konstantinos P. Kavafis (Κωνσταντίνος Π. Καβάφης). Ljóð hans um Laugaskörð er svona á frummálinu:

Θερμοπύλες

Τιμή σ’ εκείνους όπου στην ζωή των
ώρισαν και φυλάγουν Θερμοπύλες.
Ποτέ από το χρέος μη κινούντες·
δίκαιοι κ’ ίσοι σ’ όλες των τες πράξεις,
αλλά με λύπη κιόλας κ’ ευσπλαχνία·
γενναίοι οσάκις είναι πλούσιοι, κι όταν
είναι πτωχοί, πάλ’ εις μικρόν γενναίοι,
πάλι συντρέχοντες όσο μπορούνε·
πάντοτε την αλήθεια ομιλούντες,
πλην χωρίς μίσος για τους ψευδομένους.

Και περισσότερη τιμή τους πρέπει
όταν προβλέπουν (και πολλοί προβλέπουν)
πως ο Εφιάλτης θα φανεί στο τέλος,
κ’ οι Μήδοι επί τέλους θα διαβούνε.

Þetta þýðir (a.m.k. nokkurn vegin):

Heiður þeim er með lífi sínu
gengu fram að verja Laugaskörð.
Aldrei hvika þeir frá skyldu sinni;
réttlátir, hreinir og beinir í hverju verki,
þó með miskunn og samkennd;
höfðinglegir í ríkidæmi, og líka
í smærri stíl þótt fátækir séu,
veita þá liðveislu eftir föngum;
mæla ætíð hvað satt er
án þess að hata lygarana.

Og enn meiri heiður þeim ber
er þeir sjá fyrir (og margir sjá fyrir)
að Efíaltis birtist um síðir og Medar
brjótast að lokum í gegn.

Kavafis, sem fæddur var árið 1863, bjó lengst af í Alexandríu í Egyptalandi – en þar í borg var allfjölmennur grískumælandi minnihluti á 19. öld.

Hann er jafnan talinn einn helsti brautryðjandi nútímalegrar ljóðlistar meðal Grikkkja. Safn ljóða hans sem gefið var út árið 1935 hefur haft ómæld áhrif á ljóðgerð seinni tíma bæði í Grikkandi og utan þess.

Meðal skálda utan Grikklands sem heilluðust af Kavafis og urðu fyrir áhrifum frá honum má fyrst frægan telja höfuðskáld Englendinga á síðustu öld, W. H. Auden. Þegar heildarsafn af ljóðum Kavafis kom út í enskri þýðingu Rae Dalven árið 1961 ritaði Auden inngang að bókinni.

Kavafis lést árið 1933.