Til forna lá helsta landleiðin milli Þessalóníku og Lókris um Laugaskörð (gr. Θερμοπύλες) sem eru við austurströnd mið-Grikklands. Þar varðist fámennt lið frá Spörtu, undir forystu Leonídasar, miklum her Meda í orrustu árið 480 f. Kr.
Medar voru frá Medíu (gr. Μηδία) en þar er nú norðvesturhluti Írans. Í sögubókum eru þeir oftast kallaðir Persar og stríð þeirra við Grikki nefnd Persastríðin.
Í orrustunni við Laugaskörð féll Leonídes og allir hans menn. Þótt þeir lokuðu um stund veginum fyrir fjölmennum her Meda kom það fyrir ekki, því komast mátti fyrir skörðin um fjallaslóð sem erfitt var að finna. Svikarinn Efíaltis vísaði innrásarhernum á þessa torfundnu leið og komust Medar eftir henni inn til lands.
Þar sem Spartverjar börðust við Laugaskörð var síðan reist súla með kvæði eftir Símonídes frá Keos (um 556 f.Kr. – 469 f.Kr.). Þetta kvæði Símonídesar hefur verið þýtt a.m.k. tvisvar sinnum á íslensku. Þar sem Spartverjar börðust við Laugaskörð var síðan reist súla með kvæði eftir Símonídes frá Keos (um 556 f.Kr. – 469 f.Kr.). Þetta kvæði Símonídesar hefur verið þýtt a.m.k. tvisvar sinnum á íslensku. Það kemur fyrir sem tilvitnun í ljóði eftir Friedrich von Schiller sem nefnist Skemmtigangan („Der Spaziergang“). Þetta ljóð Schillers hefur Steingrímur Thorsteinsson þýtt á íslensku og í þýðingu hans er tilvitnunin svona:
Vegfari, ber frá oss boð og borglýðnum seg það í Spörtu,
fallnir að hvílum vér hér, hlýðnir við ættjarðarlög
(Þessi þýðing hefur stundum verið eignuð Ásgeiri Hjartarsyni og hélt ég að það væri rétt þar til Jón Örn Bjarnason benti mér á að hún er hluti af þýðingu Streingríms á ljóði Schillers.)
Helgi Hálfdánarson, sem nýlega er látinn í hárri elli, þýddi kvæðið á þessa leið:
Flyt heim til Spörtu þá fregn, þú ferðalangur, að trúir
lögunum hvílum við hér hjúpaðir gróandi mold.
Vörn Spartverja við Laugaskörð er með frægustu hetjudáðum grískrar sögu. Hún hefur orðið fleirum en Símonídesi að yrkisefni. Einn þeirra er Konstantinos P. Kavafis (Κωνσταντίνος Π. Καβάφης). Ljóð hans um Laugaskörð er svona á frummálinu:
Θερμοπύλες
Τιμή σ’ εκείνους όπου στην ζωή των
ώρισαν και φυλάγουν Θερμοπύλες.
Ποτέ από το χρέος μη κινούντες·
δίκαιοι κ’ ίσοι σ’ όλες των τες πράξεις,
αλλά με λύπη κιόλας κ’ ευσπλαχνία·
γενναίοι οσάκις είναι πλούσιοι, κι όταν
είναι πτωχοί, πάλ’ εις μικρόν γενναίοι,
πάλι συντρέχοντες όσο μπορούνε·
πάντοτε την αλήθεια ομιλούντες,
πλην χωρίς μίσος για τους ψευδομένους.
Και περισσότερη τιμή τους πρέπει
όταν προβλέπουν (και πολλοί προβλέπουν)
πως ο Εφιάλτης θα φανεί στο τέλος,
κ’ οι Μήδοι επί τέλους θα διαβούνε.
Þetta þýðir (a.m.k. nokkurn vegin):
Heiður þeim er með lífi sínu
gengu fram að verja Laugaskörð.
Aldrei hvika þeir frá skyldu sinni;
réttlátir, hreinir og beinir í hverju verki,
þó með miskunn og samkennd;
höfðinglegir í ríkidæmi, og líka
í smærri stíl þótt fátækir séu,
veita þá liðveislu eftir föngum;
mæla ætíð hvað satt er
án þess að hata lygarana.
Og enn meiri heiður þeim ber
er þeir sjá fyrir (og margir sjá fyrir)
að Efíaltis birtist um síðir og Medar
brjótast að lokum í gegn.
Kavafis, sem fæddur var árið 1863, bjó lengst af í Alexandríu í Egyptalandi – en þar í borg var allfjölmennur grískumælandi minnihluti á 19. öld.
Hann er jafnan talinn einn helsti brautryðjandi nútímalegrar ljóðlistar meðal Grikkkja. Safn ljóða hans sem gefið var út árið 1935 hefur haft ómæld áhrif á ljóðgerð seinni tíma bæði í Grikkandi og utan þess.
Meðal skálda utan Grikklands sem heilluðust af Kavafis og urðu fyrir áhrifum frá honum má fyrst frægan telja höfuðskáld Englendinga á síðustu öld, W. H. Auden. Þegar heildarsafn af ljóðum Kavafis kom út í enskri þýðingu Rae Dalven árið 1961 ritaði Auden inngang að bókinni.
Kavafis lést árið 1933.